NAFNIÐ

YHWH

Eftirfarandi er úrdráttur og endursögn úr bókinni
 „Names“ eftir Todd D. Bennett.

Hver hefir stigið upp til himna og komið niður?
Hver hefir safnað vindinum í greipar sínar?
Hver hefir bundið vatnið í skikkju sína?
Hver hefir reist öll endimörk jarðar?
Hvað heitir hann og hvað heitir sonur hans
fyrst þú veist það?
Orðskviðirnir (Mishle) 30.4

Skapari okkar gaf okkur öllum ákveðna löngun til að heyra nafn okkar og þekkja nafn hvert annars. Yfirleitt nýtur fólk þess að heyra nafn sitt nefnt og oftast hittir á auman streng innra með okkur þegar einhver kallar okkur röngu nafni og þá sérstaklega ef viðkomandi á að vita hvað við heitum.

Orðið „Guð“ er ekki nafn skaparans og notkun orðanna GUÐ eða Guð til að lýsa skapara alheimsins sem lýst er í ritningunum er ekki viðeigandi þar sem það getur átt við næstum hvaða „guð“ eða goð sem er.

Hebreska orðið sem notað er til að lýsa hinum Almáttka í ritningunum er Elohim (Elóhím). Elohim er fleirtala og auðkennir skapara alheimsins sem sagði: Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd.“ (1. Mósebók 1.26 - Beresheet 1.26) Á meðan Elohim Ritninganna opinberar sjálfan sig á mismunandi vegu, er hann á sama tíma hinn eini og nafn hans er eitt. (Zekaryah (Sakaría) 14.9) Þegar við lítum á hebresku ritningarnar finnum við orðið Elohim hvenær sem textinn vísar til þess sem yfirleitt er ritað sem Guð í enskum þýðingum.

Eins og með orðið Guð, þá heyrast margir kristnir og gyðingar ákalla nafn Drottins, mikla nafnið, lofa nafnið og upphefja nafnið. Þeir vísa til nafnsins en nota nafn hins Almáttka sjaldan eða aldrei. Raunar þekkja flestir ekki einu sinni nafn Drottins og nota því hinn óskilgreinda titil "Drottin."

Orðið „drottinn (lord)“ hefur verið skilgreint í Westminister Desk Dictionary sem: 1. einstaklingur sem hefur yfirráð yfir öðrum. 2. einstaklingur sem er leiðandi í starfsgrein. 3. titlaður aðalsmaður. 4. lávarður. 5. Guð eða Jehovah. 6. Frelsarinn, Jesús Kristur. 7. drottnari yfir einhverju.

Í íslenskri orðabók er orðið „drottinn“ skilgreint sem: 1. húsbóndi, herra. 2 guð, Kristur.

Eins og sjá má hefur orðið helst verið notað um menn. Titillinn drottinn (lord) kemur líka úr heiðni og tengist Baal tilbeiðslu. Áhugavert er að sjá að Baal á hebresku þýðir drottinn (lord).

Þegar lesið er í ritningunum um heiðna menn sem tilbiðja Baal, eru þeir að tilbiðja goð sem ber nafn sem bókstaflega þýðir drottinn (lord).

Það má vel sjá í ákveðnum enskum (og íslenskum) þýðingum hvernig nafn Elohim hefur verið skipt út með titli. Hann, sem skóp sjöstjörnuna og Óríon, sem gjörir niðmyrkrið að björtum morgni og dag að dimmri nótt, sem kallaði á vötn sjávarins og jós þeim yfir jörðina, Drottinn er nafn hans. Amos 5.7 Drottinn er titill, ekki nafn og er nafninu því greinilega sleppt í þýðingunni. 

Lítum nú á aðvörunina sem Jeremía (Yirmeyahu) spámaður kom með varðandi tengsl á milli Baal tilbeiðslu og þess að gleyma nafni skaparans. Ég heyri hvað spámennirnir segja, þeir sem boða lygar í mínu nafni. Þeir segja: Mig dreymdi, mig dreymdi! Hversu lengi á þetta svo að ganga? Ætla spámennirnir, þeir er boða lygar og flytja tál, er þeir sjálfir hafa upp spunnið - hvort hyggjast þeir að koma þjóð minni til að gleyma nafni mínu, með draumum sínum, er þeir segja hver öðrum, eins og feður þeirra gleymdu nafni mínu vegna Baals? Jeremía (Yirmeyahu) 23:25-27. Þetta er svipað því sem hefur gerst síðustu aldir. Rétt eins og Ísraelsmenn gleymdu nafninu, hafa líka margir gyðingar og kristnir gleymt nafni hins Almáttka vegna notkunar orðsins Baal eða „Drottinn.“

Öll þekkjum við bænina sem byrjar svona: Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn... Matteus (Mattithyahu) 6.9.

Samkvæmt þessari bæn eigum við föður á himni og nafn hans er heilagt. Hvað þýðir það?

Okkar himneski faðir hefur aldrei sagt okkur að forðast eða þagga niður nafn hans. Aftur og aftur hefur hann opinberað okkur nafn sitt og hann væntir þess að við upphefjum nafn hans og metum það mikils, en hvernig getum við gert það ef við nefnum aldrei nafn hans?

Kristindómurinn virðist hafa gleymt nafni skaparans, rétt eins og Ísrael (Yisra'el) gleymdi nafninu.

Ritningarnar eru fullar af dæmum um mikilvægi og merkingu nafna.

Hinn Almáttki á sér nafn og það er ekki Guð eða Drottinn. Raunar má finna nafn skaparans 6.823 sinnum í þeim 66 bókum ritninganna sem hafa verið teknar í helgiritatölu, en hversu margir þekkja það ekki og geta því ekki svarað gátunni úr Orðskviðunum (Mishle)? Hvað heitir hann og hvað heitir sonur hans fyrst þú veist það?

Ef Elohim vildi ekki að við þekktum og töluðum út nafn hans, hefði hann þá birt okkur það næstum sjö þúsund sinnum í ritningunum? 

Á samhengi textanna sést skýrt að nafnið var kunngert, það var talað í þessu nafni, nafninu var lofsungið, nafnið var heiðrað og tilbeðið. Hinir réttlátu vænta nafnsins og þrá nafnið. Levítunum var boðið að þjóna í nafninu og blessa í nafninu. Bóas heilsaði í nafninu. Davíð konungur blessaði í nafninu, hann fagnaði í nafninu, ákallaði nafnið og söng um nafnið. Salómon reisti hús fyrir nafnið. Elía ákallaði nafnið og eldur kom af himni. Fólk sór þess eið í nafninu að tala sannleikann. Það er tign í nafninu. Nafnið ver þá sem þjóna honum. Hinir réttlátu ganga í nafninu. Nafnið er sterkur turn sem veitir hinum réttlátu öryggi. Hjálp okkar er í nafninu og við treystum á nafnið. Við eigum að elska nafnið. Þjóðirnar munu óttast nafnið og nafnið verður kunngjört í Tzion (Síon). Hver sem ákallar nafn Drottins, mun frelsast. (Jóel 2.32 og Róm. 10.13) Nafnið mun vara að eilífu. (Tilvísanir í öll versin eru í bókinni „Names“ eftir Todd D. Bennett)

Ekki er vitað fyrir víst hvaða ritletur var notað þegar Yisra'el fór frá Mitsrayim (Egyptalandi) en eitt er alveg víst, nafn Elohim var upphaflega ritað og talað á hebreskri tungu.

Hann stofnaði hebreska tungumálið sem sérstakt tungumál og opinberaði nafn sitt á hebresku.

Við vitum að hebreska í dag er ekki rituð eins og upphaflega var gert, en stafirnir í nútímahebresku sem samsvara fornhebresku eru Yud, Hay, Vav, Hay - YHWH. Þar sem búið er að tapa þekkingunni á framburði nafnsins með banninu (mannasetningunni) við því að nefna nafnið eru menn nú ekki á einu máli um hvernig það er borið fram. Flestir telja það vera Yahoweh eða jafnvel Yehowah.

Samkvæmt sagnfræðingnum, Jósefus, bar æðsti prestur gyllta kórónu sem á var ritað nafn Elohim sem samanstóð af fjórum sérhljóðum.

Þegar fólk segir Hallelu Yah er það hebreskt orð sem þýðir „lof sé Yah.“

Malakí spámaður vísar í minningarbók og segir:

Þá mæltu þeir hver við annan, sem óttast YHWH, og YHWH gaf gætur að því og heyrði það, og frammi fyrir augliti hans var rituð minnisbók (Sefer Zikarone) fyrir þá, sem óttast YHWH og virða hans nafn. Þeir skulu vera mín eign segir YHWH allsherjar á þeim degi, sem ég hefst handa (geri þá að gersemum mínum), og ég mun vægja þeim, eins og maður vægir syni sínum, sem þjónar honum. Þá munuð þér aftur sjá þann mismun, sem er á milli réttláts manns og óguðlegs, á milli þess, sem þjónar Elohim, og hins, sem ekki þjónar honum. Malakí 3.16-18 

Í þessum ritningarversum er greinilegt að YHWH heldur minnisbók eða skrá yfir þá sem óttast hann og hugleiða nafn hans.

Daníel spámaður talar um þann dag þegar bækurnar verða opnaðar til dómsuppkvaðningar og í Opinberunarbókinni 3.5 segir: Sá er sigrar, hann skal þá skrýðast hvítum klæðum, og eigi mun ég afmá nafn hans úr bók lífsins. Ég mun kannast við nafn hans fyrir föður mínum og fyrir englum hans.

Í þýðingu þar sem hebresku nöfnin hafa verið endurreist, segir svo í 2. Mósebók (Shemot) 6.2-8: Elohim talaði við Mosheh og sagði við hann: Ég er YHWH! Ég birtist Avraham, Yitshak og Ya'akov sem El Shaddai, en undir nafninu YHWH hefi ég eigi opinberast þeim. Ég gjörði og við þá sáttmála, að gefa þeim Kanaanland, dvalarland þeirra, er þeir dvöldust í sem útlendingar. Ég hefi og heyrt kveinstafi Yisra'elsmanna, sem Egyptar hafa að þrælum gjört, og ég hefi minnst sáttmála míns. Seg því Yisra'elsmönnum: Ég er YHWH. Ég vil leysa yður undan ánauð Egypta og hrífa yður úr þrældómi þeirra og frelsa yður með útréttum armlegg og miklum refsidómum. Ég vil útvelja yður til að vera mitt fólk, og ég vil vera yðar Elohim, og þér skuluð reyna, að ég er YHWH, Elohim yðar, sem leysi yður undan ánauð Egypta. Og ég vil leiða yður inn í það land, sem ég sór að gefa Avraham, Yitshak og Ya'akov, og ég vil gefa yður það til eignar. Ég er YHWH.

Í ritningunum virðist sem Mosheh (Móse), hinn útvaldi lausnari Ysra'els, einn útvalinna manna Elohims, hafi varið allt að tveimur þriðju lífs síns án þess að þekkja Elohim Ysra'els eða nafn hans. Þetta er sama ástand og margir útvalinna eru í núna. Margir þeirra sem eru kallaðir og útvaldir þekkja ekki nafn þess sem þeir tilbiðja eða vita ekki hvernig á að bera nafn hans fram. Það eru líka margir núna sem eru að endurreisa nafn YHWH inn í tilbeiðslu sína. Þeir átta sig á því að þeir hafa notað ópersónulega og ranga titla til að tilbiðja Elohim og þrá að endurreisa nafnið á ný.

Nafnið var greinilega talað út áður fyrr og verður talað í framtíðinni. Eins ætti það að vera talað út á okkar tímum. Þótt mannkynið hafi verið blekkt öldum saman, þýðir það ekki að við eigum að gefast upp eða viðurkenna ósigur, sérstaklega ekki í svo mikilvægu máli.

Við erum kölluð til að þrauka og öðlast sigur svo að nöfn okkar verði ekki afmáð. Hluti af göngu okkar er að þekkja, nota og hugleiða nafnið.

Algeng hebresk ritun á nafninu Jósúa er Yehoshua, Yahushua, Yahoshua eða Yahshua. Í 4. Mósebók (Bemidbar) 13.16 segir að Móse (Mosheh) hafi breytt nafni Hósea (Hoshea) í Jósúa (Yahushua). Hvenær sem við sjáum einhvern fá nýtt nafn í ritningunum gefur það til kynna mikilvæga breytingu í lífi einstaklingsins.

Upphaflega nafnið Hósea (Hoshea) þýddi „hjálpræði“ eða „lausnari“ en eftir að búið var að tengja nafn YHWH við nafn hans (Yahushua), þýddi það nú „YHWH frelsar.“

Eins og með nafn föðurins, eru ekki allir á einu máli um það hvernig á að bera fram nafn Messíasar. Ritningarnar segja okkur að nafn sonarins þýði „Hann frelsar lýð sinn“ og að hann sé Immanúel „El með oss.“ Þar sem við vitum að það er Yah sem frelsar lýð sinn er því rökrétt að bera nafn frelsarans fram sem Yahushua.

Algengur ritháttur er: Yahushua, Yehoshua, Yahshua, Yeshua og Y'shua.  

Við sjáum nú hópa fólks, alls staðar að úr heiminum, snúa aftur til hins sanna nafns föðurins og sonarins. Þessi nöfn hafa verið í gleymsku öldum saman og nú er fólk að gera sitt besta við að finna réttan framburð á þeim, sem er mjög mikilvægt, þótt það ætti ekki að valda deilum meðal hinna trúuðu.

Ritningarnar (Tanakh) eru fylltar af vísbendingum um hið hebreska nafn Messíasar. Þeir sem eru af hebreskum uppruna og lesa og skilja ritningarnar, eru því að bíða Messíasar sem mun kallast „YHWH, hjálpræði okkar“ - Yahushua.

Hann mun afmá dauðann að eilífu, og hinn alvaldi YHWH mun þerra tárin af hverri ásjónu, og svívirðu síns lýðs mun hann burt nema af allri jörðinni, því að YHWH hefir talað það. Á þeim degi mun sagt verða: Sjá, þessi er vor Elohim, vér vonuðum á hann, að hann mundi frelsa oss. Þessi er YHWH, vér vonuðum á hann. Fögnum og gleðjumst yfir hjálpræði hans! Yeshayahu (Jesaja) 25.8-9

Hver sem les síðasta versið á hebresku, skilur það svona: . Á þeim degi mun sagt verða: Sjá, þessi er vor Elohim, vér vonuðum á hann, að hann mundi frelsa oss. Þessi er YHWH, vér vonuðum á hann. Fögnum og gleðjumst yfir yashua hans! Mundu að yashua YHWH er Yahushua. 

Öldum saman hefur hin kristna kirkja reynt að kynna hann sem hellenískan, grískan Messías sem heitir Jesús. Það eru engin tengsl á milli þessara nafna og því er engin furða að Hebrear meðtaki ekki hið kristna fagnaðarerindi. Hinn kristni Messías, Jesús, fellur ekki að spádómunum.

Jesús var ekki, og er ekki, nafn hins hebreska Messíasar, en ef þú segir hebreskum einstaklingi að Messías heiti Yahushua, á hann auðveldara með að skilja það.

Í Yoel (Jóel) 2.31 segir: Og hver sem ákallar nafn YHWH, mun frelsast. Það leiðir okkur beint að nafni sonarins, sem andstætt almennri trú, er ekki Jesús. Nafnið Jesús er útgáfa af helleníska, gríska nafninu Iesous, sem stafað er Iesus á latnesku. Sumir segja að þetta nafn hafi enga merkingu en aðrir segja það vísa til ýmissa heiðinna guða. Eitt er alveg víst, Jesús var ekki hebreskt nafn og er ekki bein þýðing á hebreska nafninu Yahushua.

Okkur ætti að vera alveg ljóst að nafni föðurins hefur verið breytt og það verið bælt niður öldum saman og það sama á við um nafn sonarins. Til þess að endurreisa rétt samfélag á milli Elohim og lýðs hans, þarf að endurreisa þessi nöfn.

Þetta er sérlega mikilvægt í ljósi þess að hann kallar þá vini sína sem hlýða honum. Það er erfitt að segja að þú sért vinur einhvers ef þú veist ekki einu sinni hvað hann heitir.

Eins er það ef þú vilt vera vinur Yahushua, þá þarf það að fela meira í sér en að segjast bara þekkja hann. Þér eruð vinir mínir, ef þér gjörið það, sem ég býð yður. Ég kalla yður ekki framar þjóna, því þjónninn veit ekki, hvað herra hans gjörir. En ég kalla yður vini, því ég hef kunngjört yður allt, sem ég heyrði af föður mínum. Þér hafið ekki útvalið mig, heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt, sem varir, svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Jóhannesarguðspjall (Yahanan) 15.14-16

Samfélag þitt við Messías felur meira í sér en að þú segist bara þekkja hann, sérstaklega ef þú notar rangt nafn. Ég sting upp á því að það sé góð byrjun að reyna að nota sanna nafnið hans. Það getur verið klaufalega óþægilegt fyrst að tala út hið hebreska nafn Yahushua í stað þess að nota helleníska, gríska nafnið Jesús. Það er aldrei auðvelt að breyta gömlum venjum, en launin eru vel þess virði og Yahushua mun vissulega kunna að meta notkun hins rétta nafns.

Ég hef heyrt suma segja að það sé of erfitt að bera fram hebreska nafnið og aðra segja að þetta sé eitthvað sem skipti ekki máli. Þeir segja að þetta sé bara spurning um hjartað og sama hvaða titill eða rangt nafn sé notað, þá „þekki Guð hjartað.“ Þessi rök hljóma vel, en eru í beinni andstöðu við ritningarnar. Hver og einn þarf að biðja yfir þessu, vegna þess að við munum öll standa frammi fyrir dómaranum einn daginn og þá þurfum við að geta svarað.

Við erum vöruð við því að einn daginn munu margir kalla Yahushua „Drottin“ en ekki ganga inn í himnaríki. Ekki mun hver sá, sem við mig segir: Herra, herra, (Drottinn, drottinn) ganga inn í himnaríki, heldur sá einn, er gjörir vilja föður míns, sem er á himnum. Margir munu segja við mig á þeim degi: Herra, herra, (Drottinn, drottinn)  höfum vér ekki kennt í þínu nafni, rekið út illa anda í þínu nafni og gjört í þínu nafni mörg kraftaverk? Þá mun ég votta þetta: Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn (lögmálsbrjótendur). Matteusarguðspjall (Mattithyahu) 7:21-23

Taktu eftir því að hann segist aldrei hafa þekkt þá. Þeir sem eru látnir víkja frá nærveru Messíasar neita að fylgja leiðbeiningunum Torah, sem er nákvæmlega það sem kristindómurinn hefur gert með því að misnota kenningu náðarinnar.

Ég er ekki að segja að hver sem noti nafnið Jesús muni fara til helvítis. Hinn Almáttki er fullur miskunnar og fljótur að fyrirgefa. Hann refsar okkur ekki fyrir fáfræði okkar.

Margir þrá að þekkja hann en hefur ekki verið kenndur allur sannleikurinn. Þar getur hann greint „hugsanir og hugrenningar hjartans.“ Hebreabréfið (Ibrim) 4.12

Við vitum að hann er þolinmóður við okkur og það leiðir okkur til iðrunar. Hann hefur verið þolinmóður við hvert og eitt okkar um tíma, á meðan við höfum ekki vitað betur. Þegar þú sérð sannleikann, er það undir þér komið að iðrast, sem er að skipta út röngum gjörðum fyrir réttar. Það getur verið auðmýkjandi upplifun að sjá sannleikann og að þurfa að viðurkenna að maður hafi verið fáfróður varðandi eitthvað svo einfalt, en þó svo mikilvægt.

Davíð konungur lýsti því yfir í einum spádómi sínum að Messías myndi koma í nafni YHWH. Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að hyrningarsteini. Að tilhlutun YHWH er þetta orðið, það er dásamlegt í augum vorum. Þetta er dagurinn sem YHWH hefir gjört, fögnum, verum glaðir á honum. YHWH, hjálpa þú, YHWH, gef þú gengi! Blessaður sé sá sem kemur í nafni YHWH. Tehillim (Sálmur) 118.22-26

Við sjáum þetta ritningarvers rætast þegar Yahushua kom ríðandi inn í Yahrushalayim (Jerúsalem) á asna. Lærisveinarnir fóru og gjörðu sem Yahushua hafði boðið þeim, komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín, en hann steig á bak. Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn, en aðrir hjuggu lim af trjánum og stráðu á veginn. Og múgur sá, sem á undan fór og eftir fylgdi, hrópaði: Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur í nafni YHWH! Hósanna í hæstum hæðum! Mattityahu (Matteus) 21.6-9

Mannfjöldinn var greinilega að kalla nafn YHWH og þess vegna sögðu sumir faríseanna Yahushua að hasta á lærisveina sína. (Lúkas 19.39) Í stað þess að hasta á lærisveina sína, sagði Yahushua: Ég segi yður, ef þeir þegja, munu steinarnir hrópa. Lúkas 19.40

Farísearnir höfðu mótað sínar eigin hefðir og boðorð sem kallast takanot og er að mörgu leyti í beinni andstöðu við Torah.

Mikilvæg hlið þjónustu Yahushua á jörðu var að birta hinum útvöldu nafn YHWH og ég trúi því að hann hafi að lokum verið líflátinn fyrir að tala út nafnið.

Hann hafði opinberlega lýst yfir nafni YHWH, þvert gegn takanot faríseanna sem bannaði mönnum að nefna nafnið. Flest af því sem hann kenndi og gerði, var af ásettu ráði gert til að brjóta gegn þessum takanot og sýna lærisveinum sínum á sama tíma hvernig þeir ættu að hlýða Torah frá hjartanu.

Orðið Kristur hefur verið tengt við nafn Jesú eins og það væri eftirnafnið hans, þ.e. Jesús Kristur. Kristur er ekki nafn, heldur skilgreining sem á rætur að rekja til heiðinnar menningar. Þeir sem fylgdu hellenískri fjölgyðistrú kölluðu guði sína drottin (kurios á grísku) eða krist, sem er christos á grísku.

Af þessu (og mörgu fleiru sem má lesa um í bókinni „Names“ eftir Todd D. Bennett) má sjá að orðið Kristur var notað um marga heiðna guði áður en það var notað um Messías.

Oft hefur verið reynt að líkja hugtakinu „christos“ við hebreska orðið smurður (mashiach), sem er yfirleitt þýtt á ensku (og íslensku) sem Messías. Mashiach hefur verið þýtt sem „smurður“ en ekki er hægt að segja að það sé rétt þýðing orðsins „christos.“

Gríski textinn sýnir jafnvel Andrés kalla Yahushua „Messías“ (Jóh. (Yahanan) 1.41) sem er rétt grísk túlkun á hebreska orðinu Mashiach, en ekki Christos.

Rétt eins og nafni Yahushua var snúið upp á grísku sem Jesús, hefur einnig hebreska titlinum mashiach verið snúið upp í christos og síðan þýtt sem Kristur.

Þegar ég vísa til Yahushua HaMashiach leikur enginn vafi á að ég er að tala um hebreskan Messías sem uppfyllir spádómana sem gefnir voru í Tanakh, ekki einhvern nýaldarkrist sem boðar sameiningu allra trúarbragða heims.

Yahushua gerði kraftaverk í nafni YHWH eins og hann sagði sjálfur: Verkin, sem ég gjöri í nafni föður míns, þau vitna um mig. Yahanan (Jóh.) 10.25

Maðurinn við Fagrahlið læknaðist í nafni Messíasar, sem inniheldur nafn föðurins. Það var nafnið og trú mannsins á nafnið sem læknaði líkama hans, eins og Kepha (Kefas) útskýrði fyrir fólkinu sem varð vitni að þessu. (Post. 3.16)

Næsta morgun voru postularnir leiddir fram fyrir höfðingja, öldunga og fræðimenn í Jerúsalem til að gera grein fyrir þessu og Kepha svaraði þeim, fylltur heilögum anda: Þá sé yður öllum kunnugt og öllum Ísraelslýð (Yisra'el), að í nafni Yahushua HaMashiach frá Nasaret, þess er þér krossfestuð, en Elohim uppvakti frá dauðum, í hans nafni stendur þessi maður heilbrigður fyrir augum yðar. Yahushua er steinninn, sem þér, húsasmiðirnir, virtuð einskis, hann er orðinn hyrningarsteinn. Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss. Postulasagan 4.10-12

Nafnið sjálft er yfirlýsing um það að YHWH frelsar lýð sinn. Hjálpræði þýðir líf fyrir þá sem eru frelsaðir og það er líf í nafninu. Yahushua gjörði einnig mörg önnur tákn í augsýn lærisveina sinna, sem eigi eru skráð á þessa bók. En þetta er ritað til þess að þér trúið, að Yahushua sé HaMashiach, sonur Elohim, og að þér í trúnni eigið líf í hans nafni. Yahanan (Jóh.) 20.30-31

Óvinurinn vill ekki að fólk upplifi þetta fyrirheitna líf og hjálpræði. Því hefur bæði nafn föðurins og nafn sonarins verið hulið, breytt, skipt út fyrir önnur nöfn eða spillt, en það er vilji YHWH að nafn hans sé opinberað og ekkert getur komið í veg fyrir vilja hans.

Í Esekíel (Yehezqel) 39.7 segir: En ég vil gjöra mitt heilaga nafn kunnugt meðal lýðs míns Yisra'el og ekki framar láta vanhelga mitt heilaga nafn, til þess að þjóðirnar viðurkenni, að ég er YHWH, heilagur í Yisra'el.

Í Sefanía (Zephaniyah) 3.9 segir: Já, þá mun ég gefa þjóðunum nýjar, hreinar varir (hreint tungumál), svo að þær ákalli allar nafn YHWH og þjóni honum einhuga.

Þar til þetta gerist verðum við að skilja að Elohim opinberaði nafn sitt upphaflega á hebresku. Hluti af nauðsynlegri endurreisn er að endurreisa nafn Elohim á hebresku, nafnið sem hefur verið þaggað niður og gleymt svo lengi.

Hefðir hafa mótast, sem kenna, og jafnvel skipa, að nafnið eigi ekki að vera nefnt, en þessi hefð er ekki studd af Ritningunni. Það að skipta út nafni YHWH fyrir titilinn „Drottinn,“ eins og hefur verið gert í flestum nútímaþýðingum, er andstætt boðunum sem finnast í ritningunum. Þér skuluð gæta þess að halda öll þau boðorð, sem ég legg fyrir yður. Þú skalt engu auka við þau né heldur draga nokkuð undan. Devarim (5. Mós.) 12.32 Þegar nafninu er skipt út felur það bæði í sér það að bæta við og draga undan.

Yirmeyahu (Jeremía) spámaður sagði: YHWH, styrkur minn, vígi mitt og hæli mitt á neyðardegi, til þín munu þjóðir koma frá endimörkum jarðar og segja: Lygar einar hafa feður vorir hlotið að eign, fánýta guði, og enginn þeirra er að neinu gagni. Getur maðurinn gjört sér guði? Slíkt eru engir guðir! Fyrir því vil ég í þetta sinn kenna þeim. Ég vil láta þá kannast við kraft minn og styrkleika, og þeir skulu viðurkenna, að nafn mitt er YHWH. Yirmeyahu 16.19-21

Því var spáð að nafninu yrði spillt, en að svo yrði það þekkt mitt í Yisra'el (Ísrael) og meðal heiðingja (Goyim, þjóðanna). En ég vil gjöra mitt heilaga nafn kunnugt meðal lýðs míns Ísraels og ekki framar láta vanhelga mitt heilaga nafn, til þess að þjóðirnar viðurkenni, að ég er YHWH, heilagur í Ísrael. Yehezqel (Esekíel) 39.7 Við sjáum þennan spádóm rætast hjá okkar kynslóð.

Yeshayahu (Jesaja) spámaður talaði út stórkostlegt fyrirheit YHWH fyrir heiðingja sem gefast YHWH, elska nafn hans, halda hvíldardaga hans og halda fast í sáttmála hans: Svo segir YHWH: Varðveitið réttinn og gjörið það, sem rétt er, því að hjálpræði mitt er í nánd og réttlæti mitt birtist bráðlega. Sæll er sá maður, sem gjörir þetta, og það mannsbarn, sem heldur fast við það, sá sem gætir þess að vanhelga ekki hvíldardaginn og varðveitir hönd sína frá því að gjöra nokkuð illt. -Eigi má útlendingurinn, er gengið hefir YHWH á hönd, segja: YHWH mun skilja mig frá lýð sínum! Og eigi má geldingurinn segja: Ég er visið tré! Því að svo segir YHWH: Geldingunum, sem halda hvíldardaga mína og kjósa það, sem mér vel líkar, og halda fast við sáttmála minn, þeim vil ég gefa minningarmark og nafn í húsi mínu og á múrveggjum mínum, sem er betra en synir og dætur. Eilíft nafn vil ég gefa þeim, það er aldrei mun afmáð verða. Og útlendinga, sem gengið hafa YHWH á hönd til þess að þjóna honum og til þess að elska nafn YHWH, til þess að verða þjónar hans alla þá, sem gæta þess að vanhelga ekki hvíldardaginn og halda fast við minn sáttmála, þá mun ég leiða til míns heilaga fjalls og gleðja þá í bænahúsi mínu. Brennifórnir þeirra og sláturfórnir skulu vera mér þóknanlegar á altari mínu. Því að hús mitt skal nefnast bænahús fyrir allar þjóðir. Yeshayahu (Jesaja) 56.1-7 

Ég er YHWH, það er nafn mitt, og dýrð mína gef ég eigi öðrum né lof mitt úthöggnum líkneskjum. Yeshayahu (Jesaja) 42.8

Af því að hann leggur ást á mig, mun ég frelsa hann, ég bjarga honum, af því að hann þekkir nafn mitt. Ákalli hann mig, mun ég bænheyra hann, ég er hjá honum í neyðinni, ég frelsa hann og gjöri hann vegsamlegan. Ég metta hann með fjöld lífdaga og læt hann sjá hjálpræði mitt. Tehillim (Sálmur) 91:14-16

Við höfum gleymt nafninu, en það þýðir ekki að við getum ekki minnst þess og lært það. Ef við neitum að biðja þess í einlægni hvort við getum ekki endurreist hið sanna nafn, getum við ekki vænst þess að læra sannleikann. Við þurfum öll að taka trúarskref og byrja að tala út nafnið í bæn og af virðingu. Þegar við höldum því áfram mun andinn heilagi leiða tungu okkar í sannleika. Andinn hefur verið sendur í nafni Yahushua: En hjálparinn, Ruach Hakodesh (andinn heilagi), sem faðirinn mun senda í mínu nafni, mun kenna yður allt og minna yður á allt það, sem ég hef sagt yður. Yahanan (Jóh.) 14.26

Þegar andinn hefur kennt okkur, getum við lofað eins og Davíð konungur gerði: Hallelu Yah! Þjónar YHWH, lofið, lofið nafn YHWH. Nafn YHWH sé blessað héðan í frá og að eilífu. Frá sólarupprás til sólarlags sé nafn YHWH vegsamað. Tehillim (Sálmur) 113.1-3

 

Birt með leyfi höfundar
Íslensk þýðing: Sigrún Einarsdóttir

 

Names

Bók eftir Todd D. Bennett um nafn skaparans og Messíasar
 ásamt því sem hann fjallar um merkingar ýmissa nafna í Ritningunni.
 Hér er hægt að panta bókina:
http://www.shemayisrael.net/books.html

 

Copyright - www.torah.is

torah@internet.is