Shalom

 

Hver sem er áhugasamur um Ísrael vill örugglega kunna, þó ekki sé nema, örlítið í hebresku, hinu forna biblíulega tungumáli sem hefur fæðst fram að nýju í Ísrael.

 

Margt kristið fólk er líka að uppgötva að hebreskan er tenging til róta trúar okkar og að þekking á hebresku getur aukið skilning okkar á Biblíunni. Hvert orð er þrungið merkingu sem þýðingar geta oft ekki komið rétt til skila, þótt nákvæmar séu.

 

 

 

Eitt fyrsta orðið sem þú lærir þegar þú heimsækir Ísrael er shalom. Það er vegna þess að það er notað til að heilsa og kveðja.

 

Þegar þú hugsar út í það, er mjög fallegt að óska einhverjum „friðar“ og ef shalom þýddi aðeins friður, væri það samt mjög gott. En í hebresku máli hefur orðið shalom mun fleiri merkingar en orðið „friður“ á okkar máli (friðarástand, ró eða næði).

 

Orðið shalom er t.d. notað um vináttu, heilbrigði, öryggi og hjálpræði.

 

Við skulum líta á nokkur biblíuvers sem sýna aðrar merkingar hebreska orðsins shalom - merkingar sem hafa kannski ekki alltaf komið vel í gegn í öðrum þýðingum. Í sumum versunum sérðu kannski ekki tenginguna en orðið shalom er til staðar í hebreskunni þegar nánar er skoðað.

 

„Hann er sá sem byggja mun musteri Drottins, og hann mun tign hljóta, svo að hann mun sitja og drottna í hásæti sínu, og prestur mun vera honum til hægri handar, og friðarþel (shalom) mun vera milli þeirra beggja.“  (Sak. 6.13)

 

„Hlaup þú nú á móti henni og seg við hana: Hvernig líður þér (hefurðu shalom), hvernig líður manni þínum (hefur maður þinn shalom), hvernig líður drengnum (hefur drengurinn shalom)? Hún svaraði: Okkur líður vel (við höfum shalom).“

(2. Kon. 4.26)

 

„Enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum sakir reiði þinnar, ekkert heilt (shalom) í beinum mínum sakir syndar minnar.“  (Sálm. 38.4)

 

„Þegar sterkur maður, alvopnaður, varðveitir hús sitt, þá er allt í friði (shalom), sem hann á.“  (Lúk. 11.21)

 

„...vil ég gefa ávöxt varanna segir Drottinn. Friður (shalom), friður (shalom) fyrir fjarlæga og fyrir nálæga. Ég lækna hann!“

(Jes. 57.19)

 

„Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður (shalom) á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.“  (Lúk. 2.14)

 

„Biðjið Jerúsalem friðar (shalom-hjálpræðis), hljóti heill þeir, er elska þig.“  (Sálm. 122.6)

Yeshua (Jesús) læknaði fólk og sagði því að fara í friði (shalom).

 

Þegar Yeshua grét yfir Jerúsalem hryggðist hann yfir því að þeir skildu ekki að koma hans þýddi shalom (hjálpræði) fyrir þá.

„Ef þú hefðir aðeins vitað á þessum degi, hvað til friðar (shalom-hjálpræðis) heyrir! En nú er það hulið sjónum þínum.“  (Lúk. 19.42)

Þegar Yeshua reið inn í Jerúsalem söng lýðurinn:

 „Blessaður sé sá sem kemur, konungurinn, í nafni Drottins. Friður (shalom) á himni og dýrð í upphæðum!“  (Lúk. 19.38)

Áður en Yeshua dó, talaði hann shalom til lærisveina sinna (Jóh. 14.27; 16.33) og eftir upprisu hans höfðu lærisveinarnir læst að sér af ótta við leiðtogana. Yeshua  kom og stóð meðal þeirra og sagði: „Shalom sé með yður!“ (Jóh. 20.19-20) Þetta sagði hann þrisvar sinnum við þá. (líka vers 21 og 26).

 

Í Postulasögunni er talað um hjálpræðið sem fagnaðarboðin um shalom fyrir Yeshua HaMashiach (Jesú Krists)(Post. 10.36), Í Efesusbréfinu boðun shalom (Efes. 2.17) og fagnaðarboðskap shalom (Efes. 6.15; Róm. 10.15). Því er lýst yfir í 1. Þess. 5.23 að shalom Guð helgi manninn allan - anda, sál og líkama.

 

Eins og þú sérð er shalom mjög sveigjanlegt orð og getur átt við um mun meira en frið sem „friðarástand, ró eða næði.“

 

Hugtakið shalom er oft notað til að lýsa efnislegri velgengni sem tengist sáttmálafyrirheitum Guðs eða birtingu nærveru Guðs.

 

Spádómlega er shalom mikill hluti hins messíanska fyrirheitis um framtíðarblessanir sem veita hjálpræði á öllum stigum. Það er shalom sem Ísrael er heitið og nær svo líka til heimsins. Spámennirnir rituðu um komandi shalom sem myndi leiða til endurreisnar í samböndum, andlegrar endurreisnar, loka styrjalda og deilna og til líkamlegrar huggunar.

Guð lofar Júda og Ísrael:

 „Sjá, ég legg við hana umbúðir og græðslulyf og lækna þá og opna þeim gnægð stöðugrar hamingju (shalom og öryggis)... Og ég hreinsa þá af allri misgjörð þeirra, er þeir hafa drýgt í móti mér...

...til þess að borgin verði mér til frægðar, til ununar, til lofs og dýrðar hjá öllum þjóðum jarðarinnar, sem spyrja munu öll þau gæði, er ég veiti þeim, og skelfast munu og titra vegna allra þeirra gæða og allrar þeirrar hamingju (shalom) , sem ég veiti henni.  (Jer 33.6-9)

 

Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir okkur?

 

Hið æðsta shalom sem við getum átt núna er það shalom sem finnst í samfélagi okkar við Guð, sem birtist andlega og efnislega.

 

Í grunninn er shalom hjálpræðisins dyr sem Drottinn hefur opnað okkur til að ganga í gegnum svo að við getum notið shalom hans á allan hátt. Í Messíasi okkar, Yeshua, var okkar shalom (hjálpræði) keypt, ef við veljum að taka við því. Páll segir:

 „Því að í honum þóknaðist Guði að láta alla fyllingu sína búa og láta hann koma öllu í sátt við sig, öllu bæði á jörðu og himnum, með því að semja frið (shalom) með blóði sínu úthelltu á krossi.“  (Kól. 1.19-20)

Síðan getum við líka fundið raunverulegt andlegt og tilfinningalegt shalom. Páll segir okkur hvernig það gerist:

 „Verið ávallt glaðir í Drottni. Ég segi aftur: Verið glaðir. Ljúflyndi yðar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður (shalom) Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú. Að endingu, bræður, allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það. Þetta, sem þér hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín, það skuluð þér gjöra. Og Guð friðarins (shalom)  mun vera með yður.“  (Fil 4.4-9)

Shalom er djúpur friður og sátt í Drottni, þar sem nærvera hans með þér er shalom sem ber hinn trúaða yfir tímabundnar kringumstæður.

 

Á öllum sviðum er það þessi yfirnáttúrulegi „shalom sem er æðri öllum skilningi“ sem heimurinn verður oft vitni að og það dregur menn til shalom Guðsins. Nærvera hans gefur yfirnáttúrulegan frið (shalom), vellíðan, fullvissu, öryggi og von um að allt fari vel. Þess konar shalom getur aðeins komið frá Guði og er ekki hægt að töfra fram í eigin mætti.

 

Raunverulegur innri friður (shalom) og sátt er ekki eitthvað sem heimurinn getur veitt fólki. Þetta verður að koma frá skapara okkar, endurlausnara og kennara - Guði alheimsins, Guði Abrahams, Ísaks og Jakobs, Guði Ísraels.

 

Heimurinn hrópar eftir shalom og Yeshua, Messías okkar, er svarið til að yfirvinna hina innri baráttu sem svo margir upplifa í dag. Hann er okkar shalom.

 

Þegar Yeshua talaði við lærisveina sína um tímann þegar hann færi burt til að vera með föðurnum, lofaði hann þeim shalom. Hann sagði að andinn heilagi myndi koma til að vera huggari þeirra og kennari. Hann myndi minna þá á allt það sem hann hafði sagt þeim. (Jóh. 14.25-26) Síðan sagði hann:

 Shalom læt ég yður eftir, minn shalom gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“ (Jóh. 14.27)

Það er áhugavert að hann ítrekaði við þá að hann gæfi þeim ekki frið eins og heimurinn gefur, frið sem er tímabundinn og mótsagnakenndur, heldur lofaði hann þeim shalom Guðs sem er kjarni hjálpræðis, heildar, rósemi og sáttar. Hver gæti beðið um meira?

 

Ekki bíða lengur. Ef shalom Drottins, sem er æðri öllum skilningi stendur okkur til boða, láttu þá þennan dag vera þinn dag til að upplifa þessa stórkostlegu gjöf Drottins.

 

 

(Úrdráttur og endursögn úr fréttabréfi Bridges for Peace)

 

Íslensk þýðing: Sigrún Einarsdóttir

Birt með leyfi höfundar

 

 

Copyright - www.torah.is

torah@internet.is

 

     
 


Sigrún Einarsdóttir & Ragnar B. Björnsson © 2008
www.torah.is / torah@internet.is