1. kafli
Því skuluð þér gjöra og halda allt, sem þeir segja yður… Það kann að koma spánskt fyrir sjónir að þessi rannsókn skuli koma frá Gyðingi sem er karaíti. Orðið karaíti þýðir „hebreskur ritningarsinni.“ Samkvæmt okkar skilgreiningu eru ritningarnar aðeins Tanach, eða það sem sumir kalla „Gamla testamentið.“ Mitt mottó er: „Ef það er ekki í Tanach [Gamla testamentinu] get ég ekki notað það.“ Hvers vegna ætti karaíti sem trúir ekki á Jesú eða Yeshua2 að gera rannsókn á Matteusarguðspjalli? 2 Í þessari rannsókn hef ég notað nafnið „Yeshua“ sem ákveðið auðkenni án þess að það eigi að styðja einn ákveðinn framburð yfir annan. Takið eftir að í tilvitnun minni í hebreska Matteusarguðspjallið hefur hin rabbíníska skammstöfun Ye.sh.u sem stendur fyrir yimach shemo vezichro „megi nafn hans og minning þurrkast út“ verið endurreist til Yeshu[a], sem sagnfræðilega er hebresk stytting á Yehoshua „Jósúa“ (sjá Nehemía 8.17 í hebresku, þar sem Jósúa Núnsson er kallaður Yeshua). Allar tilvísanir í fornar heimildir í þessari rannsókn hef ég sjálfur þýtt beint úr hinum fornu tungumálum, nema annað sé tekið fram. Sumar tilvísanir í Talmúd geta verið teknar úr Soncino þýðingunni. Síðustu ár hef ég farið óvænta ferð uppgötvana sem ég finn mig knúinn til að deila með öðrum. Eftir á að hyggja hefur bakgrunnur minn sem karaíti líklega gert mér hægara um vik að spyrja spurninga um ýmislegt og véfengja forsendur sem aðrir en karaítar hefðu líklega tekið sem sjálfsögðum hlut. Ég bið þess að með því að deila þessum upplýsingum með öðrum sé ég að upphefja nafn Yehovah, El hins hæsta, skapara himins og jarðar og upphefja hans fullkoma Torah. Þetta byrjaði allt þegar vinur minn, Michael Rood, messíanskur kennari, spurði mig hvað mér fyndist um Matteusarguðspjall 23.1-3. Michael útskýrði að í þessu ritningarversi segði Yeshua lærisveinum sínum að hlýða faríseunum vegna þess að þeir kenndu með valdi. Fyrst sagði ég Michael að sem karaíti, þá héldi ég mig við Tanach og hefði því eiginlega ekki neina skoðun á þessu. Michael spurði mig hvort ég gæti samt sem áður notað fræðimenntun mína til að hjálpa sér að skilja þennan texta. Ég er með háskólagráðu í fornleifafræði og biblíulegum rannsóknum úr Hebreska háskólanum í Jerúsalem og vann í nokkur ár að Dauðahafshandritunum, áður en þau voru birt opinberlega. Michael taldi því að ég gæti notað þessa kunnáttu til að reyna að varpa einhverju ljósi á Matteusarguðspjall. Ég sagði Michael að áður en ég samþykkti að rannsaka málið, yrði ég að hafa betri skilning á vandamálinu. Ef vandamálið væri bara það að honum líkaði ekki það sem stæði í 23. kafla Matteusarguðspjalls, þá væri líklega ekki mikið sem ég gæti gert til að hjálpa honum. Michael hóf þá útskýringar sínar með því að lesa Matteusarguðspjall 23.2-3 fyrir mig úr ensku King James biblíuþýðingunni: -2- Á stóli Móse sitja fræðimenn og farísear. -3- Því skuluð þér gjöra og halda allt, sem þeir segja yður, en eftir breytni þeirra skuluð þér ekki fara, því þeir breyta ekki sem þeir bjóða. (Matt. 23.2-3, ísl. þýð. 1981) Michael útskýrði að Yeshua virtist vera að segja að farísearnir kenndu með valdi vegna þess að þeir sætu á stóli Móse. Ég þekkti ekki þetta hugtak um „stól Móse“ og spurði Michael hvað það þýddi. Hann útskýrði að það væru tvær meginskoðanir á merkingu „stóls Móse.“ Sumir sögðu að í hverju gyðinglegu samkunduhúsi væri ákveðinn stóll sem væri kallaður „stóll Móse“ þar sem leiðtogar safnaðarins sætu og kenndu með valdi.3 3Á forsíðu bókarinnar er mynd af helgisiðastól sem fornleifafræðingar fundu í hinu forna samkunduhúsi í Korasín í Galíleu, sem þeir telja að sé „stóll Móse.“ Svipaðir stólar hafa einnig fundist í fornum samkunduhúsum í Hammat í Tíberías, Ein Gedi, Delos og Dura Europos (Sukenik bls. 57-61; Davies and Allison bls. 268; Renov; en sjá Rahmani.) Setningin „stóll Móse“ ketidra demoshe er einnig nefnd í Mídrash frá 5. öld Pesikta DeRav Kahana 1:7 [Mandelbaum ed. bls. 12]. Varðandi tímasetningu og eðli þessa Mídrash, sjá Strack and Stemberger bls. 322. Fyrir skyldar tilvísanir, sjá einnig Exodus Rabbah 43:4. Hin skoðunin var sú að „stóll Móse“ væri orðatiltæki sem gæfi til kynna einhvern sem kenndi með valdi Móse.4 4 Myndlíkingartúlkunin á „stóli Móse“ sem valdi Móse virðist líkleg. Það er grundvallarkenning farísea að rabbínarnir hafi vald Móse. Þetta er látið í ljós í vel þekktri frásögn í Mishna um deilur á milli rabbínanna Gamaliels II og Joshua. Þessir tveir rabbínar voru ósammála varðandi það hvenær Yom Kippur ætti að vera á ákveðnu ári, en Gamaliel sat í dómstól rabbína og því varð Joshua rabbíni að sætta sig við úrskurð hans, jafnvel þótt hann vissi að þetta væri í raun og veru rangt. Dosa rabbíni útskýrði fyrir Joshua rabbína að hann yrði að fallast á úrskurð Gamaliels vegna þess að: Ef við véfengjum dómstól Gamaliels rabbína, verðum við einnig að véfengja hvern þann dómstól sem hefur verið frá dögum Móse og til okkar tíma ... hverjir þrír [rabbínar] sem eru settir sem dómstóll yfir Ísrael eru jafngildir dómstóli Móse. (Mishnah, Rosh ashannah 2:9). Svo að rabbínarnir virkilega trúðu því að þeir væru í stað Móse! Yfirlýsingin um að farísear sætu á „stóli Móse“ þýddi að þeir hefðu einhvers konar vald eins og Móse. Matteus virtist segja að orðum faríseanna ætti að fylgja en vegna þess að þeir væru hræsnarar ætti ekki að líkja eftir gjörðum þeirra. Vísbendingin er sú að sannur fylgjandi Yeshua þyrfti að gera hvað sem farísearnir kenndu til þess að hlýða leiðbeiningum Yeshua trúfastlega. Í framkvæmd myndi þetta þýða að það ætti að fylgja öllum reglum og boðum sem farísearnir hugsuðu upp, án þess að hafa nokkurn ritningarlegan grundvöll fyrir því. Ég vissi allt um þessar reglur og boð þeirra vegna þess að ég ólst upp sem strangtrúaður rabbínagyðingur, sem má í raun kalla farísea nútímans. Ég man mjög vel eftir þegar mér voru kenndar allar þessar reglur og öll þessi boð úr Shulchan Aruch, rabbínafræðum nútímans sem taka á öllu sem viðkemur daglegu lífi, alveg niður í minnstu smáatriði.5 5Shulchan Aruch var ritað á 16. öld af Sephardic Gyðingi sem hét Joseph Caro. Á þeim tíma skiptust farísearnir skarplega á milli Sephardim sem bjuggu í múslimalöndum og Ashkenazim, sem bjuggu í kristnum löndum. Í fyrstu var bók Josephs Caro hunsuð af Ashkenazim Gyðingum vegna þess að hún skráði aðeins Sephardic iðkanir. En svo bætti rabbíninn Moshe Isserles, Ashkenazic rabbíni, sínum „athugasemdum“ við, sem útlistuðu hvernig Ashkenazic hefðirnar voru ólíkar Sephardic hefðum og samstundis breyttist Shulchan Aruch í alþjóðlega viðteknar leiðbeiningar varðandi lifnaðarhætti farísea. Ein af reglunum sem er mér virkilega minnisstæð voru leiðbeiningarnar um það hvernig ætti að fara í skóna á morgnana. Einstaklingur verður fyrst að fara í hægri skóinn, en ekki reima hann. Svo verður hann að fara í vinstri skóinn, reima hann og síðan reima hægri skóinn. (Shulchan Aruch, Orach Chayim 2:4)6 6Shulchan Aruch vol. 1 bls. 11. Moshe Isserles rabbíni, Ashkenazic rabbíninn sem gerði viðbæturnar á Shulchan Aruch með hefðum sem einkenndu evrópska Gyðinga, bætti við: Ath. Jafnvel með reimalausa skó, þá verður að fara fyrst í hægri skóinn. (Shulchan Aruch, Orach Chayim 2:4) Ég hafði samúð með Michael: hafði Yeshua virkilega skipað honum að hlusta á faríseana segja honum hvernig hann ætti að fara í skóna? Samt virtist þetta vera greinileg merking orða Yeshua: „Því skuluð þér gjöra og halda allt, sem þeir segja yður.“ Ég sagði Michael að ég skildi vandamál hans, en ef þetta væri það sem Yeshua kenndi, þá ætti hann kannski að hlýða faríseunum. Ég sá ekki hvert vandamálið gæti verið, annað en að Micael kynni að deyja úr hita, klæddur nútímalegum faríseaklæðum í hitanum í Jerúsalem. Ég gat ekki annað en hlegið að eigin fyndni þegar ég sagði honum þetta. Michael útskýrði þá að vandamálið væri það að ef þú lest afganginn af 23. kafla Matteusarguðspjalls, er Yeshua að vara lærisveina sína við og segir þeim að fylgja ekki villum faríseanna. Til dæmis: Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér læsið himnaríki fyrir mönnum. Sjálfir gangið þér ekki þar inn, og þeim, sem inn vilja ganga, leyfið þér eigi inn að komast. (Matt. 23.13) Gæti Yeshua virkilega verið að segja lærisveinum sínum að hlýða þessum faríseum sem „læsa himnaríki fyrir mönnum“? Michael las líka annað vers fyrir mig: Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér líkist hvítum kölkuðum gröfum, sem sýnast fagrar utan, en innan eru fullar af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra. (Matt. 23.27) Yeshua lýsir faríseunum sem gröfum sem innihalda alls kyns óhreinleika. Gæti Yeshua virkilega verið að segja fylgjendum sínum að hlýða leiðbeiningum þeirra sem hann kallaði hræsnara og hvítkalkaðar grafir? Ég sagði Michael að ég væri enn ekki sannfærður. Kannski viðurkenndi Yeshua rétt rabbína til að finna upp ný lög, en sakaði þá um að fylgja ekki mannasetningunum sjálfir. Þetta mátti sannarlega lesa út úr ensku þýðingunni. Michael sagði að það væri önnur ástæða fyrir því að hann ætti erfitt með að viðurkenna að Yeshua gæti fyrirskipað lærisveinum sínum að fylgja faríseunum. Í 15. kafla Matteusarguðspjalls var frásögn af lærisveinunum sem settust til að neyta brauðs en þvoðu ekki hendur sínar. Farísearnir kvörtuðu yfir þessu við Yeshua og sögðu að þeir væru að brjóta erfikenningar forfeðranna og Yeshua svaraði því til að það væru farísearnir sem væru að brjóta gegn Torah með því að leggja þessar mannasetningar á fólk.
|
||
Sigrún Einarsdóttir &
Ragnar B. Björnsson © 2009 |