Formáli

eftir Avi Ben Mordechai

Hebreskur Yeshua eða grískur Jesús? 

Ég varð þeirra forréttinda aðnjótandi að hitta Nehemia Gordon í Jerúsalem á Sukkot (laufskálahátíð) 2003. Þótt Nehemia trúi ekki á Yeshua, var hann að tala til hóps trúaðs fólks, sem heldur Torah, um rannsókn sem hann gerði á 23. kafla Matteusarguðspjalls. Upphaflega ætlaði ég ekki einu sinni að sækja þennan fyrirlestur, en fyrir himneska íhlutun fékk ég mér sæti í salnum til að hlusta á hann útskýra þetta efni í um tvær klukkustundir. Eftir að hann hafði lagt fram uppgötvanir sínar gekk ég agndofa burt. Ég hafði sjálfur rannsakað hebresku útgáfuna af Matteusarguðspjalli en nálgun Nehemia á efninu var mér ný. Mér fannst hún beinlínis sett fram á fræðilegan hátt. Hann studdi allt vel með gögnum, frá fornum heimildum á upprunalegum tungumálum hebresku, arameísku og grísku, en lagði það fram á mjög auðskiljanlegan hátt, jafnvel fyrir þann sem átti engan bakgrunn í þessum tungumálum.

            Gordon byrjar á orðum Yeshua í Matteusarguðspjalli 23.2-3: „Á stóli Móse sitja fræðimenn og farísear. Því skuluð þér gjöra og halda allt, sem þeir segja yður, en eftir breytni þeirra skuluð þér ekki fara, því þeir breyta ekki sem þeir bjóða.“ Á yfirborðinu virðist þetta vera boð Nýja testamentisins um að hlýða kenningum faríseanna, ásamt viðvörun um að forðast hræsni. Slíkt boð, frá munni Yeshua, virðist styðja þá hugmynd að það beri að hlýða rabbínum nútímans, sem eru armur hinna fornu farísea, undir öðrum formerkjum.

Í mörgum messíönskum hópum hefur spurningin um Matteusarguðspjall 23.2-3, og hvernig það varðar rabbínískt (farísea) vald, valdið töluverðri sundrungu og ágreiningi. Sumir trúa því að Yeshua hafi með þessu tekið skýrt fram að rabbínískur (farísea) gyðingdómur sé gildandi og bindandi. Öðrum finnst þetta ekki eins skýrt og trúa því að orð hans séu misskilin eða að þeim hafi beinlínis verið rangsnúið. Hver hefur þá rétt fyrir sér? Hver er hin rétta leið til að skilja textann í Matteusarguðspjalli 23.2-3 og hvað ætti að gera við Torah? Á að fylgja því? Hlýða því eða hunsa það?

            Gordon svarar þessum spurningum með því að staðsetja Yeshua í sitt hebreska umhverfi og leyfir eigin orðum Yeshua að njóta sín í hinu upprunalega semíska umhverfi. Gordon hefur opnað dyr sem munu hafa gífurlega jákvæð og langvarandi áhrif á messíanskt hugarfar, bæði nú og í framtíðinni. Þetta mun skilja eftir sannleiksmark á hjarta og huga óteljandi margra einstaklinga.

            Vertu reiðubúinn fyrir áskorun lífsins, þegar þú nærð að skilja Yeshua og Nýja testamentið í gegnum linsu strangs Ritningarsinna. Það er kominn tími réttra útskýringa á hinum raunverulega sannleika um hinn hebreska Yeshua og hinn gríska Jesú. Njótið!

            Avi Ben Mordechai

            Rithöfundur og fyrirlesari um skilning á Yeshua í hebresku
            samhengi fyrstu aldar

            Millenium Communications
           Jerúsalem, Ísrael

 

 

 

ð
Áfram í inngang...

 

ï
Til baka í efnisyfirlit...

Copyright - www.torah.is

torah@internet.is