Inngangur að Annari Makkabeabók

 

Önnur Makkabeabók

Önnur Makkabeabók fjallar um sama efni og hin fyrri. Hún segir frá ofsóknum Antíokkusar IV Epífanesar á hendur Gyðingum á annarri öld f.Kr. Bókin er útdráttur úr stærra ritverki, söguriti á grísku í fimm bindum eftir Gyðinginn Jason frá Kýrene. Fyrri hluti bókarinnar lýsir aðdraganda að ofsóknum Antíokkusar og andspyrnu Gyðinga gegn tilraunum hans til að innleiða gríska siði og dýrkun framandi guða. Síðari hluti bókarinnar samsvarar að verulegu leyti efni 3.–7. kafla Fyrstu Makkabeabókar.

Skipting ritsins

1.1–2.32 Bréf til Gyðinga í Egyptalandi og formáli
3.1–4.50 Barátta um æðstaprestdóminn
5.1–7.42 Antíokkus Epífanes og ofsókn á hendur Gyðingum
8.1–15.39 Sigursæld Júdasar

Önnur Makkabeabók 1

 

Bréf til Gyðinga í Egyptalandi

1Við Gyðingar í Jerúsalem og Júdeu sendum bræðrum okkar í Egyptalandi kveðju og óskum þeim friðar og velfarnaðar. 2Guð veri ykkur góður og minnist sáttmála síns við trúa þjóna sína, Abraham, Ísak og Jakob. 3Hann gefi ykkur öllum þrá til að tilbiðja sig og gera vilja sinn af öllu hjarta og fúsu geði. 4Hann opni hjörtu ykkar fyrir lögmáli sínu og boðum. Megi hann veita ykkur frið 5og heyra bænir ykkar og taka ykkur í sátt. Hann yfirgefi ykkur ekki á neyðartímum.
6Hér erum við nú saman komnir til að biðja fyrir ykkur. 7Á stjórnarárum Demetríusar konungs árið eitt hundrað sextíu og níu skrifuðum við Gyðingar til ykkar í þeirri ógnarþrengingu sem yfir okkur dundi árin eftir að Jason og lagsmenn hans höfðu svikið Landið helga og ríkið. 8Þeir brenndu musterishliðin og úthelltu saklausu blóði en við báðum til Drottins og hann bænheyrði okkur. Við færðum sláturfórnir og matarfórnir, tendruðum lampana og lögðum skoðunarbrauðin fram. 9Nú hvetjum við ykkur til að halda laufskálahátíð í kíslevmánuði.
10Þetta er ritað árið eitt hundrað áttatíu og átta.

Bréf um uppruna musterisvígsluhátíðarinnar

Íbúar Jerúsalem og Júdeu, öldungaráðið og Júdas senda kveðju Aristobúlusi, kennara Ptólemeusar konungs, afkomanda smurðra presta, og óska honum og Gyðingum í Egyptalandi velfarnaðar.
11Guð hefur frelsað okkur úr miklum háska og þökkum við honum mikillega og erum þess albúnir að ráðast gegn konunginum. 12Því að sjálfur Guð hrakti þá á brott sem höfðu fylkt sér gegn hinni heilögu borg.
13Þegar herkonungurinn kom til Persíu með her sinn, sem virtist ósigrandi, var hann felldur í hofi Naneu því að prestarnir beittu brögðum. 14Antíokkus kom á staðinn og vinir hans með honum. Hann lét sem hann vildi kvænast gyðjunni og hugðist hreppa mikinn fjársjóð að heimanmundi. 15Prestarnir báru dýrgripina fram og Antíokkus gekk með fáeinum félögum sínum inn í hofgarðinn. Um leið og hann kom inn í hofið læstu prestarnir því. 16Þeir luku upp leynihurð á hvelfingunni og vörpuðu niður grjóti sem dundi á konungi með feiknarafli. Þeir brytjuðu fallna niður og köstuðu höfðunum til þeirra sem úti fyrir stóðu. 17Lofaður sé Guð á allan hátt sem hegndi guðlösturunum.

Eldur eyðir fórn Nehemía

18Þar sem við höfum nú afráðið að halda hreinsun musterisins hátíðlega tuttugasta og fimmta dag kíslevmánaðar teljum við okkur skylt að tilkynna ykkur það til þess að einnig þið getið haldið helga laufskálahátíð þessa daga og minnst eldsins sem fannst þegar Nehemía bar fram fórnir er hann hafði reist musterið og altarið.
19En þegar flytja átti feður okkar til Persíu tóku þeir guðhræddir prestar, er þá voru uppi, eld á laun af altarinu og komu honum fyrir niðri í þornuðum brunni þar sem þeir földu hann svo tryggilega að enginn gat fundið staðinn. 20En eftir fjöldamörg ár þóknaðist Guði að láta Persakonung senda Nehemía heim. Hann sendi niðja prestanna, sem falið höfðu eldinn, til að sækja hann. 21Þeir sneru aftur og kváðust ekki hafa fundið neinn eld heldur aðeins eðju. Nehemía skipaði þeim að ausa nokkru af henni upp og færa sér. Þegar svo allt það sem hafa skyldi til fórnarinnar var komið á sinn stað bauð Nehemía prestunum að hella vökvanum yfir viðinn og það sem á hann hafði verið lagt. 22Það gerðu þeir og nokkur tími leið. Þá dró ský frá sólu og öllum til undrunar kviknaði mikið bál. 23Meðan fórnin brann fluttu prestarnir bæn og allir tóku undir. Jónatan leiddi bænagjörðina og aðrir tóku undir og með þeim Nehemía. 24Bænin hljóðaði þannig:

Bæn Nehemía

„Drottinn, Drottinn Guð, skapari alls, þú ógurlegi, máttugi, réttláti, miskunnsami, þú sem einn ert konungur og einn ert góður.
25Þú sem einn gefur og einn ert réttlátur og alvaldur og eilífur, þú sem frelsar Ísrael frá öllu illu og hefur útvalið feður vora og helgað þá. 26Veit þessari fórn viðtöku fyrir gjörvallan lýð þinn Ísrael. Varðveit þú eignarlýð þinn og helga hann. 27Safna þú þeim af oss saman sem tvístraðir eru og frelsa þá sem eru í áþján meðal heiðingjanna. Lít til þeirra sem eru smáðir og útskúfaðir og lát heiðingjana komast að raun um að þú ert Guð vor. 28Refsa þú þeim sem í hroka sínum kúga oss og misþyrma.
29Gróðurset lýð þinn á þínum heilaga stað eins og Móse sagði.“

Persakeisari fær fregnir af eldinum

30Síðan sungu prestarnir lofsöngva. 31Þegar fórnin var brunnin upp bauð Nehemía að hella því sem eftir var af vökvanum yfir stóra steina. 32Þegar þetta var gert kviknaði logi sem slokknaði þegar ljósið frá altarinu skein á hann.
33Er þetta spurðist var Persakonungi einnig sagt frá því að vökvinn hefði komið í ljós á þeim stað þar sem herleiddu prestarnir fólu eldinn og hefðu Nehemía og menn hans notað hann síðan til að hreinsa fórnargjafirnar. 34Eftir að hafa rannsakað málið lét konungur girða staðinn og lýsa hann heilagan. 35Hann og þeir sem hann vildi vel skiptust einnig á veglegum gjöfum.
36Þeir Nehemía kölluðu efnið neftar, sem merkir hreinsun, en flestir nefna það nafta.

1.4 Opni hjörtu fyrir lögmálinu 5Mós 29.3; sbr Esk 18.31; 36.26-27
1.8 Brenndu musterishliðin 2Makk 8.33; 1Makk 4.38 – fórnir til að hreinsa musterið v. 18; 10.1-7; 1Makk 4.36-61
1.13 Antíokkus myrtur 2Makk 9.1-29; 1Makk 6.1-13
1.18 Hreinsun í kíslevmánuði v. 9; 1Makk 4.36
1.22 Funaði upp mikið bál sbr 1Kon 18.34-38
1.23 Tóku undir Júdt 15.13
1.27 Safna saman, sem tvístraðir eru 5Mós 30.3-5
1.29 Gróðurset lýð þinn 2Mós 15.17

 

 Önnur Makkabeabók 2

 

Jeremía felur tjaldbúðina

1Í heimildum má sjá að Jeremía spámaður hafi skipað þeim sem herleiddir voru að koma nokkru af eldinum undan eins og áður er frá sagt. 2Þar greinir og frá því að spámaðurinn afhenti hinum herleiddu lögmálið og lagði ríkt á við þá að gleyma ekki boðum Drottins og láta eigi leiða sig afvega þegar þeir sæju skurðgoð af gulli og silfri og skartið á þeim. 3Með öðrum og áþekkum orðum áminnti hann þá að festa sér lögmálið í hjarta.
4Einnig er þar skráð að eftir vitrun hafi spámaðurinn boðið að bera skyldi tjaldið og sáttmálsörkina á eftir sér og að hann hafi farið til fjallsins sem Móse gekk á til að sjá landið sem Guð hafði gefið fyrirheit um. 5Þegar Jeremía kom þangað fann hann hellisskúta. Hann lét bera tjaldið, örkina og reykelsisaltarið þangað og byrgja munnann. 6Nokkrir fylgdarmanna hans fóru síðar til að stika út leiðina en gátu ekki fundið hana. 7Þegar Jeremía komst að þessu ávítaði hann þá og mælti: „Staðurinn á að vera hulinn þangað til Guð safnar lýð sínum saman og auðsýnir honum náð. 8Þá mun Drottinn leiða þessa hluti í ljós og dýrð Drottins mun birtast í skýi eins og hún opinberaðist á dögum Móse og þegar Salómon bað að musterið yrði helgað á mikilfenglegan hátt.“

Lýsing á vígsluhátíð Salómons

9Þar er og frá því skýrt hvernig hinn vísi Salómon bar fram vígslufórn þegar musterissmíðinni var lokið. 10Eins og Móse bað til Drottins og eldur féll af himni og brenndi fórnina bað Salómon einnig og eldurinn kom ofan og eyddi brennifórninni. 11Móse sagði: „Syndafórninni var eytt af því að hennar var ekki neytt.“
12Með sama hætti hélt Salómon einnig hátíð í átta daga.

Bókasafn Nehemía

13Í ritum og minnisbókum Nehemía er sagt frá þessu öllu og því að hann hafi lagt grunn að bókasafni þar sem hann kom fyrir bókum um konungana og spámennina, ritum Davíðs og bréfum konunganna um gjafir til musterisins. 14Sömuleiðis safnaði Júdas fyrir okkur þeim ritum sem fóru á flæking í stríðinu sem við háðum og eru þau geymd hjá okkur. 15Ef þið þarfnist þeirra þá sendið menn eftir þeim.

Boð um hátíðahöld vegna hreinsunar musterisins

16Við ritum ykkur nú vegna þess að við ætlum að halda hátíðlega upp á hreinsun musterisins. Hvetjum við ykkur til að halda einnig þessa hátíð. 17Guð hefur frelsað allan lýð sinn og gefið okkur öllum arfleifðina og konungdóminn og prestdóminn og heilagleikann 18eins og hann hét í lögmálinu. Við vonum til Guðs að hann muni brátt miskunna okkur og safna okkur saman úr öllum heimshornum á hinn heilaga stað því að hann hefur frelsað okkur úr mikilli ógæfu og hreinsað staðinn.

Formáli höfundar

19Hér segir frá Júdasi Makkabeusi og bræðrum hans, hreinsun hins mikla musteris og vígslu altarisins, 20enn fremur frá styrjöldum gegn Antíokkusi Epífanes og Evpator, syni hans, 21og frá hinum himnesku vitrunum sem birtust hinum fræknu hetjum sem börðust fyrir gyðingdóminn og auðnaðist að vinna aftur landið allt, þótt fáliðaðir væru, og hrekja hersveitir útlendinganna á brott. 22Tókst þeim að ná aftur á sitt vald musterinu heimsfræga, frelsa borgina og koma á ný á lögum sem voru nær afnumin. Það var vegna þess að Guð var þeim náðugur í allri mildi sinni. 23Allt þetta ritaði Jason frá Kýrene í fimm bókum og ætla ég að reyna að draga það saman í eina bók. 24Mér er fullljóst hve óárennilegt hið langa rit hans er. Efnismergðin veldur þeim miklum erfiðleikum sem vilja ná tökum á því sem þar er sagt frá. 25Þess vegna lagði ég í þetta þeim til ánægju sem sögur lesa og til hægðarauka þeim sem vilja festa sér það í minni sem þeir lesa og öllum til gagns sem bók þessi berst í hendur.
26En mér, sem gengið hef undir þá byrði að semja ágrip þetta, er það ekki auðvelt verk heldur kostar það svita og svefnleysi, 27alveg eins og það krefur þann mikils sem undirbýr veislu sem hann ætlar öðrum að njóta. Samt er ég fús til að takast á við þessa þraut til að hljóta þakklæti margra. 28Ég læt sagnaritarann um hin einstöku efnisatriði en geri mér far um að aðalatriðin komi fram í ágripi mínu. 29Sá sem reisa vill hús verður að hafa yfirsýn yfir framkvæmd verksins. Hinn, sem tekst á hendur að prýða bygginguna og mála, þarf einungis að huga að því sem hentar til skrauts. Þannig finnst mér því farið um mig. 30Frumhöfundur sögunnar verður að kynna sér efnið nákvæmlega og gera öllu skil í smáatriðum. 31Sá sem semur ágrip getur leyft sér að fara fljótt yfir sögu og sleppa því að rekja allt til rótar.
32Nú vil ég hefja frásögnina án frekari málalenginga um það sem fyrr var sagt enda er hjákátlegt að fjölyrða í formála bókar og þurfa fyrir bragðið að stytta söguna.

2.4 Móse sá landið sem ... 5Mós 34.1-4
2.8 Skýjið á dögum Móse 2Mós 24.16; á dögum Salómons 1Kon 8.10-11
2.11 Syndafórninni eytt 3Mós 10.16-17
2.12 Átta daga hátíð Salómons 1Kon 8.65-66
2.13 Í ritunum um ... spámennina Sír 9-10
2.14 Safnaði ritum sbr 1Makk 1.56-57
2.16 Hreinsunin haldin hátíðleg 2Makk 1.8-9
2.17 Heilagleikinn gefinn 2Mós 19.5; 1Pét 2.9
2.21 Himneskar vitranir 2Makk 3.24; 5.2; 10.29; 11.8; sbr 15.27 – liðfáir sbr 1Makk 3.18+

 

Önnur Makkabeabók 3

 

Deilur Óníasar og Símonar

1Á þeim tímum ríkti friður í hinni heilögu borg og lögin voru dyggilega haldin þar sem Ónías æðsti prestur var maður guðrækinn og hafði andstyggð á guðleysi. 2Það bar við að sjálfir konungarnir heiðruðu staðinn og prýddu musterið með dýrmætum gjöfum. 3Jafnvel Selevkus Asíukonungur bar sjálfur allan kostnað við fórnarþjónustuna.
4En Símon nokkur af ætt Bilga, sem skipaður hafði verið ráðsmaður musterisins, varð ósáttur við æðsta prestinn út af markaðsmálum í borginni. 5Þegar hann gat ekki komið sínu fram fyrir Óníasi sneri hann sér til Appollóníusar Þrasaissonar, sem þá var landstjóri í Norður-Sýrlandi og Fönikíu. 6Hann upplýsti hann um að fjárhirslan í Jerúsalem hefði ólýsanlegan auð að geyma, óteljandi peninga, langt fram yfir kostnað við fórnirnar, og mundi þess kostur að það félli allt til konungs.

Helíódórus sendur til Jerúsalem

7Þegar svo Appollóníus hitti konunginn skýrði hann honum frá auðæfum þeim sem lýst hafði verið fyrir honum. Valdi konungur Helíódórus ráðsherra og fól honum að fá umrædda peninga afhenta.
8Helíódórus hélt þegar af stað og lét í veðri vaka að hann ætlaði að vitja borganna í Norður-Sýrlandi og Fönikíu, en fór í raun til að reka erindi konungs. 9Er hann svo var kominn til Jerúsalem og hafði verið vel tekið af æðsta prestinum og borgarbúum, greindi hann frá þeirri vísbendingu sem hann hafði fengið, gerði uppskátt erindi sitt og spurðist nánar fyrir um hvort upplýsingarnar væru réttar.
10Æðsti presturinn útskýrði fyrir honum að þetta væri fé sem varðveitt væri fyrir ekkjur og munaðarleysingja 11en sumt af fénu ætti Hýrkanus Tóbíasson, maður í miklum metum. Væri ekki fótur fyrir lygum hins illræmda Símonar. Að öllu töldu næmi upphæðin fjögur hundruð talentum silfurs og tvö hundruð talentum gulls 12og algjör óhæfa væri að ganga á hlut þeirra sem treyst hefðu helgi staðarins og óskoraðri friðhelgi musterisins sem allur heimur virti.

Helíódórus hyggst ryðjast inn í musterið

13Helíódórus bar fyrir sig fyrirmæli konungs og stóð fast á því að gera allt féð upptækt fyrir konung. 14Hann tiltók síðan dag og bjóst til að halda í musterið til að kanna sjóðinn.
Mikil angist ríkti í allri borginni. 15Prestarnir vörpuðu sér niður fyrir framan altarið í skrúða sínum, hrópuðu til himins og ákölluðu þann sem gefið hafði lögin um geymslufé að varðveita það óskert sem hér var falið til geymslu. 16Hver sem leit ásjónu æðsta prestsins hlaut að komast við. Svipur hans og litarháttur gaf sálarstríð hans til kynna. 17Hann var gagntekinn angist og skalf allur og engum duldist hve mjög þetta gekk honum til hjarta. 18Hópum saman flykktist fólk úr húsum sínum til að safnast til bænagjörðar sakir þeirrar miklu smánar sem vofði yfir musterinu. 19Fjölmargar konur fóru um strætin búnar hærusekkjum sem þær gyrtu undir brjóstum og meyjar, sem ella fóru ekki úr húsi, hlupu sumar út í hliðin, aðrar út á múrana en sumar teygðu sig út um gluggana. 20Allar hófu þær hendur til himins í bæn. 21Það var átakanleg sjón að sjá allt fólkið fallið fram hvað innan um annað og angist og örvæntingu æðsta prestsins.

Drottinn ver musteri sitt

22Meðan fólkið ákallaði almáttugan Guð um að varðveita geymsluféð óskert og óhult handa þeim sem falið höfðu honum það til varðveislu 23tók Helíódórus að framkvæma ætlunarverk sitt.
24En um leið og hann kom í fjárhirsluna með varðmönnum sínum sendi Drottinn allra anda og mátta volduga opinberun svo að allir sem dirfst höfðu að koma þangað með Helíódórusi voru lostnir af mætti Guðs og stóðu lémagna og hjálparvana. 25Þeim birtist hestur, búinn fegurstu tygjum, sem ógnvekjandi riddari sat. Hann ruddist fram mót Helíódórusi og réðst að honum með framhófunum. Sá sem hestinn sat var búinn hertygjum af gulli.
26Auk þess birtust Helíódórusi tveir ungir menn, afburða sterkir og fágæta fríðir og fagurbúnir. Þeir gengu hvor sínum megin að honum og lömdu hann linnulaust. 27Hann féll jafnskjótt til jarðar og var umluktur svartasta myrkri. Þeir sem hjá stóðu gripu hann og lögðu á börur 28og báru út með öllu ósjálfbjarga þann mann sem litlu fyrr hafði gengið inn í fjárhirsluna með vopnað lið og lífverði. Svo berlega hafði hann fengið að kenna á mætti Guðs.

Ónías biður Helíódórusi bata

29Þar lá svo Helíódórus felldur af máttarverki Guðs og var mállaus og örvona um hjálp. 30En Gyðingarnir lofuðu Drottin sem gert hafði musteri sitt dýrlegt. Og fögnuður og glaðværð fyllti musterið sakir þess að almáttugur Drottinn hafði birst, en skömmu áður hafði ríkt þar ógn og skelfing.
31En brátt báðu nokkrir af fylgdarliði Helíódórusar Ónías um að ákalla Hinn hæsta og bjarga lífi vesalingsins sem var í andarslitrunum. 32Þar sem æðsti presturinn var ekki ugglaus um að konungurinn kynni að álykta að Gyðingar hefðu gert Helíódórusi eitthvað til miska bar hann fram fórn til bjargar manninum. 33Meðan æðsti presturinn var að bera fram friðþægingarfórnina birtust Helíódórusi sömu ungu mennirnir aftur. Voru þeir búnir sömu klæðum og fyrr. Þeir gengu til hans og mæltu: „Í mikilli þakkarskuld stendur þú við Ónías æðsta prest því að hans vegna hefur Drottinn leyft þér að halda lífi. 34Svipuhögg af himni hafa dunið á þér. Nú skalt þú kunngjöra öllum mikinn mátt Guðs.“ Að svo mæltu hurfu þeir.

Helíódórus lofar Guð

35Helíódórus færði Drottni fórn og gerði honum mikil heit fyrir að hafa unnt sér að halda lífi. Síðan kvaddi hann Ónías og hélt með lið sitt aftur til konungs. 36Vitnaði hann fyrir öllum um þau miklu máttarverk Guðs sem hann hafði séð með eigin augum.
37Þegar konungur innti Helíódórus eftir því hver mundi til þess fallinn að vera sendur að nýju til Jerúsalem mælti hann: 38„Ef þú átt óvin eða einhver situr á svikráðum við ríkisstjórn þína þá skalt þú senda hann þangað. Þá færð þú hann aftur kaghýddan, ef hann þá heldur lífi, því að svo sannarlega hvílir guðdómlegur kraftur yfir þeim stað. 39Sjálfur hann sem á himni situr er vörður og verndari þessa staðar og hann lemur þá til bana sem þangað koma með illum ásetningi.“
40Svona bar það nú til er musterisfénu var bjargað frá Helíódórusi.

3.24 Voldug opinberun 2Makk 2.21+
3.35 Færa fórn og gera heit 2Makk 13.23; sbr 8.36+

 

Önnur Makkabeabók 4

 

Símon ákærir Ónías

1Símon sá sem fyrr var nefndur, og sagt hafði til fjárins og svikið föðurland sitt, tók nú að rægja Ónías og fullyrti að hann hefði hrætt Helíódórus og staðið fyrir ofbeldinu. 2Hann dirfðist að halda því fram að þessi velgjörðamaður borgarinnar og verndari landa sinna og ákafi forvígismaður lögmálsins sæti á svikráðum við stjórn ríkisins. 3En er fjandskapurinn magnaðist svo að einn af trúnaðarmönnum Símonar varð manni að bana 4varð Óníasi ljóst hve háskalegt sundurlyndið var orðið og að Appollóníus Menestevsson, landstjóri á Norður-Sýrlandi og Fönikíu, kynti undir heiftarhug Símonar. 5Fór Ónías til konungs, ekki til að ákæra landa sína, heldur til gagns fyrir alla þjóðina, til heilla fyrir almenning og einstaklinga. 6Enda sá hann það fyrir að friður kæmist ekki á að nýju ef konungur skærist ekki í leikinn því að ekki léti Símon af fásinnu sinni.

Jason innleiðir gríska siði

7En að Selevkusi látnum er Antíokkus, að viðurnefni Epífanes, var kominn til ríkis tókst Jason, bróður Óníasar, að sölsa undir sig æðstaprestsembættið með sviksamlegum hætti. 8Hann hét konunginum í bænarskjali þrjú hundruð og sextíu talentum silfurs og að auki áttatíu talentum af öðrum tekjum. 9Auk þess hét hann því að gjalda eitt hundrað og fimmtíu talentur ef konungur veitti sér umboð til að gera íþróttavöll og stofna ungliðaflokk og fengi sér vald til að skrá Jerúsalembúa borgara í Antíokkíu.
10Þegar konungur hafði samþykkt þetta og Jason tekið völdin hóf hann þegar að snúa siðum þjóðar sinnar til grískra hátta.
11Hann virti að vettugi réttindi þau sem Gyðingar höfðu hlotið fyrir náð konungs og tilstilli Jóhannesar, föður Evpólemeusar sem sendur var til Rómar til að gera vináttusamning og bandalag við Rómverja. Hann ógilti hið löglega stjórnskipulag og tók upp nýja siði sem stríddu gegn lögmálinu. 12Hann reyndist óðfús til að reisa íþróttamannvirki undir sjálfri háborginni og fylkti um sig göfugustu æskumönnum, en þeim leyfðist nú að bera hatta.
13Áhugi á öllu sem grískt var og eftiröpun á hátterni útlendinga jókst nú til mikilla muna sakir þess að guðleysi Jasonar, sem enginn æðsti prestur var, voru engin takmörk sett. 14Var jafnvel svo komið að prestarnir afræktu altarisþjónustuna. Þeir létu sér fátt um musterið og afræktu fórnirnar. En um leið og klukkur kvöddu til leikja, sem þó stríddu gegn lögmálinu, hröðuðu þeir sér til að taka þátt í kappleikjum á íþróttaleikvanginum. 15Þeir mátu það einskis sem feðurnir höfðu haldið í heiðri en sóttust eftir grískum vegtyllum. 16Sakir þessa komust þeir líka í æði miklar kröggur því að einmitt þeir sem þeim var svo sýnt um að apa eftir og reyndu að líkjast í öllu urðu óvinir þeirra og refsivöndur. 17Enda er það enginn hégómi að breyta í trássi við lögmál Guðs. Það sýnir framhald sögunnar.

Hellenísk áhrif í Jerúsalem

18Eitt sinn við kappleika, sem haldnir voru fjórða hvert ár í Týrus að konungi viðstöddum, 19sendi hrakmennið Jason menn þangað frá Jerúsalem. Höfðu þeir borgararétt í Antíokkíu og áttu að færa þrjú hundruð drökmur silfurs að fórn til Heraklesar. En þeir sem komu með féð færðust undan því að nota það til fórnar þar sem það væri ekki við hæfi og báðu um að féð yrði notað til annars.
20Sendandinn hafði ætlað Heraklesi þetta fé en vegna þeirra sem fluttu það var því varið til að búa galeiður.
21Þegar Appollóníus Menestevsson var sendur til Egyptalands til að vera við krýningu Fílometors konungs varð Antíokkus þess áskynja að Fílometor var orðinn mótsnúinn stjórn hans. Vildi hann því tryggja stöðu sína og fór í því skyni til Joppe og hélt þaðan til Jerúsalem. 22Jason og borgarbúar tóku höfðinglega á móti honum og var hann hylltur með hrópum er blysför var farin fyrir honum inn í borgina. Síðan hélt hann með lið sitt til Fönikíu.

Menelaus verður æðsti prestur

23Að þremur árum liðnum sendi Jason Menelaus, sem var bróðir Símonar sem fyrr gat, til að gjalda konunginum skatt og ráða nokkur mikilvæg mál til lykta. 24Á fundum sínum með konungi smjaðraði hann fyrir honum og lét sem hann ætti mikið undir sér. Komst hann yfir æðstaprestsembættið með því að borga þrjú hundruð talentum silfurs meira en Jason. 25Sneri hann aftur til Jerúsalem með konunglega skipan í embættið en var engan veginn hæfur til að gegna því enda ofsafenginn harðstjóri og hamslaus sem villidýr.
26Jason, sem sjálfur hafði bolað bróður sínum frá með svikum, var nú hrakinn burt af brögðum annars og hélt landflótta til Ammón. 27Menelaus hélt embættinu en stóð konungi engin skil á því fé sem hann hafði heitið honum, 28þó svo að Sóstrates, sem var yfirmaður setuliðsins í virkinu, krefði hann þess, en hann átti að innheimta skatta. Sakir þessa stefndi konungur þeim báðum á sinn fund. 29Menelaus lét Lýsimakkus, bróður sinn, gegna æðstaprestsembættinu fyrir sig en Sóstrates fékk Krates, sem var höfuðsmaður liðs Kýpurmanna, fyrir sig.

Ónías myrtur

30Meðan þessu fór fram hófu Tarsusbúar og Mellótar uppreisn vegna þess að borgir þeirra höfðu verið gefnar Antíokkíu, hjákonu konungs. 31Konungur hélt samstundis þangað til að stilla til friðar og lét stjórnina eftir í höndum Androníkusar sem var einn af tignustu mönnum ríkisins.
32Menelausi fannst nú bera vel í veiði og hnuplaði hann nokkrum gullkerum úr musterinu og færði þau Androníkusi að gjöf. Nokkur önnur hafði hann selt í Týrus og borgunum þar í grennd. 33Er Ónías komst að raun um þetta fordæmdi hann það harðlega en hann hafði leitað hælis í griðastaðnum í Dafne, nærri Antíokkíu.
34Sakir þess tók Menelaus Androníkus á eintal og hvatti hann til að ráða Ónías af dögum.
Androníkus fór til Óníasar og beitti hann brögðum. Hann hét honum vináttu sinni og griðum og lagði eið að og þó að Ónías grunaði hann um græsku gat Androníkus tælt hann til að yfirgefa griðastaðinn. Jafnskjótt réð hann Óníasi bana án alls tillits til laga og réttar. 35Þessu reiddust ekki Gyðingar einir heldur einnig menn af öðru þjóðerni og undu illa svívirðilegu morði þessa manns.

Androníkusi hegnt

36Þegar svo konungur sneri aftur frá Kilíkíu báru Gyðingar í borginni fram ákæru vegna réttarmorðsins á Óníasi og jafnvel Grikkir tóku upp þykkjuna með þeim. 37Antíokkus varð harmi sleginn, fann til sárrar meðaumkunar og grét er hann minntist breytni og dygða hins látna. 38Svo varð hann gripinn heift og lét óðara svipta Androníkus purpuraskikkjunni, rífa af honum klæðin og leiða hann um alla borgina og að staðnum þar sem hann framdi ódæðið á Óníasi. Þar lét hann deyða morðingjann sem hlaut þannig réttláta refsingu af Drottni.

Musterisræninginn Lýsimakkus deyddur

39Lýsimakkus hafði ítrekað rænt musterið í Jerúsalem með samþykki Menelausar. Þegar þetta varð heyrinkunnugt safnaðist fólkið til mótmælaaðgerða gegn Lýsimakkusi sem þegar hafði haft á brott fjölmarga gullmuni.
40Er reiði mannfjöldans magnaðist og æsingar jukust deildi Lýsimakkus út vopnum til nær þriggja þúsunda manna og átti því upphafið að ofbeldisverkum. Fyrir liðinu fór Áranus nokkur. Hann var kominn til ára sinna og glópska hans engu minni aldrinum.
41Þegar menn sáu hverju Lýsimakkus fór fram gripu sumir grjót, aðrir digra lurka eða handfylli af ösku sem hendi var næst og létu þetta hvað með öðru dynja á mönnum Lýsimakkusar. 42Af þessu urðu margir manna hans sárir og nokkrir féllu en allir aðrir voru reknir á flótta. Musterisræningjann sjálfan drápu þeir hjá fjárhirslunni.

Menelausi stefnt

43Sakir þessa var Menelausi stefnt fyrir rétt 44og er konungurinn kom til Týrusar fluttu þrír menn, sem ráðið sendi, málið fyrir honum. 45Menelaus var þegar orðinn sannur að sök en hann hét Ptólemeusi Dórýmenessyni miklu fé ef hann gerði konung vilhallan sér. 46Ptólemeus tók þá konunginn með sér inn í súlnagöng, undir því yfirskini að þar væri svala að finna, og taldi honum hughvarf. 47Sýknaði konungur Menelaus, sem átti sök á allri þessari ógæfu, en vesalings sendimennina dæmdi hann til dauða en þá hefði jafnvel dómstóll setinn Skýþum sýknað. 48Þessir menn máttu án tafar þola rangláta refsingu en þeir höfðu borið borgina og íbúa hennar og áhöldin helgu fyrir brjósti. 49En sumum Týrusbúum ofbauð svo níðingsverk þetta að þeir kostuðu veglega útför mannanna.
50Menelaus hélt hins vegar embættinu og átti það ágirnd valdhafanna að þakka. Gerðist hann sífellt illskeyttari og sat á svikráðum við landa sína.

4.11 Evpólemeus 1Makk 8.17
4.25 Konungleg skipun í embætti 2Makk 14.13; 1Makk 10.20; sbr 1Makk 7.5; 2Makk 4.7-10
4.45 Ptólemeus Dórýmensson 2Makk 8.8; 1Makk 3.38

 

Önnur Makkabeabók 5

 

Fyrirboðar styrjalda

1Um þetta leyti fór Antíokkus í aðra herferð sína til Egyptalands.
2Þá bar svo við að vitranir birtust í allri Jerúsalem í nær fjörutíu daga. Birtust mönnum riddarar sem fóru í loftinu, búnir gullofnum skikkjum og vopnaðir lensum. Fóru þeir hópum saman og var þeim fylkt í liðssveitir 3sem brugðu sverðum og ýmist renndu hver gegn annarri eða hopuðu. Það sást sindra af skjöldum og sæg spjóta. Örvadrífa var og glampaði á gullbúin hertygi og hvers kyns brynjur. 4Bæn allra var að þetta mætti á gott vita.

Jason ræðst á Jerúsalem

5Þá kom upp sá lygakvittur að Antíokkus væri allur. Neytti Jason þá færis, safnaði meira en þúsund mönnum og gerði leifturárás á Jerúsalem. Þegar varðliðið á múrunum var brotið á bak aftur og borgin nær öll tekin herskildi flýði Menelaus í virkið. 6En Jason brytjaði samborgara sína miskunnarlaust niður og lét sér ekki skiljast að það er hin mesta ógæfa að bera sigurorð af samlöndum. Hann ímyndaði sér að hann bæri hærri hlut af óvinum en ekki eigin þjóð. 7En ekki lánaðist honum þó að hrifsa stjórnartaumana heldur hlaut hann skömm eina að launum fyrir svik sín og hrökklaðist landflótta aftur til Ammón.
8Að lokum kom ógæfan yfir hann. Hann var kærður fyrir Aretasi, einvaldi Araba, og varð að flýja frá einni borg til annarrar og var ofsóttur og hataður af öllum fyrir lögmálsbrot. Höfðu allir andstyggð á honum sem böðli lands síns og þjóðar. Á för sinni hraktist hann til Egyptalands 9og þaðan hélt hann sjóleiðina til Spörtu en þar ætlaði hann að leita á náðir ættingja sinna. Þessi maður, sem hrakið hafði svo marga úr landi, bar sjálfur beinin fjarri átthögum sínum. 10Hann, sem varpað hafði svo mörgum út án þess að jarða þá, var ekki tregaður af neinum og hlaut hvorki útför né leg hjá feðrum sínum.

Antíokkus ræðst á Jerúsalem

11Þegar konungi bárust tíðindin um það sem við hafði borið taldi hann að uppreisnarástand ríkti í allri Júdeu. Sneri hann því frá Egyptalandi brennandi af heift og lét lið sitt hertaka Jerúsalem. 12Hann bauð hermönnum sínum að beita vopnum vægðarlaust á hvern sem fyrir yrði og brytja einnig niður þá sem reyndu að komast undan með því að fara upp á húsin. 13Þeir deyddu unga og gamla, konur og börn voru myrt, meyjum og ungbörnum var slátrað. 14Á einungis þrem dögum urðu fórnarlömbin áttatíu þúsund. Fjörutíu þúsund voru felld í bardaga og fullt svo margir voru seldir í ánauð.
15En ekki lét konungur við þetta sitja heldur dirfðist hann að arka inn í helgasta musteri hér á jörðu. Menelaus vísaði honum leiðina en hann hafði þá þegar svikið bæði lögmálið og föðurlandið. 16Með flekkuðum höndum tók konungur heilög áhöld og lét saurugar greipar sópa um helgigjafir sem aðrir konungar höfðu gefið staðnum til að auka vegsemd hans og prýði.
17Antíokkus ofmetnaðist og skildi ekki að Drottinn hafði um sinn reiðst íbúum borgarinnar vegna synda þeirra og þess vegna hafði hann gefið helgidóminn honum á vald. 18Ef borgarbúar hefðu ekki verið syndum hlaðnir hefði Antíokkusi farnast eins og Helíódórusi þegar Selevkus konungur sendi hann til að rannsaka fjárhirsluna. Honum hefði þegar verið refsað með svipuhöggum er hann ruddist inn í musterið og honum aftrað í ofdirfsku sinni. 19En Drottinn hafði ekki útvalið þjóðina vegna hins helga staðar heldur staðinn hennar vegna. 20Staðurinn hlaut því fyrst sinn skerf af þeirri ógæfu sem yfir þjóðina gekk en síðar hlutdeild í velgjörðum Guðs. Sakir reiði Hins almáttka hafði hann yfirgefið staðinn en hóf hann til vegs á ný og til mikillar dýrðar þegar hinn máttugi Drottinn var sáttur orðinn.

Enn ráðist á Jerúsalem

21Eftir að Antíokkus hafði numið á brott úr musterinu átján hundruð talentur hraðaði hann sér til Antíokkíu. Í drambsemi sinni taldi hann sig geta siglt þurrlendið og gengið hafið, svo mjög gekk hroki hans úr öllu hófi. 22Hann skildi landstjóra eftir til að þjaka þjóðina. Í Jerúsalem var það Filippus, ættaður frá Frýgíu, og var hann hálfu siðlausari en sá sem veitti honum embættið. 23Á Garísím var það Androníkus og auk þeirra Menelaus sem kúgaði borgarana enn meir en hinir.
Af fjandskap við Gyðinga 24sendi konungur Appollóníus, sem stýrði mýsískum hersveitum með tuttugu og tvær þúsundir hermanna, og skipaði honum að drepa alla vopnfæra menn en selja konur og æskufólk mansali. 25Er hann kom til Jerúsalem lét hann sem hann færi með friði og hafðist ekki að fyrr en helgi hvíldardagsins hófst. Þegar hann sá að þá héldu Gyðingar heilagt lét hann menn sína búast vopnum 26og leggja hvern þann í gegn sem kom til að sjá hvað um væri að vera. Síðan réðst hann inn í borgina með vopnað lið sitt og lagði fjölda manns að velli. 27En Júdas, sem kallaður var Makkabeus, flýði út í auðnina við níunda mann. Hann hafðist við í fjöllunum ásamt mönnum sínum, líkt og dýr merkurinnar, og höfðu þeir jurtir sér til viðurværis til þess að saurgast ekki af siðleysinu sem ríkti.

5.2 Vitrun 2Makk 2.21+
5.9 Átthagar 1Makk 12.6-7
5.17 Ógæfa Ísraels er refsing vegna synda 2Makk 6.12-16; 7.16-19, 32-38; SSal 12.9; sbr 5Mós 8.5
5.18 Helíódórus 2Makk 3.1-40
5.19 Þjóðin ekki útvalin vegna staðarins ... sbr Mrk 2.27
5.21 Gengið hafið 2Makk 9.8
5.27 Júdas flýði í auðnina 1Makk 2.28 – saurgast ekki af siðleysi 3Mós 11

 

Önnur Makkabeabók 6

 

Gyðingar sæta trúarofsóknum

1Skömmu eftir þetta sendi konungur öldung frá Aþenu til að þvinga Gyðinga til að snúa baki við lögmáli feðranna og láta af að lifa eftir lögmáli Guðs. 2Honum bar einnig að vanhelga musterið í Jerúsalem og vígja það hinum ólympíska Seifi, sem og musterið á Garísím Gesta-Seifi, en margt útlendinga bjó þar.
3Þessi yfirþyrmandi illska var þungbær og þjakandi á allan hátt. 4Heiðingjarnir lögðu musterið undir svallveislu, döðruðu þar við drósir og lögðust með dækjum innan vébanda og báru þangað margt sem óhæfa var að hafa á þeim stað. 5Þeir þöktu altarið með viðurstyggilegum fórnum sem lögmálið bannar með öllu. 6Hvíldardaginn var ekki unnt að halda heilagan eða hátíðir feðranna. Jafnvel var ókleift að játa sig Gyðing. 7Mánaðarlega, á fæðingardegi konungs, var fólkið neytt af mikilli hörku til að taka þátt í blótum þar sem mönnum var gert að neyta innyfla fórnardýra. Þegar svo Bakkusarhátíðin var haldin voru Gyðingar þvingaðir til að vera með í skrúðgöngu til heiðurs Bakkusi og bera laufsveig á höfði. 8Enn fremur var grísku borgunum í grenndinni boðið, að undirlagi Ptólemeusar, að þvinga Gyðinga til hins sama og neyða þá til að taka þátt í blótum. 9Þeir sem vildu ekki taka upp gríska siði skyldu drepnir.
Það var degi ljósara að hörmungartímar fóru í hönd. 10Tvær konur voru teknar höndum fyrir að hafa látið umskera syni sína. Þær voru reknar fyrir allra augum um borgina þvera með smábörnin hengd við brjóst sín og loks hrundið fram af borgarmúrunum. 11Við Filippus var ljóstrað upp um nokkra aðra Gyðinga sem höfðu komið saman á laun í hellum þar í grenndinni til að halda hvíldardaginn hátíðlegan. Þeir voru allir brenndir til bana því að þeir höfðu ekki fengið sig til að verja sig vegna dýrðar og helgi dagsins.

Drottinn hegnir og miskunnar

12Ég hvet alla sem lesa þessa bók til að láta ekki hugfallast af þessum hörmungum heldur hugsa sem svo að prófraunirnar séu ekki til að tortíma þjóð okkar heldur til að aga hana. 13Enda er það merki um mikla náð að hegna syndurum skjótt fyrir syndir fremur en að láta þá bíða hegningar lengi. 14Drottinn fer ekki með okkur eins og aðrar þjóðir sem hann dregur við sig að refsa allt þar til þær hafa fyllt mæli synda sinna. Hann ákvað að breyta öðruvísi við okkur 15svo að hann þyrfti ekki að refsa okkur þegar við hefðum syndgað úr öllu hófi. 16Þess vegna sviptir hann okkur aldrei miskunn sinni og þótt hann agi lýð sinn með áföllum yfirgefur hann okkur aldrei. 17Þetta hef ég sagt ykkur til íhugunar og eftir þennan útúrdúr sný ég mér aftur að frásögninni.

Eleasar deyr fyrir trú sína

18Einna virtastur af fræðimönnunum var Eleasar. Hann var aldraður maður og sviphreinn. Hann var þvingaður til að opna munninn og svínakjöti troðið upp í hann. 19En hann kaus fremur að deyja með sæmd en að lifa við skömm. Hrækti hann kjötinu út úr sér og gekk sjálfviljugur að pyntingarstaðnum. Slíkt sæmir þeim sem eru nógu hugaðir til að hafna því sem óheimilt er að neyta, jafnvel þótt þeir unni lífinu og viti að dauðasök varði.
21En þeir sem settir voru yfir hina löglausu fórnarmáltíð höfðu þekkt Eleasar lengi. Þeir tóku hann á eintal og hvöttu hann til að verða sér úti um kjöt sem honum væri frjálst að neyta og hann hefði sjálfur látið matreiða. Gæti hann látist eta af fórnarkjötinu svo sem konungurinn hafði fyrirskipað. 22Með því móti gæti hann komist hjá lífláti og þeir mundu fara mildilega með hann vegna langrar vináttu þeirra.
23En Eleasar tók ákvörðun sem sæmdi árum hans og aldurstign og hærum sem báru vott um göfugt líferni. Frá bernsku hafði dagfar hans verið til fyrirmyndar og auk þess í samræmi við heilagt lögmál Guðs. Þess vegna svaraði hann og bað þá um að deyða sig án tafar. 24„Það sæmir ekki aldri mínum,“ sagði hann, „að hræsna þannig. Það gæti komið mörgum ungum manni til að halda að níræður hefði Eleasar tekið heiðna trú. 25Hræsni mín og löngun til að treina lífið lítillega mundi afvegaleiða þá og ég svívirða og flekka elli mína. 26Því að þótt ég kæmist hjá hegningu manna um sinn gæti ég aldrei umflúið hönd Hins almáttuga, hvorki lífs né liðinn. 27Þess vegna ætla ég að láta lífið karlmannlega og sýna að ég var verður langra lífdaga. 28Með því að láta lífið fúslega og göfugmannlega fyrir hið háa og heilaga lögmál gef ég æskunni fagurt fordæmi.“
Að svo mæltu gekk hann rakleiðis að pyntingartólunum.
29En velvildin sem böðlarnir sýndu honum skömmu áður umhverfðist í óvild af því að þeim fannst það sem hann sagði fásinna. 30Er hann svo hafði nær verið barinn til bana stundi hann og sagði: „Drottinn, sem hefur hina heilögu þekkingu, veit að ég gat komist hjá dauða. Þess í stað er ég nú lostinn svipuhöggum og líð óbærilegar kvalir á líkama mínum. En Drottinn veit líka að sál mín ber þetta með gleði af því að ég óttast hann.“
31Á þennan hátt fór hann héðan af heimi og lét með dauða sínum ekki aðeins hinum ungu heldur stærstum hluta þjóðarinnar eftir göfugt dæmi að breyta eftir og hetjudáð að minnast.

6.10 Konur teknar höndum fyrir að umskera syni sína 1Makk 1.60-61
6.11 Fengu ekki að verja helgi dagsins sbr 1Makk 2.32+
6.12 Prófraunir til að aga 2Makk 5.17+
6.14 Drottinn dregur við sig að refsa öðrum þjóðum SSal 12.2,20-22
6.19 Dauði fremur en að neyta kjötsins 1Makk 1.62-36 sbr Heb 11.35

 

Önnur Makkabeabók 7

 

Píslarvætti móður og sjö sona hennar

1Svo bar einnig við að sjö bræður voru gripnir ásamt móður sinni. Konungurinn lamdi þá með svipum og ólum til að kúga þá til að eta svínakjöt sem lögmálið bannar. 2Einn bræðranna hafði orð fyrir þeim og sagði: „Hvers ætlar þú að verða vísari hjá okkur? Hvað ætlar þú að fræðast um? Við viljum fremur deyja en brjóta lög feðra okkar.“
3Konungur varð ævareiður og bauð mönnum sínum að glóðhita pönnur og katla. 4Jafnskjótt og þeir voru orðnir glóandi skipaði hann að skera tunguna úr þeim sem hafði talað, flá af honum höfuðleðrið og aflima hann fyrir augunum á bræðrum hans og móður. 5Þegar hann var með öllu ósjálfbjarga, en lífsmark enn með honum, skipaði konungur að hann skyldi lagður á eldinn og steiktur á pönnu. Er eiminn lagði upp af pönnunni hvöttu bræður hans og móðir hvert annað til að deyja hetjulega og sögðu: 6„Þetta sér Drottinn Guð og hann mun vissulega miskunna okkur eins og Móse boðaði í ljóði sínu sem fordæmir þá sem sneru baki við Drottni og segir: Hann mun aumkast yfir þjóna sína.“
7Þegar hinn fyrsti hafði látið lífið með þessum hætti var öðrum þeirra misþyrmt jafn háðulega. Húð og hár var slitið af höfði hans og síðan var hann spurður: „Ætlar þú að eta áður en þú verður limaður sundur?“ 8Hann svaraði á móðurmáli sínu: „Aldrei.“
Þá var hann pyntaður áfram á sama hátt og hinn fyrsti.
9Í andarslitrunum sagði hann: „Grimmdarhundur. Þú getur svipt okkur þessu lífi en konungur alheims mun reisa okkur upp að nýju til eilífs lífs af því að við deyjum fyrir lögmál hans.“
10Þá mátti hinn þriðji sæta sömu afarkostum. Þegar þeir ætluðu að skera úr honum tunguna teygði hann hana strax fram, rétti út hendurnar án alls hiks 11og sagði fullur hugmóðs: „Þetta þáði ég af himni. Lögmálsins vegna afsala ég mér þessu því að ég veit að Guð mun gefa mér það aftur.“
12Bæði konungurinn sjálfur og menn hans undruðust sálarstyrk unga mannsins og hve hann lét sér fátt um kvalirnar.
13Þegar hann hafði látið lífið pyntuðu þeir og misþyrmdu hinum fjórða á sama hátt, 14en er hann var að bana kominn sagði hann: „Þegar maður lætur lífið af mannavöldum er gott að geta fest von sína á fyrirheit Guðs um að hann muni reisa okkur upp að nýju. En þín bíður engin upprisa til lífs.“
15Nú kom röðin að þeim fimmta. Var hann leiddur fram og tekið að misþyrma honum. 16Leit hann á konunginn og sagði: „Þú hefur vald meðal manna þótt þú sért dauðlegur maður og þess vegna gerir þú það sem þér þóknast. En þú skalt ekki halda að Guð hafi sleppt hendi sinni af þjóð okkar. 17Bíddu bara. Þú munt sjá mikinn mátt hans og hann mun þjaka þig og niðja þína.“
18Eftir hann var hinn sjötti tekinn og er hann var að dauða kominn sagði hann: „Það er ekki allt sem sýnist. Við eigum skilið að líða á þennan hátt vegna þess að við höfum syndgað gegn Guði okkar. Það er undursamlegt sem orðið er. 19En ímyndaðu þér ekki að þú munir komast hjá hegningu fyrir að hefja baráttu gegn Drottni.“
20Móðirin var þó aðdáunarverðust og maklegt að hennar sé minnst með virðingu. Hún horfði á sjö syni bíða bana á einum og sama degi. Það bar hún af hugprýði vegna vonarinnar sem hún festi á Drottni. 21Af miklum kjarki stappaði hún stálinu í hvern og einn sona sinna á móðurmálinu og brýndi kvenlund sína með karlmannshuga. 22„Ég veit ekki hvernig þið urðuð til í lífi mínu,“ sagði hún við þá. „Ekki var það ég sem gaf ykkur líf og anda og ekki kom ég skipan á frumefnin sem þið eruð úr. 23Það er skapari heimsins sem mótar manninn þegar hann verður til og ákvarðar tilurð allra hluta. Þess vegna mun hann í miskunn sinni gefa ykkur anda og líf að nýju fyrir það að fórna ykkur fyrir lögmál sitt.“
24Antíokkus hélt að konan væri að sýna sér lítilsvirðingu og gera gys að sér. Hann lagði sig fram um að fá yngsta soninn, sem einn var eftir á lífi, til að snúa baki við lögmáli feðra sinna. Hann hét honum auði og hamingju og að taka hann í hóp vina sinna og skipa hann í valdastöðu ef hann léti að vilja sínum.
25En sveinninn lét sér fátt um finnast. Konungur kallaði þá á móður hans og hvatti hana til að gefa unga manninum þau ráð sem mættu verða honum til bjargar.
26Eftir langar fortölur samþykkti hún að gera þetta. 27Laut hún ofan að honum en það sem hún sagði á móðurmálinu var til háðungar grimmum harðstjóranum: „Sonur minn, vertu miskunnsamur við mig. Í níu mánuði bar ég þig undir hjarta og hafði þig á brjósti í þrjú ár. Ég annaðist þig og veitti þér allt sem þú þarfnaðist þar til þú náðir þessum aldri.
28Ég bið þig, barnið mitt: Líttu upp til himins og horfðu á jörðina og allt sem á henni er. Hugsaðu um það að Guð skapaði þetta af engu og að mannkynið allt varð til á sama hátt. 29Vertu óhræddur við þennan böðul. Gakktu fús út í dauðann svo að þú reynist bræðrum þínum samboðinn og ég fái þig aftur ásamt þeim fyrir Guðs náð.“
30Um leið og hún hafði lokið máli sínu sagði sveinninn: „Eftir hverju bíðið þið? Ekki hlýði ég boðum konungs. Ég hlýði boðum lögmálsins sem Móse miðlaði feðrum okkar. 31En þú, sem hefur beitt þér fyrir svo mörgu níðingsverki á Hebreum, munt ekki umflýja hegningu Guðs. 32Við líðum vegna okkar eigin synda. 33En þótt hinn lifandi Drottinn hafi um sinn beitt reiði sinni til að aga okkur og hirta mun hann að nýju sættast við þjóna sína. 34En þú, guðlausa afhrak og andstyggilegastur allra manna. Þú skalt ekki ofmetnast af fáfengilegum órum. Það eru þjónar himinsins sem þú leggur hendur á 35og enn hefur þú ekki umflúið dóm hins almáttuga og alskyggna Guðs. 36Bræður okkar máttu þola kvalir skamma hríð. Þeir hafa nú hlotið fyllingu fyrirheits Guðs um eilíft líf en þú munt hljóta maklega hegningu í dómi Guðs fyrir hroka þinn. 37Eins og bræður mínir legg ég nú líkama minn og sál í sölurnar fyrir lögmál feðranna og bið Guð að hann reynist brátt náðugur lýð sínum en að raunir og kvalir neyði þig til að viðurkenna að hann einn sé Guð. 38Ég bið þess að reiði Hins almáttuga, sem með réttu kom yfir alla þjóð okkar, muni sefast vegna þess sem henti mig og bræður mína.“
39Þessi háðsyrði gerðu konunginn svo æfan af reiði að hann lét leika drenginn enn verr en hina. 40Þannig lét einnig hann lífið óflekkaður og í fullu trausti til Guðs.
41Eftir dauða sonanna lét móðirin lífið.
42Þá er nóg sagt um blótveislurnar og hinar grimmilegu misþyrmingar.

7.6 Hann mun aumkast yfir þjóna sína sbr Slm 135.14
7.9 Reisa upp til eilífs lífs Dan 12.2; sbr 1Makk 12.44; Heb 11.35
7.18 Þjáningar vegna synda 2Makk 5.17+
7.19 Barátta gegn Drottni 2Kro 13.12; Post 5.39
7.22 Hvernig börnin urðu til Slm 139.13-15; Job 10.8-12; Préd 11.5
7.23 Drottinn mótaði manninn og ákvarðar alla hluti Jes 44.24 – gefur anda og líf Esk 37.5
7.32 Líðum vegna synda 2Makk 5.17+

 

Önnur Makkabeabók 8

 

Júdas Makkabeus gerir uppreisn

1Júdas, sem kallaður var Makkabeus, og menn hans fóru á laun um þorpin og söfnuðu um sig liði meðal landa sinna. Gengu sex þúsund, sem haldið höfðu trúnað við gyðingdóm, til liðs við þá.
2Þeir ákölluðu Drottin að líta til þjóðarinnar, sem var þjökuð af öllum, taka að sér musterið, sem guðlausir höfðu saurgað, 3og miskunna sig yfir hina eyddu borg sem var nær jöfnuð við jörðu. Báðu þeir Drottin að heyra blóð hinna myrtu sem hrópaði á hann 4og minnast þess að guðleysingjarnir hefðu myrt saklaus börn og lastað nafn hans. Báðu þeir hann að sýna að hann hataði vonskuna.
5Þegar Makkabeus hafði safnað liði varð ógerlegt fyrir heiðingjana að standa gegn honum því að reiði Drottins hafði snúist í miskunn. 6Er minnst varði réðst Júdas á borgir og þorp og brenndi þau. Hann vann hernaðarlega mikilvæga staði er hann hrakti þaðan fjölmenn lið 7en slíkar árásir gerði hann oftast með bestum árangri í skjóli náttmyrkurs. Hvarvetna fór orð af hreysti hans.

Ptólemeus sendir Níkanor til árásar á Júdas

8Þegar Filippusi varð ljóst að maður þessi styrkti smám saman stöðu sína og bar sífellt oftar hærri hlut skrifaði hann Ptólemeusi, landstjóra í Norður-Sýrlandi og Fönikíu, og bað hann að koma málstað konungs til hjálpar. 9Hann valdi strax Níkanor Patróklusson, sem var einn fremstur vina konungs, og setti hann yfir ríflega tuttugu þúsundir manna, sem voru af öllu hugsanlegu heiðnu þjóðerni, og sendi hann af stað til að eyða allri Gyðingaþjóðinni. Hann sendi Gorgías með honum en hann var gamalreyndur herforingi.
10Níkanor einsetti sér að afla tvö þúsund talentna, sem konungur skuldaði Rómverjum í skatt, með því að selja hertekna Gyðinga í ánauð. 11Lét hann þá þegar boð út ganga til borganna við ströndina og bauð þeim gyðinglega þræla til kaups. Bauð hann níutíu fyrir talentuna og var grunlaus um að refsing Hins almáttuga vofði yfir honum.

Júdas kemst að fyrirætlunum Níkanors

12Júdasi bárust fregnir af herför Níkanors og þegar hann hafði sagt liðsmönnum sínum frá því að senn mundi her að mæta 13flýðu þeir sem huglausir voru og þeir sem ekki báru traust til réttlætis Guðs og komu sér undan. 14Hinir seldu allt sem þeir áttu og sameinuðust í bæn til Drottins um að bjarga sér frá hinum guðlausa Níkanor, sem hafði selt þá í ánauð, áður en á hólminn væri komið, 15ef ekki þeirra vegna þá sakir sáttmálanna sem Drottinn hafði gert við feður þeirra og vegna hins háa og heilaga nafns sem þjóðin bar.
16Síðan safnaði Júdas mönnum sínum saman, en þeir voru sex þúsund talsins, og hvatti þá til að missa ekki móðinn, er þeir sæju þennan aragrúa heiðingja stefna gegn sér með illt í huga, heldur berjast ódeigir. 17Skyldu þeir hafa hugfast ofbeldið sem hinn heilagi staður hafði mátt þola af heiðingjunum og það hvílík svívirða og misþyrmingar höfðu gengið yfir borgina og valdið upplausn arfhelgra siða. 18„Þeir treysta á vopn sín og dirfsku,“ sagði hann, „en við treystum almáttugum Guði sem með einni bendingu megnar að eyða bæði þessu árásarliði og jafnvel öllum heimi.“
19Einnig minnti hann þá á hve feðrum þeirra var oft komið til hjálpar, svo sem þegar eitt hundrað áttatíu og fimm þúsund óvinum var eytt á tímum Sanheríbs, 20og hvernig stríðinu gegn Galötum í Babýloníu lyktaði. Þá höfðu einungis átta þúsund þeirra gengið til liðs við fjögur þúsund Makedóníumenn í orrustu. Makedóníumönnum féllust hendur en átta þúsund eyddu eitt hundrað og tuttugu þúsund óvinum með Guðs hjálp og tóku mikið herfang.

Júdas sigrar Níkanor

21Þegar Júdas hafði stappað í þá stálinu með orðum sínum voru þeir albúnir að deyja fyrir lögmálið og föðurlandið. Hann skipaði her sínum í fjórar fylkingar 22og setti bræður sína yfir hverja þeirra. Símon, Jósef og Jónatan höfðu hver fimmtán hundruð mönnum á að skipa 23og einnig Eleasar. Er Júdas hafði lesið fyrir þá upp úr hinni helgu bók gaf hann þeim herópið: „Með Guðs hjálp!“ Fór hann sjálfur fyrir fremstu hersveitinni og lagði til atlögu við Níkanor.
24Þar sem Hinn almáttugi var í liði með þeim felldu þeir meira en níu þúsund óvini, særðu og limlestu bróðurpartinn af her Níkanors og stökktu öllu liði hans á flótta. 25Þeir tóku peningana af þeim sem komnir voru til að kaupa þá sjálfa og ráku flótta óvinanna lengi en urðu að snúa aftur því að tíminn var naumur. 26Þetta var enda aðfangadagur hvíldardagsins og þess vegna gátu þeir ekki veitt þeim eftirför. 27Þegar þeir höfðu safnað vopnum óvinanna saman og fært þá úr herklæðum héldu þeir hvíldardaginn, fluttu Drottni þakkargjörð og fögnuðu og lofsungu honum sem bjargaði þeim þennan dag og auðsýndi þeim fyrsta tákn miskunnar sinnar.
28Að hvíldardeginum liðnum deildu þeir hluta herfangsins meðal fórnarlamba ofsóknanna, ekkna og munaðarleysingja. Afganginum skiptu þeir milli sín og barna sinna. 29Þegar því var lokið sameinuðust þeir í bæn og báðu miskunnsaman Drottin að taka þjóna sína að fullu í sátt.

Júdas sigrar Tímóteus og Bakkídes

30Síðar kom til bardaga milli þeirra og manna Tímóteusar og Bakkídesar. Felldu þeir meira en tuttugu þúsund af liði þeirra og tóku nokkrar rammlega víggirtar borgir herskildi. Þegar þeir skiptu miklu herfangi létu þeir fórnarlömb úr ofsóknunum, ekkjur, munaðarlausa og gamalmenni hafa til jafns við sig. 31Þeir söfnuðu vopnum óvinanna vandlega saman og komu þeim fyrir á hentugum stöðum en það sem eftir var af herfanginu fluttu þeir til Jerúsalem. 32Þeir deyddu foringja riddaraliðs Tímóteusar. Var það mesta hrakmenni sem gert hafði Gyðingum mikið til miska.
33Þegar þeir síðan fögnuðu sigri í borg feðranna brenndu þeir þá inni sem kveikt höfðu í musterishliðunum. Meðal þeirra var Kallistenes sem hafði falið sig í litlu húsi. Hann fékk þar makleg málagjöld fyrir ódæði sín.
34En erkihrakmennið Níkanor, sem kom með þúsund kaupmenn til að selja þeim Gyðinga, 35var nú auðmýktur með Guðs hjálp af þeim sem hann sjálfur taldi aumasta allra. Varð hann að afskrýðast veglegum skrúða sínum og flýja aleinn um landið þvert rétt eins og strokuþræll. En hann mátti sannarlega hrósa happi að komast þó til Antíokkíu eins og farið hafði fyrir her hans. 36Og þessi maður, sem ætlaði að ná inn fyrir öllum stríðsskattinum til Rómverja með því að selja fanga frá Jerúsalem, varð nú að tilkynna að Gyðingar ættu Guð að bandamanni og væru þeir ósigrandi af því að þeir hlýddu lögmálinu sem hann hafði sett þeim.

8.5 Júdas Makkabeus ósigrandi 1Makk 3.3-9
8.9 Tuttugu þúsundir sbr 1Makk 3.39
8.18 Treysta á Guð sem eyðir árásarliði Slm 20.8
8.19 Verndun á tímum Sannakeríbs 2Kon 19.35; Jes 37.36
8.20 Mikill sigur á óvinum 1Makk 3.18+
8.33 Brenndu þá sem kveikt höfðu í 1Makk 3.5+ ; sbr 2Makk 9.6+ - kveikt í musterishliðunum 2Makk 1.8
8.36 Áttu Guð að bandamanni sem ... 2Makk 3.36; 9.12; Dan 3.28-29; 4.31-35; 6.27-28; Júdt 5.6-21

 

Önnur Makkabeabók 9

 

Drottinn refsar Antíokkusi

1Um þessar mundir var Antíokkus á óskipulegu undanhaldi frá Persíu. 2Hann hafði ráðist inn í Persepólis, sem svo er nefnd, til að ræna musterið og ná borginni á sitt vald. Borgarbúar brugðust við og gripu til vopna til að verjast. Þeim tókst að reka Antíokkus á flótta svo að hann varð að hörfa aftur sneyptur.
3Er hann nálgaðist Ekbatana frétti hann hvernig liði Níkanors og Tímóteusar reiddi af. 4Varð hann ævareiður og ákvað að láta Gyðinga líða fyrir það og einnig fyrir tjónið sem Persepólisbúar ollu honum er þeir ráku hann á flótta. Skipaði hann ökumanni sínum að aka linnulaust alla leið í áfangastað.
Dómur himinsins var sannarlega með í þeirri för. Konungur sagði nefnilega í drambi sínu: „Ég skal gera Jerúsalem að fjöldagröf Gyðinga um leið og ég kem þangað.“ 5En Guð Ísraels, sem er alskyggn Drottinn, laust hann ósýnilegri og ólæknandi meinsemd. Hafði konungur vart sleppt þessum orðum þegar hann gat tæpast af sér borið fyrir iðrakvölum og innantökum.
6Var það fyllilega makleg hegning fyrir þann sem hafði pyntað aðra innvortis á hræðilegan hátt. 7Ekki rénaði þó dramb hans heldur varð hann sýnu hrokafyllri en áður, brann af heift gegn Gyðingum og bauð að enn hraðar skyldi ekið. En sem vagninn þaut áfram á fleygiferð hentist konungur skyndilega af honum og kom svo harkalega niður að hann gat hvergi á heilum sér tekið og verkjaði í hvert bein.
8Hann sem áður hafði sýnt svo ofurmannlegan hroka að hann taldi vald sitt slíkt að jafnvel bylgjur hafsins hlýddu honum og hann gæti vegið hæstu fjöll á reislu, var nú lostinn til jarðar og borinn á börum. Öllum mátti það vera augljós vottur um mátt Guðs. 9Þótt hann væri enn á lífi skriðu ormar úr augum hins óguðlega og holdið leystist af honum með mikilli þjáningu og kvöl. Fnykurinn sem lagði af rotnandi holdi hans varð hernum óbærilegur. 10Litlu fyrr hafði hann talið sig geta náð til stjarna himinsins. Nú gat enginn borið hann vegna daunsins sem af honum lagði.

Antíokkus gerir Drottni áheit

11En nú, þegar hann lá svona hörmulega á sig kominn, tók hroki hans að dvína og hann að ná áttum enda gengu kvalirnar, sem hegning Guðs olli, sífellt nær honum og án afláts. 12Þegar hann gat ekki einu sinni afborið lengur óþefinn af sjálfum sér sagði hann: „Það ber að auðmýkja sig fyrir Guði. Dauðlegur maður skyldi ekki telja sig jafningja Guðs.“
13Og þetta hrakmenni beindi bænum sínum og áheitum til þess Drottins sem hann gat ekki framar vænst neinnar miskunnar af. Hann hét því 14að lýsa borgina heilögu frjálsa en þangað hafði hann verið að hraða sér. Hann hafði einsett sér að jafna borgina við jörðu og breyta henni í fjöldagröf. 15Hann hafði ekki ætlað að unna Gyðingum legs í grafreit heldur að varpa þeim og börnum þeirra út til ætis fyrir villidýr og fugl. Nú hugðist hann veita þeim sömu réttindi og Aþenumönnum. 16Musterið heilaga, sem hann áður rændi, lofaði hann að prýða með fegurstu gjöfum og bæta margfalt fyrir áhöldin helgu og hann lofaði að greiða kostnað við fórnir úr eigin vasa. 17Auk þessa ætlaði hann að gerast Gyðingur og fara um alla heimsbyggðina og kunngjöra mátt Guðs.

Bréf Antíokkusar til Gyðinga

18En þar sem þrautirnar linuðust ekki hið minnsta, enda var dómur Guðs maklega á hann fallinn, örvænti hann um sig og sendi Gyðingum eftirfarandi bréf sem var í formi bænarskjals og hljóðaði svo:
19„Konungurinn og hershöfðinginn Antíokkus sendir þegnum sínum, æruverðugum Gyðingum, kærar kveðjur og óskir um heill og hamingju. 20Ef þið og börn ykkar eruð við góða heilsu og gengur allt að óskum þakka ég Guði það heils hugar með von festa á himni. 21Ég ligg hins vegar sjálfur sjúkur og minnist hrærðum huga þeirrar virðingar og velvildar sem þið auðsýnduð mér.
Þar sem ég varð fársjúkur á leiðinni heim frá Persíu tel ég nauðsynlegt að huga að sameiginlegu öryggi okkar allra. 22Að sönnu er ég ekki vonlaus um bata, er þvert á móti bjartsýnn á að komast á fætur. 23Ég minnist þess að faðir minn kaus sér eftirmann þegar hann hélt í herferðir til upplandanna 24til þess að menn vissu hverjum stjórnin hefði verið falin ef eitthvað óvænt henti eða ótíðindi bærust og þyrftu því ekki að óróast neitt. 25Þá er mér og ljóst að þeir sem stjórna grannríkjunum og landamærahéruðunum fylgjast grannt með gangi mála og því hverju fram vindur.
Þess vegna lýsi ég því yfir að Antíokkus sonur minn á að taka konungdóm eftir mig. Ég hef oft falið hann flestum ykkar á hendur og trúað ykkur fyrir honum þegar ég hef haldið til efri skattlandanna. Hjálagt bréf er ætlað honum.
26Ég áminni ykkur og bið um að minnast velgjörða minna við ykkur, bæði einstaklinga og þjóð, og auðsýna syni mínum sömu velvild og þið sýnið mér. 27Ég er sannfærður um að hann muni koma fram við ykkur af sömu mildi og mannúð og ég.“
28Þannig lauk þessi morðingi og guðlastari lífi sínu í framandi landi og mátti líða sárustu kvalir, líkar þeim sem hann bakaði öðrum, og bíða aumkunarverðasta dauðdaga á fjöllum uppi. 29Filippus, æskuvinur hans, fór með lík hans heim en af ótta við son Antíokkusar fór hann úr landi og hélt til Ptólemeusar Fílometors í Egyptalandi.

9.6 Makleg hegning v. 28; 8.33; 13.8; sbr 2Mós 21.23-25
9.8 Bylgjur hafsins hlýddu 2Makk 5.21
9.9 Sjá Jes 14.11; 66.24; Júdt 16.17; Sír 7.17; 19.3; Post 12.23
9.12 Enginn er jafningi Guðs sbr 2Makk 8.36+
9.28 Kvalir líkar þeim sem hann bakaði öðrum 2Makk 9.6+

 

Önnur Makkabeabók 10

 

Musterið endurvígt

1Makkabeusi og mönnum hans auðnaðist með Guðs hjálp að ná musterinu og borginni á sitt vald. 2Þeir rifu niður ölturun, sem útlendingarnir höfðu reist á torginu, og aðra helgidóma þeirra. 3Eftir að hafa hreinsað musterið reistu þeir þar nýtt altari. Með því að ljósta saman steinum tendruðu þeir eld til að nota er þeir færðu fórnir eftir tveggja ára hlé. Þeir brenndu og reykelsi, tendruðu lampana og lögðu skoðunarbrauðin fram.
4Að þessu loknu féllu þeir fram á jörðina og báðu Guð að þyrma þeim við slíkri ógæfu sem þeir höfðu mátt þola en aga þá vægilega ef þeir brytu af sér á ný og gefa þá ekki grimmum og guðlastandi heiðingjum á vald.
5Daginn sem þeir hreinsuðu musterið bar upp á sama dag og útlendingarnir höfðu saurgað það, tuttugasta og fimmta dag sama mánaðar sem er kíslevmánuður. 6Þeir héldu fagnaðarhátíð í átta daga sem líktist laufskálahátíðinni og minntust þess að þeir höfðu nýverið haldið þá hátíð í hellum á fjöllum uppi eins og villidýr. 7Þess vegna báru þeir laufstafi og laufgaða kvisti og pálmagreinar og lofsungu honum sem veitti þeim að hreinsa musterið sem honum var helgað. 8Í almennum kosningum var samþykkt að árlega skyldu allir Gyðingar halda þessa hátíð.
9Antíokkus, sem nefndur var Epífanes, hafði lokið lífi sínu svo sem frá var sagt.
10Nú segir frá því sem við kemur Antíokkusi Evpator, syni hins óguðlega, og í stuttu máli verður greint frá ógæfunni sem styrjaldir hans bökuðu.
11Þegar hann var sestur að ríkjum skipaði hann mann nokkurn, Lýsías að nafni, ráðsherra og gerði hann landstjóra í Norður-Sýrlandi og Fönikíu.

Ptólemeus Makron styttir sér aldur

12Ptólemeus, sem kallaður var Makron, kom fram við Gyðinga af slíkri sanngirni að til fyrirmyndar var, eftir alla þá rangsleitni sem þeir máttu þola. Hann lagði sig fram um að koma á friðsamlegum samskiptum við þá. 13Vegna þessa rægðu vinir konungsins hann við Evpator. Þeir notuðu hvert tækifæri til að kalla hann landráðamann fyrir það að hann fór frá Kýpur, sem Fílometor fól honum stjórn á, og gekk Antíokkusi Epífanes á hönd. Hann gat ekki lengur sinnt embætti sínu með sóma og stytti sér aldur með því að taka inn eitur.

Júdas sigrar Ídúmea

14Þegar Gorgías var orðinn landstjóri hafði hann um sig fjölmennan her málaliða og ól stöðugt á ófriði við Gyðinga. 15Enn fremur létu Ídúmear Gyðinga hafa fullt í fangi en þeir réðu nokkrum hernaðarlega mikilvægum virkjum. Ídúmear tóku þeim opnum örmum sem flúið höfðu frá Jerúsalem og gerðu sitt til að ala á ófriðnum.
16En menn Makkabeusar ákölluðu Guð og báðu hann að veita sér fulltingi í baráttunni. Síðan gerðu þeir árás á virki Ídúmea 17og náðu því á sitt vald eftir snarpa atlögu. Þeir brutu þá á bak aftur sem voru til varnar á virkismúrunum, stráfelldu alla sem fyrir þeim urðu og grönduðu ekki færri en tuttugu þúsundum. 18En níu þúsundum hið minnsta tókst að komast undan í tvo mjög rammbyggða virkisturna þar sem völ var á hverju því sem þurfti til að standast umsátur. 19Þar sem Makkabeus átti brýnum erindum að sinna annars staðar skildi hann Símon og Jósef eftir hjá þeim og auk þess Sakkeus og alla menn hans. Þetta lið allt var nógu máttugt til að sitja um virkisturnana.
20En menn Símonar létu tælast af ágirnd til að þiggja mútur af nokkrum hinna umsetnu. Gegn sjötíu þúsund drökmum leyfðu þeir nokkrum hópi manna að sleppa út. 21Þegar Makkabeusi bárust tíðindi um þetta til eyrna kallaði hann leiðtoga fólksins saman og ákærði menn Símonar fyrir að hafa selt bræður sína fyrir peninga með því að sleppa óvinum þeirra lausum.
22Hann lét taka þá af lífi sem gerst höfðu landráðamenn og vann báða virkisturnana skjótlega. 23Vopnin léku í höndum hans og honum heppnaðist allt. Felldi hann meira en tuttugu þúsundir manna í báðum virkjunum.

Júdas sigrar Tímóteus

24Tímóteus, sem hafði einu sinni áður beðið ósigur fyrir Gyðingum, hafði safnað um sig miklum her málaliða og auk þess fjölmennu riddaraliði frá Asíu. Kom hann nú til þess að hertaka Júdeu með vopnavaldi. 25En er hann nálgaðist sneru Makkabeus og menn hans sér til Guðs í bæn, stráðu ryki yfir höfuð sér, gyrtu sig hærusekkjum 26og létu sig falla fram á ásjónu sína á gráðurnar við altarið. Báðu þeir Guð að vera sér náðugur, vera óvinur óvina þeirra og veita mótstöðu mótstöðumönnum þeirra eins og segir í lögmálinu. 27Þegar þeir höfðu beðist fyrir tóku þeir vopn sín, héldu drjúgan spöl frá borginni og námu staðar er þeir nálguðust óvinina.
28Þegar í sólarupprás laust herjunum saman. Annar batt traust sitt við að Drottinn mundi veita farsæld og frækinn sigur en hinn lét stjórnast af geðofsa sínum og vígamóði í bardaganum.
29Er orrustan stóð sem hæst vitraðist andstæðingum Gyðinga sýn frá himni. Fimm glæstir menn sátu gullbeislaða fáka og fóru fyrir liði Gyðinga. 30Tveir þeirra tóku Makkabeus á milli sín og brugðu vopnum sínum fyrir hann svo að ekki varð sári á hann komið en sendu örvadrífu á óvinina og slöngvuðu eldingum yfir þá svo að þeir voru slegnir blindu og riðluðust, skelfingu lostnir. 31Þar féllu tuttugu þúsund og fimm hundruð fótgönguliðar og sex hundruð riddarar að auki.
32Sjálfur flýði Tímóteus til staðar sem heitir Geser sem er tryggilega varið virki. Þar var Kereas höfuðsmaður.
33Makkabeus og menn hans sátu hugdjarfir um borgina í fjóra daga. 34Þeir sem umsetnir voru reiddu sig á traustleika vígisins, létu ókvæðisorð dynja á Gyðingum og löstuðu Guð þeirra.
35En þegar lýsti af fimmta degi réðust tuttugu ungir menn úr liði Makkabeusar til atlögu upp á virkismúrinn. Þeir voru frá sér af reiði vegna lastmælanna, gengu hetjulega fram og felldu af mikilli grimmd hvern þann sem fyrir varð. 36Jafnframt notuðu aðrir tækifærið og ruddust annars staðar til uppgöngu í virkið og réðust á hina umsetnu á sama hátt. Þeir lögðu eld í turnana og brenndu guðlastarana lifandi á báli. Annar hópur hjó borgarhliðin niður, hleypti inn þeim hermönnum sem enn voru fyrir utan og náðu þeir borginni brátt á sitt vald. 37Tímóteus hafði falið sig í brunni og var hann drepinn og Kereas bróðir hans sem og Appollófanes.
38Þegar þetta var afstaðið vegsömuðu Gyðingar Drottin með lofsöngvum og þakkargjörð fyrir miklar velgjörðir hans við Ísrael og fyrir að hafa veitt þeim sigur.

10.3 Musterið hreinsað 2Makk 1.18+ - tendruðu eld 2Mós 30.7-8 – tendruðu lampana 3Mós 24.2-4 – lögðu skoðunarbrauðin fram 3Mós 24.5-9
10.10 Antíokkus, Evpator 1Makk 6.17
10.14 Gorgías 1Makk 3.38
10.16 Árás á virki Ídúmea 1Makk 5.1-8
10.25 Stráðu ryki yfir höfuð sér 2Makk 14.15; Jós 7.6; 1Sam 4.12; Esk 27.30; Job 2.12; Neh 9.1 – gyrtu sig hærusekkjum 1Mós 37.34; 2Sam 3.31; 2Kon 6.30
10.26 Óvinur óvina þeirra 2Mós 23.22
10.29 Vitrun 2Makk 2.21+
10.33 Umsátur um Geser 1Makk 13.43-48

 

Önnur Makkabeabók 11

 

Júdas Makkabeus sigrar Lýsías

1Lýsías ráðsherra, sem var frændi konungs og forráðamaður hans, undi því sem orðið var hið versta. Skömmu síðar 2safnaði hann um áttatíu þúsund manna liði og hélt með það, auk alls riddaraliðs síns, gegn Gyðingum. Ætlaði hann að byggja Jerúsalem Grikkjum, 3gera musterið skattskylt eins og helgidóma heiðingja og bjóða æðstaprestsembættið hæstbjóðanda á hverju ári. 4Ekki leiddi hann hugann að mætti Guðs, svo sigurviss var hann með fótgöngulið sitt, sem taldi tugþúsundir, og þúsundir riddara og áttatíu fíla.
5Þegar hann var kominn inn í Júdeu og nálgaðist Bet Súr, sem er öflugt vígi, nærri eitt hundrað og fimmtíu skeiðrúm frá Jerúsalem, settist hann um staðinn. 6Þegar Makkabeus og menn hans fréttu að hann væri sestur um virki þeirra sneru þeir sér ásamt öllum lýðnum til Drottins, ákölluðu hann harmþrungnir og grátandi og báðu hann að senda góðan engil til að bjarga Ísrael.
7Makkabeus sjálfur bjóst fyrstur vopnum og eggjaði menn sína að fylgja sér út í háskann til hjálpar bræðrum þeirra. Þeir lögðu allir sem einn fúslega af stað.
8Ekki voru þeir komnir langt frá Jerúsalem er þeim birtist riddari sem fór fyrir liði þeirra. Bar hann hvít klæði og sveiflaði gullnum vopnum. 9Þá vegsömuðu þeir allir samhuga miskunnsaman Guð og fylltust slíkum kjarki að þeir voru þess albúnir að ráðast ekki einungis á menn heldur örgustu villidýr og járnmúra. 10Sóttu þeir síðan fram fylktu liði ásamt himneskum liðsmanni sínum sem Drottinn hafði sent þeim í miskunn sinni. 11Steyptu þeir sér yfir óvinina eins og ljón og felldu ellefu þúsundir fótgönguliða þeirra og að auki sextán hundruð riddara og hröktu alla hina á flótta. 12Flestir þeirra sem komust undan voru sárir og vopnlausir og Lýsías sjálfur bjargaðist með háðulegum hætti.

Lýsías semur frið við Gyðinga

13En hann var ekki óskynsamur og þegar hann velti óförum sínum fyrir sér rann upp fyrir honum að Hebrear mundu ósigrandi af því að almáttugur Guð berðist með þeim. Kom hann boðum til þeirra 14og tókst að telja þá á að ganga að samkomulagi sem um margt var sanngjarnt. Hann sannfærði þá einnig um að hann gæti komið konunginum til að verða vinur þeirra.
15Makkabeus samþykkti allt sem Lýsías stakk upp á því að þannig taldi hann hag allra best borgið enda hafði konungur fallist á allar óskir Gyðingum til handa sem Júdas hafði lagt skriflega fyrir Lýsías.

Bréf Lýsíasar til Gyðinga

16Bréfin, sem Gyðingar höfðu fengið frá Lýsíasi, voru á þessa leið:
„Lýsías sendir öllum Gyðingum kveðju. 17Jóhannes og Absalon, fulltrúar ykkar, hafa afhent mér eftirfarandi bréf og hafa óskað eftir samþykki þess sem þar er farið fram á. 18Öllu sem nauðsyn bar til að skjóta til konungs hef ég greint honum frá. Hann hefur samþykkt það sem mögulegt var.
19Ef þið haldið áfram að vera hliðhollir stjórninni mun ég hér eftir leitast við að stuðla að heill ykkar. 20Um einstök efnisatriði hef ég falið áðurnefndum mönnum og mínum eigin fulltrúum að ráðgast nánar við ykkur. 21Lifið heilir.
Ritað á tuttugasta og fjórða degi mánaðar Seifs Korintumanna árið eitt hundrað fjörutíu og átta.“

Bréf konungs til Lýsíasar

22Bréf konungsins var sem hér segir:
„Antíokkus konungur sendir Lýsíasi bróður sínum kveðju. 23Allt frá því að faðir vor var hafinn til guðanna hefur það verið ósk vor að þegnar ríkisins geti setið að sínu í friði. 24Vér höfum fregnað að Gyðingar uni illa þeirri breytingu til grískra siða sem faðir vor reyndi að koma á og að þeir vilji fremur halda sínum háttum og hafi óskað að fá að lifa að siðum sínum og lögum.
25Þar sem það er vilji vor að þessi þjóð fái einnig lifað í friði, þá kunngjörum vér hér með að musteri Gyðinga skuli afhent þeim og að þeim sé heimilt að lifa að hætti og siðum feðra sinna. 26Gerið því svo vel að senda þeim boð um velvilja vorn og semja frið við þá svo að þeim verði hugarhægra og þeir geti glaðir gengið að störfum sínum.“
27Bréf konungs til þjóðarinnar var á þessa leið:
„Antíokkus konungur sendir öldungaráði Gyðinga og öðrum Gyðingum kveðju. 28Ef ykkur vegnar vel þá er það að vorum óskum. Sjálfir erum vér við góða heilsu. 29Menelaus hefur tjáð oss að þið viljið snúa heim og sinna eigin málum. 30Þeim sem snúa heim fyrir þrítugasta xantíkkusmánaðar eru hér með tryggð eftirtalin réttindi: 31Gyðingum er frjálst að fara að eigin forskriftum um fæðu og að lögum sínum að fyrri hætti. Enginn þeirra skal heldur í neinu gjalda fyrir drýgðar yfirsjónir. 32Vér höfum einnig sent Menelaus til að koma ró á hugi ykkar. 33Lifið heilir.
Ritað árið eitt hundrað fjörutíu og átta, fimmtánda xantíkkusmánaðar.“

Bréf Rómverja til Gyðinga

34Rómverjar sendu þeim einnig bréf sem hljóðar þannig:
„Kvintus Memmíus og Títus Maníus, fulltrúar Rómverja, senda þjóð Gyðinga kveðju. 35Við samþykkjum það sem Lýsías frændi konungsins hefur veitt ykkur. 36Það sem hann áleit rétt að bera undir konunginn þurfið þið að ræða og senda okkur hið fyrsta boð svo að við getum lagt erindið þannig fyrir að það komi ykkur sem best. Við erum á förum til Antíokkíu. 37Sendið því til okkar svo skjótt sem verða má einhverja sem geta greint okkur frá afstöðu ykkar. 38Með heillaóskum.
Ritað árið eitt hundrað fjörutíu og átta, fimmtánda xantíkkusmánaðar.“

11.6 Engil til að bjarga 2Mós 14.19; 23.20; 33.2; sbr Tob 5.4
11.8 Vitrun 2Makk 2.21+
11.27 Öldungaráð 1Makk 12.35
11.29 Menelaus 2Makk 4.23-25

 

Önnur Makkabeabók 12

 

Morðið á Gyðingum í Joppe

1Þegar nú samkomulag þetta hafði verið gert fór Lýsías aftur til konungsins og Gyðingar tóku til við jarðyrkju sína. 2En nokkrir af herstjórunum í héruðunum, svo sem Tímóteus og Appollóníus Genneusson, Híeronýmus og Demofón og auk þeirra Níkanor, sem var foringi liðs Kýpurmanna, unnu þeim ekki friðar.
3Í Joppe frömdu íbúarnir hræðilegt ódæði. Þeir buðu Gyðingum, sem þar bjuggu, ásamt konum sínum og börnum, út á skip sem þeir lögðu til. Létu þeir sem þetta væri vinarbragð 4og væru allir borgarbúar einhuga í þessu. Gyðingar þekktust boðið alls ugglausir og í þeirri trú að hinir vildu stuðla að friði. En er komið var á haf út vörpuðu Joppebúar Gyðingunum fyrir borð og drekktu þeim, fyllilega tvö hundruð manns.
5Þegar Júdas frétti um þetta grimmdarverk á löndum sínum kallaði hann menn sína saman, 6ákallaði Guð, hinn réttláta dómara, og réðst síðan á morðingja bræðra sinna. Hann lagði eld að höfninni í Joppe að næturþeli, brenndi skip Joppebúa og felldi þá sem þangað höfðu flúið.
7En þar sem borgin var rammlega lokuð hvarf hann frá en ætlaði sér að snúa aftur og gereyða öllum Joppebúum. 8Þegar hann svo frétti að íbúar Jabne ætluðu sér að fara eins með þá Gyðinga sem þar höfðu sest að 9gerði hann árás á íbúa Jabne í skjóli náttmyrkurs, kveikti í höfninni og skipaflotanum og sást bjarminn af eldinum alla leið til Jerúsalem sem er tvö hundruð og fjörutíu skeiðrúm þaðan.

Sigurför Júdasar um byggðir Gíleaðs

10Þegar Júdas og menn hans voru komnir um níu skeiðrúm þaðan á leið til bardaga við Tímóteus réðust meira en fimm þúsund Arabar á þá ásamt fimm hundruð riddurum. 11Tókst með þeim snörp orrusta en með hjálp Guðs veitti Júdasi og mönnum hans betur og sigruðu þeir hirðingjana sem báðu Júdas um frið. Hétu þeir því að gefa þeim bæði búfé og liðsinna þeim á annan hátt. 12Samdi Júdas frið við þá enda taldi hann að þeir gætu orðið að gagni á margan hátt. Eftir að þetta var bundið fastmælum héldu þeir aftur til tjalda sinna.
13Júdas réðst einnig á borg sem kallast Kaspín. Var hún víggirt rammgerum múrum og bjuggu þar menn af ýmsu þjóðerni. 14Íbúarnir báru slíkt traust til styrks múranna og þess að þeir hefðu nógar vistir að þeir ögruðu liðsmönnum Júdasar, gerðu gys að þeim, létu svívirðingar dynja og guðlöstuðu. 15En Júdas og menn hans ákölluðu hinn mikla Drottin veraldar sem felldi múra Jeríkó á tímum Jósúa án múrbrjóta og vígvéla. Gerðu þeir síðan ákaft áhlaup á virkisvegginn. 16Að vilja Guðs náðu þeir borginni á sitt vald. Þeir ollu slíku blóðbaði að stöðuvatn í grenndinni, sem var um tvö skeiðrúm á breidd, var að sjá sem fyllt af því blóði sem út í það rann.

Júdas vinnur sigur á her Tímóteusar

17Þaðan héldu þeir sjö hundruð og fimmtíu skeiðrúma leið og komu til Karax, til Gyðinga sem kallaðir eru Tóbíanar. 18Þeir rákust ekki á Tímóteus á þeim slóðum því að hann var farinn þaðan og hafði ekki haft erindi sem erfiði. En vel búið setulið hafði hann skilið eftir á stað nokkrum.
19Tveir af foringjum Makkabeusar, Dósíþeus og Sósípater, réðust á virkið og felldu alla sem Tímóteus hafði skilið eftir, meira en tíu þúsund.
20Eftir þetta skipti Makkabeus liði sínu í herflokka, setti þeim fyrirliða og fór gegn Tímóteusi sem hafði á að skipa hundrað og tuttugu þúsund fótgönguliðum og tvö þúsund og fimm hundruð riddurum.
21Er Tímóteus frétti að Júdas nálgaðist sendi hann konur, börn og farangur til borgar sem nefnist Karníon. Sá staður er mjög erfiður aðkomu og nær ógerlegt að sitja um hann vegna þess hve þröng gljúfur liggja að honum. 22Óðara en fyrsta herdeild Júdasar kom í ljós greip ótti og ofboð óvinina vegna vitrunar frá alskyggnum Guði. Í skelfingu flýðu þeir hver um annan þveran svo að margir urðu sárir af vopnum félaga sinna og hlutu svöðusár hver af annars sverðsoddum.
23Júdas rak flóttann af mikilli ákefð og felldi þessa illvirkja, hartnær þrjátíu þúsundir manna. 24Tímóteus sjálfur féll í hendur manna Dósíþeusar og Sósípaters en tókst með lævísum fortölum að sleppa heill á húfi. Hann kvaðst hafa foreldra og bræður margra þeirra á valdi sínu og yrði þeim ekki þyrmt ef illa færi fyrir sér. 25Þegar hann hafði sannfært þá með miklum fortölum sínum og heitið að senda ættingja þeirra heim, heila á húfi, létu þeir hann lausan til að tryggja öryggi bræðra sinna.

Aðrir sigrar Júdasar

26Síðan réðst Júdas á Karníon og Atergatishofið og felldi tuttugu og fimm þúsund manns. 27Þegar hann hafði unnið þessa staði og eytt þeim hélt hann til virkisbæjarins Efron þar sem margt fólk af ýmsu þjóðerni bjó. Vaskir ungir menn tóku sér stöðu við virkisveggina og vörðust hetjulega. Auk þess var þar inni fyrir mikið af vígvélum og kastvopnum.
28Þegar Júdas og menn hans höfðu ákallað Hinn máttuga, sem mylur herstyrk óvina með krafti sínum, náðu þeir borginni og felldu þar um tuttugu og fimm þúsund manns.
29Þaðan héldu þeir og réðust á Skýtópólis sem er sex hundruð skeiðrúm frá Jerúsalem. 30Gyðingar, sem þar bjuggu, báru hins vegar að íbúar borgarinnar hefðu komið vel fram við þá og auðsýnt þeim velvilja þegar að þeim kreppti. 31Þökkuðu liðsmenn Júdasar þeim fyrir þetta og hvöttu þá til að sýna þjóð þeirra áfram vinsemd. Sneru þeir síðan aftur til Jerúsalem en komið var að viknahátíðinni.

Júdas sigrar Gorgías

32Eftir hvítasunnu, en svo kallast hátíðin, héldu þeir gegn Gorgíasi herstjóra í Ídúmeu. 33Hann fór í gegn þeim með þrjú þúsund fótgönguliða og fjögur hundruð riddara. 34Í bardaganum féllu fáeinir Gyðingar.
35Dósíþeus nokkur, sem var hraustur riddari í liði Bakenors, náði taki á skikkju Gorgíasar og dró hann með sér af öllum kröftum því að hann ætlaði að ná mannhundinum lifandi. En einn af þrakísku riddurunum þeysti að honum og hjó handlegginn af honum svo að Gorgías komst undan til Marísa.
36Menn Esdríasar höfðu lengi barist og voru orðnir örmagna. Júdas ákallaði því Drottin og bað hann að birtast sem bandamaður þeirra og leiðtogi í stríðinu. 37Hann hóf síðan upp herópið með því að syngja lofsöngva á móðurmálinu, réðst fyrirvaralaust á menn Gorgíasar og hrakti þá á flótta.

Bæn fyrir föllnum í orrustu

38Júdas leiddi herinn þaðan til Adúllamborgar en þar sem sjöundi dagurinn fór í hönd helguðu þeir sig að venju og héldu þar hvíldardaginn heilagan. 39Daginn eftir, þegar brýnt var orðið að annast um fallna og búa þeim leg hjá ættingjum sínum í gröfum feðranna, héldu Júdas og menn hans út til að gera þetta. 40Þá fundu þeir innan klæða á öllum líkunum helgigripi, tengda skurðgoðunum í Jabne, sem lögmálið bannar Gyðingum að hafa á sér. Varð öllum ljóst að þetta var ástæða þess að þeir féllu. 41Lofuðu þeir allir Drottin, sem er réttlátur dómari og leiðir hið hulda í ljós, 42og báðu hann að fyrirgefa þessa synd algjörlega. Og göfugmennið Júdas áminnti fólkið um að halda sig frá syndum þegar það sæi nú með eigin augum til hvers synd hinna föllnu hafði leitt.
43Hann lét alla sína menn skjóta saman. Urðu það tvö þúsund drökmur silfurs sem Júdas sendi til Jerúsalem til að kosta syndafórn. Þetta gerði hann vel og skynsamlega því að hann hafði upprisuna í huga. 44Ef hann hefði eigi vænst þess að hinir föllnu risu upp hefði það verið óþarfi og heimska að biðja fyrir látnum. 45Auk þess leit hann svo á að dýrleg umbun biði þeirra sem sofna í trú. Heilög og fróm hugsun er það. Þess vegna lét hann færa sáttarfórn fyrir hina látnu til að þeir leystust frá syndum sínum.

12.15 Múrar Jeríkó Jós 6
12.40 Helgigripir tengdir skurðgoðum sbr 5Mós 7.25

 

Önnur Makkabeabók 13

 

Menelaus líflátinn

1Árið eitt hundrað fjörutíu og níu fengu Júdas og menn hans fregnir af því að Antíokkus Evpator sækti fram gegn Júdeu með mikinn her. 2Með honum var Lýsías, forráðamaður hans og ráðsherra. Hvor um sig leiddi grískan her, um eitt hundrað og tíu þúsund manna fótgöngulið, fimm þúsund og þrjú hundruð riddara, tuttugu og tvo fíla og þrjú hundruð sigðvagna.
3Menelaus gekk og til liðs við þá og eggjaði Antíokkus af mikilli undirhyggju, ekki til að bjarga föðurlandinu heldur í von um að hljóta æðsta embætti. 4En Konungur konunganna gerði Antíokkus reiðan þessu varmenni enda gerði Lýsías honum ljóst að Menelaus væri valdur að allri ógæfunni. Skipaði konungur að farið skyldi með hann til Beröu og hann líflátinn eins og þar var siður.
5Þar er fimmtíu álna hár turn, fullur ösku. Er hann búinn hringlaga búnaði að innanverðu sem hvarvetna hallar inn að öskunni. 6Þeir sem gerst hafa sekir um rán í helgidómum eða aðra stórglæpi eru færðir þangað og þeim hrundið ofan svo að þeir tortímist. 7Á þennan hátt beið lögmálsbrjóturinn bana og hlaut ekki einu sinni greftrun. 8Það var maklegt, svo oft sem hann hafði svívirt altarið sem ber heilagan eld og ösku, að hann skyldi nú verða að mæta dauða sínum í ösku.

Orrustan við Módein

9En konungurinn var kominn með þeim villimannlega ásetningi að láta Gyðinga líða enn meira en þeir höfðu liðið í stjórnartíð föður hans. 10Þegar Júdas varð þessa áskynja hvatti hann fólkið til að ákalla Drottin dag og nótt um að liðsinna þeim nú fremur en nokkru sinni. 11Nú ætti að svipta þá lögmálinu, föðurlandinu og musterinu helga. Því skyldi Drottinn innilega beðinn um að láta ekki fólkið, sem svo skömmu áður hafði öðlast nýja lífsvon, falla í hendur guðlausra heiðingja.
12Þetta gerðu allir einum huga. Í þrjá daga féllu þeir fram og ákölluðu miskunnsaman Drottin um hjálp, föstuðu og grétu án afláts. Síðan stefndi Júdas þeim saman og hvatti menn sína til að vera viðbúna.
13Júdas ræddi við öldungana í einrúmi og afréð eftir það að leggja af stað með Guðs hjálp og láta sverfa til stáls áður en her konungsins héldi inn í Júdeu og ynni borgina. 14Hann fól skapara heimsins að ráða úrslitum og hvatti menn sína til að berjast hraustlega fram í dauðann fyrir lögmálið, musterið, borgina, föðurlandið og almannaheill. Sló hann síðan upp herbúðum hjá Módein. 15Hann gaf mönnum sínum herópið: „Sigur frá Guði“, og um nóttina réðst hann á tjald konungs með valið lið hraustustu ungra manna. Í herbúðunum felldi hann nær tvö þúsund manns og lagði auk þess að velli besta fílinn og stjórnanda hans. 16Fylltu þeir loks herbúðirnar ótta og ofboði og héldu þaðan sigri hrósandi 17rétt fyrir dögun. Þetta lánaðist vegna þess að Drottinn verndaði Júdas og studdi.

Friðarsamningar Antíokkusar V við Gyðinga

18Þegar konungur hafði fengið að kenna á dirfsku Gyðinga á þennan hátt freistaði hann þess að ná borgunum á sitt vald með brögðum. 19Hann sótti að Bet Súr, sem var öflugt vígi Gyðinga, en var ítrekað hrakinn aftur og beið algjöran ósigur. 20Júdas sendi nauðþurftir til þeirra sem umsetnir voru.
21Ródókus, sem var í liði Gyðinga, ljóstraði þessu upp við óvinina. En það komst upp um hann og var hann tekinn höndum og fangelsaður.
22Konungur gerði að nýju samkomulag við íbúa Bet Súr. Handsalaði hann þeim fyrirheit um frið, hélt á braut, 23réðst á menn Júdasar og bar lægri hlut. Hann frétti að Filippus, sem orðið hafði eftir í Antíokkíu til að stýra málum ríkisins, væri orðinn óður. Hraus konungi hugur við og kallaði Gyðinga til sín og gekk að kröfum þeirra og vann eið að því að breyta réttlátlega við þá. Eftir sættirnar færði hann fórn og auðsýndi musterinu virðingu og örlæti. 24Hann tók hlýlega á móti Makkabeusi og skipaði Hegemonídes herstjóra yfir landið frá Ptólemais til Gerra.
25Þá hélt hann til Ptólemais. Íbúarnir þar létu í ljós óánægju sína yfir samkomulaginu. Voru þeir í slíku uppnámi að þeir vildu fá samninginn ógiltan. 26Þá kvaddi Lýsías sér hljóðs og bar fram varnir eftir bestu getu. Hann sannfærði þá og sefaði og gerði þá samþykka. Hélt hann síðan aftur til Antíokkíu. Þannig fór um herför konungs og undanhald.

13.2 Her Antíokkusar 1Makk 6.28-30
13.3 Menelaus 2Makk 4.23-25
13.8 Makleg hegning 2Makk 9.6+
13.10-11 Svipta þá lögmálinu ... og musterinu helga 2Makk 6.1-11; 1Makk 1.44-51
13.15 Besta fílinn og stjórnanda hans 1Makk 6.43-46
13.23 Heiðingi færir fórn 2Makk 3.35; sbr 8.36+
13.26 Lýsías sbr 11.13-21

 

Önnur Makkabeabók 14

 

Alkímus rægir Júdas

1Þrem árum síðar fréttu Júdas og menn hans að Demetríus Selevkusson væri kominn inn á Trípólíhöfn með mikinn her og flota 2og hefði náð völdum í landinu með því að myrða Antíokkus og Lýsías, forráðamann hans.
3Maður nokkur, Alkímus að nafni, sem fyrrum var æðsti prestur en hafði sjálfviljugur saurgað sig á tímum trúarofsóknanna, vissi sem var að hann átti hvorki kost á að halda embætti sínu né hljóta að nýju aðgang að hinu heilaga altari. 4Hann gekk því fyrir Demetríus konung árið eitt hundrað fimmtíu og eitt og færði honum gullsveig og pálmaviðargrein og auk þess nokkrar ólífuviðargreinar sem siður var að hafa í musterinu. Frekar hafðist hann ekki að þann dag.
5En hann fékk tækifæri sem hentaði fáránlegu ráðabruggi hans þegar Demetríus kvaddi hann á fund með ráðgjöfum sínum og innti hann eftir því hvernig Gyðingar væru sinnaðir og hvað þeir hygðust fyrir. Því svaraði hann:
6„Gyðingar þeir sem nefnast Hasídear og Júdas Makkabeus er foringi fyrir ala stöðugt á ófriði og æsa til uppreisnar. Þeir varna því að kyrrð komist á í ríkinu. 7Þess vegna er ég hingað kominn þó að ég hafi verið sviptur þeirri tign sem ég á arfborinn rétt á, það er æðstaprestsembættinu, 8að ég er framar öðru knúinn af hugheilli umhyggju fyrir málefnum konungs og einnig fyrir hag landa minna. Því að það er fyrir fávisku þessara áðurnefndu manna sem þjóðin öll má líða stórum. 9Þegar þú, konungur, hefur kannað þetta allt náið bið ég þig að taka land okkar og aðþrengda þjóð að þér af þeim milda mannkærleika sem þú auðsýnir öllum. 10En meðan Júdas er á lífi er óhugsandi að friður komist á í ríkinu.“

Demetríus sendir Níkanor til árásar á Júdas

11Þegar hann hafði lokið þessum málflutningi sínum varð hægara fyrir aðra vini konungs, sem höfðu horn í síðu Júdasar, að æsa Demetríus gegn honum. 12Setti konungur Níkanor, sem verið hafði yfir fílaliðssveitinni, herstjóra yfir Júdeu og sendi hann þangað 13með skriflega tilskipun um að deyða Júdas, tvístra liði hans og veita Alkímusi embætti æðsta prests við musterið mikla.
14En heiðingjar þeir sem flúið höfðu fyrir Júdasi í Júdeu gengu hópum saman til liðs við Níkanor þar sem þeir héldu að ógæfa Gyðinga og ófarir yrðu þeim til farsældar.
15Þegar Gyðingar fréttu af herferð Níkanors og að heiðingjar byggjust til árásar stráðu þeir mold yfir sig og ákölluðu hann sem valdi þjóðina sér til eignar að eilífu og opinberast ætíð til að annast eign sína. 16Að boði fyrirliða síns tóku þeir sig þegar upp þaðan og lenti þeim saman við óvinina nærri þorpinu Dessaú.
17Símon, bróðir Júdasar, lagði til orrustu við Níkanor en fór um sinn halloka vegna óvæntra aðgerða óvinanna. 18Samt hikaði Níkanor við að berjast til blóðugra úrslita vegna þess orðs sem fór af hugprýði Júdasar og manna hans og hve hraustlega þeir börðust fyrir föðurland sitt. 19Þess vegna sendi hann Poseidoníus, Teodótus og Mattatías til þess að koma á friðarsamningum.
20Eftir ítarlegar umræður ræddi Níkanor einnig við lið sitt. Er í ljós kom að einhugur hafði náðst var samningur samþykktur.
21Dagur var tiltekinn er fyrirliðarnir skyldu hittast og ræða saman einslega. Kom vagn frá hvorri hlið og var stólum komið fyrir. 22Júdas kom vopnuðum mönnum fyrir á hentugum stöðum og áttu þeir að vera viðbúnir ef óvinirnir gripu skyndilega til illvirkja. Þeir réðu síðan ráðum sínum í bróðerni.
23Níkanor settist síðan að í Jerúsalem og gerði ekkert illt af sér heldur sendi á brott mannfjöldann sem hann hafði safnað að sér. 24Hann hafði Júdas stöðugt nærri sér og hafði hann í miklum metum. 25Hann hvatti Júdas til að kvænast og eignast börn. Festi hann ráð sitt, kom sér vel fyrir og naut lífsins.

Níkanor snýst gegn Júdasi

26Alkímus varð þess var hve vel fór á með þeim Júdasi og Níkanor. Fór hann til fundar við Demetríus konung og hafði með sér samningana sem þeir höfðu gert með sér. Bar hann að Níkanor hefði reynst ótrúr ríkinu því að hann hefði ákveðið að gera Júdas, sem sæti á svikráðum við konungdæmið, að eftirmanni sínum.
27Þessi rógburður mannhundsins gerði konungi heitt í hamsi og í bræði sinni ritaði hann Níkanor bréf. Lýsti hann óánægju sinni með samkomulagið og skipaði honum að senda Makkabeus tafarlaust í böndum til Antíokkíu. 28Þegar þessi boð bárust Níkanor varð hann stórlega miður sín og undi því illa að rjúfa samkomulag við mann sem í engu hafði út af því brugðið. 29En þar sem ekki var unnt að breyta gegn vilja konungs beið hann hentugs færis til að koma þessu fram með brögðum.
30Makkabeus varð var við að Níkanor varð æ fálátari við hann og ókurteisari en hann var vanur og tók að gruna að kuldi hans í viðmóti vissi ekki á gott. Safnaði hann því saman allmörgum manna sinna og fór í felur fyrir Níkanor.
31Þegar Níkanor varð þess áskynja að Júdas hafði séð listilega við honum hélt hann inn í hið mikla og heilaga musteri, einmitt þegar prestarnir voru að bera fram þær fórnir sem bar, og skipaði þeim að framselja manninn. 32Þeir sóru og sárt við lögðu að þeir hefðu ekki hugmynd um hvar sá væri sem hann leitaði að. 33Þá rétti Níkanor hægri hönd sína í áttina að musterinu og sór með þessum orðum: „Ef þið framseljið mér ekki Júdas í fjötrum skal ég jafna þennan helgidóm Guðs við jörðu og rífa altarið niður og reisa síðan Díonýsosi veglegt musteri í hans stað.“
34Að þessu mæltu fór hann. En prestarnir hófu hendur sínar til himins og ákölluðu hann sem verndar þjóð okkar og sögðu: 35„Drottinn, þótt þú þarfnist einskis hefur þér þóknast að setja musteri nærveru þinnar meðal okkar. 36Heilagur Drottinn, æðri öllu heilögu. Varðveit þú nú óflekkað og að eilífu þetta hús sem fyrir skömmu var hreinsað.“

Rasís deyr fyrir þjóð sína

37Níkanor var vísað á Rasís nokkurn sem var í hópi öldunganna í Jerúsalem. Hann unni löndum sínum, hafði mjög góðan orðstír og var svo góðviljaður að hann var kallaður „faðir Gyðinga“. 38Í upphafi trúarofsóknanna hafði hann verið ákærður fyrir gyðinglega trú sína og hætt bæði lífi og limum fyrir staðfestu sína og tryggð við gyðingdóm.
39Þar sem Níkanor vildi gera lýðum ljóst hve mjög hann fjandskapaðist við Gyðinga sendi hann meira en fimm hundruð hermenn til að taka Rasís höndum 40enda áleit hann sig gera þeim mikið til miska með því að handtaka þennan mann.
41Er hermennirnir voru að því komnir að hertaka turninn reyndu þeir að sprengja upp dyrnar að forgarðinum. Kölluðu þeir á eld til að kveikja í dyrunum. Þar sem Rasís átti sér enga undankomuleið beindi hann sverði að sjálfum sér 42því að hann vildi heldur deyja hetjulega en falla í hendur óguðlegra og sæta auðmýkingu sem ekki hæfði svo göfugum manni. 43En svo skjótt bar þetta að að sverðið geigaði og þar sem hersveitin var að ryðjast inn um dyrnar stökk hann óttalaus upp á virkismúrinn og varpaði sér djarfur ofan á mannfjöldann fyrir neðan. 44Fólkið vék sér í flýti undan svo að hann féll niður á autt svæði sem myndaðist milli þess. 45Hann var enn á lífi og æstur af reiði. Stóð hann upp og hljóp í gegnum mannþyrpinguna, þótt blóðið rynni í lækjum og sárin væru mikil, og nam staðar uppi á þverhníptum hamri. 46Þó að honum væri næstum blætt út dró hann sjálfur innyflin út, tvíhenti þau og varpaði þeim á mannfjöldann. Ákallaði hann Drottin lífs og anda og bað hann að gefa sér það að nýju sem hann nú missti. Með þessum hætti lét hann lífið.

14.15 Mold 2Makk 10.25+
14.42 Fremur deyja hetjulega en ... 1Sam 31.4

 

Önnur Makkabeabók 15

 

Grimmilegar fyrirætlanir Níkanors

1Níkanor frétti að Júdas og menn hans hefðust við í byggðum Samaríu. Afréð hann að ráðast á þá á hvíldardegi því að það taldi hann sér hættulaust. 2En þeir Gyðingar sem neyddir höfðu verið til að ganga í lið með honum sögðu: „Deyddu þá fyrir alla muni ekki með slíkri grimmd og villimennsku heldur skalt þú hafa þann dag í heiðri sem Hinn alskyggni hefur heiðrað og gert helgari öllum öðrum dögum.“ 3Þá spurði varmennið: „Er sá Drottinn til á himni sem hefur boðið að halda skuli hvíldardag?“ 4Þeir svöruðu: „Það er sjálfur lifandi Drottinn sem ríkir á himnum sem bauð að halda skyldi sjöunda daginn heilagan.“ 5Þá sagði hann: „En ég ríki líka á jörðu og fyrirskipa að gripið skuli til vopna og farið að fyrirmælum konungs.“
Ekki tókst honum þó að framkvæma þetta svívirðilega áform sitt.

Júdas býr lið sitt til orrustu

6Af yfirtaks drambi hafði Níkanor einsett sér að reisa sér minnismerki með því að sigra Júdas og menn hans. 7En Júdas treysti því alltaf fullkomlega og vonardjarfur að Drottinn kæmi sér til hjálpar. 8Hvatti hann því menn sína til að missa ekki móðinn frammi fyrir árás heiðingjanna heldur hafa hugfast hvernig himinninn hjálpaði þeim áður og vera vongóða um að Hinn almáttugi mundi einnig nú veita þeim hjálp og sigur. 9Hann hughreysti þá með orðum úr lögmálinu og spámönnunum og minnti þá á orrustur sem þeir höfðu unnið. Þetta jók þeim dirfsku.
10Þegar hann hafði vakið með þeim bardagamóð gaf hann þeim fyrirmæli og lýsti einnig fyrir þeim sviksemi heiðingjanna og eiðrofum. 11Hann vígbjó hvern og einn manna sinna, ekki aðeins með skjöldum og spjótum heldur umfram allt með vel völdum hvatningarorðum. Loks sagði hann þeim draum sem var alls trausts verður og létti öllum stórlega í sinni.
12Sýnin sem honum hafði vitrast var þessi: Ónías, sem fyrrum var æðsti prestur, göfugur maður og góður, kurteis og vinsamlegur í fasi, hógvær og einkar vel máli farinn, og hafði frá bernsku lagt rækt við fegurstu dygðir, stóð með upplyftar hendur og bað fyrir allri þjóð Gyðinga. 13Auk hans birtist Júdasi maður, stórfenglegur ásýndum, hvítur fyrir hærum og tignarlegur og frá honum stafaði undursamlegum áhrifamætti. 14Ónías mælti: „Maður þessi, sem ann bræðrum sínum og biður stöðugt fyrir þjóðinni og borginni helgu, er Jeremía, spámaður Guðs.“ 15Þá hefði Jeremía rétt fram hægri höndina og fengið Júdasi sverð af gulli og sagt um leið: 16„Taktu við þessu heilaga sverði. Það er Guðs gjöf og með því munt þú fella óvinina.“
17Fögur orð Júdasar hresstu alla enda voru þau vel fallin til að stappa í menn stálinu og vekja karlmennskuþrótt í hjörtum ungra manna. Ákváðu þeir að setja ekki upp herbúðir heldur ganga djarflega fram og berjast til úrslita því að borgin, trúarbrögðin og musterið voru í hættu. 18Áhyggja þeirra af konum, börnum, bræðrum og ættingjum lá þeim léttar í rúmi því að þeir óttuðust umfram allt um musterið heilaga.
19Þeir sem skildir höfðu verið eftir í borginni voru einnig mjög kvíðnir yfir lyktum orrustunnar sem háð var utan borgarinnar.

Ósigur og dauði Níkanors

20Allir biðu úrslitanna í ofvæni. Óvinirnir höfðu fylkt liði og skipað hernum til árásar með riddaraliði beggja vegna fylkinganna og var fílum komið fyrir á mikilvægum stöðum. 21Þegar Makkabeus sá hinn mikla herafla sem stefndi að og hve vel hann var búinn alls kyns vopnum og hve ólmir fílarnir voru, hóf hann hendur sínar til himins og ákallaði Drottin sem gerir máttarverk. Hann vissi líka vel að sigur byggist ekki á vopnum heldur veitir Drottinn, samkvæmt ráðsályktun sinni, þeim sigur sem hann verðskulda. 22Og hann bað með þessum orðum: „Þú, Drottinn, sendir engil þinn á dögum Hiskía konungs í Júdeu og hann felldi nær hundrað áttatíu og fimm þúsund í herbúðum Sanheríbs konungs. 23Send því nú, þú sem ríkir á himni, góðan engil til að fara fyrir oss og valda ótta og ofboði. 24Lát þú voldugan arm þinn fella þá sem sækja með guðlasti fram gegn heilögum lýð þínum!“ Þannig lauk hann bæn sinni.
25Nú sóttu menn Níkanors fram með lúðrablæstri og herópum 26en Júdas og menn hans héldu gegn óvinunum með ákalli og bænum.
27Þeir börðust með höndunum en ákölluðu Guð í hjörtum sínum og felldu ekki færri en þrjátíu og fimm þúsund menn. Þeir fögnuðu stórum yfir augljósri opinberun Guðs. 28Þegar orrustunni lauk og þeir yfirgáfu vígvöllinn fagnandi báru þeir kennsl á Níkanor þar sem hann lá fallinn í öllum herklæðum.
29Urðu þá köll mikil og kliður og vegsömuðu þeir Drottin á móðurmáli sínu. 30Og Júdas, sem ávallt hafði með sál og líkama barist feti framar öðrum fyrir hag landa sinna og varðveitt ást á löndum sínum frá æsku, bauð að höfuð Níkanors og armleggur með öxl skyldi afhöggvinn og fluttur til Jerúsalem.
31Er þangað kom kallaði hann landa sína saman og lét prestana raða sér fyrir framan altarið. Hann lét og sækja setuliðið í virkið 32og sýndi höfuð hins illa Níkanors og armlegg guðlastarans sem hann hafði rétt með gífuryrðum gegn heilögum bústað Hins almáttuga. 33Hann lét skera tunguna úr hinum guðlausa Níkanor og bauð að kasta henni fyrir fugla í smábitum og hengja handlegginn fyrir framan musterið sem refsingu fyrir heimsku hans.
34Allir lofuðu Drottin, sem hafði opinberað sig, beindu lofsöngvum til himins og sögðu: „Lofaður sé hann sem varðveitt hefur musteri sitt óflekkað.“ 35Þá lét Júdas festa höfuð Níkanors á virkisvegginn sem augljóst tákn fyrir alla um hjálp Drottins.
36Í almennum kosningum var ákveðið að láta þessa dags alls eigi óminnst heldur halda upp á þrettánda dag tólfta mánaðarins, sem heitir adar á sýrlenskri tungu, en það er dagurinn fyrir Mordekaídaginn.

Niðurlag

37Þannig fór fyrir Níkanor. Og þar sem borgin hefur æ síðan verið á valdi Hebrea læt ég frásögninni hér lokið. 38Hafi ég sagt vel frá og farið skipulega með efnið hefur mér orðið að ósk minni. Sé hún illa skrifuð og miður gerð gat ég ekki gert betur.
39Óblandað vín er óhollur drykkur og sömuleiðis eintómt vatn. En vín vatni blandið er lystugasti drykkur og veldur vellíðan. Á sama hátt ræður efnisskipan því hvort sagan vekur þeim ánægju sem hana lesa. Hér skal svo staðar numið.

15.1 Árás á hvíldardegi 1Makk 2.35+
15.3 Varmennið 2Makk 8.34
15.10 Sviksemi heiðingjanna 2Makk 5.23; 12.3; 1Makk 6.62; sbr 1Makk 1.30+
15.11 Draumur sbr 2Makk 2.21+
15.12 Ónías æðstiprestur 2Makk 3.10,31-34; 4.5
15.14 Jeremía 2Makk 2.1-8
15.20 Fílarnir á mikilvægum stöðum 1Makk 6.35,38
15.22 Engill á dögum Hiskía 2Makk 8.19+
15.27 Opinberun Guðs 2Makk 2.21+
15.32 Hinn illi Níkanor sbr 2Makk 8.34; 13.3
15.35 Festa höfuð Níkanors 1Makk 7.47

 

Makkabeabækurnar eru fengnar
af vefnum www.biblian.is

Copyright - www.torah.is

 

torah@internet.is