Vertu ekki feiminn áhorfandi...
Þegar ég var í gagnfræðaskóla stjórnaði ég, spilaði í og marséraði með
þrjú hundruð manna lúðrasveit. Sveitin okkar í gagnfræðaskólanum var
kölluð „Fighting Highlanders“ (Baráttuglaðir Hálendingar). Við fylgdum
hinni svokölluðu skosku hefð, vorum með sekkjapípuleikara, trumbuslátt,
sverðdansara og klæddumst búningum svo við litum út eins og verðir í
Buckingham höllinni, og það sem mikilvægast er – við vorum í
skotapilsum! Á lokaári mínu tók Don Huckle við sem tónlistarstjórnandi
yfir deildinni. Hann átti bakgrunn í gönguskipun flokka með tommur og
herlúðra. Það var ekki auðvelt að fá þrjú hundruð manns til að hreyfa
sig og spila í fullkomnum takti hver við annan. Trumbuslátturinn var
lykillinn. Það var undir slagverkshópnum komið að hafa taktinn í lagi.
Slagverkshlutinn var með fjölmörg mynstur og takta í gangi í einu sem
varð að taktföstum hjartslætti sem hreyfði líkamann í takti og
samhljómi. Þegar við höfðum fengið alla til að hreyfa sig í takt við
sama trommuleikarann var unun á að horfa. Það er eitthvað mjög sérstakt
við það að fylgjast með hópi fólks sem hreyfir sig í sama takti, eins og
það væri einn risastór líkami.
YHWH hefur kallað Ísraelsbörn til þess að vera einn líkami sem gengur í
takti við hann. Þess vegna hefur hann blessað okkur með Torah til þess
að hjálpa hinum ýmsu limum líkamans að hreyfa sig á yndislegan hátt sem
einn líkami. Það er ákveðinn taktur sem fylgir því að halda Torah. Í
raun má segja að Torah sé eins og hljóðfall sem samanstendur af
fjölmörgum slögum sem saman verða að einum mögnuðum hjartslætti.
Fyrst er hinn daglegi taktur Tamid eða hinnar stöðugu
fórnar. Á morgnana og á kvöldin áttu Ísraelsbörn að fórna lömbum og
reykelsi á altarinu sem fórn til YHWH. Síðan er hinn vikulegi
taktur sex vinnudaga sem er rofinn með sabbatinum eða
hvíldardeginum. Næst er mánaðarlegi takturinn þar sem
fylgst er með nýju tungli og byrjun nýs mánaðar er fagnað. Þessu er svo
fylgt eftir með hinum árlega takti ákvörðuðu æfinga, vor-
og hausthátíða YHWH. Þar á eftir er sjö ára taktur
Shemittah eða lausnarársins þegar allt land Ísraels hvílist og hebreskir
þrælar eru leystir. Að lokum eins og „umpah umpah“ túbunnar kemur
fimmtíu ára taktur fagnaðarársins þegar allt Ísrael er
endurreist, skuldum aflétt og eignum skilað.
Í gegnum tíðina hafa farísear og rabbínar Ísraels bætt við og tekið burt
takt og takt úr Torah og búið til sinn eigin undarlega vals. Með því að
hlusta á ráðandi takta rabbína hefur stór hluti Ísraels gengið og dansað
úr takti við YHWH.
Árið 1998 þegar Michael Rood endur-kynnti hið „stjarnfræðilega og
jarðyrkjulega leiðrétta biblíulega hebreska dagatal“
hristi það verulega upp í hinni
messíönsku hreyfingu. Messíanska hreyfingin dansaði hamingjusöm valsinn
með rabbínunum þegar Michael Rood réðist inná dansgólfið og barði
ævafornan frumtakt: Takt Torah. En
hægt og rólega gerðist það á næstu árum að sífellt fleiri trúaðir tóku
að dansa, að minnsta kosti að hluta til, við þennan nýja takt. Smám
saman, einn líkamshluta í einu, hefur líkami Messíasar verið að ná upp
taktinum og dansað rólega í takti við Torah.
Það þarf engan Dick Clark eða dómara úr „Dansað við stjörnurnar“ til
þess að sjá að hin messíanska hreyfing er engan veginn þokkalegur líkami
sem hreyfist í fullkomnum takti. Eitt vandamálið er sú staðreynd að
jafnvel þeir trúuðu einstaklingar sem fylgja hinu biblíulega dagatali
með öðrum fæti dansa enn valsinn við rabbínana með hinum fætinum. Ég
efast um að þetta sé það sem Yeshua hafði í huga þegar hann sagði við
lærisveinana: „Láttu ekki vinstri hönd þína vita hvað sú hægri gjörir“
(ensk þýð). Þó að margir hafi fylgt hinu biblíulega dagatali fyrir
hvíldardaga, tunglkomudaga og hátíðir YHWH, hefur Torah hringurinn verið
fastur í hinum gamla rabbínska takti Babýlons. Á hverju ári eru sífellt
fleiri messíanskir trúaðir einstaklingar sem hafa farið yfir í það að
fagna Rosh Hashanah eða nýja árinu að vori til þegar glittir í nýtt
tungl og þegar lýst hefur verið yfir að byggið í Ísrael sé orðið aviv.
En síðan fara þessir sömu trúuðu einstaklingar aftur yfir í gamla
rabbínska valsinn þar sem Torah skammturinn hefst í sjöunda mánuðinum, í
samræmi við nýárshátíð rabbínanna á haustin.
Eftir að hafa staulast um dansgólfið eins og beljur á svelli, erum við
loksins tilbúin til að taka stökkið, hoppið, hringsnúninginn,
cha-cha-chaið, hip-hoppið, break dansinn, messíanskan mambó eða hverja
þá hreyfingu sem nauðsynleg er til þess að fá okkur öll í takt við
Torah.
Við höfum byrjað að endurreisa þriggja ára Torah lestraráætlun sem
Yeshua fylgdi þegar hann bjó í Ísrael. Áður en rabbínarnir í Babýlon
breyttu dagatalinu og Torah lestrinum í hina nútímalegu árlegu
lestraráætlun, fylgdu Ísraelsbörn þriggja ára lestrarkerfinu. Þetta
þýðir að það mun taka þrjú ár að lesa og rannsaka Torah. Þetta þýðir
einnig að í stað þess að líta lauslega yfir höfuðatriði fjögurra til sex
kafla í hverri viku, köfum við nú dýpra og gæðum okkur á einum eða
tveimur dýrindisköflum í einu. Með því að rannsaka minni skammta í Torah
í hverri viku höfum við tíma til að rannsaka, fjalla um og innleiða
Torah í líf okkar með meiri skilningi. Með því að byrja Torahlesturinn á
fyrsta hvíldardegi nýss árs, sem samkvæmt Biblíunni er að vori til en
ekki á haustin, munum við færa fleira í lífi okkar í takt við Torah og
hið spádómlega biblíulega dagatal YHWH.
Slástu í hóp með okkur í þessum dásamlega taktbundna dansi við skapara
og endurlausnara alheimsins. Á hverjum hvíldardegi muntu sjá Torah
skammtinn á vefsíðu okkar, og í hverri viku getur þú nálgast vikulegan
lestur og myndband með kennslu vikunnar. Við munum gefa út dvd diska og
ritað efni til dreifingar til hópa og einstaklinga þegar okkur miðar
áfram í þessu þriggja ára ævintýri þar sem við köfum í lifandi Torah.
Þetta verður ekki þurr tugga af skoðunum látinna rabbína, heldur
ferðalag dýptar þar sem við komumst að því hvað heilagur andi er að tala
til okkar á þessum tímum endurreisnar. Smám saman, skref fyrir skref er
YHWH að opinbera takt sinn. Það er von okkar að þú finnir taktinn og
sameinist okkur í þessum dásamlega Torah dansi.
Birt með leyfi
höfundar.
torah@internet.is
|
||