Vorhátíðir - 4. hluti
Sigrún Einarsdóttir tók saman 

 Fjórða vorhátíðin – Shavuot (viknahátíðin)

 Viknahátíðin

Fjórða og síðasta af vorhátíðunum sem ég ætla að tala um hér
er viknahátíðin eða Shavuot.

Í 23. kafla 3. Mósebókar, versi 9-11, segir:

-9- YHWH talaði við Móse og sagði: -10- Mæl þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þá er þér komið í land það, sem ég mun gefa yður, og þér skerið þar upp korn, skuluð þér færa presti fyrsta kornbundinið af uppskeru yðar. -11- Og hann skal veifa kornbundininu frammi fyrir YHWH, svo að það afli yður velþóknunar, daginn eftir hvíldardaginn skal presturinn veifa því.

Við vorum búin að sjá að uppfylling þessarar hátíðar frumgróðans var þegar Yeshua birtist þeim upprisinn. Hann var frumgróði allra manna.

Hann er okkar æðsti prestur og var sjáanleg veififórn
þegar hann var risinn upp frá dauðum
og með upprisu sinni var hann frumgróði allra manna.

Það sem gerðist líka þann dag var m.a. það að Yeshua andaði á lærisveinana og sagði: Meðtakið Heilagan anda. (Jóh. 20.19-22)

Þetta gerðist á degi frumgróðans sem er fyrri frumgróði
(og er frumgróði bygguppskerunnar). 

 Ég trúi því að þetta hafi verið eins og
fyrri frumgróði Heilags anda fyrir þá
og frá þessum degi átti svo að telja fram að viknahátíðinni
sem er seinni frumgróði (og er frumgróði hveitiuppskerunnar.)

3. Mósebók 23.15-17
-15- Þér skuluð telja frá næsta degi eftir hvíldardaginn, frá þeim degi, er þér færið bundinið í veififórn. Sjö vikur fullar skulu það vera. -16- Til næsta dags eftir sjöunda hvíldardaginn skuluð þér telja fimmtíu daga. Þá skuluð þér færa YHWH nýja matfórn. -17- Frá bústöðum yðar skuluð þér færa tvö brauð til veififórnar. Skulu þau vera gjörð af tveim tíundupörtum úr efu af fínu mjöli. Þau skulu vera bökuð með súrdeigi frumgróðafórn YHWH til handa.

Þeir áttu að færa fyrsta kornbundinið af bygginu sem veififórn fyrsta daginn eftir hvíldardaginn í páskavikunni og byrja að telja frá þeim degi 50 daga fram að viknahátíðinni og færa þá frumgróðafórn af hveitiuppskerunni.

Lesum líka um viknahátíðina í 5. Mósebók.

5. Mós. 16.9-11
-9- Sjö vikur skalt þú telja. Frá þeim tíma, er sigðin fyrst var borin að kornstöngunum, skalt þú byrja að telja sjö vikur. -10- Þá skalt þú halda YHWH Elóhím þínum viknahátíðina með sjálfviljagjöfum þeim, er þú innir af hendi, eftir því sem YHWH Elóhím þinn hefir blessað þig. -11- Og þú skalt gleðjast frammi fyrir YHWH Elóhím þínum, þú og sonur þinn og dóttir þín, þræll þinn og ambátt þín og levítinn, sem er innan borgarhliða þinna, og útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan, sem með þér eru, á þeim stað, sem YHWH Elóhím þinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar. (Það er Jerúsalem).

 

5. Mós. 16.16-17
-16- Þrem sinnum á ári skal allt þitt karlkyn birtast frammi fyrir YHWH Elóhím þínum á þeim stað, sem hann mun velja: á hátíð hinna ósýrðu brauða, á viknahátíðinni og á laufskálahátíðinni. Og fyrir YHWH skal enginn koma tómhentur. -17- Hver og einn skal koma með það, er hann getur látið af hendi rakna, eftir þeirri blessun, sem YHWH Elóhím þinn hefir veitt þér.

Þá skulum við líta á nokkra atburði sem áttu sér stað á þessum tíma
og nú getum við heyrt Orðið kallast á, „Gamla“ testamentið og hið nýja. 

Förum í 19. kafla 2. Mósebókar.

Móse hafði leitt Ísraelsmenn út af Egyptalandi
og þarna voru þeir komnir að Sínaífjalli í eyðimörkinni.

2. Mós 19.10-11
-10- Þá mælti YHWH við Móse: Far til fólksins og helga þá í dag og á morgun, og lát þá þvo klæði sín, -11- og skulu þeir vera búnir á þriðja degi, því að á þriðja degi mun YHWH ofan stíga á Sínaífjall í augsýn alls lýðsins.

Þeir undirbjuggu sig með þvotti og helgun
því YHWH ætlaði að vitja þeirra.

Förum nú yfir í Postulasöguna.

Yeshua var búinn að segja postulunum að bíða kyrrir uns þeir íklæddust krafti frá hæðum (Lúk. 24.49). Í Postulasögunni 1.8 segir hann: „En þér munuð öðlast kraft , er heilagur andi kemur yfir yður og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“  

Í Post. 1.14 sjáum við svo að þau voru öll með einum huga stöðug í bæninni, karlar og konur á meðan þau biðu eftir krafti
og skírn Heilags anda.

Þau tóku sig til hliðar í bæn og helgun og biðu YHWH.

Aftur yfir í 2. Mósebók:

Í 2. Mósebók 19.18 sjáum við þegar YHWH birtist lýðnum...

2. Mós. 19.18-20
-18- Sínaífjall var allt í einum reyk, fyrir því að YHWH sté niður á það í eldinum. Mökkurinn stóð upp af því, eins og reykur úr ofni, og allt fjallið lék á reiðiskjálfi. -19- Og lúðurþyturinn varð æ sterkari og sterkari. Móse talaði, ogElóhím svaraði honum hárri röddu. -20- Og YHWH sté niður á Sínaífjall, á fjallstindinn. Og YHWH kallaði Móse upp á fjallstindinn, og gekk Móse þá upp.

YHWH sté niður á fjallið og Móse gekk upp til hans.

Lítum svo á þetta í Postulasögunni:

Post 2.1-4
-1- Þá er upp var runninn hvítasunnudagur, voru þeir allir saman komnir.

(Við köllum þennan dag hvítasunnudag og kom það mun síðar inn í mál okkar, en orðið sem notað er í grískunni er pentecost og þýðir fimmtugasti, hebreska orðið er shavuot og þýðir vikur.)

 -2- Varð þá skyndilega gnýr af himni eins og aðdynjanda sterkviðris og fyllti allt húsið, þar sem þeir voru. -3- Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvern og einn þeirra. -4- Þeir fylltust allir heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla. 

Eldtungur

Heilagur andi Elóhíms gekk niður til þeirra.

2. Mós 24.12
Drottinn sagði við Móse: Stíg upp á fjallið til mín og dvel þar, og skal ég fá þér steintöflur og lögmálið og boðorðin, er ég hefi skrifað, til þess að þú kennir þeim.

2. Mós 31.18
Þegar Drottinn hafði lokið viðræðunum við Móse á Sínaífjalli, fékk hann honum tvær sáttmálstöflur, steintöflur, ritaðar með fingri Guðs.

Lögmál YHWH var skráð á steintöflur á Sínaífjalli
með fingri Guðs...

En við úthellingu Heilags anda var lögmál YHWH
skráð á hjartaspjöld okkar af anda Guðs og því enn nær okkur.

Eins og Jeremía segir:

Jer. 31.33
-33- En í þessu skal sáttmálinn fólginn vera, sá er ég gjöri við Ísraels hús eftir þetta segir YHWH: Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra, og ég skal vera þeirra Elóhím og þeir skulu vera mín þjóð.

Eins og Páll segir: 2. Kor 3.3
-3- Þér sýnið ljóslega, að þér eruð bréf Messíasar, sem vér höfum unnið að, ekki skrifað með bleki, heldur með anda lifanda Elóhíms, ekki á steinspjöld, heldur á hjartaspjöld úr holdi.

 

Boðorðin tíu voru gefin á Sínaífjalli
50 dögum eftir að þeir fóru í gegnum Rauðahafið...

  Heilögum anda var úthellt með eldi og táknum
50 dögum eftir upprisu
Yeshua.

GT: Þrjú þúsund manns dóu eftir að hafa óhlýðnast YHWH og reist gullkálfinn til að tilbiðja þar sem þeim leiddist biðin eftir Móse niður af fjallinu þar sem hann var frammi fyrir Elóhím að sækja lögmálið... (2. Mós 32.28)

 

NT: Þrjú þúsund meðtaka fagnaðarerindið og verða hólpnir...

Post. 2.41
En þeir, sem veittu orði hans viðtöku, voru skírðir, og þann dag bættust við um þrjú þúsund sálir.

Brauðin tvö með súrdeigi (3. Mós. 23.15-17)

 Tvö brauð

Á páskahátíðinni mátti ekkert súrdeig finnast hjá Ísraelsmönnum og ósýrða brauðið er táknmynd upp á Yeshua sem engin synd fannst hjá.

Aftur á móti eru þessi tvö súrdeigsbrauð táknmynd upp á okkur, þ.e. annað upp á Ísraelsmenn (söfnuðinn sem fæddist við Sínaí) og hitt upp á söfnuð þeirra sem trúa á Yeshua (söfnuðinn sem fæddist í Síon á hvítasunnudag.)

Við erum syndugur lýður þótt við séum heilög frammi fyrir YHWH. Það er súrdeig í lífi okkar en í Yeshua erum við réttlætt frammi fyrir YHWH og erum frátekinn lýður, honum til handa.

Þessi tvö brauð sýna söfnuðina tvo sem renna saman í eitt í Yeshua.

Á hvítasunnudag (viknahátíðinni) bættust þrjú þúsund sálir
við söfnuðinn sem Yeshua er höfuðið á.

Tímasetning YHWH er engin tilviljun. Á viknahátíðinni komu Gyðingar til Jerúsalem til að færa fórnir sínar og þarna voru þeir samankomnir þegar heilögum anda var úthellt og urðu vitni að hræringunum
og heyrðu fagnaðarerindið boðað af mikilli djörfung.

Þótt brauðin tvö væru úr súrdeigi sá YHWH þau sem heilaga fórn. Við syndgum ennþá margvíslega frammi fyrir Elóhím þrátt fyrir að við trúum á Yeshua en þar sem við elskum hann og leitumst eftir því að þjóna honum af öllu hjarta og hlýða boðum hans, sér hann okkur sem réttlát. Við réttlætumst í Yeshua, fyrir blóð lambsins sem var hið ósýrða brauð.

Þegar við tökum á móti Yeshua inn í líf okkar fáum við allt sem hann er, en svo fer það eftir því hvað hann fær mikið af okkur hversu mikið af honum birtist í lífi okkar.
 

Róm. 12.1-2
-1- Því brýni ég yður, bræður, að þér, vegna miskunnar Elóhíms, bjóðið fram sjálfa yður að lifandi, heilagri, Elóhím þóknanlegri fórn. Það er sönn og rétt guðsdýrkun af yðar hendi. -2- Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Elóhíms, hið góða, fagra og fullkomna.

 Shalom,
Sigrún

 


 

 

Copyright - www.torah.is

torah@internet.is