2. kafli
Handþvottur
Nokkrum árum áður hafði ég komist í kynni við
kennslu Yeshua þar sem hann talar gegn erfikenningum forfeðranna
(hefðum öldunganna). Þá hafði ég hitt mjög áhugaverðan náungan
sem lýsti sjálfum sér sem „kristnum manni sem héldi Torah.“ Ég
hafði aldrei fyrr hitt kristinn mann sem hélt Torah og ég átti
svolítið erfitt með að átta mig á þessu. Ég hafði alltaf haldið
að fylgjendur Yeshua hötuðu Torah, að þeir tryðu því að það væri
búið að afnema Torah og að „Torah hefði verið neglt á krossinn.“
Þegar þessi nýi vinur minn sagðist vera kristinn maður sem héldi
Torah, bað ég hann að útskýra fyrir mér hvað hann ætti við. Hann
hafði umgengist mig í svolítinn tíma og vissi þess vegna að
hvenær sem þú ræðir eitthvað við karaíta, verður þú að leggja
fram heimildir fyrir þínu máli. Frekar en að tala kenningarlega
séð, opnaði hann einfaldlega Nýja testamentið sitt og las fyrir
mig orð Yeshua úr Matteusarguðspjalli.
Handþvottur fyrir neyslu brauðs var mér tilfinninganæmt
málefni. Ég ólst upp sem strangtrúaður rabbínískur Gyðingur,
faðir minn var sjálfur strangtrúaður rabbíni. Þegar ég ólst upp
var mér kennt að það væri mikil synd að borða brauð án þess að
„þvo hendurnar“ fyrst. Þegar rabbínar tala um „handþvott“ eiga
þeir ekki við hreinlætisþvott með sápu, því slíkt er aðeins
heilbrigt hreinlæti. Það sem rabbínar eiga við er mjög ákveðinn
helgisiðaþvottur handanna. Þessi siður rabbína hefst með
sérstakri könnu, sem uppfyllir ákveðin skilyrði. Þessi kanna er
fyllt af vatni og síðan tekin í hægri hönd og vatni hellt yfir
vinstri höndina. Síðan er kannan færð yfir í vinstri hönd og
vatni hellt yfir hægri höndina. Þetta ferli er endurtekið í
annað sinn og samkvæmt sumum hefðum, í þriðja sinn. Að lokum
verður að fara með blessun:
Blessaður sért þú Drottinn, konungur alheimsins, sem
hefur helgað okkur með boðum sínum og boðið okkur að þvo
hendurnar.7
7 Sjá Babylonian Talmud, Berachot
60b; Shulchan Aruch,
Orach Dhayim 4:1 [vol. 1, bls. 15];
Siddur Rinat Yisrael
(nútíma bænabók rabbína) bls. 108. Reglurnar um handþvott eru
útlistaðar í Kitzur
Shulchan Aruch, 40 [Basel útgáfan, bls. 223-231; Goldin
þýðingin bls. 125-130].
Þegar ég ólst upp og stóð frammi fyrir þessum helgisið
daglega, fór ég að andmæla þessum blessunarorðum, því ég gat
hvergi séð grundvöll fyrir slíku boði í Torah. Rabbínarnir mínir
útskýrðu fyrir mér að handþvotturinn væri „lögleiðing“ rabbína
og að Guð hefði boðið okkur að hlýða rabbínunum. Með því að
hlýða þessari lögleiðingu rabbína værum við þar með að hlýða
Guði sem skipaði okkur að hlýða rabbínunum. Þegar ég bað um að
fá að sjá hvar Guð segði okkur að hlýða rabbínunum var mér sagt
að hætta að spyrja svona margra spurninga.
Ég vissi að handþvottinn var hvergi að finna í Torah og
ég útskýrði þetta fyrir kristna vini mínum sem hélt Torah. Þetta
kom honum á óvart, svo að við opnuðum 15. kafla
Matteusarguðspjalls þar sem sagt er frá því hvernig lærisveinar
Yeshua setjast niður til að borða brauð án þess að þvo hendur
sínar. Farísearnir koma til Yeshua og kvarta:
-2- Hvers vegna brjóta lærisveinar þínir erfikenning
forfeðranna? Þeir taka ekki handlaugar, áður en þeir neyta
matar. -3- Hann svaraði þeim: Hvers vegna brjótið þér sjálfir
boðorð Guðs sakir erfikenningar yðar? (Matt. 15.2-3)
Lærisveinar Yeshua voru ekki sakaðir um að brjóta Torah,
heldur „erfikenning forfeðranna.“ Yeshua svaraði þeim að það
væru erfikenningar forfeðranna (öldunganna) sem brytu gegn
boðorðum Guðs. Ég get vel skilið hvernig einstaklingur sem
þekkir ekki faríseisma getur ruglað „erfikenning forfeðranna“
við Torah. En ég ólst upp við faríseisma og skil á vissan hátt
nákvæmlega hvað Yeshua var að tala um, vegna þess að ég gekk
sjálfur í gegnum það sama. Ég áttaði mig á því að til þess að
skilja þessi orð Yeshua þyrfti vinur minn skyndinámskeið í
gyðingdómi faríseismans.
torah@internet.is
|
||