HVÍLDARDAGURINN

Eftir Glenn McWilliams

Hver stór stund, breyting eða ganga hefst á fyrsta skrefinu. Þeir sem eru nýfarnir að huga að því að halda Torah spyrja alltaf að því hvar skal byrja. Við getum svarað þessari spurningu beint úr sjálfri Ritningunni.

Þegar YHWH ætlaði að leysa Ísraelsmenn undan ánauð hinna heiðnu Egypta, blessaði hann Ísraelsmenn með nýju dagatali.

Þá mælti YHWH við þá Móse og Aron í Egyptalandi á þessa leið: Þessi mánuður skal vera upphafsmánuður hjá yður. Hann skal vera fyrsti mánuður ársins hjá yður. (2. Mósebók 12.1-2)

Tilgangurinn með þessu dagatali var sá að hjálpa Ísraelsmönnum að „ganga“ með YHWH. Með því að fylgja dagatali skaparans, var líf Ísraelsmanna í takt við spádómlega tímasetningu skaparans. Með því að gefa gætur að dagatali skaparans urðu Ísraelsmenn hluti af sýnilegri yfirlýsingu áætlunar YHWH um endurlausn og endurreisn allrar sköpunar. Þessi himneska opinberun er boðuð og opinberuð í gegnum skuggamyndirnar sem eru í hinum ýmsu fórnum, föstum, hátíðum, æfingum og útnefndum tímum í dagatali skaparans.

Dagatal skaparans inniheldur ákveðin mikrot og mo'adim. Hebreska orðið mikra (mem, kof, resh, aleph) þýðir „samkunda, opinber samkoma eða æfing.“ Hebreska orðið moed (mem, vav, ayin, dalet) þýðir „útnefndur tími.“ Tilgangurinn með dagatali skaparans er að opinbera okkur heilagar, útnefndar æfingar YHWH. Þessar útnefndu fórnir, föstur, hátíðir og æfingar þjóna ýmsum tilgangi.

Hver þessara útnefndu æfinga fagnar liðnum atburði í lífi YHWH og Ísraelsmanna. Páskafórnin1 og hátíð ósýrðu brauðanna2 fagna hinni sögulegu brottför Ísraelmanna úr Egyptalandi. Frumgróðafórnin3 er til minningar um björgun frumburða í Egyptalandi og fyrstu uppskeruna sem fyrirheitna landið gaf af sér. Viknahátíðin4 fagnar því þegar Torah var gefið á Sínaífjalli. Básúnurnar5, friðþægingardagurinn6 og laufskálahátíðin7 fagna árunum þegar YHWH leiddi Ísraelsmenn í gegnum eyðimörkina. Með hverri þessara ákveðnu hátíða æfa Ísraelsmenn sögu sína með skapara sínum og lausnara. Að æfa þessa útnefndu tíma á okkar tímum hjálpar hverri nýrri kynslóð að tengjast sögu forfeðra sinna. Með því að æfa þessar útnefndu hátíðir á okkar tímum erum við ekki aðeins að „endursegja“ söguna, við fáum tækifæri til að „endurlifa“ atburðina svo að við getum upplifað atburðina og lausn fyrir okkur sjálf.

Við verðum líka að átta okkur á því að það eru spádómlegar merkingar í þessum útnefndu æfingum. Sem æfingar eru þessar föstur og hátíðir til þess að undirbúa börn Ísraels fyrir það sem enn á eftir að koma. Við höfum þegar sagt að þessar útnefndu æfingar eru spádómlegar myndir og yfirlýsingar. Páskarnir, hátíð ósýrðu brauðanna og frumgróðinn lýsa t.d. Yeshua sem lambinu sem slátrað var, spilltist ekki af rotnun (súrdeigi) dauðans og var frumgróði grafarinnar. Viknahátíðin (hvítasunnan) fagnar úthellingu andans heilaga, sem ritar Torah á hjarta hins trúaða. Nú bíðum við uppfyllingar hausthátíðanna, þegar Yeshua mun snúa aftur við básúnublástur, friðþægja fyrir hina samansöfuðu Ísraelsþjóð og dvelja (gera sér tjaldbúð) meðal lýðs síns.

Þar sem þessar útvöldu æfingar benda til framtíðarinnar, hjálpa þær hinum trúuðu að undirbúa fyrir það sem koma skal. Þessar útvöldu æfingar eru þungamiðja dagatals skaparans. Við getum lesið um þessar útvöldu æfingar í 23. kafla 3. Mósebókar. Þótt hver og ein þessara útvöldu æfinga verðskuldi mikla athygli, mun þessi pistill þó einungis fjalla um fyrsta útvalda tímann: hvíldardaginn (sabbatinn).

Á margan hátt er það að halda hvíldardaginn fyrsta skrefið að ævilangri ferð í því að halda Torah, þannig að við skulum einbeita okkur að þessum dásamlega og yndislega tíma. Við hefjum þessa kennslu ekki á boðorðinu um að halda hvíldardaginn, heldur uppruna hans í sköpuninni.

Þannig algjörðist himinn og jörð og öll þeirra prýði. Elóhím lauk á hinum sjöunda degi verki sínu, er hann hafði gjört, og hvíldist hinn sjöunda dag af öllu verki sínu, er hann hafði gjört. Og Elóhím blessaði hinn sjöunda dag og helgaði hann, því að á honum hvíldist Elóhím af verki sínu, sem hann hafði skapað og gjört. (1. Mósebók 2.1-3)

Það eru nokkur mikilvæg atriði sem við ættum að taka eftir í þessum versum í upphafi Ritningarinnar. Fyrst ættum við að taka eftir því að skaparinn skipti sköpun sinni í sjö daga tímabil. Það er mikilvægt að við áttum okkur á því að frá upphafi hefur skaparinn skipt tímanum í daga, vikur, mánuði og ár. Við sjáum þetta í mynstri myrkurs og ljóss og í sköpun stjarnanna og plánetanna.

Elóhím sagði: Verði ljós á festingu himinsins, að þau greini dag frá nóttu og séu til tákns og til að marka tíðir, daga og ár.
(1. Mósebók 1.14)

Hringrás sólarinnar skilgreinir dagana, frá kvöldi til morguns, eins og sést í Torah. Biblíulega hefst nýr dagur við sólsetur, ekki á miðnætti. Þetta mynstur kvölds og morguns er vel staðfest í frásögninni af sköpuninni.

Og Elóhím kallaði ljósið dag, en myrkrið kallaði hann nótt. Það varð kveld og það varð morgunn, hinn fyrsti dagur. (1. Mósebók 1.5)
 

Og Elóhím kallaði festinguna himin. Það varð kveld og það varð morgunn, hinn annar dagur. (1. Mósebók 1.8)
 

Það varð kveld og það varð morgunn, hinn þriðji dagur.
(1. Mósebók 1.13)
 

Það varð kveld og það varð morgunn, hinn fjórði dagur.
(1. Mósebók 1.19)
 

Það varð kveld og það varð morgunn, hinn fimmti dagur.
(1. Mósebók 1.23)
 

Og Elóhím leit allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott. Það varð kveld og það varð morgunn, hinn sjötti dagur.
(1. Mósebók 1.31)

Hringrás tunglsins, sem er 29.5 dagar, ákvarðar mánuðinn. Hér má benda á að orðið „mánuður“ er samstofna orðinu "máni.“8 Með því að fylgjast með fyrstu rönd nýs tungls gátu Ísraelsmenn staðfest „Rosh Chodesh“ eða upphaf mánaðarins. Upphaf ársins var staðfest með birtingu tólfta mánans og þroska byggsins, sem kallast „aviv“ (eða abíb).

Þá mælti YHWH við þá Móse og Aron í Egyptalandi á þessa leið: Þessi mánuður skal vera upphafsmánuður hjá yður. Hann skal vera fyrsti mánuður ársins hjá yður. (2. Mósebók 12.1-2)
 

Í dag farið þér af stað, í abíb-mánuði. (2. Mósebók 13.4)
 

Þú skalt halda hátíð hinna ósýrðu brauða. Sjö daga skalt þú eta ósýrt brauð, eins og ég hefi boðið þér, á ákveðnum tíma í abíb-mánuði, því að í þeim mánuði fórst þú út af Egyptalandi. Enginn skal koma tómhentur fyrir mitt auglit. (2. Mósebók 23.15)
 

Þú skalt halda hátíð hinna ósýrðu brauða. Sjö daga skaltu eta ósýrð brauð, eins og ég hefi boðið þér, á ákveðnum tíma í abíb-mánuði, því að í abíb-mánuði fórst þú út af Egyptalandi. (2. Mósebók 34.18)
 

Gæt þess að halda YHWH Elóhím þínum páska í abíbmánuði, því að í abíbmánuði leiddi YHWH Elóhím þinn þig á náttarþeli út af Egyptalandi. (5. Mósebók 16.1)

Það að mæla tíma í dögum, mánuðum og árum má sjá á hringrásum sköpunar, en skiptingin í sjö daga var aðeins stofnuð af skaparanum sjálfum. Það er engin hringrás sólar, tungl, plánetu eða stjörnu sem skiptir tíma í sjö daga tímabil. Mæling shavua eða „viku“ var fyrir yfirlýsingu og vilja sjálfs skaparans. Með því að vinna í sex daga og hvílast hinn sjöunda dag, stofnaði skaparinn sjálfur þessa einstöku tímaskiptingu.

Þannig algjörðist himinn og jörð og öll þeirra prýði. Elóhím lauk á hinum sjöunda degi verki sínu, er hann hafði gjört, og hvíldist hinn sjöunda dag af öllu verki sínu, er hann hafði gjört. Og Elóhím blessaði hinn sjöunda dag og helgaði hann, því að á honum hvíldist Elóhím af verki sínu, sem hann hafði skapað og gjört. (1. Mósebók 2.1-3)

Við ættum að taka eftir því að það var skaparinn sem tók frá sjöunda daginn, blessaði hann og helgaði hann, vegna þess að á þeim degi hvíldist hann af verki sínu. Við þurfum því að viðurkenna að þessi sjöundi dagur er ekki stofnaður af náttúrunni eða manninum, heldur af alvalda vilja sjálfs skaparans. Á margan hátt er það þetta mynstur sjö daga vikunnar, sex dagar til vinnu og einn til hvíldar, sem lýsir yfir þeim raunveruleika að heimurinn varð ekki til í sjálfsprottnum stórum hvelli eða fyrir tilviljun náttúrulögmálsins, heldur var stofnaður af greindum og skipulögðum skapara. Það er þess vegna sem hátíð hvíldardagsins var síðar nefnd „hvíldardagur YHWH.“

En sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður YHWH Elóhím þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín eða skepnur þínar, eða nokkur útlendingur, sem hjá þér er innan borgarhliða þinna. (2. Mósebók 20.10)
 

Sex daga skal verk vinna, en sjöunda daginn skal vera helgihvíld, helg samkoma. Þér skuluð ekkert verk vinna. Það er hvíldardagur YHWH í öllum bústöðum yðar. (3. Mósebók 23.3)
 

En sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður YHWH Elóhím þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín, uxi þinn eða asni eða nokkur skepna, eða útlendingur, sem hjá þér er innan þinna borgarhliða, svo að þræll þinn og ambátt þín geti hvílt sig eins og þú. (5. Mósebók 5.14)

Þótt skaparinn hafi allt frá upphafi blessað og helgað sjöunda daginn sem hvíldardag, var ekkert boðorð sem sagði mannkyninu að fylgja sama mynstri. Reyndar er ekki sjáanlega minnst á hinn vikulega hvíldardag aftur fyrr en eftir að börn Ísraels hafa komið út úr Egyptalandi. Við sjáum ekkert um það að Adam, Set, Enok, Nói, Abraham, Ísak eða Jakob hafi haldið hinn vikulega hvíldardag. Það þýðir þó ekki að þeir hafi ekki haldið hvíldardaginn, aðeins að það sé ekkert minnst á það. Það er mögulega óbein tilvísun í að Ísraelsmenn hafi haldið hvíldardaginn á meðan þeir voru enn í Egyptalandi.

Eftir að Móse sneri aftur til Egyptalands frá logandi runnanum, gekk hann fram fyrir Faraó og bað um lausn Ísraelsmanna svo að þeir gætu þjónað Elóhím.

Eftir það gengu þeir Móse og Aron á fund Faraós og sögðu: Svo segir YHWH, Elóhím Ísraelsmanna: Gef fólki mínu fararleyfi, að það megi halda mér hátíð í eyðimörkinni. En Faraó sagði: Hver er YHWH, að ég skuli hlýða honum til þess að leyfa Ísrael að fara? Ég þekki ekki YHWH, og Ísrael leyfi ég eigi heldur að fara. Þeir sögðu: Elóhím Hebrea hefir komið til móts við oss. Leyf oss að fara þriggja daga leið út í eyðimörkina til að færa fórnir YHWH, Elóhím vorum, að hann láti eigi yfir oss koma drepsótt eða sverð. En Egyptalandskonungur sagði við þá: Hví viljið þið, Móse og Aron, taka fólkið úr vinnunni? Farið til erfiðis yðar! Og Faraó sagði: Nú, þegar fólkið er orðið svo margt í landinu, þá viljið þið láta það hætta að erfiða! (Láta það hvílast sabbatshvíld.) Sama dag bauð Faraó verkstjórum þeim, er settir voru yfir fólkið, og tilsjónarmönnum þess og sagði: Upp frá þessu skuluð þér eigi fá fólkinu hálmstrá til að gjöra tigulsteina við, eins og hingað til. Þeir skulu sjálfir fara og safna sér stráum, en þó skuluð þér setja þeim fyrir að gjöra jafnmarga tigulsteina og þeir hafa gjört hingað til, og minnkið ekki af við þá, því að þeir eru latir. Þess vegna kalla þeir og segja: Vér viljum fara og færa fórnir Elóhím vorum. (2. Mósebók 5.1-8)

Út frá samhenginu er hægt að gera ráð fyrir að „hvíldin“ sem Faraó vísaði til hafi verið beiðni Móse um frelsi til að fara og þjóna YHWH, en það er líka hægt að gera ráð fyrir að Faraó hafi verið að bregðast við þeirri venju Ísraelsmanna að hvílast sjöunda daginn. Með því að auka vinnuálag þeirra og krefjast þess að þeir ynnu aukadag, var Faraó að sýna að hann óttaðist ekki YHWH, Elóhím Ísraels.

Fyrsta augljósa tilvísunin í mynstur sex vinnudaga og sjöunda dagsins sem hvíldardags kemur eftir að Ísraelsmenn höfðu farið öruggir í gegnum Rauðahafið. Þegar Ísraelsmenn mögluðu í eyðimörkinni sendi YHWH þeim manna frá himni. Það átti ekki aðeins að sjá Ísraelsmönnum fyrir fæði í eyðimörkinni, heldur líka reyna þá. Hvíldardagurinn myndi opinbera hvort hjarta þeirra gæti í raun beygt sig undir það að lifa samkvæmt orði YHWH einu saman.

Og Ísraelsmenn sögðu við þá: Betur að vér hefðum dáið fyrir hendi YHWH í Egyptalandi, er vér sátum við kjötkatlana og átum oss sadda af brauði, því að þið hafið farið með oss út á þessa eyðimörk til þess að láta allan þennan mannfjölda deyja af hungri. Þá sagði YHWH við Móse: Sjá, ég vil láta rigna brauði af himni handa yður, og skal fólkið fara út og safna hvern dag svo miklu sem þarf þann daginn, svo að ég reyni það, hvort það vill breyta eftir mínu lögmáli eða ekki. Og er þeir þá á hinum sjötta degi tilreiða það, sem þeir koma heim með, skal það vera tvöfalt við það, sem þeir annars safna daglega.
(2. Mósebók 16.3-5)
 

En á sjötta deginum söfnuðu þeir tvöfalt meira af brauði, tvo gómera á mann. Komu þá allir foringjar lýðsins og sögðu Móse frá. En hann sagði við þá: Þetta er það, sem YHWH sagði: Á morgun er hvíldardagur, heilagur hvíldardagur YHWH. Bakið það, sem þér viljið baka, og sjóðið það, sem þér viljið sjóða, en allt það, sem af gengur, skuluð þér leggja fyrir og geyma til morguns. Þeir lögðu það þá fyrir til næsta morguns, eins og Móse bauð, og fúlnaði það ekki né maðkaði. Þá sagði Móse: Í dag skuluð þér eta það, því að í dag er hvíldardagur YHWH. Í dag finnið þér það ekki á mörkinni. Sex daga skuluð þér safna því, en sjöundi dagurinn er hvíldardagur, þá mun ekkert finnast.
(2. Mósebók 16.22-26)

Í þessum textum er greinilegt að börnum Ísraels er boðið að halda hvíldardaginn. Við sjáum líka að hvíldardagurinn tekur á sig nýja merkingu. Upphafleg boðun hvíldardagsins lýsti yfir almætti skaparans en nú sjáum við hvíldardaginn sem yfirlýsingu um getu YHWH til að leysa og annast útvalinn lýð sinn. Þetta boðaða mynstur sex vinnudaga og sjöunda dagsins sem hvíldardags varð að lokum formlegur hluti af Sínaísáttmálanum.

Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk, en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður YHWH Elóhím þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín eða skepnur þínar, eða nokkur útlendingur, sem hjá þér er innan borgarhliða þinna, því að á sex dögum gjörði YHWH himin og jörð, hafið og allt sem í þeim er, og hvíldist sjöunda daginn. Fyrir því blessaði YHWH hvíldardaginn og helgaði hann. (2. Mósebók 20.8-11)
 

Gættu þess að halda hvíldardaginn heilagan, eins og YHWH Elóhím þinn hefir boðið þér. Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk, en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður YHWH Elóhím þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín, uxi þinn eða asni eða nokkur skepna, eða útlendingur, sem hjá þér er innan þinna borgarhliða, svo að þræll þinn og ambátt þín geti hvílt sig eins og þú. Og minnstu þess, að þú varst þræll á Egyptalandi og að YHWH Elóhím þinn leiddi þig út þaðan með sterkri hendi og útréttum armlegg. Þess vegna bauð YHWH Elóhím þinn þér að halda hvíldardaginn. (5. Mósebók 5.12-15)

Hvíldardagurinn varð reyndar að tákni sáttmálans. Það var hvíldardagurinn sem aðskildi börn Ísraels frá þjóðunum með því að vera lýður sem hélt Torah.

YHWH talaði við Móse og sagði:  Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Sannlega skuluð þér halda mína hvíldardaga, því að það er teikn milli mín og yðar frá kyni til kyns, svo að þér vitið, að ég er YHWH, sá er yður helgar. Haldið því hvíldardaginn, því að hann skal vera yður heilagur. Hver sem vanhelgar hann, skal vissulega líflátinn verða, því að hver sem þá vinnur nokkurt verk, sá maður skal upprættur verða úr þjóð sinni. Sex daga skal verk vinna, en sjöundi dagurinn er algjör hvíldardagur, helgaður YHWH. Hver sem verk vinnur á hvíldardegi, skal vissulega líflátinn verða. Fyrir því skulu Ísraelsmenn gæta hvíldardagsins, svo að þeir haldi hvíldardaginn heilagan frá kyni til kyns sem ævinlegan sáttmála. Ævinlega skal hann vera teikn milli mín og Ísraelsmanna, því að á sex dögum gjörði YHWH himin og jörð, en sjöunda daginn hvíldist hann og endurnærðist. (2. Mósebók 31.12-17)

Við getum ekki horft framhjá mikilvægi þessa helga dags. Hér sjáum við að Hinn heilagi segir að ef nokkur meðal Ísraelsmanna sé staðinn að því að  vinna á hvíldardeginum þá muni hann líflátinn verða og upprættur úr þjóð sinni. Með öðrum orðum, ef þú ætlar ekki að bera „merki“ sáttmálans, muntu ekki njóta hagsbóta sáttmálans. Svo mikilvæg er þessi heilaga æfing að YHWH gaf henni jafnvel forgang umfram vinnu við gerð tjaldbúðarinnar.

Móse stefndi saman öllum söfnuði Ísraelsmanna og sagði við þá: Þetta er það, sem YHWH hefir boðið að gjöra: Sex daga skal verk vinna, en sjöundi dagurinn skal vera yður helgur hvíldardagur, hátíðarhvíld YHWH. Hver sem verk vinnur á þeim degi, skal líflátinn verða. Hvergi skuluð þér kveikja upp eld í híbýlum yðar á hvíldardegi.
(2. Mósebók 35.1-3)

Ef okkur finnst við sannarlega vera kölluð til að ganga inn í sáttmálann, og verða borgarar í ríki Ísraels9, getur fyrsta skrefið okkar á þeirri braut verið það að halda hvíldardaginn. YHWH hefur lýst því yfir að hvíldardagurinn eigi að vera ævarandi tákn sáttmálasambands okkar við skapara okkar, endurlausnara, lausnara og frelsara.

Nú þurfum við að spyrja hvernig við eigum að halda hvíldardaginn. Í hinum ýmsu ritningarversum sem eru hér á undan, eru sjö grundvallarleiðbeiningar varðandi það að halda hvíldardaginn.

1. Minnstu hvíldardagsins

2. Haltu hvíldardaginn

3. Helgaðu hvíldardaginn

4. Ekki vinna á hvíldardeginum

5. Hvíldu þig á hvíldardeginum

6. Ekki láta aðra vinna á hvíldardeginum

7. Ekki kveikja upp eld á hvíldardeginum

Nú skulum við líta á þessar leiðbeiningar í samhengi svo að við getum greint hug skaparans varðandi hvíldardaginn.

MINNSTU HVÍLDARDAGSINS

Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. (2. Mósebók 20.8)

Boðorðið um að minnast hvíldardagsins fær okkur til að minnast sjöunda dags sköpunarinnar. Það var á sjöunda degi sköpunarinnar sem YHWH Elóhím stofnsetti þetta mynstur. Með því að minnast hins upphaflega sjöunda dags sköpunar minnumst við þess líka að heimurinn var skapaður af almáttugum skapara! Ég man þá tíð að engin verslun, matsölustaður, bílasala eða rakarastofa var opin á sunnudögum til að heiðra hinn „kristilega“ hvíldardag. Mér finnst það nokkuð áhugavert að á sama tíma og menning okkar í Bandaríkjunum hætti að heiðra hvíldardaginn (þótt hann væri talinn vera sunnudagur), fórum við að kenna „stóra hvells kenninguna“ og „þróunarkenninguna“ í opinberum skólum okkar. Án hvíldardagsins er engin vikuleg yfirlýsing um almáttugan skapara sem stofnaði sjö daga viku og helgaði dag til hvíldar. Það er því mikilvægt að við MINNUMST hvíldardagsins og lýsum YHWH sem almáttugan skapara alheimsins. Þar sem hvíldardagurinn lýsir YHWH sem almáttugum skapara alheimsins virðist alltaf viðeigandi að verja tíma í að njóta náttúrunnar á hvíldardeginum. Að fara í rólega gönguferð í skóginum, í fjörunni eða í almenningsgarðinum er dásamleg leið til að minnast sköpunarverks YHWH og lofa hann fyrir hina dásamlegu gjöf sköpunarinnar. Á sex dögum vann hann og skapaði, en sjöunda daginn hvíldist hann.

HALTU HVÍLDARDAGINN

Gættu þess að halda hvíldardaginn heilagan, eins og YHWH Elóhím þinn hefir boðið þér. (5. Mósebók 5.12)

Hebreska orðið sem er þýtt sem „að halda“ er orðið shamar (shin, mem, resh). Þetta orð hefur nokkrar mögulegar merkingar, eins og „að varðveita“ eða „fara eftir,“ „girða um“ eða „vernda.“ Mér finnst þetta benda til þess að okkur sé hreinlega boðið að varðveita eða vernda hvíldardaginn.

Vinnuvika okkar hefst fyrsta dag vikunnar. Í vikunni hleypum við í okkur krafti svo að við getum lokið öllu sem þarf að gera þá vikuna. Þegar við gleymum okkur í vinnutaktinum er ekki alltaf auðvelt að skipta um gír. Sú freisting er alltaf til staðar að gera aðeins meira til að ljúka öllu verkinu. Svo koma líka tímar þar sem við missum sjónar á því hvaða dagur er og við skipuleggjum verkefni eða mælum okkur mót á sjöunda deginum. Það að varðveita hvíldardaginn þýðir að við þurfum alltaf að gæta þess á hvaða degi hann er. Til þess að halda hvíldardeginum í öryggi þurfum við að lifa hverjum degi til fullnustu, meta tíma okkar og skipuleggja verk okkar svo að við látum það ekki ná yfir hina helgustu daga. Í sex daga kunnum við að vera annars hugar um fegurð og heilagleika skaparans, en sjöunda daginn þurfum við að varðveita til þess að eiga ótruflaðan tíma með YHWH.

HELGAÐU HVÍLDARDAGINN

Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. (2. Mósebók 20.8)
 

Gættu þess að halda hvíldardaginn heilagan, eins og YHWH Elóhím þinn hefir boðið þér. (5. Mósebók 5.12)

Við eigum ekki aðeins að minnast hvíldardagsins og varðveita hvíldardaginn, við eigum líka að aðskilja hann frá öðrum dögum. Þessi dagur ætti að vera öðruvísi, sérstakur og yndislegur. Hvíld frá vinnu, ró, minning og varðveisla gerir þennan dag sannarlega öðruvísi en hina sex daga vikunnar. Með því að boða okkur að helga þennan dag er YHWH að biðja okkur að gera þennan tíma með honum bæði sérstakan og yndislegan. Hvíldardeginum ber að fagna. Skaparinn hefur tekið þennan dag frá fyrir okkur. Við skulum minnast orða Messíasar okkar, Yeshua, þegar hann kenndi varðandi hvíldardaginn:

Og hann sagði við þá: Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins. (Markúsarguðspjall 2.27)

YHWH hefur tekið þennan dag frá fyrir okkur. Þetta á sannarlega að vera sérstakur tími. Við ættum að átta okkur á því að skaparinn hefur lagt vinnu sína til hliðar til að vera með okkur og þess vegna viljum við ekki eyða öllum deginum í að sofa eða hanga fyrir framan sjónvarpið. Að helga þennan dag er það að beina hjarta okkar, huga og sálu til hans. Ég man enn kennslu Marteins Lúthers varðandi þetta boðorð í litla spurningakverinu hans.

Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan.

 

Hvað þýðir þetta?

 

Svar: Við ættum að óttast og elska Guð og því ekki fyrirlíta Orð hans og boðun þess, heldur álíta það heilagt og taka við því með fögnuði og læra það.10

Þótt það sé ekkert beint boð um að rannsaka Torah á hvíldardeginum tel ég þó persónulega að ekki sé til betri leið til að helga hvíldardaginn en að rannsaka og ræða Tora í bæn með fjölskyldu og vinum. Bæn, söngur, dans og samfélag við aðra trúaða getur líka gert þennan dag sérstakan.

EKKI VINNA Á HVÍLDARDEGINUM

En sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður YHWH Elóhím þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín eða skepnur þínar, eða nokkur útlendingur, sem hjá þér er innan borgarhliða þinna. (2. Mósebók 20.10)

Eitt af því sem á stóran þátt í að taka þennan helga dag frá er það að hætta allri hversdagslegri vinnu þann dag. Hvíldardagurinn er ekki dagur til að greiða reikninga, slá grasið, þvo og bóna bílinn, hreinsa illgresi úr garðinum, fægja silfrið eða annað slíkt sem við gerum yfirleitt þegar tími gefst frá vinnu. Hvíldardagurinn er ekki einfaldlega bara „vikulok.“ Hvíldardagurinn er heilög æfing, útnefndur tími. Hann er tími sem skapari alheimsins hefur tekið frá til þess að eiga samfélag við sköpun sína og þess vegna ættum við að hugsa það sem svo, að frelsarinn sé gestur á heimili okkar á hvíldardeginum. Myndum við slá grasið, þvo þvott, hreinsa burt illgresi úr garðinum eða sýsla við einver hversdagsleg verk ef Messías væri í heimsókn hjá okkur? Vildum við ekki heldur eiga óskert og ótruflað samfélag við Messías? Þannig er það með hvíldardaginn. Við ættum að leggja allt sem við getum til hliðar og hlúa að þessum nána tíma með skaparanum.

Að þessu sögðu, skulum við nú tala um nokkarar undantekningar. Þótt ætlun skaparans sé sú að allir geti notið þessa tíma til að eiga ótruflað samfélag við hann þurfum við líka að átta okkur á því að sumir „verða“ að vinna á hvíldardeginum. Lögreglumenn, brunaliðsmenn, læknar á neyðarvakt og fangaverðir verða allir að vinna á hvíldardeginum. Hér þurfum við að muna að cohanim11 unnu líka í musterinu í Jerúsalem á hvíldardeginum. Við kunnum að spyrja hvers vegna það sé leyfilegt fyrir suma að vinna á hvíldardeginum en ekki aðra. Við þurfum að muna að YHWH er alltaf hugað um líf. Tilgangur þess að halda Torah er til þess að endurreisa líf. Þess vegna fá þeir sem varðveita líf að „vanhelga“ hvíldardaginn án dóms. Yeshua kenndi:

Eða hafið þér ekki lesið í lögmálinu, að prestar vanhelga hvíldardaginn í musterinu á hvíldardögum, og eru þó án saka?
(Matteusarguðspjall 12.5)
 

Þar var maður með visna hönd. Og þeir spurðu Yeshua: Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi? Þeir hugðust kæra hann. Hann svarar þeim: Nú á einhver yðar eina sauðkind, og hún fellur í gryfju á hvíldardegi. Mundi hann ekki taka hana og draga upp úr? Hve miklu er þó maðurinn sauðkindinni fremri! Það er því leyfilegt að gjöra góðverk á hvíldardegi.
(Matteusarguðspjall 12.10-12)
 

Síðan spyr hann þá: Hvort er heldur leyfilegt að gjöra gott eða gjöra illt á hvíldardegi, bjarga lífi eða deyða? En þeir þögðu. (Markúsarguðspjall 3.4)

Það er greinilega alltaf ásættanlegt að bjarga lífi, endurreisa líf og gera góðverk á hvíldardeginum. Það að fara út í búð til að kaupa nauðsynleg lyf eða gera góðverk fyrir nágranna telst ekki vanhelgun hvíldardagsins.

Annað sem við þurfum að tala um á raunsæjan hátt varðar þá sem verða að vinna á hvíldardeginum eða að öðrum kosti missa vinnu sína. Ég gerist svo djarfur hér að lýsa því yfir að ef ekki er um annað að ræða en að vinna, til að sjá fjölskyldu sinni farborða, þá verði svo að vera en við getum leitast eftir því að finna nýja vinnu eða gera aðrar ráðstafanir, eins og að bjóðast til að vinna á sunnudögum og öðrum „kristilegum“ eða veraldlegum frídögum. Ef það er skýlaus krafa um að við vinnum á hvíldardeginum, verðum við að álykta sem svo að við séum, á margan hátt, enn í Egyptalandi. Í þessum kringumstæðum ættum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að heiðra hvíldardaginn. Þegar við komum heim úr vinnu okkar getum við haldið það sem eftir er af hvíldardeginum. Ég trúi því að skaparinn muni heiðra hryggð hjarta þíns yfir þessu. Það eru svona kringumstæður sem fá okkur til að þrá endurkomu Messíasar og stofnun ríkis hans.

HVÍLDU ÞIG Á HVÍLDARDEGINUM

Það að hætta að vinna og það að hvílast er tvennt ólíkt. Yeshua kenndi okkur að hvíldardagurinn væri gerður fyrir okkur. Yeshua kenndi líka:

Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn? Og hví eruð þér áhyggjufullir um klæði? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Elóhím skrýðir svo gras vallarins, sem í dag stendur, en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlitlir! Segið því ekki áhyggjufullir: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? (Allt þetta stunda heiðingjarnir), og yðar himneski faðir veit, að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis Elóhíms og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.
(Matteusarguðspjall 6.25-33)

Á meðan Ísraelsmenn dvöldu í eyðimörkinni voru þeir reyndir með skorti á fæðu og vatni og þurftu að læra að treysta á YHWH með allt. Þegar Ísraelsmenn gengu inn í land mjólkur og hunangs hætti manna að birtast og Ísraelsmenn þurftu að læra að sjá sér sjálfir fyrir fæðu. Freisting sjálfsnægtar og velgengni er knúin áram af þeim ótta að ef við hættum að vinna, þó ekki sé nema um stund, munum við ekki komast af. Þótt við ögum okkur til að hætta að vinna, er svo annað mál að hvíla í ró í þeirri fullvissu að það hafi verið, og verði alltaf, YHWH sem sér fyrir okkur. Hvíldardagurinn á að vera tími sem endurnærir anda okkar og samfélag við skaparann en líka líkama okkar sem við notum til að þjóna honum. Þess vegna ættum við að leita eftir kyrrð í huga okkar og líkama og virklega hvíla í YHWH. Við ættum líka að forðast athafnir sem virkilega reyna á okkur líkamlega. Rólegar göngur og leikir geta átt við á hvíldardeginum en við ættum að gæta þess að missa ekki sjónar á tíma „hvíldar“ í YHWH. Við ættum ekki heldur að takmarka athafnir okkar svo að við missum sjónar á því að hvíldardagurinn á að vera yndislegur dagur.

Ekki láta aðra vinna á hvíldardeginum

Þótt það sé ekkert boðorð um að hinn trúlausi eigi að halda hvíldardaginn er þó skýrt að sem meðlimir sáttmálans eigum við ekki að láta aðra vinna á hvíldardeginum. Ég ætla að sýna fram á tvær mögulegar ástæður fyrir þessu boði. Fyrsta ástæðan tengist því sem við höfum þegar sagt hér að ofan. Með því að hætta vinnu og hvílast á hvíldardeginum lýsum við því yfir að YHWH sé sá sem sannarlega sjái fyrir lífi okkar. Ef við hvílumst sjálf frá vinnu en látum aðra vinna fyrir okkur, högum við okkur eins og hræsnarar. Það að láta aðra vinna í okkar stað er eins og að lýsa yfir skorti á trú á getu skaparans til að sjá fyrir okkur ef við höldum sáttmála hans. Hinn sanni vitnisburður um getu skaparans til að sjá fyrir okkur sést á því hvernig við lokum fyrir viðskipti okkar á hvíldardeginum. Með því að gefa jafnvel trúlausum starfsmönnum okkar frí á þessum degi, gætum við þess að enginn geti sagt að það hafi verið hans erfiði eða forsjá sem sá fyrir okkur, en ekki YHWH. Önnur ástæða fyrir því að láta ekki aðra vinna hvíldardeginum er vegna þess að forfeður okkar í ánauð í Egyptalandi voru þvingaðir til að vinna á hvíldardeginum.

Gættu þess að halda hvíldardaginn heilagan, eins og YHWH Elóhím þinn hefir boðið þér. Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk, en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður YHWH Elóhím þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín, uxi þinn eða asni eða nokkur skepna, eða útlendingur, sem hjá þér er innan þinna borgarhliða, svo að þræll þinn og ambátt þín geti hvílt sig eins og þú. Og minnstu þess, að þú varst þræll á Egyptalandi og að YHWH Elóhím þinn leiddi þig út þaðan með sterkri hendi og útréttum armlegg. Þess vegna bauð YHWH Elóhím þinn þér að halda hvíldardaginn. (5. Mósebók 5.12-15)
 

Útlendum manni skalt þú eigi sýna ójöfnuð né veita honum ágang, því að þér voruð sjálfir útlendingar í Egyptalandi. (2. Mósebók 22.21)
 

Hið fyrsta, frumgróða jarðar þinnar, skalt þú færa til húss YHWH Elóhím þíns. Þú skalt ekki sjóða kið í mjólk móður sinnar.
(2. Mósebók 23.19)

Bannið við því að láta aðra þjóna okkur, vinna fyrir okkur eða erfiða í okkar stað, leysir okkar undan þeirri freistingu að notfæra okkur aðra, eða þjaka aðra, sakir efnishyggju. Hvíldardagurinn minnir okkur á að eitt sinn vorum við undir ánauð harðstjóra. Með því að láta ekki aðra erfiða á hvíldardeginum erum við vernduð fyrir því að verða sjálf að því sem við eitt sinn fyrirlitum. Með því að gefa jafnvel trúlausum hvíldardaginn sem dag til hvíldar, opnum við þann möguleika að þeir kynnist líka almætti skapara okkar. Þetta boðorð hvetur okkur til þess að fara ekki á matsölustaði, í kvikmyndahús, á íþróttaviðburði eða í verslunarleiðangra á hvíldardegi. Við ættum að halda okkur frá hvers konar fjárhagsfærslum og viðskiptasamningum þennan dag.

Ekki kveikja upp eld á hvíldardeginum

Þessar síðustu leiðbeiningar varðandi hvíldardaginn eru sérstakar. Þetta boðorð var gefið á þeim tíma þegar Ísraelsmenn áttu að reisa tjaldbúðina. YHWH staðfesti að hvíldardagurinn átti að hafa forgang umfram vinnu við tjaldbúðina. Þar sem smíðar og málmbræðsla voru hluti af þeirri vinnu sem tilheyrði því að reisa tjaldbúðina getur verið að bannið við því að kveikja upp eld á hvíldardeginum hafi verið annað bann við nokkurs konar vinnu á hvíldardeginum.

Þetta bann við því að kveikja upp eld getur líka verið bann við því að elda mat á hvíldardeginum. Við ættum að taka eftir því að í fyrstu sjáanlegu fræðslunni um hvíldardaginn segir sérstaklega í Torah að Ísraelsmenn eigi að safna tvisvar sinnum meiri mat sjötta daginn og tilreiða hann fyrir sjöunda daginn.

Og er þeir þá á hinum sjötta degi tilreiða það, sem þeir koma heim með, skal það vera tvöfalt við það, sem þeir annars safna daglega.
(2. Mósebók 16.5)
 

En á sjötta deginum söfnuðu þeir tvöfalt meira af brauði, tvo gómera á mann. Komu þá allir foringjar lýðsins og sögðu Móse frá. En hann sagði við þá: Þetta er það, sem YHWH sagði: Á morgun er hvíldardagur, heilagur hvíldardagur YHWH. Bakið það, sem þér viljið baka, og sjóðið það, sem þér viljið sjóða, en allt það, sem af gengur, skuluð þér leggja fyrir og geyma til morguns.
(2. Mósebók 16.22-23)

Það sem styður þetta bann við því að kveikja upp eld og að elda mat á hvíldardegi er hið skýra leyfi sem skaparinn veitir til þess að matreiða á hvíldardögum sem tengjast hinum ýmsu hátíðum YHWH.

Á hinum fyrsta degi skuluð þér halda helga samkomu og sömuleiðis á hinum sjöunda degi helga samkomu. Á þeim dögum skal ekkert verk vinna, nema það megið þér tilreiða, sem hver og einn þarf sér til matar. (2. Mósebók 12.16)

Ef sérstakt leyfi er veitt til þess að elda á dögum hátíðanna hlýtur að vera að eldamennska sé yfirleitt bönnuð á hinum vikulega hvíldardegi. Þótt hvatt sé til neyslu matar og hátíðarmáltíða ætti að tilreiða matinn fyrirfram svo að enginn þurfi að kaupa inn, uppskera, kveikja upp eld eða elda mat á hvíldardeginum. Undirbúningurinn fyrir hvíldardaginn er hluti af því að „halda“ eða „varðveita“ hvíldardaginn.

Það er önnur táknræn hlið á þessari kennslu. Þegar fólk hefur mikinn tíma fyrir höndum er ekki óalgengt að það hafi ofan af sér með því að efna til innbyrðis deilna. Þetta bann varar okkur við því að nota þennan helga tíma í slúðursögur, deilur, rifrildi eða til að ergja aðra. Það er aldrei viðeigandi á hvíldardegi að kveikja upp eld meðal fjölskyldu, vina eða bræðra.

Ég skrifa þessa grein í febrúarmánuði í Michigan. Úti er 17 stiga frost og 60 sm snjór liggur yfir öllu. Margir hér hita upp heimili sín með því að brenna við. Með því að hugsa um grundvallaratriði lífs, trúi ég því ekki að skaparinn ætlist til þess að við slökkvum í eldstæðunum eða á ofnunum okkar og stefnum heilsu okkar og heimili í hættu til að halda hvíldardaginn. En aftur á móti ættum við ekki að strita við að höggva niður við eða að safna eldiviði á hvíldardeginum. Raunar er mjög öflug frásögn í Torah um mann sem safnaði viði á hvíldardeginum.

Meðan Ísraelsmenn voru í eyðimörkinni, stóðu þeir mann að því að bera saman við á hvíldardegi. Og þeir sem hittu hann, þar sem hann var að bera saman viðinn, færðu hann fyrir Móse og Aron og fyrir allan söfnuðinn. Og þeir settu hann í varðhald, því að enginn úrskurður var til um það, hversu með hann skyldi fara. En YHWH sagði við Móse: Manninn skal af lífi taka. Allur söfnuðurinn skal berja hann grjóti fyrir utan herbúðirnar. Þá færði allur söfnuðurinn hann út fyrir herbúðirnar og barði hann grjóti til bana, eins og YHWH hafði boðið Móse.
(4. Mósebók 15.32-36)

Rétt eins og með innkaup og eldamennsku, ætti allur nauðsynlegur undirbúningur varðandi upphitun heimilisins á hvíldardeginum að vera gerður fyrirfram. Við ættum að vera búin að höggva niður viðinn, kljúfa hann og stafla honum. Við ættum einnig að hafa eldinn þegar kveiktan upp svo að við þurfum ekki að erfiða við það á hvíldardeginum.

Það er ákveðin hefð í rabbínískum gyðingdómi varðandi það að nota kertaljós til að aðgreina hvíldardaginn frá hinum sex dögunum. Margt Messíanskt trúað fólk hefur í blindni leitt þessa hefð inn í sína hvíldardaga. Við sólsetur sjötta daginn er kveikt á kertum og farið með sérstaka blessun. Þessi hvíldardagskerti eru svo látin loga allan hvíldardaginn. Við sólsetur hvíldardagsins er svo kveikt á öðrum sérstökum kertum, sem gefa til kynna að hvíldardegi sé nú lokið og að það sé í lagi að kveikja aftur upp eld. Þó að þessar athafnir með kertaljósin séu skemmtileg leið til að „taka hvíldardaginn frá,“ verðum við þó að huga að því hvað við erum að gera. Þessi rabbíníska hefð er ekki alveg ágreiningslaus. Í rabbínískum bænum sem farið er með þegar kveikt er á kertunum er vísað í „boðorðið“ sem „býður okkur“ að kveikja á kertum hvíldardagsins.

Blessaður sért þú YHWH Elóhím okkar, konungur alheimsins, sem hefur helgað okkur með boðorðum sínum og boðið okkur að kveikja ljós hvíldardagsins.12

Kaldhæðni þessarar bænar er sú að eina boðið varðandi það að kveikja eld á hvíldardegi er bannið við því að kveikja upp eld og því er það að tendra ljós í upphafi hvíldardagsins tákn um vald rabbína til að breyta og jafnvel gera það sem stangast á við skýra kennslu Torah. „Boðorðið“ sem vísað er til í þessari bæn lýsir því yfir að það sé YHWH sem hafi boðið okkur að tendra kertin. Rabbínar kenna að þeir hafi vald hins Almáttka til að bæta boðorðum við Torah og jafnvel breyta Torah.

Karaítagyðingar túlka hebreska orðið ba'ar (bet, ayin, resh) ekki sem „að tendra“ heldur sem „að brenna.“ Það þýðir að karaítar leyfa ekki kertum og luktum að loga á hvíldardeginum. Sumir segja að hin rabbíníska hefð að kveikja á kertum hafi verið stofnuð sérstaklega til þess að greina á milli þeirra sem viðurkenndu vald rabbína og þeirra sem gerðu það ekki.

Margir rökræða það hvort eigi að nota flúrljósaperur á hvíldardegi eða venjulegar ljósaperur. Sumir neita líka að aka bíl á hvíldardegi vegna neistans sem þarf til að ræsa vélina. Notkun rafmagns á hvíldardegi veldur líka „neista“ og veldur því að menn hjá Orkuveitunni þurfa að vinna á hvíldardeginum. Hversu langt er gengið í því að halda hvíldardaginn er eitthvað sem samviska hvers og eins verður að meta.

Á meðan sumir segja að það að ganga inn í sáttmálann og reyna að halda Torah sé eins og að snúa aftur til fjötra, trúi ég því að það sé mikið frelsi að finna í Torah. Umfram þessar sjö leiðbeiningar getum við svo mótað okkar eigin venjur og hefðir. Hver einstaklingur, fjölskylda eða samfélag getur, innan marka Torah, stofnað sína eigin aðferð við að halda hvíldardaginn.

Fyrir margar fjölskyldur hefst hvíldardagurinn á sérstakri máltíð, bænum og blessunum. Á okkar heimili söfnumst við saman við eldhúsborðið, lesum nokkur ritningarvers varðandi það að halda hvíldardaginn og förum saman með hin sjö lögmál hvíldardagsins. Síðan blessa ég konu mína og börn og bið fyrir öðrum vinum og fjölskyldum sem á þurfa að halda. Svo blessum við YHWH og Messías, brjótum brauðið, neytum vínsins og borðum svo þessa sérstöku máltíð saman. Frá sólsetri til sólseturs slökkvum við á sjónvarpi, tölvum, tölvuleikjum og allri veraldlegri tónlist. Eftir kvöldverðinn fáum við okkur eftirrétt og söfnumst saman í stofunni til biblíulestrar, samræðna og leikja (hvíldardagurinn á að vera gleðidagur). Morguninn eftir sofum við út og byrjum daginn rólega. Þegar veður leyfir, fer ég gjarnan að Michigan vatni og geng og biðst fyrir á ströndinni. Um kl. 13.30 fer fólk að mæta heim í heimahópinn okkar. Við hefjum stundina um kl. 14.00 með bæn, Torah lestri, meiri bænum og sameiginlegri máltíð. Fólk dvelur og á samfélag fram að sólsetri og fer þá heim.

Eins er viðeigandi að heimsækja sjúkrahús, elliheimili og fangelsi á hvíldardeginum. Eins er viðeigandi að heimsækja aðra vini og trúaða. Samt sem áður verðum við að gæta þess að leyfa þessum heimsóknum ekki að beina athygli okkar frá samfélagi okkar við skaparann.

Við þurfum að muna að hvíldardagurinn er „tákn“ um sáttmálasamfélag okkar við skaparann. Sem tákn, ætti hann að vera sýnilegur í lífi okkar. Við ættum líka að muna að hvíldardagurinn er hluti af yfirlýsingu okkar varðandi YHWH sem almáttugan skapara alheimsins, lausnara okkar, endurlausnara, þeim sem sér fyrir okkur og frelsar okkur. Að lokum ættum við að minnast þess að hvíldardagurinn er gjöf frá YHWH.

Hvíldardagurinn er dagur til að sleppa striti og áhyggjum og leyfa anda okkar, sálu og líkama að hvílast. Hvíldardagurinn er líka tími þar sem við getum lagt allt til hliðar sem truflar og heldur okkur frá nánd við skaparann. Hvíldardagurinn er sönnun þess að skapari okkar þráir að eiga náið samfélag við okkur og blessa okkur með óskiptri athygli sinni. Ég bið þess að þegar þú hefur göngu þína með YHWH, munir þú sannarlega finna yndi hvíldardagsins. Njóttu nýfundins frelsis í Torah og mótaðu þér þínar leiðir til að halda hvíldardaginn með leiðsögn anda hins Heilaga. Ég bið þess að þú megir finna hvatningu í fyrstu skrefum þínum og hljóta innblástur til að fylgja hirðinum þegar hann leiðir þig inn í næsta skref á trúarferð þinni með YHWH.

Birt með leyfi höfundar.
Íslensk þýðing: Sigrún Einarsdóttir


 

  1. Hebreska nafnið er Pesach. Pesach er slátrun, ekki hátíð.
  2. Hebreska nafnið er Chag HaMatzot.
  3. Hebreska nafnið er Bikkurim.
  4. Hebreska nafnið er Chag Shavuot.
  5. Hebreska nafnið er Yom Teruah.
  6. Hebreska nafnið er Yom Kippur.
  7. Hebreska nafnið er Chag Sukkot.
  8. Oxford Dictionary of English Etymology,
     edited by C.T. Onions, Oxford Press, bls. 587, 588
  9. Efesusbréfið 2.12, 19
10. The Book of Concord, edited by Theodore G. Tappert, Fortress Press, bls. 342
11. Prestar
12. The Schottenstein Edition Siddur for Sabbath and Festivals,
     The Artscroll Series, Messorah Publications Ltd., bls. 2

 

 

 

Copyright - www.torah.is

torah@internet.is