Shavuot hátíðin
Eftir Glenn McWilliams


Shavuot - Torah gefið á Sínaífjalli

Chag1 Ha Shavuot, eða viknahátíðina, væri vel hægt að kalla Chag HaShemot eða nafnahátíðina. Í ritningunum, og samkvæmt hefðum, hefur þessi hátíð YHWH verið kölluð mörgum nöfnum.

Chag HaShavuot - viknahátíðin
Atzeret - endir (lok)
Pentecost - fimmtugasti (hvítasunna)
Yom HaBikkurim - dagur frumgróðans
Chag Hakatzir -  uppskeruhátíðin
Zeman Mattan Toratenu
- tíminn þegar við fengumTorah

Hvert þessara nafna lýsir einhverju einstöku varðandi þessa hátíð. Fyrstu þrjú nöfnin, Chag HaShavuot, Atzeret og Pentecost eru nátengd. Öll þessi nöfn tengjast boðinu um að telja vikurnar á milli Chag HaBikkurim2 sem fylgdi á eftir Chag HaMaztot3 og Yom HaBikkurim.4

Þér skuluð telja frá næsta degi eftir hvíldardaginn, frá þeim degi, er þér færið bundinið í veififórn. Sjö vikur fullar [sjö hvíldardagar] skulu það vera. Til næsta dags eftir sjöunda hvíldardaginn skuluð þér telja fimmtíu daga. Þá skuluð þér færa YHWH nýja matfórn. (3. Mósebók 23.15-16)

Þetta tímabil talningar er þekkt sem Sfirat HaOmer eða "talning gómersins." Gómer (omer) er mælieining eða knippi af annað hvort byggi eða hveiti. Áður en hægt var að borða eða nota nýuppskorið korn varð fyrst að færa gómer af frumgróðanum í musterið til veififórnar. Þrisvar á ári var farið með frumgróðann á þennan hátt, eins og við munum sjá, en fyrst skulum við einbeita okkur að talningunni. Á milli fyrstu veififórnar bygguppskerunnar og seinni veififórnar hveitiuppskerunnar bauð YHWH okkur að gera talningu. Tökum eftir því að það eru tvenns konar talningar varðandi tímasetningu á degi þessarar hátíðar. Fyrsta talningin er talning hvíldardaganna. Frá því fyrsta veififórnin er færð eigum við að telja sjö hvíldardaga og næsti dagur þar á eftir er Chag HaShavout. Það er út frá þessari talningu shavuot, eða vikna, sem hátíðin fékk nafnið Chag HaShavuot eða viknahátíðin. Okkur er líka sagt að telja fimmtíu daga. Það er þessi talning fimmtíu daga sem sem Postulasagan vísar í þegar hvítasunnuhátíðin er nefnd.5 Þar sem þessi fimmtugasti dagur markar einnig lok talningarinnar, er stundum talað um þessa hátíð sem Atzeret HaSfirah, lok talningarinnar, eða Atzeret Pesach, lok páskanna (Passover season).6  Þótt aðferðirnar við talninguna séu með tvennum hætti er niðurstaðan alltaf sú sama. Sjö sinnum sjö dagar eru 49 dagar og með deginum eftir hvíldardaginn höfum við 50 daga. Leiðbeiningarnar við að staðsetja þessa ákveðnu hátíð á dagatalinu eru mjög nákvæmar, en þrátt fyrir þessar nákvæmu leiðbeiningar er þó enn ágreiningur um það hvenær á að halda Chag HaShavuot hátíðina. Ágreiningurinn á rætur sínar að rekja til mismunandi tilvísana varðandi upphafsdag talningarinnar. Í Torah segir:

Þér skuluð telja frá næsta degi eftir hvíldardaginn... (3. Mósebók 23.15)

Rökræðurnar snúa að skilgreiningu orðanna "eftir hvíldardaginn" eins og þau eru notuð í þessum versum:

Í fyrsta mánuðinum, hinn fjórtánda dag mánaðarins um sólsetur, hefjast páskar YHWH. Og fimmtánda dag hins sama mánaðar skal halda YHWH hátíð hinna ósýrðu brauða. Sjö daga skuluð þér eta ósýrt brauð. Fyrsta daginn skuluð þér halda helga samkomu. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu. Og þér skuluð færa YHWH eldfórn sjö daga. Sjöunda daginn er helg samkoma. Eigi skuluð þér þá fást við neina stritvinnu. YHWH talaði við Móse og sagði: Mæl þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þá er þér komið í land það, sem ég mun gefa yður, og þér skerið þar upp korn, skuluð þér færa presti fyrsta kornbundinið af uppskeru yðar. Og hann skal veifa kornbundininu frammi fyrir YHWH, svo að það afli yður vel-þóknunar, daginn eftir hvíldardaginn skal presturinn veifa því. (3. Mósebók 23.5-12)

Rabbínískur gyðingdómur kennir að „hvíldardagurinn“ sem vísað er til þarna sé fyrsti dagur Chag HaMatzot (hátíðar ósýrðu brauðanna) sem YHWH boðaði að ætti að vera dagur án vinnu. Með því að leggja þetta boð að jöfnu við hvíldardaginn hafa rabbínarnir sett á stofn að Chag HaBikkurim (hátíð frumgróðans) eigi að vera daginn eftir fyrsta dag Chag HaMatzot. Þannig fær Chag HaBikkurim fastan dag, 16. nísan, á rabbíníska dagatalinu. Í rabbínískum gyðingdómi eru páskar (Passover) 14. nísan og hátíð ósýrðu brauðanna hefst 15. nísan. Hátíð frumgróðans er haldin 16. nísan og 50 dögum síðar er Chag HaShavuot. Klípan með þessa talningu er sú að að hún fellur ekki að lýsingunni í Torah. Við verðum að muna að það eru tvær leiðir til að telja: að telja vikurnar, eða hvíldardagana, og telja dagana. Báðar þessar aðferðir verða að vera í samræmi. Samkvæmt Torah á ekki aðeins að halda Chag Shavuot hátíðina 50. dag talningar kornbundininna, heldur daginn eftir sjöunda hvíldardaginn.

Þér skuluð telja frá næsta degi eftir hvíldardaginn, frá þeim degi, er þér færið bundinið í veififórn. Sjö vikur fullar skulu það vera. Til næsta dags eftir sjöunda hvíldardaginn skuluð þér telja fimmtíu daga. Þá skuluð þér færa YHWH,  nýja matfórn.
(3. Mósebók 23.15-16)

Karaítar, Samverjar og minnihlutahópar rabbínískra Gyðinga7 hafa lengi vel áttað sig á þessu ósamræmi varðandi það að festa ákveðna dagsetningu fyrir Chag HaBikkurim. Ef Chag HaMatzot hefst á miðvikudegi myndi Chag HaBikkurim lenda á fimmtudegi. Fimmtíu dögum síðar myndi Chag HaShavuot einnig lenda á fimmtudegi.8 Vandamálið er það að það er ekkert boð sem útnefnir miðvikudaginn, 49. dag talningar kornbundininna, sem hvíldardag. Í Torah kemur skýrt fram að Chag HaShavuot á að vera næsta dag eftir sjöunda hvíldardaginn. Með þetta í huga er því augljóst að hvíldardagarnir beggja vegna talningarinnar eru hinir vikulegu hvíldardagar, en ekki fyrsti dagur Chag HaMatzot. Samkvæmt tímatali karaíta myndi Chag HaBikkurim lenda á fyrsta degi vikunnar, daginn eftir hinn vikulega hvíldardag. Fimmtíu dögum síðar, aftur fyrsta dag vikunnar, daginn eftir hinn vikulega hvíldardag, er Chag HaShavuot hátíðin. Það eru nokkrar aðrar upplýsingar sem virðast staðfesta þessa aðferð við talninguna. Við ættum að taka eftir því að YHWH gaf ákveðnar dagsetningar9 fyrir bæði páska (fjórtánda dag fyrsta mánaðar) og Chag HaMatzot (fimmtánda dag fyrsta mánaðar) en enga ákveðna dagsetningu fyrir Chag HaBikkurim. Þess í stað á hann að fylgja á eftir hvíldardeginum og það setur hann alltaf á fyrsta dag vikunnar. Annað sem við þurfum að athuga er að þar sem okkur er sagt að telja, vísar YHWH aldrei til páskanna eða Chag HaMatzot sem "hvíldardagsins." Titillinn "hvíldardagurinn" virðist frátekinn fyrir hinn vikulega hvíldardag. Postulegu ritin geta líka varpað einhverju ljósi á þetta. Þar sem deilurnar snúast um það hvenær Chag HaBikkurim er, getum við litið á það hvernig þetta ræðst í lífi og dauða Messíasar.

Hin kristna kirkja hefur í gegnum tíðina haldið fast við þá röngu hefð að Y'shua hafi verið krossfestur á föstudegi, verið í gröfinni á laugardegi og risið upp úr gröfinni snemma á sunnudagsmorgni. Jafnvel þótt dagar væru aðeins taldir að hluta til hefði þetta aðeins tekið þrjá daga og tvær nætur. Ef hátíðir YHWH eru í raun skuggamyndir sem benda til Messíasar, myndi hinn rabbíníski útreikningur passa alveg að kennslu kirkjunnar. Páskalambinu (Messíasi) er fórnað 14. daginn, ósýrt brauð (líkami Messíasar sem rotnar ekki er í gröfinni) 15. daginn og svo er frumgróðinn (upprisa Messíasar) hinn 16. dag. Fyrir marga sem trúa á Y'shua virðist þetta staðfesta talningu rabbínanna en þegar við skoðum orð Messíasar vandlega geta þessi áhrif breyst. Þegar fræðimenn og farísear heimtuðu tákn, sagði Y'shua:

Vond og ótrú kynslóð heimtar tákn, en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar spámanns. Jónas var í kviði stórhvelisins þrjá daga og þrjár nætur, og eins mun Mannssonurinn vera þrjá daga og þrjár nætur í skauti jarðar. (Matteusarguðspjall 12.39-40)

Táknið sem Messías gaf til að staðfesta að hann væri Messías, er sú staðreynd að hann myndi vera í skauti jarðar í þrjá daga og þrjár nætur. Ef kirkjan og rabbínarnir eru sammála um að segja Chag HaBikkurim daginn beint á eftir Chag HaMatzot, er það líka samþykki þeirra fyrir því að Y'shua sé ekki Messías, því að þá uppfyllti hann ekki eina táknið sem hann gaf til að sanna að hann væri Messías! Það er greinilegt að vitnisburður postulanna lýsir því að Y'shua hafi verið risinn upp frá dauðum fyrsta dag vikunnar.

Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill, því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann... En engillinn mælti við konurnar: Þér skuluð eigi óttast. Ég veit, að þér leitið að Y'shua hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði.
(Matteusarguðspjall 28.1-6)

 

Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: Hver mun velta fyrir oss steininum frá grafarmunnanum? En þegar þær líta upp, sjá þær, að steininum hafði verið velt frá, en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju og þær skelfdust. En hann sagði við þær: Skelfist eigi. Þér leitið að Y'shua frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér... Þegar hann [Y'shua] var upp risinn árla hinn fyrsta dag vikunnar, birtist hann fyrst Maríu Magdalenu...

(Markúsarguðspjall 16.2-9)

 

En í afturelding fyrsta dag vikunnar komu þær til grafarinnar með ilmsmyrslin, sem þær höfðu búið. Þær sáu þá, að steininum hafði verið velt frá gröfinni, og þegar þær stigu inn, fundu þær ekki líkama Drottins Y'shua.
(Lúkasarguðspjall 24.1-3)

 

Fyrsta dag vikunnar kemur María Magdalena til grafarinnar svo snemma, að enn var myrkur, og sér steininn tekinn frá gröfinni...

(Jóhannesarguðspjall 20.1)

Ef trú okkar krefst þess að Y'shua hafi sagt satt um það hver hann er, þá uppfyllti hann tákn Jónasar sem hann gaf fræðimönnunum og faríseunum. Með öðrum orðum, ef Y'shua reis upp frá dauðum á fyrsta degi vikunnar og var í þrjá daga og þrjár nætur í skauti jarðar, gæti hann ekki hafa verið krossfestur á föstudegi eins og kirkjan kennir. Þess í stað hefði Y'shua verið krossfestur um eftirmiðdag á miðvikudegi og risið upp á milli hvíldardags og fyrsta dags vikunnar. Ef hátíðir Drottins eru sannarlega skuggamyndir Messíasar myndi þetta þýða að Chag HaBikkurim lenti á fyrsta degi vikunnar. Þetta væri aðeins hægt ef Chag HaBikkurim túlkast sem dagurinn eftir hinn vikulega hvíldardag. Með þetta í huga, hefði hvítasunnudagurinn í Postulasögunni líka lent á fyrsta degi vikunnar. Eina biblíulega sönnunin til að styðja þann möguleika byggist, í besta falli, á atvikum. Í Postulasögunni ritar Lúkas:

Fyrsta dag vikunnar, er vér vorum saman komnir til að brjóta brauðið, talaði Páll til þeirra. Hann var á förum daginn eftir. Entist ræða hans allt til miðnættis. (Postulasagan 20.7)

Þessi samkoma var líklegast þegar menn koma saman í lok hvíldardagsins. Svipuð frásögn er í ritum Shaul (Páls):

En hvað snertir samskotin til hinna heilögu, þá skuluð einnig þér fara með þau eins og ég hef fyrirskipað söfnuðunum í Galatíu. Hvern fyrsta dag vikunnar skal hver yðar leggja í sjóð heima hjá sér það, sem efni leyfa, til þess að ekki verði fyrst farið að efna til samskota, þegar ég kem. (1. Korintubréf 16.1-2)

Hér sjáum við að trúaðir geta hafa safnast saman fyrsta dag vikunnar. Ef hvítasunnan lendir á fyrsta degi vikunnar ætti því engum að koma á óvart að lesa þetta:

Þá er upp var runninn hvítasunnu-dagur, voru þeir allir saman komnir. (Postulasagan 2.1)

Hér getum við því fundið örlitla sönnun þess að á tímum Y'shua hafi Shavuot lent á fyrsta degi vikunnar. Annað er ekki mikið um þetta að finna í ritum postulanna. Hvenær sem Chag HaShavuot hátíðin er haldin, ætti boðskapur talningarinnar ekki að fara framhjá okkur. Við ættum að minnast svars Jakobs, þegar Faraó spurði hann um aldur ættfeðranna. Jakob svaraði:

Vegferðartími minn er hundrað og þrjátíu ár. Fáir og illir hafa dagar lífs míns verið og ná ekki þeirri áratölu, er feður mínir náðu á vegferð sinni. (1. Mósebók 47.9)

Hér sjáum við að hinn réttláti Jakob hefur talið daga og ár lífs síns. Við ættum líka að telja hvern dag sem blessun. Með því að telja daga okkar byrjum við að meta hvern dag og lifa honum til fullnustu. Móse bað:

Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta. (Sálmur 90.12)

Við ættum líka að taka eftir því að talningin hefst á bygguppskerunni og henni lýkur á hveitiuppskerunni. Bygg er oftast talið grófara korn og aðallega notað í dýrafóður. Þess vegna er það oft tengt grunneðli okkar, eða dýrseðli. Við sjáum vísbendingu um þetta í notkun þess í Sotah lögunum.10 Þegar eiginmann grunar að eiginkona hans sé honum ótrú fer hann með hana í musterið til að gangast undir ákveðinn helgisið. Þegar afbrýðisami eiginmaðurinn og hin grunaða eiginkona nálgast altarið er færð fórn úr grófmöluðu byggi, án olíu eða reykelsiskvoðu. Byggið á að tákna þá staðreynd að konan gekk fram í hinu lægra eðli, dýrseðlinu. Þegar við teljum gómerinn frá Chag HaBikkurim til Chag HaShavuot, ættum við að færast úr hinu grófa dýrseðli til hins fíngerða andlega eðlis. Vonin er sú að með því að telja dagana, byggjum við á hverjum degi og notum hann eins og Móse bað, til þess að við megum öðlast viturt hjarta. Þessi umskipti frá holdinu til andans má líka sjá tengjast Chag HaShavuot á annan hátt. Eins og við höfum þegar sagt, vísa Jósefus og talmúd fræðin til Chag HaShavuot sem "Zeman Mattan Toratenu," tíma þegar við öðlumst Torah. Þó að ekkert í Tanach sýni Chag HaShavuot sérstaklega sem daginn þar sem Móse var gefið Torah, hefur hefðin valið þennan dag sem sérstakan dag til að fagna því að okkur var gefið Torah. Þessi hefð byrjaði að stærstum hluta vegna eyðileggingar seinna musterisins og herleiðingar Ísraelsmanna frá Jerúsalem. Eftir Bar Kochba uppreisnina árið 135 e.Kr. voru Gyðingar dreifðir víða og án musteris, prestastéttar eða heimilis. Án musteris var þeim ógjörningur að halda Torah eins og Móse hafði fengið það. Árið 140 e.Kr. hélt því prestaráðið (Sanhedrin) fund í Usha þorpi (þar sem Haifa er núna) og ákvað að breyta brennidepli Chag HaShavuot frá jarðyrkjugrunninum til hátíðarhalda vegna Torah sem við meðtókum á Sínaífjalli, sem gerðist í þriðja mánuði ársins.11 Því varð Chag HaShavuot að hátíðarhöldum Torah og afmæli Ísraelsþjóðar. Þegar við tengjum hugtak Chag HaShavuot við afhendingu Torah og tilfærsluna frá byggi til hveitis, frá holdi til anda, getum við líka farið að skilja hvers vegna Ruach HaKodesh12 var úthellt yfir fylgjendur Messíasar á Chag HaShavuot hátíðinni. Í Postulasögunni segir:

Þá er upp var runninn hvítasunnudagur, voru þeir allir saman komnir. Varð þá skyndilega gnýr af himni eins og aðdynjanda sterkviðris og fyllti allt húsið, þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvern og einn þeirra. Þeir fylltust allir Ruach HaKodesh og tóku að tala öðrum tungum, eins og Ruach gaf þeim að mæla. (Postulasagan 2.1-4)

Að sjálfsögðu olli þessi atburður nokkru fjaðrafoki í Jerúsalem á þessum tíma. Þar sem Gyðingar alls staðar að úr landinu, og öðrum löndum, voru í Jerúsalem til að halda hátíðina, var þetta kjörinn tími til að prédika boðskap Y'shua, Messíasar. Það gerði Kepha. Vegna undrunar mannfjöldans og tortryggni, lýsti Kepha því yfir að þessi atburður væri einfaldlega uppfylling orða Jóels spámanns:

En síðar meir mun ég úthella anda mínum yfir allt hold. Synir yðar og dætur yðar munu spá, gamalmenni yðar mun drauma dreyma, ungmenni yðar munu sjá sjónir. Já, einnig yfir þræla og ambáttir mun ég á þeim dögum úthella anda mínum.
(Jóel 2.28-29)

Spádómurinn minnir á tvo aðra spádóma:

Og ég mun gefa yður nýtt hjarta og leggja yður nýjan anda í brjóst, og ég mun taka steinhjartað úr líkama yðar og gefa yður hjarta af holdi. Og ég mun leggja yður anda minn í brjóst og koma því til vegar, að þér hlýðið boðorðum mínum og varðveitið setninga mína og breytið eftir þeim. (Eskíel 36.26-27)

 

Sjá, þeir dagar munu koma segir YHWH að ég mun gjöra nýjan sáttmála við Ísraels hús og Júda hús, ekki eins og þann sáttmála, er ég gjörði við feður þeirra, þá er ég tók í hönd þeirra til þess að leiða þá út af Egyptalandi, sáttmálann sem þeir hafa rofið, þótt ég væri herra þeirra segir YHWH. En í þessu skal sáttmálinn fólginn vera, sá er ég gjöri við Ísraels hús eftir þetta segir YHWH: Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra, og ég skal vera þeirra Elóhím og þeir skulu vera mín þjóð. (Jeremía 31.31-33)

Við getum skilið af þessum ritningarversum að tilfærslan frá byggi yfir í hveiti, frá holdi yfir til anda, er munurinn á milli þess að halda Torah í mætti okkar eigin holds og þess að halda Torah fyrir hvatningu Ruach HaKodesh, sem hrærir hjarta okkar til að elska YHWH. Shaul lýsti þessum mun á mjög raunsæjan hátt:

Áður en trúin kom, vorum vér í gæslu lögmálsins innilokaðir, þangað til trúin, sem í vændum var, opinberaðist. Þannig hefur lögmálið orðið tyftari [kennari] vor, þangað til Kristur kom, til þess að vér réttlættumst af trú.  En nú, eftir að trúin er komin, erum vér ekki lengur undir tyftara [kennara].
(Galatabréfið 3.23-25)

Kannski eru þessi tvö tengdu hátíðarhöld frumgróða akursins í raun skuggamynd upp á endurnýjun sáttmálans. Hið fyrra til tákns um tímann þegar Ísraelsmenn héldu Torah af því að þeir voru þvingaðir til að gera það og síðari veififórnin gæti táknað þá staðreynd að nú eigum við að halda Torah innan frá, fyrir hvatninguna sem Ruach (andinn) gefur okkur í hjarta. Við ættum að taka eftir því að veififórn Chag HaShavuot er ekki bara hveiti eða óunnið korn, heldur tveir brauðhleifar úr fínu hveiti.13 Fína hveitið er mynd upp á vel hreinsað líf. Það getur komið sumum á óvart að sjá að þessir brauðhleifar innihalda líka súrdeig. Eins og við lærðum á tíma Chag HaMatzot, er súrdeig tákn syndar, rotnunar og skemmdar. Þetta minnir okkur á að fyrir endurkomu Messíasar getum við haldið Torah fyrir hvatningu Ruach HaKodesh, en við gerum það samt sem áður á ófullkominn hátt. Þess vegna ættum við aldrei að verða stolt eða hrokafull varðandi það hvernig við höldum Torah. Þótt við kunnum að líta út fyrir að vera ásættanleg og hrein hið ytra, er samt eitthvað súrdeig innra með okkur öllum. Þess vegna höldum við áfram að bíða með allri sköpun eftir fullnustu endurreisnarverks YHWH í gegnum Messías. Töflurnar tvær geta minnt okkur á húsin tvö, Ísraels hús og Júda hús, sem klofnuðu vegna syndar en munu vera sameinuð af hinum eina og sama Ruach HaKodesh. Brauðhleifarnir tveir geta líka minnt okkur á töflurnar tvær sem Móse fékk á Sínaífjalli. Töflurnar voru verk og ritun YHWH.14 Þetta voru töflurnar sem Móse kastaði frá sér og braut. Hinar tvær töflurnar sem voru skrifaðar, voru verk Móse.15 Þær eru skuggamynd af hjartaspjöldum okkar sem færð eru YHWH svo að hann geti ritað Torah á þau. Aftur sýnir súrdeigið að hjarta okkar og hvatir eru ekki alltaf af hinu hreina og þess vegna höldum við Torah ekki fullkomlega. Þessi boðskapur er nokkuð vel staðfestur af staðsetningu sinni meðal hátíðanna. Shavuot er staðsett á milli vorhátíðanna og hausthátíðanna.

Pesach (Passover - páskar)
Chag HaMatzot (hátíð ósýrðu brauðanna)
Chag HaBikkurim (hátíð frumgróðans)

Chag HaShavuot (viknahátíðin)

Yom Teruah (básúnurnar)
Yom Kippurim (friðþægingardagurinn)
Chag HaSukkot (laufskálahátíð)

 Á spádómlegan hátt virðist Chag HaShavuot tákna tímana sem við lifum á. Messías uppfyllti skuggamynd vorhátíðanna: Y'shua var páskalambið, ósnortinn af dauða og reis upp sem frumgróði frá gröfinni. Við bíðum þess að hann uppfylli hausthátíðirnar; komu hans við síðasta lúðurhljóm til að dæma jörðina með réttlæti og dvelja meðal manna. Á meðan lifum við og höldum Torah eins og það er ritað af Ruach HaKodesh á hjartaspjöld okkar og berum ávöxt fyrir ríki Messíasar.

CHAG SAMEACH !

Birt með leyfi höfundar.
Íslensk þýðing: Sigrún Einarsdóttir

 


  1. Chag er hebreska orðið fyrir "hátíð" eða "hátíðarhöld"
  2. Frumgróði bygguppskerunnar
  3. Chag HaMatzot er hátíð ósýrðu brauðanna
  4. Yom HaBikkurim er frumgróði hveitiuppskerunnar
  5.  Postulasagan 2.1
  6. The Feasts of the Lord (Hátíðir Drottins),
     Kevin Howard and Marvin Rosenthal,
     Thomas Nelson Publishing, bls. 90
  7. www.light-of-israel.org/pentecost_morrow_after_the_sabbath.shtml,
    Hacham Mordecai Alfandari
  8. www.karaite-korner.org/shavuot.shtml “Shavuot”
     eftir Nehemiah Gordon
  9. Allar hátíðir YHWH hafa ákveðna dagsetningu
    nema Chag HaBikkurim og Chag Shavuot, sem báðar á
    að halda hátíðlegar "daginn eftir hvíldardaginn." (Páskar 14.,
    Chag HaMaztot 15., Teruah 1., Yom Kippurim 10.,
    Sukkot   15.).
10.  4. Mósebók 5.11-31
11. The Feasts of the Lord (Hátíðir Drottins),
    Kevin Howard and Marvin Rosenthal,
    Thomas Nelson Publishing, bls.93-94
12.  Ruach HaKodesh er hebreska og þýðir "heilagur andi"
13.  3. Mósebók 23.17
14.  2. Mósebók 32.16
15.  2. Mósebók 34.1

 

 

Copyright - www.torah.is

torah@internet.is