Vorhátíðir - 1. hluti
Sigrún Einarsdóttir tók saman 

Fyrsta vorhátíðin – Pesach (páskar)

 Pesach

Vorhátíðirnar eru fjórar.

Páskar (Pesach), hátíð ósýrðu brauðanna (Hag HaMatzah), frumgróðinn (Bikkurim) og viknahátíðin (Shavuot) eða hvítasunna.

Í raun eru þessar vorhátíðirnar eins og ein samhangandi hátíð og sérstaklega fyrstu þrjár sem í dag kallast almennt bara páskar eða hátíð ósýrðu brauðanna en ég ætla að taka eina fyrir í einu og byrja á þeirri fyrstu í þessum hluta en fyrst þarf ég að leggja ákveðinn grunn sem við byggjum svo ofan á.

3. Mós. 23.2
Mæl þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Löghátíðir Drottins (YHWH), er þér skuluð boða sem helgar samkomur þessar eru löghátíðir mínar.

Hebreska orðið fyrir „löghátíðir“ er mow´ed en þýðist sem „útnefndir tímar“ eða „útnefndar hátíðir.“

Á þessu má sjá mikilvægi þessa tíma í augum YHWH.
Hann útvelur þá vegna þess að þeir hafa mikilvægu
hlutverki að gegna.

Vorhátíðirnar eru skuggi af því sem koma átti
og fræða okkur um Messías
(Kól. 2.16-17; Heb. 10.1)

Þær eru líka spádómlegar myndir og dæmi sem fyrirmynda táknræna atburði í áætlun Elóhíms um endurlausn
og benda á Messías.
(1. Kor. 10-1-6;11) (Sálm. 40.6-8; Heb. 10.7)

Þær boða sem sagt allar Messías, sem er

Yeshua HaMashiah, Frelsarinn smurði (Jesús Kristur). 

Elóhím gefur hið náttúrulega til að útskýra hið andlega (1. Kor. 15.46-47) og með því að skoða hið náttúrulega
getum við skilið hið andlega
(1. Kor. 2.9-13; 2. Kor. 4.18).

Hátíðirnar eru ekki aðeins útnefndir tímar YHWH, það átti líka að halda þær á útvöldum stað. Elóhím valdi ákveðinn stað þar sem endurlausnaráætlun hans myndi fullnast – Jerúsalem. (5. Mós.16.2 og 2. Kon. 21.4)

3. Mós 23.2
Mæl þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Löghátíðir Drottins, er þér skuluð boða sem helgar samkomur þessar eru löghátíðir mínar.

Orðið sem þýtt er sem „samkomur“ er miqra og þýðir í raun að kalla saman á samkundu eða þing en er dregið af orðinu qara' sem getur líka þýtt „æfing.“

Út frá því sjáum við að þetta eru ekki bara skuggamyndir og útvaldir tímar á útvöldum stað, heldur er þetta líka æfing og undirbúningur fyrir það sem átti eftir að verða og þar að auki tekur YHWH það fram að þetta eru löghátíðir hans.

Annað sem við þurfum að skilja vel til að sjá heildarmyndina eru biblíulegu dagarnir. Þeir eru frá sólarlagi til sólarlags þannig að dagurinn hefst við sólarlag og stendur til sólarlags daginn eftir en stendur ekki frá miðnætti til miðnættis
eins og við eigum að venjast.
  

Þið munið í sköpuninni að það var kvöld og það var morgunn, hinn fyrsti dagur o.s.frv...

Þannig er hinn biblíulegi dagur. Dagurinn skiptist í tvo 12 tíma hluta – kvöld og morgun. Yeshua sagði: Eru stundir dagsins ekki tólf? (Jóh. 11.9). Kvöldið er frá 18.00-06.00 og morgunhluti dagsins sem er frá 06.00-18.00 skiptist í morgun 06.00-12.00 og kvöld 12.00-18.00.

BIBLÍULEGUR DAGUR

       Kvöld                    Morgunn
 
|----------------------|----------------------|
 
18 e.h.               6 f.h.             18 e.h.
 
                         Morgunn       Kvöld
 
                       |----------|-----------|
                   6 f.h.      Hádegi      18 e.h.
 
                       |---------------|------|
                     6 f.h.          15 e.h. 18 e.h.
 
               Dagmál = Þriðja stund dagsins  =  9.00 f.h.
               Hádegi = Sjötta stund dagsins   = 12.00
               Nón      = Níunda stund dagsins = 15.00

 

 

Þá skulum við byrja á því sem við ætlum að taka fyrir í þessum hluta og höldum áfram að lesa frá 4. versi í 23. kafla 3.Mósebókar.

 

3. Mós. 23.4-5
Þessar eru löghátíðir Drottins (YHWH), helgar samkomur, er þér skuluð boða, hverja á sínum tíma. Í fyrsta mánuðinum, hinn fjórtánda dag mánaðarins um sólsetur, hefjast páskar Drottins (YHWH).
 

Það er þetta 5. vers sem við ætlum að taka fyrir núna.

Hér er okkur gefin nákvæm tímasetning.
Þetta er 14. dagur fyrsta mánaðarins.

Á hebresku nefnist þessi hátíð Pesach
sem þýðir framhjáganga eða vernd.

Páskar („Pesach“ eða framhjágangan eins og það þýðir) var til að minnast lausnar Ísraelsmanna undan ánauð Egypta og rifjar upp kraftaverk lausnar Guðs lýðs og er fyrirheit eða skuggamynd um komandi Messías sem við vitum að er kominn
og við trúum á og er Yeshua.

 

Í 2. Mósebók sjáum við að

Ísraelsmenn voru í ánauð í Egyptalandi,

sem er mynd upp á heiminn.

Faraó fannst þeim fjölga um of og var farinn að óttast þá.

Gaf hann þá út fyrirskipun um að drepa öll sveinbörn

sem fæddust meðal Hebrea.

 

Þetta var það sama og Heródes ætlaði að gera

eftir að Yeshua fæddist.

 

Óvinurinn er alltaf að reyna
að koma í veg fyrir áætlun Elóhíms.

 

Móse var falinn í körfu og settur út í ána þar sem dóttir Faraós fann hann og Móse var alinn upp í húsi Faraó.

 

Þetta er gott dæmi um það hvernig vopnin snúast

í höndunum á óvininum.

 

Móse þekkti rætur sínar

því móðir hans hafði verið hjá honum sem barnfóstra

án þess að nokkur vissi hver hún væri.

 

Ísralesmenn andvörpuðu sáran undan ánauðinni og kvein þeirra steig upp til YHWH sem heyrði andvarp þeirra og minntist sáttmála síns við Abraham, Ísak og Jakob.

 

YHWH kallaði Móse til að leiða þá út af Egyptalandi

og inn í fyrirheitna landið.

 

Faraó neitaði að leyfa þeim að fara og plágur
gengu yfir Egyptaland.

 Plágurnar tíu

 

Síðasta refsingin var dauði allra frumburða
en áður en það gekk yfir talaði YHWH við Móse og Aron
og sagði þeim hvað Hebrearnir ættu að gera
til að komast undan.

 

Lítum á leiðbeiningarnar í 12. kafla 2. Mósebókar sem þeim voru gefnar og skoðum líka hvernig Ritningar eldra testamentisins
og Nýja testamentisins kallast á.

2. Mós 12.1-51
-1-Þá mælti Drottinn við þá Móse og Aron í Egyptalandi á þessa leið: -2- Þessi mánuður skal vera upphafsmánuður hjá yður. Hann skal vera fyrsti mánuður ársins hjá yður.

Þessi mánuður er abíb (avív), mánuður sem síðar kallaðist nísan og er á okkar tíma í mars/apríl. Ég ætla að nota nafnið avív hér, því það er mánaðarnafnið sem YHWH gaf okkur.
Avívmánuður hefst þegar byggið hefur náð avív þroska að vori
og glittir í nýtt tungl.

YHWH sagði þeim að þetta ætti að vera upphafsmánuður
hjá þeim því hann var að setja þeim mynd
upp á nýtt upphaf alls andlegs lífs.

 

Þannig varð avív fyrsti mánuðurinn í hátíðaralmanaki YHWH, því þetta eru hátíðir hans,
ekki bara hátíðir Gyðinga eins og margir telja.

-3- Talið til alls safnaðar Ísraelsmanna og segið: Á tíunda degi þessa mánaðar skal hver húsbóndi taka lamb fyrir fjölskyldu sína, eitt lamb fyrir hvert heimili. Jóhannes skírari sagði: Sjá Guðs lamb, sem ber synd heimsins. 

Lamb

 -4- En sé eitt lamb of mikið fyrir heimilið, þá taki hann og granni hans, sá er næstur honum býr, lamb saman eftir tölu heimilismanna. Eftir því sem hver etur, skuluð þér ætla á um lambið. -5- Lambið skal vera gallalaust, hrútlamb veturgamalt, og má vera hvort sem vill ásauðarlamb eða hafurkið. -6- Og þér skuluð varðveita það til hins fjórtánda dags þessa mánaðar. Dagana fyrir 14. avív var Yeshua á opinberum vettvangi og margir fylgdust með honum og reyndu að finna eitthvað á hann en hann er lýtalaus.

Yeshua var skoðaður og úrskurðaður lýtalaus... (Matt. 21.23; 27.1-2;11-14;17-26; Lúk. 3.2; Jóh. 11.49-53) (Matt.21.1,9-12,17-18,23; 24.1,3; 26.1-5)

Það voru margir sem skoðuðu hann og má meðal þeirra nefna ýmsa æðstu presta og öldunga, Pílatus og Heródes og fleiri. (Matt.21.23) (Matt. 27.1-2;11-14,17-26) (Lúk. 23.6-12) (Lúk. 3.2; Jóh. 18.13,24) (Jóh. 11.49-53; 18.13-14, 19-24,28) (Matt. 27.3-10) (Matt. 27.54) (Lúk. 23.39-42)

Þá skal öll samkoma Ísraelssafnaðar slátra því um sólsetur. Allur söfnuðurinn á að deyða lambið. Lýðurinn kallaði eftir krossfestingu Yeshua.

Yeshua dó fyrir syndir okkar allra (við deyddum hann öll) en það var hans gjöf að endurleysa okkur. Hann gaf líf sitt fyrir okkur. 

(Þarna er talað um að lambinu eigi að slátra um sólsetur en sums staðar er sagt þegar sólin fer að síga eða á milli kvöldanna og getur verið um kl. 15.) 

Við sáum daginn settan fram hér ofar. (Kvöldhluti dagsins er frá kl. 12-18) Yeshua dó á níundu stundu sem er kl. 15.
( Matt. 27.45-50)

-7- Þá skulu þeir taka nokkuð af blóðinu og ríða því á báða dyrastafi og dyratré húsa þeirra, þar sem þeir eta lambið. Engill dauðans gekk framhjá þeim þegar hann sá blóðið. Við þurfum að hafa blóð Yeshua á hjartadyrum okkar og þá gengur dauðinn framhjá okkur. Blóð Yeshua frelsar okkur og gefur okkur eilíft líf. 

 -8- Sömu nóttina skulu þeir eta kjötið, steikt við eld. Með ósýrðu brauði og beiskum jurtum skulu þeir eta það. Það varð að borða þetta sama kvöld. Yeshua þjáðist og dó sama dag og hann var krossfestur. Yeshua skírir okkur með heilögum anda og eldi. (Ég segi frá ósýrða brauðinu og beisku jurtunum í næsta hluta fræðslunnar).

-9- Ekki skuluð þér eta neitt af því hrátt eða soðið í vatni, heldur steikt við eld, höfuðið með fótum og innyflum. -10- Engu af því skuluð þér leifa til morguns, en hafi nokkru af því leift verið til morguns, þá skuluð þér brenna það í eldi. Við eigum ekki að gleypa allt hrátt sem okkur er sagt og ekki heldur þynna út fagnaðarerindið og gera það vatnssósa. Við þurfum að taka allt og bera það saman við hið ritaða orð.

Við vitum að höfuðið er tákn um huga okkar,
 við eigum að hafa hugarfar Messíasar,

fæturnir eru tákn um göngu okkar,
 við eigum að ganga veg Elóhíms,

og innyflin geta táknað hjarta okkar.

Allt þarf að vera gefið Yeshua. Andi, sál og líkami.

 -11- Og þannig skuluð þér neyta þess: Þér skuluð vera gyrtir um lendar yðar, hafa skó á fótum og stafi í höndum. Þér skuluð eta það í flýti.

Verum gyrt um lendar og skóuð á fótum eins og lýst er í herklæðum Guðs og höfum stafinn, sem er nafn Yeshua og krafturinn sem býr í því nafni.

Við þurfum að vera fljót að yfirgefa Egyptaland
sem er táknmynd upp á heiminn
og horfa alltaf fram á við í Yeshua.
 
(Lúk. 19.5-6)

Það eru páskar Drottins.
Það er framhjáganga Drottins.

-12- Því að þessa sömu nótt vil ég fara um Egyptaland og deyða alla frumburði í Egyptalandi, bæði menn og fénað. Og refsidóma vil ég láta fram koma á öllum goðum Egyptalands. Ég er Drottinn. -13- Og blóðið skal vera yður tákn á þeim húsum, þar sem þér eruð: Er ég sé blóðið, mun ég ganga fram hjá yður, og engin skæð plága skal yfir yður koma, þegar ég slæ Egyptaland. -14- Þessi dagur skal vera yður endurminningardagur, og þér skuluð halda hann sem hátíð Drottins. Kynslóð eftir kynslóð skuluð þér hann hátíðlegan halda eftir ævarandi lögmáli.

Þetta er það sem gerðist þennan 14. dag mánaðarins og er sá dagur undirbúningsdagur fyrir útgönguna af Egyptalandi
og hátíð ósýrðu brauðanna.

Þessi dagur uppfylltist með dauða Yeshua
hinn 14. dag avívmánaðar.

Yeshua var tekinn niður af krossinum þennan sama dag og lagður í gröfina fyrir sólsetur vegna þess að hvíldardagur var að renna upp.

Nú ætla ég að fara yfir í Nýja testamentið því það er annað
sem ég tel nauðsynlegt að fá fram fyrir þennan grunn
sem ég er að leggja. 

Matt. 12.38-40
-38- Þá sögðu nokkrir fræðimenn og farísear við hann (Yeshua): Meistari, vér viljum sjá þig gjöra tákn. -39- Hann svaraði þeim: Vond og ótrú kynslóð heimtar tákn, en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar spámanns. -40- Jónas var í kviði stórhvelisins þrjá daga og þrjár nætur, og eins mun Mannssonurinn vera þrjá daga og þrjár nætur í skauti jarðar.

Yeshua sagði sjálfur að hann yrði í gröfinni
í þrjá daga og þrjár nætur
og það yrði til tákns um það hver hann væri.

Ef við hugsum um skírdag (eða fimmtudag) sem síðustu kvöldmáltíðina, föstudaginn langa sem dag krossfestingarinnar og sunnudagsmorgun sem upprisudaginn fáum við ekki þrjá daga og þrjár nætur úr því, sama hvernig við reiknum.

Ég sagði í upphafi að Yeshua hefði sjálfur sagt að dagurinn skiptist í tvo tólf tíma hluta sem er 24 tíma sólarhringur.

 Þrír dagar og þrjár nætur ættu þá að vera u.þ.b. 72 tímar en ef við hugsum föstudaginn frá kl. 18.00, allan laugardag og sunnudaginn til kl. 06.00 um morguninn
fáum við aðeins um 36 tíma og það
passar ekki við það sem Yeshua sagði.

Ég er alveg sannfærð um það, að Yeshua hafi verið
þrjá daga og þrjár nætur í gröfinni
og Orðið staðfestir það þegar maður skoðar það vel,
enda er YHWH nákvæmur í þessu eins og öðru.

Ef Yeshua hefði aðeins verið í gröfinni í 36 tíma, (tvo hluta úr degi, einn heilan dag og tvær nætur) hefði ekki ræst þetta eina tákn sem hann sagði að ótrúa kynslóðin fengi um að hann væri Messías, Frelsari heimsins.

 Gröfin

Það eru engar tilviljanir hjá YHWH og hann hefur svo stórkostlega fyrirmyndað dauða Yeshua í Orðinu
 að við megum ekki gera sjálfum okkur það
að horfa framhjá þessu.

Vandamálið er það að við erum oft svo bundin af því sem menn hafa fyrirbúið okkur og kennt okkur í aldanna rás að við sjáum ekki það sem Drottinn sjálfur hefur fyrirbúið.

Jer. 16.19
YHWH, styrkur minn, vígi mitt og hæli mitt á neyðardegi, til þín munu heiðingjar koma frá endimörkum jarðar og segja: Lygar einar hafa feður vorir erft, fánýti og það sem ekki kemur að neinu gagni. (Ensk þýð.)

Við vitum að það er búið að hringla með hvíldardaginn.

Við vitum að það er búið að hringla með boðorðin.

Við vitum að fæðing Yeshua var ekki á jólum.

 Eins er búið að fara með páskahátíðina. Henni hefur verið breytt í tímans rás og samkvæmt kristnum kenningum í dag er hún í raun ekki í samræmi við það sem Orðið kennir okkur, hvorki varðandi tímasetningu né innihald. 

Það sem ég hef verið að gera í þessum hluta fræðslunnar er að horfa bara á þennan fyrsta dag, 14. dag avívmánaðar
og það sem gerðist þá, á deginum sem kallast
Pesach (páskar - framhjáganga).

 Áður en ég nem staðar að sinni langar mig til að renna með ykkur í gegnum það sem gerðist þennan dag í Nýja testamentinu því við erum, jú, að bera saman fyrirmyndina
og svo uppfyllingu hátíðarinnar.

Reyndar langar mig að nefna það líka að daginn áður eða þann 13. avív (nísan) lagði Júdas á ráðin um að framselja Yeshua og þeir sem hafa lesið fræðsluna um púrímhátíðina muna kannski að það var einmitt sami dagur og Haman lagði á ráðin um að tortíma Gyðingunum.

Daginn eftir eða þann 14. avív (nísan) boðaði Ester til þriggja daga föstu til að bjarga Gyðingunum. Þarna er aftur komin mynd upp á þrjá daga og þrjár nætur og dæmi um það hvernig Orð Guðs staðfestir sig.

Í 26. kafla Matteusar sjáum við að Yeshua
 og lærisveinarnir neyttu síðustu kvöldmáltíðarinnar
 á fyrsta degi ósýrðu brauðanna.

Þarna verðum við að muna að ég sagði að allar þrjár hátíðarnar eru oft kallaðar bara hátíð ósýrðu brauðanna eða páskar og þarna er verið að tala um undirbúningsdaginn
sem er 14. avív (nísan).

Munið líka að dagurinn hófst við sólsetur.

14. AVÍV

(Pesach - Páskar)

Gamla testamentið:

Ester byrjar föstu til
lausnar Gyðingum

Páskadagur

Lambið skal reynast
gallalaust

Öll samkoma Ísraelssafnaðar
skal slátra lambinu 

Páskalambi slátrað

Blóð lambsins sett á dyrastafi
og dyratré

 

14. AVÍV

Nýja testamentið:

Síðasta kvöldmáltíð Yeshua
(Matt. 26.17-30)

 Getsemane
(Matt. 26.36-46)

Tekinn höndum
(Matt. 26.47-56)

Fyrir ráðinu
(Matt. 26.57-68)

 Fyrir Pílatus um morguninn
(Matt. 27.1-2)

Lýðurinn kallar eftir krossfestingu
(Matt. 27.15-25)

Krossfestur kl. 09.00
(Mark. 15.25)

 Dáinn kl. 15.00
(Mark.15.34)

Lagður í gröfina fyrir sólsetur (18.00)
(Jóh. 19.31-42)

 

Þegar fórnarlömbin voru færð til slátrunar
 var hengt spjald um háls lambsins,
sem tilgreindi hver eigandi þess var.

Jóh 19.19-22
-19- Pílatus hafði ritað yfirskrift og sett hana á krossinn. Þar stóð skrifað: JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA. -20- Margir Gyðingar lásu þessa yfirskrift, því staðurinn, þar sem Jesús var krossfestur, var nærri borginni, og þetta var ritað á hebresku, latínu og grísku. -21- Þá sögðu æðstu prestar Gyðinga við Pílatus: Skrifaðu ekki konungur Gyðinga, heldur að hann hafi sagt: Ég er konungur Gyðinga. -22- Pílatus svaraði: Það sem ég hef skrifað, það hef ég skrifað.

Hvers vegna vildu þeir að hann breytti yfirskriftinni?

INRI

Latneska skammstöfunin á Iesus Nazarenus Rex Iudaeorum er INRI

Hebreska skammstöfunin fyrir Yeshua frá Nasaret konungur Gyðinga er YHWH (yod-hay-vav-hay) og þess vegna bað presturinn Pílatus að breyta yfirskriftinni.

YHWH 

Þetta var yfirlýsing um það hver hann var
og hverjum hann tilheyrði.
YHWH

Ein af fyrirmælunum um páskalambið voru þau
að það mætti ekki brjóta í því neitt bein.

Fætur Yeshua voru ekki brotnir
þegar hann var tekinn niður af krossinum.
(Jóh. 19.33)
 

Síðan var hann lagður í gröfina rétt fyrir sólsetur
og þar með lauk þessum 14. degi avívmánaðar
 og hér ætla ég að nema staðar að sinni.

Ekki missa af næstu fræðslu (hátíð ósýrðu brauðanna)
 því þar kemur fleira upp á yfirborðið þegar við
köfum ofan í Orðið og höldum áfram
 að rekja dagana sem Yeshua var í gröfinni.

Shalom,
Sigrún

 

Vorhátíðir - 2. hluti
(smella hér)

 

 

Copyright - www.torah.is

torah@internet.is