Pesach (framhjágangan)
 og Chag HaMatzot (hátíð ósýrðu brauðanna)

   Framhjágangan

eftir Glenn McWilliams

Nú, þegar boðun fagnaðarerindisins um konungsríkið færist nær endimörkum jarðar, eru æ fleiri þeirra sem trúa á Yeshua farnir að beygja sig undir Torah, stjórnarskrá konungsríkisins. Þegar nýja einstaklinga í trúnni langar til að tileinka sér þann lífsstíl að fylgja Torah, koma oft upp spurningar varðandi það hvar á að byrja og hvernig maður fylgi Torah. Hvíldardagurinn, það að borða hreina fæðu og læra að halda mo′adim[1] og mikra[2] sem YHWH hefur sett, virðist vera besti byrjunarreiturinn til þess að læra að ganga í takti við hinn Heilaga í Ísrael. Í þessari kennslu munum við einbeita okkur sérstaklega að hátíðahöldum framhjágöngunnar og hátíðar ósýrðu brauðanna.

Á margan hátt átti fæðing ísraelsku þjóðarinnar sér stað í þeim atburðum sem gerðust í kringum brottför Ísraelsbarna frá Egyptalandi. Í eiginlegri merkingu þá er framhjágangan fyrsti sjálfstæðisdagur Ísraels. Í atburðunum sem leiddu til brottfararinnar út af Egyptalandi gerði YHWH mikinn greinarmun á milli Ísraelsmanna og Egypta.[3] YHWH aðskildi þá enn frekar frá öðrum þjóðum með því að kalla þá til nýrrar göngu með sér. Það fyrsta sem YHWH gerði á þessum tíma var að koma á nýju tímatali fyrir Ísraelsmenn.[4] Þetta tímatal hefur að geyma sérstaklega ákvarðaða tíma og æfingar sem að börn Ísraels eiga að halda í heiðri í gegnum kynslóðirnar.[5] Með því að varðveita þessar ákveðnu æfingar myndu Ísraelsbörn verða aðskilin frá hinum þjóðunum og lifa í takti við Torah.

Að halda þessar tilteknu æfingar í heiðri er mikilvægur þáttur í að uppfylla þá köllun að vera birting nærveru Elóhíms í heiminum. Á margan hátt mun endurreisn á ímynd YHWH í heiminum eiga sér stað með því að Ísrael heldur hið biblíulega tímatal ásamt þessum tilteknu æfingum. Við skulum einnig átta okkur á því að í smáatriðum þessara hátíða er sambandi YHWH við Ísrael lýst: framhjágangan, hátíð ósýrðu brauðanna og hátíð frumgróðans fagna frelsun og fæðingu Ísraels sem frumburði YHWH, ásamt köllun þeirra til að vera súrdeigslaus þjóð. Viknahátíðin/Shavuot (hvítasunnan) minnir okkur á þegar gengið var inn í sáttmálann á Sinaí þegar þeim var gefið og þeir tóku við Torah. Básúnudagurinn, friðþægingardagurinn og laufskálahátíðin draga einnig upp mynd af Ísrael á ferð um eyðimörkina, komu þeirra inn í fyrirheitna landið og stofnsetningu konungsríkis. Þannig að það eru augljóslega sögulegar ástæður fyrir þessum ákveðnu æfingum. Með því að fara eftir tímatalinu erum við stöðuglega minnt á það hvað YHWH ELÓHÍM hefur gert til þess að koma okkur til dagsins í dag.

Við minnumst þessara atburða ekki eingöngu til þess að minnast fortíðarinnar heldur einnig til að móta nútíðina. Með því að tengja tilteknar gjörðir eða helgisiði við þessar ákveðnu tíðir, gerir YHWH það ljóst að við eigum ekki bara vitsmunalega að minnast fortíðarinnar eða að lesa um þessa atburði, heldur að við eigum að einhverju leyti að endurupplifa þá.  Með því að endurlifa þessa atburði sem minnst er í þessum hátíðum gefum við hverri kynslóð tækifæri til að upplifa þessa atburði fyrir sjálfa sig. Um leið og  hver kynslóð upplifir brottförina getur hún samsamað sig þeirri kynslóð sem fór á undan út af Egyptalandi. Þess vegna getur hver kynslóð Ísraelsbarna sagt: “Ég var við Rauðahafið og YHWH leysti mig! Ég var við Sínaifjall og tók á móti Torah!”

Við þurfum einnig að átta okkur á því að þessar ákveðnu æfingar hafa jafnframt spádómlegt framtíðargildi. Að þessu leyti eru hinar tilteknu æfingar skuggamyndir af því sem koma skal. Eins og Shaul (Páll) skrifaði:

Kólossubréfið 2.16 Enginn skyldi því dæma yður fyrir mat eða drykk eða það sem snertir hátíðir, tunglkomur eða hvíldardaga. Þetta er aðeins skuggi þess sem koma skal (ensk þýð.), en líkaminn er Krists.

Inni í hinum ýmsu mo′adim og mikra sem YHWH hefur sett sjáum við skuggamyndir af fæðingu, lífi, þjónustu, dauða, upprisu og endurkomu Messíasar. Í vorhátíðunum sjáum við Messías sem páskalambið sem slátrað var; og með notkun blóðs hans í trú, gengur dómur Elóhíms framhjá okkur. Á hátíð ósýrðu brauðanna fögnum við óspilltu eðli Messíasar sem ekki varð rotnun að bráð í gröfinni. Hátíð frumgróðans fagnar upprisu Messíasar sem frumgróða frá gröfinni[6] Shavout/viknahátíðin (hvítasunnan) spáir fyrir um úthellingu heilags anda yfir talmidim Messíasar svo að hann geti ritað Torah á hjörtu hinna trúuðu. Dagur básúnunnar lýsir yfir endurkomu Messíasar. Friðþægingardagurinn lýsir yfir dómsdegi Messíasar og endurlausn ísraelsku þjóðarinnar. Laufskálahátíðin spáir fyrir um stofnsetningu hins messíanska konungsríkis hér á  jörð. Með því að halda tímatal YHWH ásamt þessum ákveðnu æfingum þá kunngjörum við með gjörðum okkar og orðum fagnaðarerindi konungsríkisins. Með því að vera í takti við spádómslegt tímatal YHWH þá munum við einnig vera betur undirbúin fyrir það sem koma skal. Með því að halda þessar ákveðnu æfingar mun YHWH hafa okkur á réttum stað á réttum tíma þegar uppfylling þessara spádóma á sér stað.

Beinum nú athygli okkar að hinum biblíulegu skilyrðum fyrir fyrstu árlegu æfinguna sem YHWH hefur sett. Ég vil taka það skýrt fram í upphafi að Pesach (páskar) eða framhjágangan er ekki “hátíð” heldur slátrun. Pesach er lambið eða kiðlingurinn sem er slátrað og blóð þess borið á dyrastafi hússins. “Hátíðin” þar sem Pesachkjötið er borðað er Chag HaMatzot, eða hátíð ósýrðu brauðanna. Með tímanum hafa þessir tveir aðskildu atburðir orðið svo tengdir hvor öðrum að nafn vikunnar þar sem ósýrðu brauðin eru borðuð er nú kölluð “framhjágangan.” Með þetta í huga, skulum við snúa okkur að biblíulegri kennslu um Pesach og Chag HaMatzot

Fyrsta spurningin sem við tökumst á við er hvenær halda skuli Pesach og Chag HaMatzot. Torah inniheldur skýra og nákvæma tímasetningu Pesach og Chag HaMatzot.

2. Mósebók 12.2  Þessi mánuður skal vera upphafsmánuður hjá yður. Hann skal vera fyrsti mánuður ársins hjá yður.

2. Mósebók 13.4  Í dag farið þér af stað í abíb-mánuði.

2. Mósebók 34.18  Þú skalt halda hátíð hinna ósýrðu brauða. Sjö daga skaltu eta ósýrð brauð, eins og ég hefi boðið þér, á ákveðnum tíma í abíb-mánuði, því að í abíb-mánuði fórst þú út af Egyptalandi.

4. Mósebók 9:1  YHWH talaði við Móse í Sínaí-eyðimörk á öðru ári eftir brottför þeirra af Egyptalandi, í fyrsta mánuðinum, og sagði: “Ísraelsmenn skulu halda páska á tilteknum tíma.

5. Mósebók 16:1 Gæt þess að halda YHWH Elóhím þínum páska í abíbmánuði, því að í abíbmánuði leiddi YHWH Elóhím þinn þig á náttarþeli út af Egyptalandi.

Í þessum versum eru nokkur mikilvæg atriði. Í fyrsta lagi þá skulum við taka eftir því að hebreska orðið aviv (abíb) er lýsing á ástandi byggsins þegar það er næstum fullþroskað. Í Torah sjáum við  almennar lýsingar á bygginu í þessu ástandi. Við munum þegar YHWH sendi plágurnar til að ljósta Egypta, þá dundi  haglið niður á akrana og eyðilagði byggið, en hveitið sem var rétt að byrja að spíra, var óskemmt..

2. Mósebók 9.31-32  Hör og bygg var niður slegið, því að öx voru komin á byggið og knappar á hörinn. En hveiti og speldi var ekki niður slegið, því að þau koma seint upp.

Hérna sjáum við að aviv byggið var nógu þroskað til að vera dálítið stökkt og eyðilagðist þess vegna þegar haglinu dundi niður. Hveitið var aftur á móti nógu sveigjanlegt til að standast haglið vegna þess að það var bara rétt byrjað að spíra. Það sem hjálpar okkur enn frekar að ákvarða mörk til að skilgreina bygg sem er aviv er að skoða þann kafla þar sem frumgróðafórninni er lýst.

4. Mósebók 2.14. Færir þú YHWH frumgróðamatfórn, þá skalt þú fram bera í matfórn af frumgróða þínum öx, bökuð við eld, mulin korn úr nýslegnum kornstöngum.

Byggið er fyrsta frumgróðafórn ársins. Aviv byggið var enn rakt og grænt, og var þess vegna þurrkað eða ristað yfir eldi áður en það var fært sem fórn. Við sjáum því að aviv bygg er nógu þroskað til að vera stökkt en samt rakt. Takið einnig eftir því að frumgróðamatfórnin var á eftir Pesach og Chag HaMatzot. Það má því segja að bygg sem er aviv sé u.þ.b. fimmtán dögum frá því að vera fullþroskað og tilbúið til uppskeru.

Orðið aviv er lýsingarorð en ekki eiginlegt nafn. Það er lýsing á þroskunarstigi byggsins en ekki eiginlegt nafn á mánuði. Hebreskir mánuðir höfðu engin nöfn fyrr en eftir að Júdaættkvíslin kom aftur heim úr herleiðingunni til Babýlon.

Annað atriði sem nauðsynlegt er að minnast á er þegar glittir í nýtt tungl. Hinn biblíulegi mánuður er ákvarðaður þegar eygir í fyrstu flísina á nýju tungli. Í lok tólfta biblíulega mánaðarins var byrjað að leita að aviv byggi. Ef byggið var örugglega orðið aviv þegar sást í nýjan mána og ef Rosh Chodesh var lýst yfir, þá varð þetta fyrsti mánuðurinn á biblíulega árinu, einnig nefnt Rosh HaShanah, eða „avivmánuður.“ Ef byggið var ekki enn aviv, þá bættist þrettándi mánuðurinn við almanakið og haldið var upp á framhjágönguna og Chag HaMatzot í mánuðinum á eftir. Þannig að samkvæmt tímatali YHWH er tímasetning framhjágöngunnar og Chag HaMatzot ákvörðuð út frá því hvort byggið sé orðið aviv og hvort glittir í nýtt tungl.

Þessi aðferð við að ákvarða tíma framhjágöngunnar hélt sér í gegnum seinna musteristímabilið og ævi Yeshua. Núverandi rabbíníska dagatalið, sem er byggt á útreiknuðu dagatali Hillell II, var ekki tekið upp fyrr en 359 e.Kr. Núna þegar við höfum komist að því hvenær fagna skuli framhjágöngunni og Chag HaMatzot, skulum við beina athygli okkar að því hvernig við eigum að fagna.

Ég vil gjarnan taka það fram hér að ráðstafanir voru gerðar í Torah fyrir þá sem höfðu saurgast vegna dauðsfalls, eða við einhverjar aðrar kringumstæður og voru ófærir um að koma með Pesach fórnina til musterisins á fjórtánda degi 1. mánaðarins. Þeim var leyft að koma með hana í næsta mánuði á eftir á fjórtánda deginum.

4. Mósebók 9.6-12 En þar voru menn, er saurgast höfðu af líki framliðins manns og gátu því eigi haldið páska þennan dag. Gengu þeir fyrir Móse og Aron þennan dag og sögðu við hann: Vér erum óhreinir af líki framliðins manns; hví skulum vér verða út undan og eigi mega bera fram fórnargjöf YHWH meðal Ísraelsmanna á tilteknum tíma?  Móse sagði við þá: Bíðið þér, ég ætla að heyra, hvað YHWH skipar fyrir um yður. YHWH talaði við Móse og sagði: Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Ef einhver meðal yðar eða meðal niðja yðar er óhreinn af líki eða hann er í langferð, þá skal hann þó halda YHWH páska. Á fjórtánda degi hins annars mánaðar, um sólsetur, skulu þeir halda þá; með ósýrðu brauði og beiskum jurtum skulu þeir eta páskalambið. Engu skulu þeir leifa af því til morguns, og ekkert bein í því skulu þeir brjóta; skulu þeir halda páska eftir öllum páskalögunum.

Það eru nokkur atriði varðandi þann undirbúning sem þarf að eiga sér stað áður en Pesach er slátrað eða máltíð Chag HaMatzot er neytt. Fyrsta skrefið er að velja viðeigandi fórnarlamb. Pesach verður að vera karlkyns lamb eða geit á fyrsta ári og gallalaus. Þegar það hefur verið valið þarf lambið að dvelja hjá fjölskyldunni þar til því er slátrað svo fullvisst sé að það sé gallalaust.

2. Mósebók 12.3 Talið til alls safnaðar Ísraelsmanna og segið: Á tíunda degi þessa mánaðar skal hver húsbóndi taka lamb fyrir fjölskyldu sína, eitt lamb fyrir hvert heimili.

2. Mósebók 12.5 Lambið skal vera gallalaust, hrútlamb veturgamalt og má vera hvort sem vill ásauðarlamb eða hafurkið

2. Mósebók 12.6 Og þér skuluð varðveita það til hins fjórtánda dags þessa mánaðar. Þá skal öll samkoma Ísraelssafnaðar slátra því um sólsetur.

Annar þáttur í undirbúningnum er að telja heimilisfólkið.

2. Mósebók 12.4 En sé eitt lamb of mikið fyrir heimilið, þá taki hann og granni hans, sá er næstur honum býr, lamb saman eftir tölu heimilismanna. Eftir því sem hver etur, skuluð þér ætla á um lambið.

Mikilvægt er að telja heimilisfólkið, þar sem Torah kennir okkur að engu af lambinu megi leifa til næsta morguns.

2. Mósebók 12.10 Engu af því skuluð þér leifa til morguns, en hafi nokkru af því leift verið til morguns, þá skuluð þér brenna það í eldi.

4. Mósebók 9.12 Engu skulu þeir leifa af því til morguns, og ekkert bein í því skulu þeir brjóta; skulu þeir halda páska eftir öllum páskalögunum.

5. Mósebók 16.4 Ekki má súrdeig sjást nokkurs staðar hjá þér innan þinna landamerkja í sjö daga, og ekkert af kjöti því, er þú fórnar að kveldi fyrsta daginn, skal liggja náttlangt til morguns.

Það sem þessi talning sýnir okkur er það að allir í Ísrael skipta máli, án tillits til þess hversu mikið eða lítið þeir borða. Við getum líka snúið þessu við og sagt að Pesach lambið deyi fyrir alla í Ísrael, án tillits til þess hversu miklar eða hversu litlar syndir þeirra eru eða hvert framlag þeirra er. Við getum einnig dregið þá ályktun að ekkert af þessari fórn megi fara til spillis. Með öðrum orðum þá ættum við að hafa fullan ávinning af fórn Messíasar og skilja ekkert eftir óendurleyst fyrir hans dýrmæta blóð.

Þriðji þátturinn í undirbúningi Pesach og Chag HaMatzot er sá að fjarlægja þarf súrdeig frá heimilum okkar, eignum okkar og úr lífi okkar. Við vitum að súrdeigið er tákn upp á samblöndu eða synd í lífi okkar. Við munum e.t.v. að forboðna tréð í aldingarðinum Eden var einstakt að því leyti að það var eina tréð sem hafði blandaða ávexti, vegna þess að það leiddi til skilnings á góðu og illu. Þar af leiðandi eigum við að fjarlægja allt sambland úr lífum okkar.

1. Mósebók 2.9 Og YHWH Elóhím lét upp vaxa af jörðinni alls konar tré, sem voru girnileg á að líta og góð að eta af, og lífsins tré í miðjum aldingarðinum og skilningstréð góðs og ills.

1. Mósebók 2.17 ... en af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta, því að jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja.

Við skulum einnig minnast þess að okkur er bannað að auka við Torah.

5. Mósebók 4.2 Þér skuluð engu auka við þau boðorð, sem ég legg fyrir yður, né heldur draga nokkuð frá, svo að þér varðveitið skipanir YHWH Elóhíms yðar, sem ég legg fyrir yður.

5. Mósebók 12.32 Þér skuluð gæta þess að halda öll þau boðorð, sem ég legg fyrir yður. Þú skalt engu auka við þau né heldur draga nokkuð undan.

Yeshua lagði mikla áherslu á að viðbætur faríseanna við Torah ætti að álíta sem súrdeig.

Matt. 16.6-12 Yeshua sagði við þá: Gætið yðar, varist súrdeig farísea og saddúkea. En þeir ræddu sín á milli, að þeir hefðu ekki tekið brauð. Yeshua varð þess vís og sagði: Hvað eruð þér að tala um það, trúlitlir menn, að þér hafið ekki brauð? Skynjið þér ekki enn? Minnist þér ekki brauðanna fimm handa fimm þúsundum og hve margar körfur þér tókuð saman? Hvernig má það vera, að þér skynjið ekki, að ég var ekki að tala um brauð við yður. Varist súrdeig farísea og saddúkea. Þá skildu þeir, að hann hafði ekki talað um að varast súrdeig í brauði, heldur kenningu farísea og saddúkea.

Shaul (Páll) postuli skildi greinilega kennslu Messíasar þegar hann skrifaði: 

1. Korintubréf 5.6 Ekki hafið ér ástæðu til að stæra yður! Vitið þér ekki, að lítið súrdeig sýrir allt deigið? Hreinsið burt gamla súrdeigið, til þess að þér séuð nýtt deig enda eruð þér ósýrðir. Því að páskalambi voru er slátrað, sem er Messías. Höldum því hátíð, ekki með gömlu súrdeigi né með súrdeigi illsku og vonsku, heldur með ósýrðum brauðum hreinleikans og sannleikans

Við byrjum að undirbúa Pesach og Chag HaMatzot, með því að fjarlægja alla blöndu og allt súrdeig úr hjarta okkar og frá heimili okkar.

2. Mósebók 12.15 Í sjö daga skuluð þér eta ósýrt brauð. Þegar á fyrsta degi skuluð þér flytja súrdeig burt úr húsum yðar, því að hver sem etur sýrt brauð frá fyrsta degi til hins sjöunda, hann skal upprættur verða úr Ísrael.

2. Mósebók 12.19 Í sjö daga skal súrdeig ekki finnast í húsum yðar, því að hver sem þá etur sýrt brauð, sá maður skal upprættur verða úr söfnuði Ísraels.

2.Mósebók 13.7 Ósýrt brauð skal eta í þá sjö daga, ekkert sýrt brauð má sjást hjá þér, og ekki má heldur súrdeig sjást nokkurs staðar hjá þér innan þinna landamerkja.

2. Mósebók 34.25 Þú skalt ekki fram bera blóð fórnar minnar með sýrðu brauði, og páskahátíðarfórnin má ekki liggja til morguns.

5. Mósebók 16.4 Ekki má súrdeig sjást nokkurs staðar hjá þér innan þinna landamerkja í sjö daga, og ekkert af kjöti því, er þú fórnar að kveldi fyrsta daginn, skal liggja náttlangt til morguns.

Þegar undirbúningnum er lokið; búið er að velja lambið, skoða það og lýsa yfir að það sé gallalaust, búið að telja heimilisfólkið og búið að fjarlægja súrdeigið þá er hægt að slátra páskafórninni (Pesach). Upphaflega slátraði hver fjölskylda sínum eigin kiðlingi eða lambi þar sem hún dvaldi. Eftir að tjaldbúðin var reist, var öll slík helgisiðaslátrun framkvæmd í tjaldbúðinni, og svo síðar í musterinu í Jerúsalem. Þegar tjaldbúðin og prestdómur levítanna voru orðin virk voru öll einkaaltari bönnuð samkvæmt Torah.

2. Mósebók 12.6 Og þér skuluð varðveita það til hins fjórtánda dags þessa mánaðar. Þá skal öll samkoma ísraelsafnaðar slátra því um sólsetur.

5. Mósebók 16.2 Og þú skalt slátra sauðum og nautum í páskafórn sem YHWH velur til þess að láta nafn sitt búa þar.

5. Mósebók 16.5 Þú mátt eigi slátra páskafórninni í einhverri af borgum þeim, er YHWH Elóhím þinn gefur þér.

Það er vegna þessa boðorðs sem við slátrum ekki okkar eigin Pesach nú til dags. Þar til altarið og prestsembættið er starfshæft á ný á Musterishæðinni, þá „fögnum“ við og „minnumst“ Pesach, en við „höldum“ ekki eða „framkvæmum“ Pesach slátrun. Þó svo að ég trúi því að það sé bæði ásættanlegt og í samræmi við Torah að borða steikt lamb á Chag HaMatzot, þá ættum við að forðast allt sem líkir eftir slátrun lambsins á fjórtánda eða fimmtánda degi fyrsta mánaðarins.

Það hafa orðið einhverjar deilur um það hvenær átti að slátra Pesach. En leyfið mér að sýna ykkur fyrirskipun Torah og svo mun ég takast á við þann misskilning sem  hefur orðið varðandi þetta mál.

2. Mósebók 12.6 Og þér skuluð varðveita það til hins fjórtánda dags þessa mánaðar. Þá skal öll samkoma Ísraelssafnaðar slátra því um sólsetur.

3. Mósebók 23.5 Í fyrsta mánuðinum, hinn fjórtánda dag mánaðarins um sólsetur, hefjast páskar YHWH.

4. Mósebók 9.3-5 Á fjórtánda degi þessa mánaðar um sólsetur skuluð þér halda þá á hinum tiltekna tíma. Eftir öllum skipunum og öllum ákvæðum um þá skuluð þér halda þá. Móse bauð Ísraelsmönnum að halda páskana. Og þeir héldu páska í fyrsta mánuðinum, hinn fjórtánda dag mánaðarins, um sólsetur, í Sínaí-eyðimörk. Ísraelsmenn gjörðu að öllu leyti svo sem YHWH hafði boðið Móse.

4. Mósebók 28.16 Í fyrsta mánuðinum, á fjórtánda degi mánaðarins, eru páskar YHWH. Og á fimmtánda degi hins sama mánaðar er hátíð. Í sjö daga skal eta ósýrt brauð.

5. Mósebók 16.6 ...heldur skalt þú slátra páskafórninni á þeim stað, sem YHWH Elóhím þinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar, að kveldi um sólarlagsbil.

Það er augljóst að slátrun Pesach átti að eiga sér stað fjórtánda dag fyrsta mánaðarins að kvöldi til. Þar sem hebreski dagurinn byrjar á kvöldin eða þegar sólin sest, hefur sú spurning vaknað hvað sé átt við þegar sagt er að Pesach eigi að vera slátrað „milli kvölda.“ Þar sem dagurinn byrjar að kveldi til og endar að kveldi, verðum við að ákvarða hvaða part dagsins fórnin átti að eiga sér stað. Það eru nokkrir sem trúa því og kenna að Pesach hafi verið fórnað við sólarlag á þrettánda degi þegar hann var að ganga inn í fjórtánda daginn. Þetta sjónarmið er algerlega í andstöðu við Torah. Torah segir okkur að það hafi verið um miðja nótt sem YHWH fór yfir land Egypta og dæmdi frumburði þeirra.

2. Mósebók 11.4 Þá sagði Móse: Svo segir YHWH: Um miðnætti vil ég ganga mitt í gegnum Egyptaland...

2. Mósebók 12.29 Um miðnæturskeið laust YHWH alla frumburði í Egyptalandi, frá frumgetnum syni Faraós, sem sat í hásæti sínu, allt til frumgetnings bandingjans, sem í myrkvastofu sat, og alla frumburði fénaðarins.

Torah setur það líka skýrt fram að Ísraelsmenn hafi yfirgefið Egyptaland þennan morgun, fimmtánda dag fyrsta mánaðarins.

2. Mósebók 12.37 Tóku Ísraelsmenn sig nú upp frá Ramses og fóru til Súkkót, hér um bil sex hundruð þúsund fótgangandi manna, auk barna.

4. Mósebók 33.3 Þeir lögðu upp frá Ramses í fyrsta mánuðinum, á fimmtánda degi hins fyrsta mánaðar. Daginn eftir páska lögðu Ísraelsmenn af stað óhikað, að Egyptum öllum ásjáandi.

Það eru tvö önnur atriði sem hjálpa til við að sýna fram á þann tíma dags sem slátra á Pesach. Fyrra atriðið er sú staðreynd að bera átti blóðið á dyrastafina áður en YHWH fór yfir landið um miðja nótt.

2. Mósebók 12.22-23 Takið ísópsvönd og drepið honum í blóðið, sem er í troginu, og ríðið blóði úr troginu á dyratréð og báða dyrastafina. Og enginn yðar skal fara út fyrir dyr á húsi sínu fyrr en að morgni. Því að YHWH mun fara yfir landið til þess að ljósta Egypta. Hann mun sjá blóðið á dyratrénu og báðum dyrastöfunum, og mun þá YHWH ganga fram hjá dyrunum og ekki láta eyðandann koma í hús yðar til að ljósta yður.

Seinna atriðið er það að ekki mátti leifa neinu af Pesach (páskafórninni) til morgundagsins.

2. Mósebók 12.10 Engu af því skuluð þér leifa til morguns, en hafi nokkru af því leift verið til morguns, þá skuluð þér brenna það í eldi.

Af þessum versum getum við dregið þá ályktun að Pesach hafi verið slátrað milli kvelda (milli hádegis og sólarlags) á hinum fjórtánda og fyrsta kvöldinu eða byrjun hins fimmtánda. Blóð Pesach var borið á dyrastafina og kjötið var borðað á Chag HaMatzot í upphafi, eða að kvöldi hins fimmtánda, fyrir miðnætti. Að morgni hins fimmtánda var það sem eftir var af Pesach kjötinu brennt í eldi og Ísraelsmenn hófu ferð sína út af Egyptalandi.

Í Torah er mjög nákvæmlega greint frá því hvernig tilreiða skuli Pesach kjötið.

2. Mósebók 12.8-9  Sömu nóttina skulu þeir eta kjötið, steikt við eld. Með ósýrðu brauði og beiskum jurtum skulu þeir eta það. Ekki skuluð þér eta neitt af því hrátt eða soðið í vatni, heldur steikt við eld, höfuðið með fótum og innýflum.

2. Mósebók 12.46 Menn skulu eta það í einu húsi. Ekkert af kjötinu mátt þú bera út úr húsinu.

Samkvæmt hefðinni voru innyfli lambsins vafin í kringum höfuð lambsins, þar sem það var steikt með höfuðið niður í gryfju með heitum kolum, svo að engin eiturefni leystust út í kjötið. Samverjar nota enn þessa aðferð í dag. Fyrir utan Pesach kjötið þá fyrirskipar Torah tvo aðra hluti varðandi Chag HaMatzot.

2. Mósebók 12.8 Sömu nóttina skulu þeir eta kjötið, steikt við eld. Með ósýrðu brauði og beiskum jurtum skulu þeir eta það.

4. Mósebók 9.11 Á fjórtánda degi hins annars mánaðar, um sólsetur, skulu þeir halda þá; með ósýrðu brauði og beiskum jurtum skulu þeir eta páskalambið.

Torah segir okkur einnig hvernig við eigum að borða þessa máltíð og hvers vegna við eigum að borða hana á þennan sérstaka máta.

2. Mósebók 12.11 Og þannig skuluð skuluð þér neyta þess: Þér skuluð vera gyrtir um lendar yðar, hafa skó á fótum og stafi í höndum. Þér skuluð eta það í flýti. Það eru páskar YHWH.

5. Mósebók 16.3 Þú mátt ekki eta sýrt brauð með því; í sjö daga skalt þú eta með því ósýrð brauð, neyðarbrauð – því að í flýti fórst þú af Egyptalandi, - til þess að þú minnist brottfarardags þíns af Egyptalandi alla ævi þína.

Í Torah er einnig sagt frá því hverjum er heimilt að taka þátt í Pesach og Chag HaMatzot. Við skulum enn hafa það í huga að Pesach er fórnin en Chag HaMatzot er hátíðin. Pesach er trúarleg slátrun sem er eingöngu ætluð börnum Ísraels. Pesach og Chag HaMatzot eru til minningar og fagnaðar vegna þess sem YHWH gerði fyrir afkomendur Abrahams, Ísaks, Jakobs og þeirra sem hann frelsaði, endurleysti og færði til sín á Sínaífjalli. Pesach og Chag HaMatzot eru til minningar og til að halda upp á fæðingu þjóðar sem lifir eftir Torah. Pesach og Chag HaMatzot eru til að minnast og fagna hjálpræði Ísraels af náð fyrir trú og þegar þeir gengu í sáttmálann á Sínaífjalli. Jafnvel frá messíönskum sjónarhóli þá er Pesach (fórnardauði Yeshua) og Chag HaMatzot (lausn frá lífi í þrældómi syndar og súrdeigi manngerðra trúarbragða) hátíð til að fagna lausn frá lífi syndar og dauða, og frelsi til að ganga inn í endurnýjaðan sáttmála við YHWH. Pesach og Chag HaMatzot er ávallt hátíð Torah. Þess vegna ættu aðeins þeir sem eru tilbúnir til að skilja við súrdeig gamla lífsins, nota blóð páskafórnarinnar í lífi sínu, umskera hjörtu sín og ganga af fúsum og frjálsum vilja inn í sáttmála við YHWH ELÓHÍM, að taka þátt í þessum atburði.

2. Mósebók 12.43-45 YHWH sagði við þá Móse og Aron: Þetta eru ákvæðin um páskalambið: Enginn útlendur maður má af því eta. Sérhver þræll, sem er verði keyptur, má eta af því, er þú hefir umskorið hann. Enginn útlendur búandi eða daglaunamaður má eta af því.

2. Mósebók 12.47 Allur söfnuður Ísraels skal svo gjöra.

2. Mósebók 12.48–49 Ef nokkur útlendingur býr hjá þér og vill halda YHWH páska, þá skal umskera allt karlkyn hjá honum, og má hann þá koma og halda hátíðina, og skal hann vera sem innborinn maður. En enginn óumskorinn skal þess neyta. Sömu lög skulu vera fyrir innborna menn sem fyrir þá útlendinga, er meðal yðar búa.

4. Mósebók 9.10–14 “Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Ef einhver meðal yðar eða meðal niðja yðar er óhreinn af líki eða hann er í langferð, þá skal hann þó halda YHWH páska. Á fjórtánda degi hins annars mánaðar, um sólsetur, skulu þeir halda þá; með ósýrðu brauði og beiskum jurtum skulu þeir eta páskalambið. Engu skulu þeir leifa af því til morguns, og ekkert bein í því skulu þeir brjóta; skulu þeir halda páska eftri öllum páskalögunum. En hver sem er hreinn og ekki á ferð og vanrækir að halda páska, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni, því að hann færði YHWH eigi fórnargjöf á tilteknum tíma. Sá maður skal bera synd sína. Nú dvelur útlendur maður hjá yður, og vill halda YHWH páska, skal hann þá svo gjöra sem fyrir er mælt í páskalögunum og ákvæðunum um þá. Skulu vera ein lög hjá yður bæði fyrir útlenda menn og innborna.

Við verðum að skilja það að Pesach og Chag HaMatzot er ekki það sama og þakkargjörðarhátíð eða þegar fjölskyldan kemur saman. Pesach og Chag HaMatzot eru æfingar sem YHWH hefur ákvarðað. Þetta er tími fyrir hina trúuðu að koma saman og fagna og endurlifa þá dásamlegu og stórkostlegu hluti sem YHWH gerði fyrir okkur. Það er tími þar sem við minnumst þess hversu dýru verði við vorum keypt svo að við gætum einu sinni enn gengið inn í sáttmálasamfélag við YHWH ELÓHÍM. Þetta er einnig tími til þess að æfa okkur fyrir framtíðina, þ.e. þegar uppfylling stærri brottfararinnar á sér stað. Pesach og Chag HaMatzot er tími þar sem við bíðum og höfum gætur á bendingu YHWH um að tíminn sé kominn til að yfirgefa Egyptaland, Babylóníu, Ameríku, Kanada, Mexíkó, Brasilíu, Kosta Ríka, Frakkland, Þýskaland, Rússland, Afríku, Ísland o.s.frv. og hefja ferð okkar heim. Þessi heilaga endurminning er sá tími þar sem foreldrar útskýra fyrir börnun sínum hvers vegna við búum eins og við búum, hvers vegna við högum lífi okkar eins og við gerum, hvers vegna við klæðum okkur eins og við klæðum okkur og hvers vegna við borðum eins og við borðum. Þetta er ekki bara tími til að útskýra á hversu stórkostlegn hátt við vorum endurleyst heldur líka hina stórkostlegu köllun okkar og ábyrgð sem útvalinn lýður YHWH ELÓHÍMS.

2. Mósebók 12.14 Þessi dagur skal vera yður endurminningardagur, og þér skuluð halda hann sem hátíð YHWH. Kynslóð eftir kynslóð skuluð þér hann hátíðlegan halda eftir ævarandi lögmáli.

2. Mósebók 13.8 Á þeim degi skaltu gjöra syni þínum grein fyrir þessu og segja: Það er sökum þess sem YHWH gjörði fyrir mig, þá er ég fór út af Egyptalandi.

2. Mósebók 13.9 Og þetta skal vera þér til merkis á hendi þinni og til minningar á milli augna þinna, svo að lögmál YHWH sé þér æ á vörum, því með voldugri hendi leiddi YHWH þig út af Egyptalandi.

2. Mósebók 13.14 Og þegar sonur þinn spyr þig á síðan og segir: Hvað á þetta að þýða? þá svara honum: Með voldugri hendi leiddi YHWH oss út af Egyptalandi, úr þrælahúsinu.

Þegar Ísraelsmenn yfirgáfu Egyptaland á fimmtánda degi fyrsta mánaðar, þá minnumst við þessarar brottfarar með því að hverfa frá efnishyggjuþrældómi heimsins sem við erum svo oft bundin. Þess vegna er Chag HaMatzot dagur hvíldar. Á þessum degi fögnum við frelsi frá erfiði og notum tímann í að lofa, biðja og endurlifa hinu miklu endurlausn sem er undirstaða lífs okkar.

2. Mósebók 12.16 Á hinum fyrsta degi skuluð þér halda helga samkomu og sömuleiðis á hinum sjöunda degi helga samkomu. Á þeim dögum skal ekkert verk vinna, nema það megið þér tilreiða, sem hver og einn þarf sér til matar.

2. Mósebók 12.27 Þá skuluð þér svara: Þetta er páskafórn YHWH, sem gekk fram hjá húsum Ísraelsmanna í Egyptalandi, þá er hann laust Egypta, en hlífði vorum húsum.

4. Mósebók 28.16 Í fyrstu mánuðinum, á fjórtánda degi mánaðarins, eru páskar YHWH. Og á fimmtánda degi hins sama mánaðar er hátíð. Í sjö daga skal eta ósýrt brauð. Fyrsta daginn er haldin helg samkoma. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu.

Þegar við höfum svo borðað matzot/ósýrð brauð í sjö daga þá ljúkum við þessari hátíð með enn öðrum hvíldardegi á tuttugasta og fyrsta degi fyrsta mánaðarins.

3. Mósebók 23.5 Í fyrsta mánuðinum, hinn fjórtánda dag mánaðarins um sólsetur, hefjast páskar YHWH. Og fimmtánda dag hins sama mánaðar skal halda YHWH hátíð hinna ósýrðu brauða. Sjö daga skuluð þér eta ósýrt brauð. Fyrsta daginn skuluð þér halda helga samkomu. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu. Og þér skuluð færa YHWH eldfórn sjö daga. Sjöunda daginn er helg samkoma. Eigi skuluð þér þá fást við neina stritvinnu.

Ég trúi því að þessi síðasti hvíldardagur sé einskonar svigi utan um sjö daga tímabil viku ósýrðu brauðanna. Við skulum athuga það að talan sjö er tala andlegrar fullkomnunar, þannig að þessi lokaæfing er til þess að minna okkur á að við eigum að vera heilög frammi fyrir YHWH. Við eigum að vera heilög eins og HANN er heilagur, og fullkomin eins og HANN er fullkominn. Það er á þessum lokadegi hátíðarinnar sem við ættum virkilega að skilja að það súrdeig sem skiptir máli er ekki úr geri, heldur súrdeig syndar og samblöndu af orði YHWH og orðum manna. Það er á þessari lokahátíð sem við ættum að hafa þann ásetning að fylgja Torah eftir bestu getu, án þess að blanda því  saman við heiðna hætti eða röksemdir manna. 

Shalom og njótið þess frelsis sem Pesach færir okkur.

 

Birt með leyfi höfundar
Íslensk þýðing: VV[1] Mo′adim er hebreska orðið yfir „ákveðnar tíðir,“ og er oft þýtt á rangan hátt á ensku sem „hátíðir.“

[2] Mikra er hebreska orðið yfir „æfingar,“ og er oft þýtt sem „samkunda.“

[3] 2. Mósebók 8:22-23; 9:4-6, 26; 10:23

[4] 2. Mósebók 12.1ff

[5] 3. Mósebók 23.1ff

[6] 1.Korintubréf 15.20,23

 

 

 

Copyright - www.torah.is

torah@internet.is