Hvaða samfélag hefur ljós við myrkur?


Ljós

Alveg frá upphafi hefur YHWH kennt okkur hvernig við eigum að lifa, hvað telst vera rétt og rangt. Hann hefur sýnt okkur hvernig við eigum að lifa í heilagleika, laus við synd frammi fyrir honum. Torah er sú kennsla sem hefur verið í gildi frá upphafi. Bæði fyrir og eftir að YHWH gjörði sáttmála við Ísraelslýð á Sínaífjalli og einnig fyrir og eftir krossfestingu. Torah eru fyrstu fimm Mósebækurnar og við eigum að lifa eftir þeim boðskap sem þær kenna okkur. Allt annað byggir ofan á þá þekkingu sem er rituð í Torah. Án Torah þekkjum við ekki synd, því að syndin er brot á Torah.

Á fyrsta degi sagði Elohiym „verði ljós“ og það varð ljós. Elohiym sá að ljósið var gott og aðskildi ljósið frá myrkrinu. Elohiym hvíldist hinn sjöunda dag, blessaði hann og því eigum við að halda hinn sjöunda dag heilagan. YHWH skapar manninn, setur hann í Eden til að yrkja hann og gæta hans og sagði við manninn: „Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta eftir vild en af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta, því að jafnskjótt og þú eftur af því, skalt þú vissulega deyja.“ Maðurinn óhlýðnast YHWH og refsing óhlýðninnar er dauði. YHWH af miskunn sinni passaði uppá það að maðurinn myndi ekki eta af trénu og lifa eilíflega í synd þannig að hann setti kerúba til að vernda veginn að lífsins tré.

(1. Mós. 1.1-3.24)

 

YHWH segir okkur skýrt að gjöra það sem rétt er og drottna yfir syndinni. Við sjáum að ef við syndgum þá fáum við dóm fyrir þá synd, syndin felur í sér refsingu. T.d. þegar Kain drepur Abel, þá er hann bölvaður og rekinn burtu. Svo líður tíminn og YHWH sér illsku mannsins og að hugrenningar hjartans voru illska alla daga og YHWH iðraðist þess að hafa skapað mennina og ætlaði að afmá þá af jörðinni. En Nói fann NÁÐ í augum YHWH og náðin kom ekki í fyrsta sinn á sjónarsviðið eftir krossfestingu Yeshua. Nói var réttlátur maður sem þekkti muninn á hreinum og óhreinum dýrum. YHWH gerði sáttmála við Nóa sem stendur enn stöðugur í dag.

(1. Mós. 4.1-9.17)

 

YHWH kallar Abram og segir við hann að hann muni gjöra hann að mikilli þjóð og blessa hann og gjöra nafn hans mikið. Einnig gefur hann honum loforð um að niðjar hans muni eignast landið ævinlega og YHWH gjörir sáttmála við Abram. YHWH segir honum frá þrældómnum í Egyptalandi og að Ísraelslýður muni fara þaðan með mikinn fjársjóð. Svo seinna birtist YHWH Abram aftur og þá segir hann honum að ganga fyrir augliti hans og vera grandvar, þá vilji hann gjöra sáttmála á milli þeirra og margfalda Abram mikillega. Abram fellur fram á ásjónu sína og fær nafnið Abraham. Ævinlegur sáttmáli er gerður að YHWH sé okkar Elohiym og loforðið um landið. Sá sáttmáli er enn í gildi og YHWH stendur við orð sín

(1. Mós. 12.1-17.8)

 

YHWH segir við Ísak að eiðurinn sem hann gjörði við Abraham stendur. YHWH tekur það skýrt fram að ástæðan fyrir því er sú að Abraham hlýddi röddu YHWH, varðveitti boðorð hans, skipanir, ákvæði og Torah. Jakob sonur Ísaks fékk staðfestingu á sama eið, og báðir voru þeir réttlátir menn sem gengu með YHWH. Jakob fær síðar nafnið Ísrael og hann eignast tólf syni. Jósef sonur Jakobs eignast Efraím og Manasse. Jósef var réttlátur maður og hélt sér fast við YHWH, þrátt fyrir miklar þrengingar og erfiðar aðstæður þá mat hann YHWH meira virði en allt annað. Svo sjáum við hérna upphaf ættkvíslanna, afkomendur Abrahams, synir Jakobs og Jósefs. Ísraelslýður lendir svo í þrældómi í Egyptalandi og eru þar í um 400ár.

(1. Mós. 25.1-50:26)

 

YHWH minnist sáttmála síns við Abraham, Ísak og Jakob, heyrir ánauðarkvein Ísraelsmanna og birtist Móse á Hóreb. Þetta er beint framhald af því sem áður hefur komið fram og enginn af hinum fyrri sáttmálum YHWH eru ógildir. YHWH sendir Móse til að leiða þjóð sína út af Egyptalandi vegna þess að YHWH sér hversu bágt þau eiga og vill leysa þau úr þessum þrældómi og veita þeim FRELSI. Við sjáum hvernig faraó og menn hans eru deyddir í plágum, en plágurnar snerta ekki Ísraelslýð. Við sjáum YHWH kenna Ísraelslýð úr Torah og hátíðirnar sem þeir eiga að halda. YHWH leiðir Ísraelslýð undan oki og þrældóm Egypta í gegnum hafið og frelsar lýð sinn. YHWH reynir lýðinn og segir að þeim að hlýða raustu hans, gjöra það sem rétt er, halda boðorð hans og allar skipanir hans.

(2. Mós. 1.1-18.27)

 

Á þriðja mánuði eftir brottför Ísraelsmanna steig YHWH á Sínaífjall og talaði til fólksins, þegar þau heyrðu, sáu reiðarþrumurnar, eldingarnar og lúðurþytinn skelfdist fólkið og bað Móse að tala við sig og að þau myndu hlýða en þau vildu ekki að Elohiym talaði til þeirra svo að þau myndu ekki deyja. Móses fer uppá Sínaífjall og fær Torah hjá YHWH til að kenna lýðnum. YHWH fékk Móse steintöflurnar ritaðar með fingri Elohiym. Svo sjáum við þegar Móse kemur niður af fjallinu og partur af lýðnum er að dýrka gullkálfinn, þá brýtur Móse steintöflurnar, plága breiðist út, margir deyja og svo biður Móse YHWH að fyrirgefa lýðnum og að gjöra lýðinn að eign YHWH. Móse er svo í 40 daga og 40 nætur og skrifar niður orð sáttmálans. Við sjáum svo í 5. Mós. 27.-30. kafla blessanir, bölvanir og afhverju við ættum að halda sáttmálann, ég mæli með að lesa það yfir. Við sjáum að talað er um að YHWH muni umskera hjörtu okkar svo að við megum lifa. Við sjáum spádóma um hvernig lýðurinn mun verða dreifður út um allan heim á meðal heiðingjanna. Einnig er tekið skýrt fram að við eigum að hlýða raustu YHWH Elohiym og varðveita skipanir hans, og lög sem eru rituð í Torah. Shaul (Páll) sýnir okkur í Róm. 10, orð trúarinnar, þar sem hann vitnar í 5. Mós. 30.

(2. Mós. 19.1- 5. Mós. 34.12)

 

Við sjáum svo í hinum bókunum í Tanakh og á tímum spámannana að þeir predika afturhvarf til Torah, hlýðni við YHWH og að láta af syndum okkar. Svo kemur Yeshua og hann fer að berjast gegn hefðum og mannasetningum. Farísearnir héldu ekki lögmál YHWH, lögmál frelsisins (Torah), heldur ógiltu þeir það með því að búa til erfikenningar sem stönguðust á við Torah. Yeshua er sífellt að ávíta faríseana fyrir hræsnina í þeim. Yeshua gjörði aðeins vilja föðurins á himnum og sagði ekkert nema það sem faðirinn á himnum bauð honum að segja. Yeshua kenndi Torah og sagði okkur að varast hræsni faríseanna og ef að réttlæti okkar bæri ekki af hræsni þeirra þá myndum við aldrei komast í himnaríki. Yeshua kenndi að ekki einn smástafur eða stafkrókur muni falla úr lögmálinu uns allt væri komið fram. Yeshua kenndi að það sem mikilvægast er í Torah er réttlæti, miskunn og trúfesti. Einnig sjáum við að hið æðsta boðorð í Torah, er ekki í hinum svokölluðu „boðorðin 10“, heldur er það annarstaðar í Torah (5. Mós. 6.5, 3. Mós. 19.18). Þar með sýnir Yeshua fram á að ekki er það bara „boðorðin 10“ sem á að halda heldur allt Torah og hlýða raustu YHWH. Einnig eigum við að fylgja andanum sem er á bakvið Torah eins og Yeshua kenndi, hann sýndi okkur andann á bakvið Torah. Eins og þú skalt ekki myrða tók hann enn lengra og sagði hver sem reiðist bróður sínum skal svara til saka fyrir dómi og sá sem svívirðir hann hefur unnið til eldsvítis. Talað er um á fleiri en einum stað í biblíunni að hlýðni vill YHWH fremur en fórnir bara svo að það sé alveg á hreinu.

(Jósúa - Malakí) - (Mt. 15.3-4, Mt. 16.12, Mt. 22.36-40, Mt. 23.23, Mark. 7.8-13, Mark. 12.33, Lúk. 6.46, Lúk. 12.1)

 

Þegar vilji YHWH, boðskapur Tanakh, kennsla Yeshua, andi sannleikans kenna okkur öll það sama: Að hlýða raustu YHWH, halda skipanir hans, lög og ákvæði, fylgja Torah, elska YHWH af öllu hjarta öllum mætti og allri sálu, þá eru postularnir ekki að fara koma gegn því og kenna annan Yeshua. Hinn „nýi“ sáttmáli sem við erum í er einmitt Torah rituð á hjörtu okkar og YHWH fer ekki að rita einhvern úreldann boðskap á hjörtu okkar. Ef við leggjum okkur fram um að hlýða og reynum eftir okkar fremsta megni, biðjum YHWH um náð, iðrumst þegar við syndgum, látum af syndinni, biðjum og keppumst eftir að lifa heilögu grandvöru lífi. Þá trúi ég því að YHWH sé með okkur, leiði okkur og verndi okkur gegn öllu illu. Við erum ekki að leita eftir fjársjóðum hér á jörðinni, heldur viljum við eilíft líf með föður okkar á himnum. En trúnni fylgja verk, trúin er dauð án verka, við verðum að vera bæði heyrendur og gjörendur orðsins. Við verðum að lifa Torah í okkar daglega lífi, við eigum að vera ímynd YHWH og ljós fyrir þjóðirnar á meðan við erum hér á jörðinni. Eitt sinn vorum við eins og heiðingjarnir áður en Yeshua opinberaðist okkur en við öðluðumst að gjöf eilíft líf. En vissulega getum við afneitað Yeshua með gjörðum okkar og hafnað eilífa lífinu sem hann hefur gefið okkur. En við höfnum því ekki og glötumst heldur elskum við YHWH, hlýðum honum og lifum.

Hér undir eru nokkur ritningarvers frá postulunum en annars ætla ég að láta þessi skrif gott heita. Það má vera að ég fari ítarlega í einhver atriði seinna, en ég stiklaði á stóru og vona að ég hafi komið þessu efni til skila. Ég bið þess að andinn heilagi leiði ykkur í allan sannleikann og opni fyrir ykkur ritningarnar og sýni ykkur hvað er rétt. Við viljum jú öll gera það sem rétt er og ef við erum lifandi í synd, þá erum það við sem þurfum að breytast en ekki YHWH. Erfiðleikarnir og syndir okkar geta stundum virst yfirþyrmandi og óyfirstíganleg en allt megnum við fyrir hjálp hans sem okkur styrk gjörir.

(1. Pét. 1.3-9, Kól. 2.8, 4.6, 2. Tím. 1.7, 3.14-15, 4.3-4, Tít. 1.14, 16, Jak. 1.22, 2.12, 1. Pét. 1.15, 2. Pét. 3.15-16, 1. Jóh. 1.5-2.6, 3.4-8, 2. Jóh. 4-11)

„Ég kveð í dag bæði himin og jörð til vitnis móti yður, að ég hefi lagt fyrir þig lífið og dauðann, blessunina og bölvunina. Veldu þá lífið, til þess að þú og niðjar þínir megi lifa, með því að elska YHWH Elohiym þinn, hlýða raustu hans og halda þér fast við hann, því að undir því er líf þitt komið og langgæður aldur þinn, svo að þú megir búa í landinu, sem YHWH sór feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakob, að gefa þeim.“

(5. Mós. 30.19-20)

 

Alexander Steinarsson Söebech tók saman

 Aftur til baka í pistla...


 

  

 

 

 

 

torah@internet.is

 

     
 

 

Sigrún Einarsdóttir & Ragnar B. Björnsson © 2008
www.torah.is / torah@internet.is
Vefhönnun: Einir Björn Ragnarsson