Kynning

eftir Michael Rood

Hebreskur Yeshua eða grískur Jesús?

The Israeli New Moon Society (Ísraelsku tunglkomusamtökin) komu saman og jiddíska, spænska og enska skvaldrið hljóðnaði þegar kynnirinn opnaði fundinn á eina tungumálinu sem var þessu biblíulega málefni til hæfis, hebresku. Salinn fylltu menn í svörtum frökkum, með hatta og hárlokka sem féllu niður á skegg þeirra. Meðal hópsins sáust einstaka litskrúðugar kippah (höfuðkollur) sem voru vísbendingar um þá sem voru nútímalegri, en þó strangtrúaðir í skoðunum. Við höfðum safnast saman til að ræða hið forna biblíulega dagatal.

            Aðalræðumaður kvöldsins undirbjó minnisblöðin sín á pallinum og gekk svo hratt að borðinu mínu. Eftir stutta kynningu hripaði hann nafn og símanúmer á agnarlítið horn minnisblaðs, huldi það svo með þumlinum og sagði:  „Þú þarft að hafa samband við þennan mann eins fljótt og þú getur. Láttu engan sjá þetta nafn, því annars verður okkur báðum hent hér út. Er það skilið?“ Ég kinkaði kolli og hann lyfti upp þumlinum. Ég ýtti blaðsneplinum að borðbrúninni, rúllaði honum upp og stakk í vasann. Daginn eftir sat ég á kaffihúsi í miðbæ Jerúsalem með manninum sem hafði verið svo leynilega skráður á blaðið, Nehemia Gordon. Ég var um það bil að komast að því hvers vegna þessi maður var bæði virtur og óttaður meðal strangtrúaðra Gyðinga í Jerúsalem.

            Nehemia sagði mér að hann hefði alist upp í Bandaríkjunum og væri sonur strangtrúaðs rabbína. Ungur að aldri hóf hann nám í hebreskum skóla og lærði Torah (Mósebækurnar fimm). Þegar lengra leið á menntun hans, hóf hann að læra Talmud og önnur rit gyðinglegra fræðimanna. Því fleiri spurninga sem hann spurði rabbínanna, því óánægðari varð hann með svör þeirra. Hann uppgötvaði í gegnum rabbínana að hann var að spyrja sömu spurninga og karaítar miðaldanna höfðu verið að spyrja. „Karaítar“ spurði ég, „hvað er karaíti?“

            Þegar Jerúsalem var lögð í rúst árið 70 e.Kr. lagðist af musterisþjónustan sem hafði lýst gyðingdómnum í yfir þúsund ár. Rómverjar drápu hundruð þúsunda Gyðinga á miskunnarlausan hátt. Prestdómurinn var í molum og farísear (með leyfi Rómverja) stigu inn til að fylla upp í andlega tómarúmið sem prestar Sadóks höfðu skilið eftir. Út frá ringulreiðinni sem varð á þessum tíma, endurskilgreindu farísearnir, sem voru nokkuð lítill trúarhópur þá, iðkun gyðingdóms og mótuðu nýtt trúarkerfi. Í samkunduhúsum hinna dreifðu Gyðinga, komu fram nýjar iðkanir, reglur og setningar, og lagasafn réttlætisins var lagt á fylgjendur faríseanna. Þetta var að lokum skráð sem Talmúd. Leiðtogar faríseanna voru kallaðir rabbínar (hinir miklu) og kváðust hafa himneskt vald til að stofnsetja þessa nýbreytni. Þegar faríseisminn óx, urðu Gyðingar sem héldu fast í ritningarnar og neituðu að meðtaka vald eða nýjungar rabbínanna, þekktir sem „karaítar“ eða „ritningarsinnar.“ Áður en faríseisminn kom fram var hugtakið „karaíti“ óþekkt og ónauðsynlegt.

            Þegar Nehemia útlistaði fyrir mér grundvallaratriði sögulegs karaítisma vísaði hann í sömu ritningarvers spámannanna og Yeshua (Jesús) hafði sjálfur vitnað í þegar hann véfengdi vald faríseanna. Nehemia skammaðist líka út í faríseana fyrir sömu atriði og Yeshua hafði sjálfur gert. Ég hugsaði með sjálfum mér: „Yeshua hljómar eins og karaíti!“ Nehemia stakk upp á því að við hittumst aftur daginn eftir til að halda áfram samtali okkar. Ég stóðst ekki mátið.

            Við komum okkur fyrir við rólegt borð á sama kaffihúsi daginn eftir. Þegar leið á samtal okkar komst Nehemia að því að ég væri messíanskur (Gyðingur sem trúir því að Yeshua frá Nasaret sé Messías). Hann tók það skýrt fram að sem karaíti trúi hann því ekki að Yeshua sé Messías, en hafi þó lesið Nýja testamentið sem hluta af rannsóknum sínum. Nehemia spurði mig út í mína „stöðu“ gagnvart Nýja testamentinu. Með hliðsjón af þekkingu hans á Nýja testamentinu og sérfræðiþekkingu á TaNaCh (hebresk skammstöfun fyrir Torah - Mósebækurnar fimm, Nevi´im - spámennirnir, og Chetuvim - ritin) vissi ég að ég gæti sagt frá mínu sjónamiði á um það bil klukkutíma.

            Í lok einræðu minnar hallaði Nehemia sér aftur í stólnum, hristi höfuðið vantrúaður og hrópaði: „Þú lýsir Yeshua eins og hann væri karaíti!“

            Við, Nehemia, höfðum með reynslu okkar báðir samsamast sömu grundvallaratriðum og karaítar tjá; ég í gegnum kennslu Yeshua og höfnun „heiðinglegra-kristilegra“ hefða - og Nehemia í gegnum þekkingu sína á TaNaCh og höfnun „farísea-gyðinglegra“ hefða. Við komum frá tveimur ólíkum heimum en fundum fyrir samsömun. Við urðum vinir.

            Þótt upphafleg tengsl mín við Nehemia hafi komið til út frá vinnu okkar við biblíulega hebreska dagatalið, hefur hann orðið mér ómetanleg hjálp síðustu ár í tengslum við biblíulegar rannsóknir mínar hér í Ísrael. Reynsla hans á sviði fornra biblíulegra texta er einstök. Hann er altalandi á bæði fornri og nútímalegri hebresku og getur lesið ýmsar mállýskur arameísku, fornsýrlensku og grísku. Nehemia hefur líka unnið sem þýðandi við Dauðahafshandritin.

            Haustið 2001 leitaði ég til Nehemia með texta sem mér fannst vera öfugsnúinn í Matteusarguðspjalli. Ég lýsti vandamálinu fyrir honum í smáatriðum og spurði hvort hann gæti notað tungumálahæfileika sína ásamt fræðikunnáttu sinni í fornum textum til að finna eitthvað út úr þessu. Leit Nehemia að svörum leiddi hann að lokum að fornum texta Matteusarguðspjalls - á hebresku.

            Kirkjufeður fyrrum sögðu að Matteus hafi ritað guðspjall sitt á hebresku máli og að það hafi síðan verið þýtt yfir á önnur tungumál. Talið var að flestir hebresku textar Matteusarguðspjalls hafi afmáðst á tímum ofsókna Rómverja á hendur fylgjendum Yeshua, en komið hefur í ljós að fornir hebreskir textar Matteusarguðspjalls hafi verið varðveittir í leynum og afritaðir af gyðinglegum skrifurum. Þessir textar voru afritaðir í leynum vegna þess að rómversk-kaþólska kirkjan bannaði Gyðingum að eiga eintök af bókum Nýja testamentisins - sérstaklega hebreskar útgáfur bókanna. Fyrir kraftaverk varðveittust sumir þessara upprunalegu texta Matteusarguðspjalls allt til okkar tíma og eru nú aðgengilegir hebreskum fræðimönnum.

            Þegar Nehemia bar grísku þýðinguna á Matteusarguðspjalli saman við hinn forna hebreska texta varð hann furðulostinn yfir skýrleika orða Yeshua í upphaflega hebreska málinu. Gríski textinn innihélt algengar „þýðingarvillur frá hebresku til grísku“ sem hafa orðið til þess að orð Yeshua hafa bjagast alvarlega frá upphaflegu merkingunni. Hin beinskeyttu og vel völdu orð Yeshua í hebreska textanum eru hreinlega byltingarkennd. Þetta er opinberunin sem ég hef beðið eftir allt mitt líf!

            Þú ert að hefja ferð uppgötvana sem munu brjóta af þér fjötra trúrækni og leysa þig undan stjórnsemi manngerðra trúarbragða. Í höndum þínum hefur þú gimstein, sem hefur marga fleti lífsbreytandi sannleika. Notaðu góðan tíma þar sem þú verður ekki fyrir truflun til að kafa í þetta ævintýri. Ekki fresta því. Taktu símann úr sambandi og læstu að þér. Nehemia „karaítinn“ Gordon ætlar að fara með þig að rústum samkunduhússins í Korasín, fá þér sæti í „stól Móse“ og sýna þér eina stórkostlegustu biblíulegu uppgötvun okkar tíma.

            Michael Rood
            Jerúsalem, Ísrael

 

 

 

 

ð
Áfram í 1. kafla...

 

ï
Til baka í inngang...

 

Copyright - www.torah.is

torah@internet.is