Grein um tzitzit

Eftir Glenn McWilliams

Tallit-Tzitzit

4. Mósebók 15.38-41
Tala þú við Ísraelsmenn og seg við þá, að þeir skuli gjöra sér skúfa á skaut klæða sinna, frá kyni til kyns, og festa snúru af bláum purpura við skautskúfana. Og það skal vera yður merkiskraut: Þegar þér horfið á það, skuluð þér minnast allra boðorða YHWH, svo að þér breytið eftir þeim og hlaupið ekki eftir fýsnum hjarta yðar né augna, en með því leiðist þér til hjáguðadýrkunar. Þannig skuluð þér muna öll mín boðorð og breyta eftir þeim og vera heilagir fyrir Elóhím yðar. Ég er YHWH Elóhím yðar, sem leiddi yður út af Egyptalandi til þess að vera yðar Elóhím. Ég er YHWH Elóhím yðar.

5. Mósebók 22.12
Þú skalt gjöra þér skúfa á fjögur skaut skikkju þinnar, þeirrar er þú sveipar um þig.

Í Torah er börnum Ísraels tvisvar sinnum boðið að setja skúfa á skaut klæða sinna til minnis um boðorð YHWH. Orðið „skúfar“ í þessum tveimur ritningarversum er þýðing á tveimur mismunandi hebreskum orðum. Í fyrstu tilvísuninni er það þýðing á hebreska orðinu tzitzit (tsade, yud, tsade, yud, tav), sem hægt er að þýða sem „blóma- eða vængjaútskot,“ „ennishárlokkur,“ „kögur“ eða „skúfur.“ 1

Nákvæm orðsifjafræði þessa orðs er umdeilanleg. Það er mögulegt að rót orðsins tzitzit sé orðið tzitz (tsade, yud, tsade), sem þýðir „blómi“ eða „blóm.“ 2 Af þessu getum við skilið að tzitzit átti að vera hluti af skrauti eða skreytingu. Eins er mögulegt að orðið tzitzit sé hluti af leik með orð. Orðið tzutz (tsade, vav, tsade), sem, í sumum málfræðimyndum verður tzitz (tsade, yud, tsade), er hægt að þýða sem „að horfa“ eða „að stara á.“ Orðið metzitz er t.d. notað í Ljóðaljóðunum.

Ljóðaljóðin 2.9
Unnusti minn er líkur skógargeit eða hindarkálfi. Hann stendur þegar bak við húsvegginn, horfir (metzitz) inn um gluggann, gægist inn um grindurnar.

Sama af hvoru þessara tveggja orða orðið tzitzit er dregið, ættum við að hafa í huga að bæði vísa þau til þess sem felur í sér að sjá með augum okkar. Blóm, blómi, skraut og skreytingar er allt eitthvað sem við horfum eða störum á. Það er augljóst að boðorðið um tzitzit eða skúfana átti að vera séð af börnum Ísraels. Þegar orðið tzitzit vísar til blóms, blóma, kögurs eða skúfs, er það sýnileg áminning um sáttmála barna Ísraels við YHWH.

4. Mósebók 15.39
Og það skal vera yður merkiskraut: Þegar þér horfið á það, skuluð þér minnast allra boðorða YHWH, svo að þér breytið eftir þeim og hlaupið ekki eftir fýsnum hjarta yðar né augna, en með því leiðist þér til hjáguðadýrkunar.

„Að horfa“ í þessu versi er ra'a, ekki tzutz eða metzitz, en nafnið tzitzit getur enn sem áður gefið til kynna að þetta skraut hafi átt að vera sýnilegt börnum Ísraels. Annað orð sem þýtt er sem „skúfar“ er hebreska orðið gadyl (gimmel, dalet, yud, lammed), sem hægt er að þýða sem „þráður,“ „snúningur,“ „skúfur,“ „blómafesti“ eða „sveigur.“3  Hér getum við ímyndað okkur eitthvað sem er fléttað.

5. Mósebók 22.12
Þú skalt gjöra þér skúfa (g'dilim) á fjögur skaut skikkju þinnar, þeirrar er þú sveipar um þig.

Aftur er okkur boðið að setja fléttaða þræði á skaut klæða okkar. Við kunnum að spyrja hvers vegna Torah notar annað orð í þessu tilfelli. Ég get mér til um að það sé til þess að gefa okkur nákvæmari lýsingu. Orðið gadyl kemur af rótarorðinu gadal (gimmel, dalet, lammed), sem hægt er að þýða sem „mikill,“ „stór,“ „að vaxa,“ „víkka út“ eða „verða mikill.“4  Þessi sama rót getur líka þýtt „fléttað“ eða „bryddað.“ Hér getum við hugsað okkur þráð sem verður stór eða mikill með því að flétta hann með öðrum þráðum þar til þráðurinn verður sem reipi. Með því að nota orðið gadyl, gefur Torah okkur aðra lýsingu varðandi skúfana sem við eigum að bera. Af orðinu gadyl getum við skilið að skúfarnir eiga að vera fléttaðir. Sú hugmynd að skúfarnir eigi að vera fléttaðir er studd af þriðja orðinu sem er notað í tengslum við tzitzit - hebreska orðinu patyl (pey, tav, yud, lammed), sem þýðir „þráður,“ „garn“ eða „snúin eða fléttuð snúra.“5 Okkur er sagt að festa snúru (patyl) af bláu við tzitzit skúfinn.

4. Mósebók 15.38
Tala þú við Ísraelsmenn og seg við þá, að þeir skuli gjöra sér skúfa á skaut klæða sinna, frá kyni til kyns, og festa snúru (patyl) af bláum purpura við skautskúfana.

Snúra á hebresku þýðir snúinn, fléttaður þráður eða garn. Þess vegna virðist sem þræðir skúfanna eigi að vera fléttaðir eða bundnir með bláum þræði. Orðið „blár“ er þýðing hebreska orðsins techelet (tav, khaf, lammed, tav). Þótt miklar rökræður séu í gangi um það hvort techelet sé sérstakt litbrigði af bláum lit eða hvort það sé blái liturinn sem er unninn úr sérstökum kuðungum, sé ég ekkert í textanum sem skilgreinir hvers konar litbrigði af bláum lit þessi þráður eigi að vera. Mér finnst ágætt að segja bara að orðið techelet þýði einfaldlega „blár.“ Ég trúi því ekki að orðið techelet gefi til kynna að liturinn verði að vera eitt ákveðið tilbrigði af bláum lit eða að liturinn verði að koma úr ákveðnu dýri. Sniglar og kuðungar voru af skornum skammti í eyðimörkinni en indígóblár litur var algengur. Hundruð snigla þurftu að deyja til að gefa nokkra tugi gramma af bláum lit eða purpura. Við ættum að hafa hugfast að techelet var notað í samsetningu tjaldbúðarinnar, í tjöldin, yfirbreiður yfir helga muni og í klæði prestanna. Mikinn lit hefur þurft til að útbúa þetta og þess vegna virðist rökrétt að börn Ísraels hafi notað það sem var við hendina í eyðimörkinni fremur en fágæta snigla og sjávardýr.

Á meðan Torah boðar notkun techelet þráðar við gerð tzitzit, er ekkert nefnt varðandi lit annarra þráða sem kunna að vera notaðir í gerð skúfanna.

Samkvæmt hefðum voru tzitzit skúfarnir gerðir úr hvítum þræði, ásamt einum bláum þræði sem batt skúfinn eða þræðina saman. Í Torah er þó ekkert bann við því að nota aðra liti við gerð tzitzit. Við ættum líka að taka eftir því að það eru engar ákveðnar leiðbeiningar varðandi það hvernig á að binda eða flétta tzitzit, hversu marga þræði eigi að nota eða hversu langir þeir skuli vera. 

Næsta spurning sem við verðum að svara, varðar það hvar á að festa skúfana eða böndin. Hebreska orðið beged er nokkuð almennt orð sem vísar til alls frá undirfatnaði til yfirhafna. Hebreska orðið kesut, þýtt sem „skikkja“ þýðir einfaldlega ábreiða (klæði) og er einnig notað á nokkuð almennan hátt til að lýsa hverju lagi flíka fyrir sig. Þess vegna er erfitt að ákveða út frá þessum tveimur orðum einum saman hvers konar flík það er sem við eigum að festa tzitzit við.

Tvennt til viðbótar getur hjálpað okkur að ná fram betri skilningi á þessu. Í seinni tilvísuninni í þessa skúfa er skýrt sagt að það eigi að setja þá á fjögur skaut skikkju okkar. Hebreska orðið kanaf (kaf, nun, fey) má þýða sem „vængur,“ „útjaðar,“ „kantur,“ „horn“ eða jafnvel „pils.“ Tenging kanaf við klæði okkar með vængjum er mjög öflug mynd í ritningunum. 

2. Mósebók 25.20
En kerúbarnir skulu breiða út vængina (kanaf) uppi yfir, svo að þeir hylji lokið með vængjum (kanaf) sínum, og andlit þeirra snúa hvort í mót öðru; að lokinu skulu andlit kerúbanna snúa.

5. Mósebók 32.11
Eins og örn, sem vekur upp hreiður sitt og svífur yfir ungum sínum, svo útbreiddi hann vængi (kanaf) sína, tók hann upp og bar hann á flugfjöðrum sínum.

Rutarbók 2.12
YHWH umbuni verk þitt, og laun þín verði fullkomin, er þú hlýtur af YHWH, Ísraels Elóhím, þar sem þú ert komin að leita skjóls undir vængjum (kanaf) hans.

Sálmur 17.8
Varðveit mig sem sjáaldur augans, fel mig í skugga vængja (kanaf) þinna.

Sálmur 36.8
Hversu dýrmæt er miskunn þín, ó Guð, mannanna börn leita hælis í skugga vængja (kanaf) þinna.

Sálmur 57.2
Ver mér náðugur, ó Elóhím, ver mér náðugur! Því að hjá þér leitar sál mín hælis, og í skugga vængja (kanaf) þinna vil ég hælis leita, uns voðinn er liðinn hjá 

Sálmur 91.4
Hann skýlir þér með fjöðrum sínum, undir vængjum (kanaf) hans mátt þú hælis leita, trúfesti hans er skjöldur og verja.

Við getum einnig minnst orða Yeshua, sem þráði að skýla og vernda Jerúsalem.

Matteusarguðspjall 23.37
Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi.

Önnur öflug tilvísun í kanaf sem vængi finnst í tilvísun í Messías.

Malakí 4.2
En yfir yður, sem óttist nafn mitt, mun réttlætissólin upp renna með græðslu undir vængjum (kanaf) sínum, og þér munuð út koma og leika yður eins og kálfar, sem út er hleypt úr stíu.

Var þetta spádómurinn sem veitti konunni með blóðlátin hugrekki til að taka í kanaf Yeshua? 

Matteusarguðspjall 9.20-21
Kona, sem hafði haft blóðlát í tólf ár, kom þá að baki honum og snart fald klæða hans. Hún hugsaði með sér: Ef ég fæ aðeins snert klæði hans, mun ég heil verða.

Orðið kanaf virðist greinilega ekki aðeins vera tengt vængjum, heldur líka hugmyndinni um klæði eða ábreiðu. Þetta má sjá á nokkrum stöðum í ritningunum.

5. Mósebók 22.30
Eigi skal maður ganga að eiga konu föður síns né fletta upp ábreiðu (kanaf) föður síns.

5. Mósebók 27.20
Bölvaður er sá, sem leggst með konu föður síns, því að hann hefir flett upp ábreiðu (kanaf) föður síns! Og allur lýðurinn skal segja: Amen. 

Rutarbók 3.9
Og hann sagði: Hver ert þú? Hún svaraði: Ég er Rut ambátt þín. Breið þú væng (kanaf) þinn yfir ambátt þína, því að þú ert lausnarmaður.

Hér sjáum við greinilega að kanaf tengist einhvers konar ytri klæðum sem notuð eru til að hylja líkamann. Að klæðin með tzitzit hafi verið sjáanleg sést skýrt í því sem Sakaría spámaður ritar.

Sakaría 8.23
Svo segir YHWH allsherjar: Á þeim dögum munu tíu menn af þjóðum ýmissa tungna taka í kyrtilskaut (kanaf) eins Gyðings og segja: Vér viljum fara með yður, því að vér höfum heyrt, að Elóhím sé með yður.

Það eru að minnsta kosti tvenns konar biblíuleg klæði sem virðast falla að lýsingu flíkanna sem bera tzitzit. Fyrst er það einhvers konar kyrtill sem var hafður yfir annarri ytri flík. Þessi kyrtill hafði fjögur horn og var öðrum greinilega sýnilegur. Annað er eins og teppi eða skikkja sem var oft notað sem ytri flík til varnar vindi, sandi, ryki, regni og hita. Þessi stærri flík var oft notuð sem tjald til skjóls eða sem teppi til að halda á sér hita að nóttu. Það er þessi ytri flík sem vísað er til í ofangreindu ritningarversi úr Rutarbók, og í kennslu varðandi það að taka veð.

2. Mósebók 22.26-27
Ef þú tekur yfirhöfn náunga þíns að veði, þá skila þú honum henni aftur áður sól sest, því að hún er hið eina, sem hann hefir til að hylja (kesut) sig með, hún skýlir líkama hans. Hvað á hann annars að hafa yfir sér, er hann leggst til hvíldar? Þegar hann hrópar til mín, skal ég heyra, því að ég er miskunnsamur.

5. Mósebók 24.12-13
Og ef það er snauður maður, þá skalt þú ekki leggjast til hvíldar með veð hans, -heldur skalt þú skila honum aftur veðinu um sólarlagsbil, svo að hann geti lagst til hvíldar í yfirhöfn sinni og blessi þig, og það mun talið verða þér til réttlætis fyrir augliti YHWH Elóhím þíns.

5. Mósebók 24.17
Þú skalt ekki halla rétti útlends manns eða munaðarleysingja. Þú skalt ekki taka fatnað ekkjunnar að veði.

Þessar yfirhafnir eru enn með okkur í dag, en hafa breyst í tímans rás. Stærri yfirhöfnin, sem er líkari teppi, sést í hinu nútímalega bænasjali (tallit). Á meðan þessi stóra fjögurra horna flík var hefðbundin flík á liðnum tímum, hefur tallit eða bænasjalið í dag verið einskorðað við bænastundir.

Umbreyting á kyrtilflíkinni hefur verið varðveitt fyrir okkur í tallit katan, eða litlu bænasjali með tzitzit, sem er borið sem undirflík með fjórum hornum. Þessi síðari tíma flík var þróuð á tímum ofsókna, þegar það var ólöglegt að bera tzitzit. Með því að vera í tallit katan sem var hulið undir öðrum fötum, gat hinn trúaði enn uppfyllt boðorðið um að vera með tzitzit án þess að stofna lífi sínu í augljósa hættu. Þetta er skiljanlegt á tímum ofsókna, en boð Torah krefst þess að tzitzit sé sjáanlegt.

Það er mögulegt að skikkjan og kyrtillinn, ásamt öllum öðrum flíkum með fjögur horn, hafi verið skreytt með tzitzit. Þar sem hvorki skikkjur né kyrtlar eru stór innihaldshluti klæðaskápa okkar í dag, spyrjum við gjarnan hvernig við eigum þá að bera tzitzit í dag. Það að bera tallit, eða bænasjal, á bænastundum er vissulega í samræmi við boðið um að bera tzitzit. En er þessi takmarkaða notkun sannarlega í samræmi við anda Torah?

Ef tilgangurinn með því að bera tzitzit er sá að það sé til hvatningar um að minnast sáttmálans, halda sáttmálann og forðast þá freistingu að fylgja eigin augum og hjarta til að eltast við annan elóhím, þá virðist andi Torah vera sá að segja okkur að bera tzitzit stöðuglega, ekki bara á bænastundum. Andi Torah virðist benda til þess að tzitzit eigi að vera sýnilegt þegar við göngum í gegnum freistingar heimsins. Það að tzitzit eigi að vera á „fjórum hornum“ klæða okkar virðist benda til þess að sama í hvaða átt við snúum okkur eða til hvaða heimshorna við erum send, eigi tzitzit að minna okkur á að við eigum alltaf að halda sáttmálann, jafnvel í öllum heimshornum.

Það er hægt að uppfylla boðið um að bera tzitzit á nokkra vegu. Tzitzit má bera á „tallit katan“ eða litlu bænasjali sem er haft eins og kyrtill undir fötunum, en skúfarnir hafðir sjáanlegir. Það er hægt að festa tzitzit í beltislykkjur eða hengja í klæðafald. Það er líka vel við hæfi að búa til viðeigandi kyrtilklæði með tzitzit, til að hafa utan yfir fötin. Svo eru líka notaðar skyrtur sem eru klofnar á hliðunum til að mynda fjögur horn til að festa tzitzit á. Lengdin, hnýtingin og liturinn (litirnir), annað en blái liturinn, sem er notað til að búa til tzitzit fær að leika eftir hugmyndaflugi barna Ísraels. Eina boðið er það, að við eigum að bera skúfana.

Önnur spurning sem kann að vakna, er sú hver eigi að vera með tzitzit. Rabbínarnir hafa lýst því yfir að stóra, ábreiðuflíkin og minni kyrtillinn eigi að teljast til karlmannsklæða. Því álykta rabbínarnir sem svo að að stærra bænasjalið, og einnig hið minna, sem búin eru til út frá þessari fyrirmynd séu einnig karlmannsklæði. Þar sem tzitzit er á bænasjölum, og þar sem Torah bannar að konur klæðist karlmannsbúningum, hafa rabbínar ályktað að konur eigi ekki að bera tzitzit.

5. Mósebók 22.5
Eigi skal kona ganga í karlmannsbúningi og eigi skal karlmaður fara í kvenmannsföt, því að hver sá, er slíkt gjörir, er YHWH Elóhím þínum andstyggilegur.

Þessi kennsla rabínanna hefur valdið mörgum börnum Ísraels hrösun og staðið í vegi fyrir beinu og skýru boði Torah um að bera tzitzit. Í Torah er ekki sagt að tzitzit eigi einungis að festa við klæðnað karlmanna. Það kemur skýrt fram að börn Ísraels eiga að bera tzitzit. „Börn Ísraels - Ísraelsmenn,“ eru allir þeir sem skilgreina sig sem hluta af sáttmálalýð YHWH, sama hver ættboginn er, aldur eða kyn.

Að bera tzitzit er hluti af því að halda sáttmálann. Þar sem öll börn Ísraels eru kölluð til að halda sáttmálann, þá ættu öll börn Ísraels að bera tzitzit. Því er viðeigandi fyrir karla, konur og börn að bera tzitzit.

Karlar, konur og börn eru berskjölduð fyrir alls kyns freistingum og því ætti að nota þessa góðu hvatningu til að minnast sáttmálans og halda hann.

Með því að bera tzitzit, gerum við bræðrum okkar einnig mögulegt að þekkja okkur. Þeir sem leitast eftir því að halda sáttmálann virðast vera fáir og langt á milli þeirra og því er alltaf ánægjulegt og til blessunar að sjá einhvern sem fylgir Torah. Það er mikil hvatning að sjá að við erum ekki ein í heiminum um að vilja fylgja Torah. 

Því ættum við, ef ekki aðeins sakir okkar sjálfra, þá bræðrum okkar til hvatningar, að vera trúföst í að fylgja þessu einfalda boði og bera tzitzit á skautum klæða okkar.

 

1 The New Strong's Expanded Dictionary of Bible Words, James Strong, LL.D., S.T.D., Thomas Nelson Publishing, Pg. 767
2 Ibid., Pg. 766
3 Ibid., Pg. 396
4 A Comprehensive Etymological Dictionary of the Hebrew Language For Readers of English, Ernest Klien, MacMillan Publishing, Pg. 92
5 Ibid., Pg. 758

 

Birt með leyfi höfundar.
Íslensk þýðing: Sigrún Einarsdóttir

Vefsíða höfundar: www.tktorahkeepers.com

 

 

 

 

Copyright - www.torah.is

torah@internet.is