LÖGMÁL OG NÁÐ

Vog

Eftirfarandi er úrdráttur og endursögn úr bókinni
 „The Law and Grace“ eftir Todd D. Bennett.

 

Í upphafi

 

          Fátt vekur jafn áköf viðbrögð og þegar kristinn einstaklingur stendur frammi fyrir þeirri skoðun að hann verði að fylgja lögmálinu.

 

          Margir álíta „lögmál“ og „náð“vera algjörlega andstæð hugtök. Hvorki orðið „lögmál“ né „náð“ endurspegla nákvæmlega hin réttu ritningarlegu hugtök sem þau standa fyrir. Mörgum hefur verið kennt að náðin hafi leyst „lögmálið“ af hólmi.

 

          Það er nauðsynlegt að átta sig á því að mannkyninu voru gefin boð alveg frá upphafi – þau voru ekki ný á Sínaífjalli. Það sést skýrt að frá Adam til Mosheh (Móse) var alltaf réttlát ættlína sem þekkti og fylgdi boðorðum YHWH. Hið nýja sem gerðist á Sínaífjalli var það að boðorðin voru skráð og felld inn í sáttmálann sem var gerður við Ísrael.

 

          Dæmi um slæma þýðingu má sjá í texta í Jóhannesarguðspjalli:

 

-1- Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð.

-2- Hann var í upphafi hjá Guði.

-3- Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er.

-4- Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna.

-5- Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því.

-6- Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes.

-7- Hann kom til vitnisburðar, til að vitna um ljósið, svo að allir skyldu trúa fyrir hann.

-8- Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.

-9- Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.

-10- Hann var í heiminum, og heimurinn var orðinn til fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki.

-11- Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum.

-12- En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans.

-13- Þeir eru ekki af blóði bornir, ekki að holds vild né manns vilja, heldur af Guði fæddir.

-14- Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum.

-15- Jóhannes vitnar um hann og hrópar: Þetta er sá sem ég átti við, þegar ég sagði: Sá sem kemur eftir mig, var á undan mér, enda fyrri en ég.

-16- Af gnægð hans höfum vér allir þegið, náð á náð ofan.

-17- Lögmálið var gefið fyrir Móse, en náðin og sannleikurinn kom fyrir Jesú Krist.
Yahanan (Jóh.) 1.1-17

 

          Þessi ritningarstaður er oft notaður til að styðja þá trú að náðin hafi komið í stað „lögmálsins“ þrátt fyrir þá staðreynd að textinn fari með okkur alveg aftur til upphafsins. Einhverra hluta vegna telur margt kristið fólk að eitthvað hafi breyst á róttækan hátt þegar Orðið varð að holdi. Hluti af vandamálinu felst í þýðingu þessa ritningarstaðar – sérstaklega varðandi orðið „en“ sem er í 17. versi. Þetta orð finnst ekki í grísku handritunum sem notuð voru til að þýða textann yfir á ensku. Þess vegna virðist „lögmálið“ vera í beinni andstöðu við náðina. Nákvæm þýðing á þessu versi væri svona:

 

„Enda þótt Torah væri gefið í gegnum Mosheh, komu náðin og sannleikurinn í gegnum Yahushua Messías (Jesú Krist).“

 

          Ég nota orðið Torah fremur en orðið „lögmál.“ Torah, sem oft er þýtt sem „lögmálið“ má betur kalla „leiðbeiningar Elóhíms“ og í ritningunum er það líka kallað „sannleikur“ (Sálm. 119.151 – ensk þýð.).

 

          Með þessar upplýsingar að leiðarljósi ætti að vera augljóst að Torah, sem er sannleikur er ekki, og getur ekki verið, í mótstöðu við náðina. Á meðan sannleikurinn (Torah) var gefinn í gegnum Mosheh komu náð og sannleikur í gegnum Yahushua, sem er Orðið og Ljósið frá upphafi.

 

          Án rétts skilnings á Torah, geturðu aldrei skilið „Gamla testamentið,“ hvað þá kenningar Messíasar eða önnur rit í „Nýja testamentinu“ – sem einnig er kallað Messíönsku ritningarnar.

 

 

Lögmálið

 

          Hebreska orðið Torah þýðir framsetning, kennsla, leiðbeiningar eða opinberun frá Elóhím. Það kemur af orðinu horah sem þýðir að leiðbeina eða kenna og er dregið af stofninum yara sem þýðir að skjóta eða kasta. Þetta gefur allt annað til kynna en orðið „lögmál.“

 

          Torah inniheldur leiðbeiningar, handleiðslu og stefnu fyrir þá sem þrá að lifa réttlátu, fráteknu lífi í samhljómi við vilja Elóhíms. Móse skráði þessar leiðbeiningar á bókrollur en hinn Almáttugi skráir þær á hjarta hins trúaða.

 

          Foreldrar leiðbeina börnum sínum og leiða þau til að varðveita þau svo að þau geti vaxið úr grasi heilbrigð og blessuð. Það er ákveðnar reglur á heimilinu – en þær reglur eru settar í kærleika og það sama á við um Torah.

 

          Það veldur vandamáli þegar hið óljósa orð „lögmál“ er notað í stað „Torah.“ Þegar fólk les um „lögmál Guðs“ tengir það strax ákveðin viðhorf og tilfinningar til hugtaksins sem byggir á reynslu fólks af „lögum manna.“

 

          Torah er einstakt orð sem hefur allt aðra merkingu og þótt það feli í sér margar merkingar. Torah veitir öllu fólki leiðbeiningar svo að það geti vitað hvernig á að lifa réttlátu lífi frammi fyrir skaparanum með tilliti til stöðu þess í lífinu.

 

          Þetta hefur alltaf verið tilfellið og Torah var ekki gefið bara fyrir Ísraelsmenn á Sínaífjalli. Torah var til frá upphafi, þegar Adam naut samvista við skapara sinn í aldingarðinum Eden.

         

          Eftir að Adam var rekinn úr garðinum vissi hann samt hvað taldist rétt hegðun og lét þá þekkingu ganga til barna sinna. Abel færði fórn sem geðjaðist hinum Almáttuga en Kain gerði það ekki. Síðar var jörðin dæmd vegna þess að mannkynið lifði ekki í samræmi við leiðbeiningar hins Almáttuga. Nói og fjölskylda hans nutu björgunar vegna þess að hann var réttlátur maður sem hlýddi skapara sínum. Sem, sonur Nóa, bar áfram réttlátan ættlegg og sumir trúa því að hann hafi kennt Avraham (Abraham) Torah.

 

          Í ritningunum sést skýrt að Avraham hlýddi Torah. Í Beresheet (1. Mósebók) 26.4-5 lesum við um það þegar hinn Almáttugi birtist Ísak og sagði: „...af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta, af því að Avraham hlýddi minni röddu og varðveitti boðorð mín, skipanir mínar, ákvæði og Torah.“

 

          Margt kristið fólk gerir þau mistök að telja að Ísraelsmenn hafi verið frelsaðir fyrir hlýðni við Torah, sem er algjörlega rangt. Einnig er fólki kennt að Messías hafi frelsað okkur undan bölvun Torah og nú sé fólk hólpið fyrir náð.

 

          Torah hefur aldrei frelsað nokkurn mann.

          Torah var sérstaklega fyrir þá sem trúðu – hvort sem þeir voru innfæddir Ísraelsmenn eða útlendingar sem vildu slást í hóp þeirra. „Þér skuluð hafa ein lög (Torah) fyrir þann, er gjörir eitthvað af vangá, bæði fyrir mann innborinn meðal Ísraelsmanna og fyrir útlending, er dvelur meðal þeirra.“ Bemidbar (2. Mósebók) 15.29. Torah er mun meira en listi af boðum og bönnum – þetta eru leiðbeiningar hins Almáttuga til fólks sem þráir að ganga með honum, búa með honum og þjóna honum í ríki hans.

          Ég [höfundur bókarinnar] ólst upp í þeirri trú að lögmálið væri fyrir „Gyðingana“ en kristnir hefðu verið leystir undan ánauðinni sem fylgdi því að vera „undir lögmálinu.“ Mér var kennt að lögmálið væri allt of erfitt fyrir nokkurn mann, nema Jesú, sem lifði fullkomnu lífi svo að hann gæti afnumið lögmálið og frelsað allt mannkyn með því að leiða inn nýja úthlutun náðar.

          Eina vandamálið við þessa trú er það að þetta er ekki stutt af ritningunum. Eflaust er hægt að finna nokkur  valin vers, þá líklegast í ritum Páls (Shaul), til að halda uppi þessari kenningu, en eins og við munum sjá síðar, eru þessir ritningarstaðir yfirleitt misskildir eða rangt þýddir til að láta þá falla að þeirri fyrirframgefnu guðfræði að „Jesús hafi skipt lögmálinu út fyrir náð.“

          Torah var aldrei ætlað að vera Ísraelsmönnum byrði; heldur átti það að vera sérstök gjöf, fjársjóður handa fólki sem var valið til að lifa fráteknu lífi. Ísrael átti að vera prestaþjóð og Torah veitti þeim nauðsynlegar leiðbeiningar til að lifa réttlátu lífi, eins og við lesum í Devarim (5. Mósebók) 6.25: „Og vér munum taldir verða réttlátir, ef vér gætum þess að breyta eftir öllum þessum skipunum fyrir augliti YHWH Elóhíms vors, eins og hann hefir boðið oss.

          Torah var gefið Ísraelsmönnum eftir að þeir voru leystir úr þrælkun. Leiðbeiningarnar voru gefnar frjálsu fólki sem hafði verið leyst úr ánauð. Þessum leiðbeiningum var ekki ætlað að koma Ísraelsmönnum aftur í fjötra. Bæði frelsunin og leiðbeiningarnar voru gjöf sem kærleiksríkur eiginmaður gaf brúði sinni – Ísrael.

          Ísraelsmenn voru aldrei þvingaðir til að hlýða Torah – þeir samþykktu það fúslega eftir að þeir höfðu verið leystir undan þrælkun. YHWH beið þar til þeir voru frjálsir og þá bauð hann þeim Torah. Og Móse fór og stefndi saman öldungum lýðsins og flutti þeim öll þau orð, er YHWH hafði boðið honum. Þá svaraði allur lýðurinn einum munni og sagði: Vér viljum gjöra allt það, sem YHWH býður. Shemot (2. Mósebók) 19.7-8. Þetta var það sama og þegar brúður segir „já.“

          Grundvallarboð varðandi Torah er: Þér skuluð engu auka við þau boðorð, sem ég legg fyrir yður, né heldur draga nokkuð frá, svo að þér varðveitið skipanir YHWH Elóhíms yðar, sem ég legg fyrir yður.“ Devarim (5. Mósebók) 4.2. Í sömu bók lesum við í versi 12.32: „Þér skuluð gæta þess að halda öll þau boðorð, sem ég legg fyrir yður. Þú skalt engu auka við þau né heldur draga nokkuð undan.“

          Við getum ekki gætt og haldið Torah ef við bætum við það eða drögum frá því. 

          Mosheh (Móse) sagði Yisra´el (Ísrael) sérstaklega að boðorðin væru ekki of erfið. Þetta boðorð, sem ég legg fyrir þig í dag, er þér eigi um megn, og það er eigi fjarlægt þér. Ekki er það uppi í himninum, svo að þú þurfir að segja: Hver ætli fari fyrir oss upp í himininn og sæki það handa oss og kunngjöri oss það, svo að vér megum breyta eftir því? Og það er eigi hinumegin hafsins, svo að þú þurfir að segja: Hver ætli fari fyrir oss yfir hafið og sæki það handa oss og kunngjöri oss það, svo að vér megum breyta eftir því? Heldur er orðið harla nærri þér, í munni þínum og hjarta þínu, svo að þú getur breytt eftir því. Devarim (5. Mós.) 30.11-14.

          Messíönsku ritningarnar staðfesta einnig þá staðreynd að boðorðin séu ekki of erfið. „Því að í þessu birtist elskan til Elóhíms, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung. 1 Yahanan (1. Jóhannesarbréf) 5.3.

          Þetta er þversögn við þá almennu trú kristindómsins að við „getum ekki haldið lögmálið.“ Aftur á móti var hið þjakandi lögmál og hefðir trúarleiðtoganna það sem var of erfið byrði á fólki. Kepha postuli (Kefas eða Pétur, eins og hann er almennt kallaður) lýsti því sterklega yfir þegar hann talaði til ráðsins í Jerúsalem (Yahrushalaym) sem kom saman til að ræða innstreymi heiðingja í samfélag trúaðra. Hann byrjaði í Postulasögunni 15.10: „Hví freistið þér nú Elóhíms með því að leggja ok á háls lærisveinanna, er hvorki feður vorir né vér megnuðum að bera?

          Margir túlka þetta sem svo að Kepha hafi verið að lýsa því yfir að hinir nýju í trúnni þyrftu ekki að fylgja Torah, sem væri ok sem enginn gæti borið. Það er fjarri sannleikanum. Kepha talaði alveg samkvæmt þjónustu Messíasar, en orð hans eru oft misskilin vegna þess að fólk skilur ekki þjónustu Messíasar.

          Yahushua Messías, varði miklum tíma þjónustu sinnar í að gera greinarmun á íþyngjandi lögum manna og boðum Torah.

  

Farísearnir og lögmálið

          Hið svokallaða munnlega Torah hefur nú verið skráð og er aðallega að finna í Talmúd sem inniheldur Mishnah og Gemara, auk annarra rita sem kallast Midrash. Með því að kalla reglur manna munnlegt Torah sýnast þær afar trúverðuglegar, en þær eru þó í raun fullar af skoðunum, mannasetningum, hefðum og venjum sem í mörgum tilfellum eru tilraun til að girða utan um Torah.

          Mótun hins munnlega Torah er nokkuð þýðingarmikil því hún veitti faríseunum vald yfir mönnum. Þegar trúarkerfi eða kirkjudeild nær að setja reglur sem innihalda fyrirmæli um líf og gjörðir meðlimanna – veitir það þeim sem setja reglurnar vald yfir hinum. Í Torah segir sérstaklega: „Þér skuluð engu auka við þau boðorð, sem ég legg fyrir yður, né heldur draga nokkuð frá, svo að þér varðveitið (shamar) skipanir YHWH Elóhíms yðar, sem ég legg fyrir yður. Devarim (5. Mós.) 4.2. Mótun munnlegs Torah er beint brot á þessu boði vegna þess að munnlegu lögmálin bæta oft við, draga frá eða stangast á við hið ritaða Torah sem leiðir til þess að boðorðin eru ekki haldin.

Messías og Torah

 

          Á meðan farísearnir byggðu sitt eigið ríki, kom Yahushua og lýsti yfir ríki YHWH (Markúsarguðspjall 1.14-15) og Torah er „stjórnarskrá“ þess ríkis. Hann boðaði iðrun sem er það að snúa baki við syndinni og hverfa aftur til leiðbeininga hins Almáttuga – til Torah.

          Það var ekkert vafamál hvar Yahushua stóð gagnvart Torah og í Fjallræðunni sagði hann:Ætlið ekki, að ég sé kominn til að afnema Torah eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema, heldur uppfylla. Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr Torah, uns allt er komið fram. Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það, mun kallast minnstur í himnaríki, en sá, sem heldur þau og kennir, mun mikill kallast í himnaríki.Mattithyahu (Matteus) 5.17-19.

          Kristið fólk á oft í erfiðleikum með þennan ritningarstað vegna þess að hann fellur ekki að skilningi þess á lögmáli og náð. Algengt er að kristnir segi: „Við erum undir náð en ekki lögmáli“ og réttlæti þannig þá hugmynd að kristið fólk þurfi ekki að hlýða leiðbeiningum YHWH sem finnast í Torah, þrátt fyrir þá staðreynd að ritningarnar sýni greinilega fram á annað.

          Ein ástæða þess að fólk á erfitt með þessa yfirlýsingu Yahushua er sú að fólk heldur oft að „uppfylling“ sé það að ljúka einhverju eða leiða það til lykta. Það sem Yahushua átti við, var að hann kom til að „gera fullkomið“ eða „ fylla upp, gefa merkingu“ og sýna hjarta Torah. Í raun voru ritningar Tanak (Gamla testamentisins) ófullkomnar án Messíasar. Því kom hann ekki til að afnema Torah, heldur til að fylla það merkingu. Hann sýndi okkur hvernig það virkilega var að lifa og ganga samkvæmt leiðbeiningum YHWH. Hann varð okkur ljóslifandi dæmi um það – Orðið varð að holdi.

 

Messías og farísearnir

          Farísearnir trúðu því að þeir hefðu vald til að túlka Torah og leiðbeina fólki hvernig það ætti að hlýða Torah. Yahushua kom til að skora á það vald og þetta var hinn undirliggjandi  ágreiningur varðandi flestar, ef ekki allar deilur þeirra. Stundum lesum við um það hvernig Messías gerir eitthvað undarlegt, sem virðist ekki endilega mikið vit í, vegna þess að við skiljum ekki alltaf hvað bjó undir.

          Trúarleiðtogarnir höfðu hulið Torah fyrir flestu fólki og Yahushua kom til að opinbera Torah og afhjúpa faríseana. Í Mattityahu (Matteusi) 23.27-28 lesum við orð Messíasar: „Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér líkist hvítum kölkuðum gröfum, sem sýnast fagrar utan, en innan eru fullar af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra. Þannig eruð þér, sýnist hið ytra réttlátir í augum manna, en eruð hið innra fullir hræsni og ranglætis (lögleysis).

          Orðið lögleysi kemur af gríska orðinu anomias sem þýðir án Torah. Þeir sem áttu að kenna Torah voru því sakaðir um að hafa ekki Torah í sér. Með takanot og ma´asim bættu þeir við og tóku af Torah. Þeir lögðu þungar byrðar á menn sem var algjör andstæða við það sem Torah átti að gera. Torah var gefið leystu fólki sem hafði verið þrælar. Því var ekki ætlað að koma fólkinu aftur í ánauð – það var ætlað frjálsu fólki. Þess vegna sagði Yahushua að hans ok – sem er Torah – væri létt og auðvelt. (Mattityahu 11.30).

          Fjölskyldan er mikilvægasta eining sem YHWH skapaði og andlegt vald flæðir frá Elóhím í gegnum fjölskyldueininguna. Því miður halda trúarleiðtogar áfram að setja sig á milli manna og YHWH og á milli eiginmanna og eiginkvenna þeirra og barna. Það virðist sem næstum öll trúarkerfi hafi sitt þrepaveldi og valdabyggingu sem setur fjöldann, eða leikmenn, neðst í valdapíramídann. Það er þaðan sem við fáum hugtakið „Nikólaítar.“ Tvö grísk orð „nico“ og „laos“ eru sett saman til að mynda orðið „nikólaíti.“ Nico þýðir „að sigrast á eða binda“ og Laos þýðir „almenningur.“ Þessi hugmynd um að sigrast á eða að ríkja yfir almenningi er það sem Yahushua kallaði kenningu Nikólaítanna og sagðist hata. (Opinberunarbókin 2.6 og 2.15).

 

Messías kennir Torah

          Yahushua fór ekki í neinar grafgötur með það að hann og Móse væru á sama máli. Hann sagði: „Ef þér tryðuð Móse, munduð þér líka trúa mér, því um mig hefur hann ritað.  Fyrst þér trúið ekki því, sem hann skrifaði, hvernig getið þér þá trúað orðum mínum? Yahanan (Jóhannes) 5.46-47.

          Sumir trúa því að Yahushua hafi breytt boðorðunum eða fækkað þeim í tvö. Þeir nota eftirfarandi ritningarvers til að styðja þá kenningu. „Þegar farísear heyrðu, að hann hafði gjört saddúkea orðlausa, komu þeir saman. Og einn þeirra, sem var lögvitringur, vildi freista hans og spurði: Meistari, hvert er hið æðsta boðorð í Torah? Hann svaraði honum: Elska skalt þú YHWH, Elóhím þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er þessu líkt: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“ Mattithyahu (Matteus) 22.34-40.

          Það sem flest kristið fólk áttar sig ekki á er að þetta er hreint Torah, kennt af Orðinu sem varð hold. Þar sem kristið fólk trúir því ekki endilega að Torah eigi við um það, fer sú staðreynd oft framhjá því að Yahushua vitnaði í „Shema“ sem er án efa mikilvægasta bæn og Ritning Ísraelslýðs.Heyr Ísrael! YHWH er vor Elóhím; YHWH er einn! Þú skalt elska YHWH Elóhím þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni og af öllum mætti þínum.“ Devarim (5. Mósebók) 6.4-5.

          Hann sagði ekki að þetta væru einu boðorðin og að hann væri að afnema hin – hann einfaldlega opinberaði að kærleikur væri hjartarót Torah og hann sýndi okkur forgang kærleika okkar og sambanda.

          Yahushua opinberaði hvernig farísearnir rugluðu ýmsu með því að leggja hefðir þeirra og venjur á fólk, sem urðu að byrði fremur en gleði. Þeir reyndu að ná fram réttlæti í gegnum mannasetningar, hefðir og lög, og misstu með því sjónar á hinu sanna Torah. Yahushua var að greina á milli hefða og laga faríseanna (takanot og ma´asim) og hinna ómenguðu leiðbeininga YHWH sem er að finna í Torah.

          Torah hefur m.a. verið lýst sem vegi, sannleika (trúfesti), ljósi og lífi (Sálm. 119.142, Orðskv. 6.23, Sálm. 119.92). Það er engin tilviljun að Yahushua notar þessi sömu orð um sjálfan sig þar sem hann var Torah í holdi klætt.

 

Lærisveinarnir og Torah 

          Yahushua hélt Torah ætíð í heiðri og það gerðu lærisveinar hans einnig. Ef einhver í sögu mannsins hefur skilið kennslu Yahushua varðandi Torah, vænti ég þess að það hefðu verið hinir upphaflegu talmidim (lærisveinar) sem fylgdu Yahushua, fylgdust með því hvernig hann lifði lífinu og hlustuðu á kennslu hans. Þessir talmidim héldu áfram að virða Torah eftir dauða hans og upprisu.

          Greinilegt dæmi varðandi hvíldardagshlýðni hinna fyrstu trúuðu má sjá í Lúkasarguðspjalli 23.56: „Þær sneru aftur og bjuggu ilmjurtir og smyrsl. Hvíldardaginn héldu þær kyrru fyrir samkvæmt boðorðinu.“

          Þetta voru fylgjendur Yahushua sem heyrðu kennslu hans og fylgdu vegum hans. Ef þær héldu hvíldardaginn jafnvel eftir dauða hans, þrátt fyrir ákafa löngun til að komast að gröfinni, hafa þær greinilega skilið að hvíldardagsboðið var enn í gildi.

          Í Torah segir skýrt: „Varðveitið (shamar) kostgæfilega skipanir YHWH Elóhíms yðar og fyrirmæli hans og lög, þau er hann hefir fyrir þig lagt. Þú skalt gjöra það, sem rétt er og gott í augum YHWH, svo að þér vegni vel og þú komist inn í og fáir til eignar landið góða, sem YHWH sór feðrum þínum, með því að hann stökkvir burt öllum óvinum þínum undan þér, eins og YHWH hefir heitið.“ Devarim (5. Mós.) 17-19.

          Það er ekkert rangt við það að varðveita boðorðin kostgæfilega, reyndar er ætlast til þess. Vandamálið er þegar fólk byrjar að bæta við Torah og taka af Torah með því að gera sín eigin lög og leggja síðan þær mannasetningar á aðra.

          Það er ekkert rangt við bókstafshlýðni svo framarlega sem það þýðir að boðorða YHWH sé ötullega gætt, en ekki mannasetninga.

 

Shaul og Torah

          Þar sem við höfum staðfest að Yahushua breytti ekki Torah, þá hlýtur Shaul (Páll) að hafa verið falsspámaður ef þú heldur að Shaul hafi breytt Torah. Ef þú trúir því að Shaul hafi haft vald til að breyta Torah þegar Messías gerði það ekki sjálfur, þarftu að velja, eins og hinn Yahushua (Jósúa) sagði: „Óttist því YHWH og þjónið honum einlæglega og dyggilega, og kastið burt guðum þeim, er feður yðar þjónuðu fyrir handan Fljótið og í Egyptalandi, og þjónið YHWH. En líki yður ekki að þjóna YHWH, kjósið þá í dag, hverjum þér viljið þjóna, hvort heldur guðum þeim, er feður yðar þjónuðu, þeir er bjuggu fyrir handan Fljótið, eða guðum Amoríta, hverra land þér nú byggið. En ég og mínir ættmenn munum þjóna YHWH.“ Yahushua (Jósúa) 24.14-15.

          Ef þú ákveður að virða ekki Torah vegna einhvers sem þú lest eftir Shaul – hefurðu tekið þína ákvörðun um að fylgja túlkun manns, ekki Torah frá YHWH.

          Ég [höfundur bókarinnar] trúi því ekki að Shaul hafi verið falsspámaður vegna þess að ég skil kennslu hans í réttu samengi og sé ekki mótsagnir í hans ritum og Torah. Því miður hafa margar falskenningar orðið til innan kristindómsins í tímans rás vegna rangtúlkana á ritum Shauls.

          Það er vert að endurtaka það sem Shaul ritaði þegar hann lýsti sjálfum sér og sagðist vera: „Hebrei af Hebreum, farísei í afstöðunni til lögmálsins... Ef litið er á réttlætið, sem fæst með lögmálinu ... vammlaus.“ Filippíbréfið 3.5-6.

          Hann sagði líka: „Sérhver ritning er innblásin af Elóhím og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Elóhím, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.“ 2. Tímóteusarbréf 3.16-17. Einu ritningarnar sem hann getur hafa verið að tala um voru Torah, spámennirnir og ritin (Tanak), það var ekkert Nýja testamenti til.   

Með öðrum orðum, hann var vel þjálfaður, íhaldssamur Hebrei af faríseum kominn, virti Torah og skammaðist sín ekki fyrir þær upplýsingar. Ekkert í lífi hans, þjónustu, yfirlýsingum eða kennslu breytti þeirri staðreynd. Hann elskaði Messías og lifði og kenndi Torah Messíasar síns.

 

Shaul og kennsla hans

          Messías kom ekki til að stofna ný trúarbrögð, hann kom til að leiðrétta fólk sitt og hafa milligöngu um hinn endurnýjaða sáttmála. Eins hafði Shaul engan ásetning um að stofna ný trúarbrögð.

          Hann snerist ekki til kristinnar trúar á veginum til Damaskus eins og margir kenna, heldur mætti hann Messíasi og á meðan hann var „blindaður af ljósinu“ opnuðust augu hans varðandi þá staðreynd að Yahushua var Messías.

          Eftir þessa reynslu skildi hann að Torah var ætlað að leiða menn til Messíasar - sem hafði komið til að endurreisa ríkið og þurfti því meðal annars að safna aftur saman týndum sauðum af húsi Ísraels, sem höfðu dreifst meðal heiðingjanna. Því var maður sem þekkti Torah betur en nokkur annar sendur til að opinbera Messías fyrir heiðingjunum, fólki sem hafði litla eða enga þekkingu á Torah.

          Flest skrif hans mætti auðveldlega flokka sem útlistun á Torah. Rit hans voru ekki talin til ritninganna þegar hann skrifaði þau og það voru engin guðspjöll á þeim tíma til að vísa í. Einu ritningarnar sem voru til, var að finna í Tanak (Gamla testamentinu).

          Bréf Sauls eru oft notuð til að styðja þá röksemd að búið sé að afnema Torah eða að Torah eigi ekki við um kristið fólk og Sahul eru eignuð mörg ummæli sem fólk hefur eftir eins og páfagaukar til að reyna að réttlæta höfnun á Torah. Eitt helsta mótsvarið sem kristnir nota þegar þeir standa frammi fyrir spurningunni um Torah, er: „Torah var neglt á krossinn.“

          Þegar við skoðum grískuna, sjáum við að Shaul var að tala um fyrirgefningu synda okkar með því að negla þær á tréð.

          Á dögum Yahushua, þegar afbrotamenn voru teknir af lífi á staur, var algengt að negla á staurinn lista yfir glæpi þeirra, eins og var gert við Yahushua (sjá Mattithyahu 27.37).

          Sú hugmynd að Shaul hafi verið að vísa til Torah á sér engan grundvöll í ritningunum. Aftur á móti er sú þýðing að syndir okkar hafi verið afmáðar og negldar á staurinn í fullu samræmi við ritningarnar og menningu á tíma Yahushua.

          Þetta er sama hugtak og Davíð var að vísa til þegar hann bað: „Byrg auglit þitt fyrir syndum mínum og afmá allar misgjörðir mínar.“ Tehillim (Sálm.) 51.11. Þetta er líka nákvæmlega það sem spámaðurinn Yirmeyahu (Jeremía) vísaði til þegar hann bað til hins Almáttuga varðandi ákærendur hans. „En þú, YHWH, þekkir öll fjörráð þeirra gegn mér. Fyrirgef eigi misgjörð þeirra og afmá ekki synd þeirra fyrir augliti þínu.“ Við þörfnumst þess að syndir okkar séu afmáðar svo að við megum lifa. Það var ekki Torah sem var neglt á staurinn heldur listi brota okkar á Torah, sem kröfðust refsingar.

          Ef þú kemst framhjá „neglt á krossinn“ umræðunni við kristinn einstakling sem fylgir ekki Torah, mætir þér sjálfsagt röksemdin um að við séum ekki lengur „undir lögmálinu.“ Í Rómverjabréfinu 6.14-15 segir: Synd skal ekki drottna yfir yður, því að ekki eruð þér undir lögmáli, heldur undir náð. Hvað þá? Eigum vér að syndga, af því að vér erum ekki undir lögmáli, heldur undir náð? Fjarri fer því.“

          Sumir túlka þetta ritningar vers þannig að við séum ekki undir Torah, heldur aðeins undir náð. Ef það væri satt kæmi það aldeilis gegn öllu í Tanak (GT) ásamt kennslu Messíasar og lærisveina hans. Það sem Shaul segir hér er í raun afar einfalt. Þar sem skilgreiningin á synd er brot á Torah, getur það að vera undir Torah alls ekki verið það sama og að vera hlýðinn við Torah.

          Ef þú ert trúaður einstaklingur sem hefur orðið hólpinn fyrir náð, ertu hulinn hinu friðþægjandi blóði Messíasar og syndir þínar hafa verið afmáðar. Þá lýtur þú ekki refsingu fyrir að brjóta Torah. Þegar Shaul vísar til þess að vera „undir Torah“ er hann að tala um að vera í ástandi þar sem þú þarft að lúta refsingum Torah.

„Eigum vér að syndga, af því að vér erum ekki undir lögmáli, heldur undir náð? Fjarri fer því.“ Rómverjabréfið 6.15 „Gjörum vér þá lögmálið að engu með trúnni? Fjarri fer því. Vér staðfestum lögmálið.“ Rómverjabréfið 3.31.

          Þegar þú lest rit Shaul í réttu samhengi sérðu að hann styður Torah og hlýðni við það.

 

Jerúsalemráðið

          Þegar einstaklingur meðtekur fyrirgefningu frá YHWH er nauðsynlegt að hann læri og haldi Torah – sem hlýðið barn – svo að hann haldi ekki áfram í lögleysi og fótum troði blóð Messíasar eins og varað er gegn í Hebreabréfinu. Þetta var augljóst hinum trúuðu á fyrstu öld, vegna þess að þeir voru Ísraelítar sem hlýddu Torah og voru „vandlátir um Torah“ (Post. 21.20). Það var aldrei spurning hvort þeir ættu að virða Torah, þeir einfaldlega gerðu það vegna þess að þeir vissu að það var hið rétta og það stangaðist aldrei á við trú þeirra á Messías.

          Fylgni við Torah varð ekki að deiluefni fyrr en heiðingjar fóru að trúa á Messías. Þeir urðu hólpnir fyrir trú og meðtóku fyrirheit andans, þótt sumir fengju þær röngu leiðbeiningar að þeir yrðu líka að umskerast til þess að frelsast. (Nánar fjallað um þetta í bókinni The Law and Grace eftir Todd Bennett).

          Sú almenna trú að Torah hafi aðeins átt við um innfædda Ísraelsmenn er alveg röng. Hver sem vildi dvelja með Ísrael og ganga með YHWH átti að hlíta reglum ríkisins, sem var að finna í Torah. Þeir voru undir sömu hagsbótum og refsingum – sömu blessunum og bölvunum – og áttu við um Ísraelsmenn vegna þess að þeir voru orðnir hluti af Ísrael.

          Í Postulasögunni 15.6-11 talar Kepha (Kefas/Pétur) til ráðsins í Jerúsalem og segir: „Bræður, þér vitið, að Elóhím kaus sér það fyrir löngu yðar á meðal, að heiðingjarnir skyldu fyrir munn minn heyra orð fagnaðarerindisins og taka trú. Og Elóhím, sem hjörtun þekkir, bar þeim vitni, er hann gaf þeim heilagan anda eins og oss. Engan mun gjörði hann á oss og þeim, er hann hreinsaði hjörtu þeirra með trúnni. Hví freistið þér nú Guðs með því að leggja ok á háls lærisveinanna, er hvorki feður vorir né vér megnuðum að bera? Vér trúum þó því, að vér verðum hólpnir fyrir náð Drottins Jesú á sama hátt og þeir.“

          Hvaða ok var Kefas að tala um? Það var ekki Torah, heldur aragrúi af reglum, reglugerðum og hefðum sem trúarleiðtogarnir höfðu öldum saman lagt á Ísraelsmenn og þá sem snerust til þeirra trúar – þetta sama ok og Messías var að vísa til þegar hann talaði til þeirra sem erfiði höfðu og báru þungar byrðar.

          Torah er fyrir frjálst fólk og er ekki ætlað að hneppa það í þrældóm. Flest ritningarvers sem vísa til oks, vísa til þrældóms eða ánauðar sem menn hafa leitt yfir aðra.

          YHWH vísar aldrei til leiðbeininga sinna sem oks og alls ekki sem byrða. Þær eiga að leiðbeina okkur um veginn sem við ættum að ganga.

          Shaul staðfestir þetta einnig í bréfi sínu til Galatamanna: Til frelsis frelsaði Kristur oss. Standið því stöðugir og látið ekki aftur leggja á yður ánauðarok.“ Galatabréfið 5.1. Ánauðarokið sem Shaul vísar til er ekki Torah, hann er að tala um kennslu umskurnarinnar sem forsendu hjálpræðis, kennslu sem leiðir til kenningar um réttlætingu vegna verka.

          Það er mikilvægt að átta sig á því að Torah var aldrei ætlað að vera byrði og það var Yahushua sem talaði um að gefa „ljúft ok og létta byrði.“  Þetta var staðfest í messíönsku ritningunum þegar Yahushua sagði: Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ Mattithyahu 11.28-30.

          Hann sagði líka: „Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ Yahanan 8.31-32.

          Torah er orð hans og Torah er sannleikur. (Sálm. 119.142; Yahanan 17.17). Þess vegna mun Torah gera ykkur frjáls. Ya´akov lýsir Torah sem „fullkomnu Torah frelsisins.“ Ya´akov (Jakobsbréfið) 1.25.

          Mosheh sagði að það væri ekki of erfitt að halda Torah. Þetta boðorð, sem ég legg fyrir þig í dag, er þér eigi um megn, og það er eigi fjarlægt þér.“ Devarim (5. Mós.) 30.11.

          Yahanan (Jóhannes) staðfestir að Torah sé ekki byrði þegar hann segir: Því að í þessu birtist elskan til Elóhíms, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung.“ 1 Yahanan 5.3.

          Yahushua hélt áfram tilgangi og áætlun YHWH, en í stað þess að leysa Ísrael undan líkamlegri ánauð, eins og þeir væntu, leysti hann þá undan andlegri ánauð. Hlýðni við Torah taldist aldrei nokkurn tíma vera ánauð – það eru alltaf menn sem settu aðra menn í ánauð – aldrei YHWH. Okkar Elóhím þráir að við veljum sjálf að verða þjónar hans, hann tekur fólk aldrei gegn vilja þess. Þess vegna er ekki viðeigandi að tala um Torah hans sem byrði eða ok sem hneppi fólk í ánauð.

          Þú verður að vera frjáls til að hlýða Torah og ef þú getur ekki hlýtt Torah ertu sjálfsagt ekki frjáls.

          Spurningin er: Ertu frjáls til að hlýða? Ef þú hlýðir ekki Torah ertu í ástandi lögleysis – sem er synd. Ef þú lifir í synd, þá ertu ekki frjáls, heldur þræll syndarinnar.

          Misbrestur í því að skilja Torah og tilgang þess hefur valdið miklum ruglingi í kristindómnum.

          Torah var gefið af YHWH til Yisra´el og alls mannkyns til að leiða það leið réttlætisins. Það á að kenna öllu mannkyninu hvernig YHWH vill að við lifum. Það setur þeim sem fylgja YHWH ákveðin mörk sem eru gerð þeim til verndar og varðveislu – það leiðir til lífs.

          Nú skulum við líta á niðurstöðu ráðsins í Jerúsalem varðandi heiðingjana sem tóku trú: Ég lít því svo á, að eigi skuli íþyngja heiðingjum þeim, er snúa sér til Elóhíms, heldur rita þeim, að þeir haldi sér frá öllu, sem flekkað er af skurðgoðum, frá saurlifnaði, frá kjöti af köfnuðum dýrum og frá blóði. Frá fornu fari hafa menn prédikað Móse í öllum borgum. Hann er lesinn upp í samkundunum hvern hvíldardag.“ Post. 15.19-21.

          Niðurstaðan var sú að láta heiðingjana fá fjögur atriði strax í upphafi sem þeir áttu að hlýða þegar þeir komust til sannleikans. Öldungarnir í Yahrushalayim (Jerúsalem) ætluðu þessu að vera upphafspunktur fyrir nýja í trúnni, sem myndu síðan læra annað smátt og smátt þegar þeir heyrðu Móse prédikaðan og lesinn upp í samkundunum hvern hvíldardag, en hin kristna „kirkja“ hefur tekið þennan ritningarstað og snúið þessu upp í þann skilning að aðeins fjögur boðorð eigi við um heiðna sem taki trú.

          Þessi fjögur boðorð finnast öll í Torah og voru ekki ný boðorð sem öldungarnir rituðu.

          Trúuðu Hebrearnir höfðu þekkt í Torah allt sitt líf. Heiðingjarnir komu, aftur á móti, úr heiðnum menningum og réttlátur lífsmáti í samræmi við Torah var þeim framandi.

          Þeir gátu ekki samlagast á einni nóttu þannig að Ya´akov lét þá fá mikilvæg grundvallaratriði til að byrja með. Þetta var gert með þeim skilningi að Móse væri prédikaður í öllum borgum og lesinn í samkundunum hvern hvíldardag. Með öðrum orðum: Komið þeim í samfélag trúaðra, fáið þeim nauðsynleg grundvallaratriði og beinið þeim í samkunduna hvern hvíldardag – ekki sunnudag – þar sem Torah er lesið og kennt, svo þeir geti lært og vaxið í trúnni.

          Hefð er fyrir því að í samkundunum sé Torah lesið í ákveðinni tímaröð á hverju ári. Torah er skipt í ákveðna hluta sem eru lesnir í gegn á heilu ári. Þegar því er lokið, er Torah bókrollunni rúllað aftur til baka og byrjað er upp á nýtt. Ekki voru neinar bundnar „Biblíur“ til og fáir áttu Torah bókrollur, þannig að samkunduhúsið var yfirleitt eini staðurinn þar sem fólk gat heyrt, lesið og rannsakað Torah. Ætlunin var sú að heiðnir sem höfðu tekið trú myndu heyra, lesa og rannsaka Torah til að byggja upp þekkingu og auka hlýðni sína en ætlunin var alls ekki sú að takmarka heiðingjana við aðeins fjögur boðorð.

          Bréfið til heiðingjanna sem höfðu tekið trú sagði þeim því að halda að minnsta kosti fjögur atriði Torah strax. Gert var ráð fyrir að þeir færu í samkundurnar á hvíldardögum (sem þýðir að þeir hlýddu líka boðorðunum varðandi hvíldardaginn) og þar myndu þeir læra það sem uppá vantaði í Torah. Hvers vegna væri þeim sagt að fara í samkundurnar og læra Móse (Torah) ef þeim hefði ekki verið ætlað að hlýða? Svarið er augljóst: Hinir heiðnu sem höfðu tekið trú áttu að læra og hlýða Torah eins og hinir hebresku, vegna þess að þeir voru allir hluti af Ísraelsríki og undir sama Torah.

          Boðorðin tíu hafa vissulega átt að vera í heiðri höfð og hvað hlýðni við Torah varðaði þá var enginn munur á hebreum sem trúðu og heiðnum sem höfðu tekið trú. Hinir heiðnu áttu bara margt ólært ennþá.

 

Torah og sáttmálarnir

          Ein helsta ástæða þess að kristindómurinn hefur vikið frá Torah er vegna grundvallarmisskilnings varðandi sáttmálana. Sú kenning að kirkjan hafi komið í stað Ísraels og að náð hafi komið í stað Torah á sér enga stoð í ritningunum og er einfaldlega leið fyrir menn til að útskýra breytingarnar sem hafa átt sér stað í kristindómnum síðustu tvö þúsund ár.

          Þetta er mjög hættuleg kenning sem hefur gegnsýrt stóran hluta kristindóm nútímans. Þessi kenning afbakar algjörlega áætlun skaparans um alheiminn eins og lýst er í ritningunum og sýnt í gegnum sáttmála hans. Hún réttlætir lögleysi með því að tala fyrir því að Torah hafi verið afnumið og segja að Torah hafi aðeins verið fyrir „gyðinga.“ Þetta kemur kristindómnum í bobba vegna þess að Messías – sem er Orðið í holdi – hlýddi boðorðunum og leiðbeindi þeim sem elskuðu hann um að hlýða boðorðum hans – sem eru ekki bara það að elska hvert annað, eins og er svo oft kennt (Yahanan (Jóhannes) 14.) Við höfum þegar séð að hann tók það sérstaklega fram að hann kom ekki til að afnema Torah (Mattityahu 5.17) eða breyta því á nokkurn hátt.

          Að mestu leyti kennir kristindómurinn það að fyrir fyrstu komu Messíasar hafi maðurinn verið undir lögmálinu og þegar Yahushua hafi „uppfyllt“ lögmálið hafi það verið afnumið og tími náðarinnar gengið í garð.

          Málsvarar þessarar kenningar segja í raun að Ísrael hafi verið undir lögmálinu en að kirkjan undir náð. Þetta er kjarni staðgengilsguðfræðinnar, að kirkjan hafi komið í stað Ísraels.

         Með því að fjalla um Torah og náð sem andstæður er verið að gera lítið úr gildi Torah og gera það að einhverju tímabundnu og úreltu sem er þýðingarminna en náð. Þessi kennsla skapar mjög hættulega og ruglingslega sýn fyrir kristna vegna þess að það setur þá á vissan hátt í beina mótstöðu við áætlun, vilja og Orð YHWH. Torah og náð er ætlað að starfa saman í lífi allra trúaðra. Einstaklingur verður hólpinn fyrir náð en þarf að lifa lífinu í samræmi við kennsluna og leiðbeiningarnar sem eru í Torah.

         Kristindómurinn vísar oft í nýja sáttmálann þegar hann nefnir náðina og þetta tvennt er greinilega tengt. Vandinn er sá að fæst kristið fólk veit hvað nýi sáttmálinn er eða hvar hann er að finna í ritningunum. Það er ómögulegt að skilja hinn svokallaða „nýja“ sáttmála án þess að skilja „gamla“ sáttmálann.

         Við lesum í ritningunum að YHWH gerði sáttmála við Avram sem síðar fékk nýja nafnið Avraham.

         YHWH sagði Avram að öll jörðin myndi blessun hljóta í gegnum hann, en fyrst myndu afkomendur hans lenda í ánauð. Við sáum það rætast þegar Ísraelsmenn voru í ánauð í Mitsrayim (Egyptalandi) og síðar leystir í gegnum Moseh.

         Eftir að Ísraelsmenn, ásamt miklum fjölda af alls konar lýð, fóru frá Mitsrayim var þeim gefið tækifæri til að ganga í brúðkaupssáttmála við YHWH. Lýðurinn yrði brúðurin og hann eiginmaðurinn.

         Sáttmálinn sem var gerður, brotinn og endurnýjaður á Sínaífjalli var síðar endurnýjaður á Hórebfjalli áður en Yahushua (Jósúa) leiddi Ísrael inn í fyrirheitna landið. Þér standið í dag allir frammi fyrir YHWH, Elóhím yðar: höfuðsmenn yðar, ættkvíslir yðar, öldungar yðar, tilsjónarmenn yðar, allir karlmenn í Ísrael, börn yðar og konur og útlendingar þínir, sem eru í herbúðum þínum, bæði viðarhöggsmenn og vatnsberar þínir, til þess að gangast undir sáttmála YHWH, Elóhíms þíns, og í eiðfest samfélag við hann, er YHWH Elóhím þinn gjörir við þig í dag, til þess að hann gjöri þig í dag að sínum lýð og hann sé þinn Elóhím, eins og hann hefir heitið þér og eins og hann hefir svarið feðrum þínum, Avraham, Yitshaq og Ya´akov. En ég gjöri ekki þennan sáttmála og þetta eiðfesta samfélag við yður eina, heldur bæði við þá, sem standa hér með oss í dag frammi fyrir YHWH Elóhím vorum, og einnig við þá, sem ekki eru hér með oss í dag.“ Devarim (5. Mós.) 29.10-15.

         Rétt eins og Sínaísáttmálinn tók með allan fjöldann sem var með Ísrael, tók endurnýjaði sáttmálinn á Hórebfjalli einnig til útlendinganna sem dvöldu með Ísrael. Hann var einnig gerður við þá sem stóðu þarna þann dag sem og þá sem voru ekki með þeim þann dag.

         Ísraelshús drýgði hór og fékk skilnaðarbréf YHWH. Þar af leiðandi dreifðust ættkvíslirnar um alla jörð og glötuðu einkenni sínu, þótt því væri spáð að einn daginn myndi þeim verða safnað saman og þær endurreistar (Hósea 1.1-11).

         Til þess að endurreisnin geti átt sér stað verður Ísrael að safnast aftur saman og endurreisa verður samfélagið með því að endurnýja sáttmálann – hjúskaparheitin. Þess vegna skipaði Yahushua lærisveinum sínum að „fara til týndra sauða af Ísraelsætt.“ (Matt. 15.24). Tilgangur hans var skýr og í samræmi við fyrirheit um endurnýjaðan sáttmála – ekki nýjan sáttmála.

         Fyrirheitið um endurnýjaðan sáttmála og endurreisn var gefið í gegnum Yirmeyahu (Jeremía) spámann: „Sjá, þeir dagar munu koma segir YHWH að ég mun gjöra nýjan sáttmála við Ísraels hús og Júda hús, ekki eins og þann sáttmála, er ég gjörði við feður þeirra, þá er ég tók í hönd þeirra til þess að leiða þá út af Egyptalandi, sáttmálann sem þeir hafa rofið, þótt ég væri herra þeirra segir YHWH. En í þessu skal sáttmálinn fólginn vera, sá er ég gjöri við Ísraels hús eftir þetta segir YHWH: Ég legg Torah mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra, og ég skal vera þeirra Elóhím og þeir skulu vera mín þjóð. Og þeir skulu ekki framar kenna hver öðrum, né einn bróðirinn öðrum, og segja: Lærið að þekkja YHWH, því að þeir munu allir þekkja mig, bæði smáir og stórir segir YHWH. Því að ég mun fyrirgefa misgjörð þeirra og ekki framar minnast syndar þeirra.“ Yirmeyahu 31.31-34.

         Kjarni hins endurnýjaða sáttmála er sá að Torah er í huga okkar og ritað á hjarta okkar, en ekki aðeins orð á bókrollum eða steini.

         „Seg því við Ísraelsmenn: Svo segir Adonaí YHWH: Eigi er það yðar vegna, Ísraelsmenn, að ég læt til mín taka, heldur vegna míns heilaga nafns, sem þér hafið vanhelgað meðal þjóðanna, hvar sem þér komuð. Og ég mun helga mitt hið mikla nafn, sem vanhelgað var meðal þjóðanna, það er þér vanhelguðuð meðal þeirra, til þess að þjóðirnar viðurkenni, að ég er YHWH, segir Adonaí YHWH þá er ég auglýsi heilagleik minn á yður í augsýn þeirra. Ég mun sækja yður til þjóðanna og saman safna yður úr öllum löndum og flytja yður inn í yðar land. Ég mun stökkva hreinu vatni á yður, svo að þér verðið hreinir, ég mun hreinsa yður af öllum óhreinindum yðar og skurðgoðum. Og ég mun gefa yður nýtt hjarta og leggja yður nýjan anda í brjóst, og ég mun taka steinhjartað úr líkama yðar og gefa yður hjarta af holdi. Og ég mun leggja yður anda minn í brjóst og koma því til vegar, að þér hlýðið boðorðum mínum og varðveitið setninga mína og breytið eftir þeim.“ Yehezeqel (Esekíel) 36.22-28.

          Þetta er það sem Yahushua vann að þegar hann var á jörðu. Hann þráir að við höfum Torah hans í hjarta og huga og hlýðum vegna elsku og þrá til að þekkja hann. Þegar við bjóðum Yahushua „inn í hjarta okkar“ og meðtökum hjálpræði fyrir trú – erum við að biðja hið Lifandi Orð YHWH, lifandi Torah að umskera hjarta okkar. Þegar við erum dýfð í vatn (skírð) hreinsum við okkur og biðjum YHWH að leggja anda sinn í okkur. Í gegnum þetta ferli skráir hann Torah á hjarta okkar og huga svo að við megum hafa endurnýjað hjarta til að hlýða honum og byrja að lifa réttlátu, fráteknu lífi. Þetta er endurnýjaði sáttmálinn og hann snýst algjörlega um Torah.

          Endurnýjaði sáttmálinn er gerður á milli YHWH og húss Ísraels og húss Júda. Endurnýjaði sáttmálinn er ekki gerður við nýja og aðgreinda hreyfingu sem kallast „kristin kirkja“ eða „líkami krists.“ Sáttmálinn er endurnýjaður við sömu aðila og áttu hlut að fyrri sáttmálanum – Ísrael. Rétt eins og Ísrael samanstóð af fjölda alls konar fólks eftir brottförina frá Mitsrayim, samanstendur Ísrael í dag af fráteknum lýð, blönduðum fjölda fólks sem er ekki endilega beinir afkomendur Avrahams, Yitshaqs og Ya´akovs – þótt margir séu það örugglega.

          Messías mun safna saman sauðum sínum: „Sjá, fyrir því munu þeir dagar koma segir YHWH að ekki mun framar sagt verða: Svo sannarlega sem YHWH lifir, sá er leiddi Ísraelsmenn út af Egyptalandi, heldur: Svo sannarlega sem YHWH lifir, sá er leiddi Ísraelsmenn út úr landinu norður frá og úr öllum þeim löndum, þangað sem hann hafði rekið þá. Og ég mun flytja þá aftur til lands þeirra, sem ég gaf feðrum þeirra. Sjá, ég mun senda út marga fiskimenn segir YHWH og þeir munu fiska þá, og eftir það mun ég senda marga veiðimenn, og þeir munu veiða þá á hverju fjalli, á hverri hæð og í bergskorunum.“ Yirmeyahu (Jeremía) 16.14-16.

          Þess vegna kallaði Yahushua lærisveina sína „mannaveiðara.“ (Matt.4.19; Mark. 1.17). Þetta er nákvæmlega það sem hann kom til að gera en kristindómurinn hefur ekki náð að skilja og kenna heildarmyndina og hefur hulið verk Messíasar. Þeir hafa einblínt svo mikið á að Jesús sé „persónulegur frelsari“ og að „byggja kirkju hans“ að þeir hafa misst af grundvallartilgangi þjónustu hans, sem felur í sér það að safna saman hinum útskúfuðu og endurreisn Ísraels – bæði í gegnum fyrstu og seinni komu hans.

          Sú hugmynd að kirkjan hafi komið í stað Ísraels er byggir á skilningsleysi á sáttmálunum. Ekkert getur komið í stað Ísraels, en þú verður að skilja að Ísrael samanstendur af þeim sem hafa umskorið hjarta, ekki aðeins erfðafræðilegum afkomendum ættkvíslanna tólf. Ef þú ert hluti af fjölskyldu Elóhíms verðurðu að taka til þín sáttmálann og sameinast Ísrael – olíuviðnum.

          Þetta er það sem Shaul átti við með því að vera „ágræddur“ við Ísrael (11. kafli Rómverjabréfsins).

          Þegar Shaul sagði að allur Ísrael myndi frelsaður verða (Róm. 11.26) var hann ekki að alhæfa að allir „gyðingar“ eða allir erfðafræðilegir afkomendur ættkvíslanna tólf myndu frelsast á undraverðan hátt einhvern tíma í framtíðinni. Hann var fremur að vísa til allra þeirra sem eru niðjar Avrahams (Galatabréfið 3.29), sem deila trú og trúfesti Avrahams – allir sem eru ágræddir á tréð eru Ísrael. Því munu allir, þegar tíminn er réttur, sem tilheyra Ísrael verða hólpnir samkvæmt sáttmálanum (Yeshayahyu 27.9; Yirmeyahu 31.33).

          Í þjónustu Messíasar getum við séð skýrt hvernig hann notar tungumál brúðkaupsins til áherslu á tilgang þjónustu sinnar. Hann sat við síðustu kvöldmáltíðina með tólf fulltrúum ættkvísla Ísrael – tákn um sameinað ríki hans – brúði sinni. Í fornri austrænni menningu var þessi máltíð hefðbundin máltíð brúðar og brúðguma þegar þau samþykktu skilmála brúðkaupsins. Þetta innsiglar samkomulagið (sáttmálann) áður en brúðguminn fer burt til að „undirbúa stað“ fyrir brúði sína. Á meðan brúðguminn er í burtu undirbýr brúðurin sig, hreinsar sig og heldur sér hreinni „án bletts eða hrukku“ og lærir háttu eiginmannsins. Brúðguminn fór að jafnaði og undirbjó stað fyrir sig og brúði sína með því að byggja ofan á hús föður síns og þegar brúðkaupsheimilið var tilbúið sneri brúðguminn aftur „sem þjófur að nóttu“ til að krefjast brúðar sinnar. Þá var haldin veisla og þau innsigluðu sambandið.

          Ísrael er brúðurin sem Yahushua mun snúa aftur til að krefjast – ekki kirkjan – og brúðurin mun samanstanda af öllum þeim sem trúa og eru tilbúnir. Ef þú ert hluti af Ísrael, ertu í sáttmálanum og Torah er óaðskiljanlegur hluti af þeim sáttmála.

          Endurnýjaði sáttmálinn var innsiglaður af Yahushua í því sem er almennt kallað „síðasta kvöldmáltíðin.“ Eins tók hann kaleikinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: Þessi kaleikur er hinn endurnýjaði sáttmáli í mínu blóði, sem fyrir yður er úthellt.“ Lúk. 22.20. Í mörgum nútímaþýðingum segir: „Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli“ sem er röng þýðing. Orðið sem er þýtt sem „nýr“ er kainee sem þýðir: „endurglætt eða endurnýjað.“

          Yahushua var meðalgangari hins endurnýjaða sáttmála, rétt eins og Mosheh var meðalgangari Sínaísáttmálans. Taktu eftir því að það voru engir heiðingjar við síðustu kvöldmáltíðina, aðeins Ísraelsmenn. Það voru ekki allar ættkvíslirnar tólf, en þeir voru samt greinilega fulltrúar þeirra, rétt eins og þegar Nehemía og Esra endurvígðu musterið (Esra 6.17). Því var hinum endurnýjaða sáttmála spáð yfir Ísrael og hann var gerður við Ísrael. Sú hugmynd að YHWH sé á einhvern hátt búinn að ljúka sér af með Ísrael er fjarstæð því ef hann hefur lokið sér af með Ísrael þá er sáttmálunum lokið og engin fyrirheit fyrir okkur varðandi endurlausn.

          Það er ekki hægt að aðskilja Ísrael frá hinum endurnýjaða sáttmála því án Ísraels en enginn endurnýjaður sáttmáli. Shaul sagði skýrt: Ísraelsmenn. Þeir fengu sonarréttinn, dýrðina, sáttmálana, Torah, helgihaldið og fyrirheitin. Þeim tilheyra og feðurnir, og af þeim er Messías kominn sem maður, hann sem er yfir öllu, Elóhím, blessaður um aldir. Amen.“ Rómverjabréfið 9.4-5.

          Heiðingjar ganga aðeins inn í hinn endurnýjaða sáttmála í gegnum Ísrael og ef þér hefur verið kennt annað – hefur þér verið kennd lygi. Ef þú áttar þig á þessum sannleika geturðu séð uppfyllingu spádómsins eiga sér stað í lífi þínu. Spámaðurinn Yirmeyahu sagði þetta, strax eftir að hafa spáð fyrir um fiskimennina og veiðimennina: „...til þín munu þjóðir (heiðingjar) koma frá endimörkum jarðar og segja: Lygar einar hafa feður vorir hlotið að eign, fánýta guði, og enginn þeirra er að neinu gagni. Getur maðurinn gjört sér guði? Slíkt eru engir guðir! Fyrir því vil ég í þetta sinn kenna þeim. Ég vil láta þá kannast við kraft minn og styrkleika, og þeir skulu viðurkenna, að nafn mitt er YHWH.“ Yirmeyahu 16.19-21.

Spámaðurinn Yeshayahu sagði þetta varðandi hjálpræði heiðingjanna:

          „Svo segir YHWH: Varðveitið réttinn og gjörið það, sem rétt er, því að hjálpræði mitt er í nánd og réttlæti mitt birtist bráðlega. Sæll er sá maður, sem gjörir þetta, og það mannsbarn, sem heldur fast við það, sá sem gætir þess að vanhelga ekki hvíldardaginn og varðveitir hönd sína frá því að gjöra nokkuð illt. Eigi má útlendingurinn, er gengið hefir YHWH á hönd, segja: YHWH mun skilja mig frá lýð sínum! Og eigi má geldingurinn segja: Ég er visið tré! Því að svo segir YHWH: Geldingunum, sem halda hvíldardaga mína og kjósa það, sem mér vel líkar, og halda fast við sáttmála minn, þeim vil ég gefa minningarmark og nafn í húsi mínu og á múrveggjum mínum, sem er betra en synir og dætur. Eilíft nafn vil ég gefa þeim, það er aldrei mun afmáð verða. Og útlendinga, sem gengið hafa YHWH á hönd til þess að þjóna honum og til þess að elska nafn YHWH, til þess að verða þjónar hans alla þá, sem gæta þess að vanhelga ekki hvíldardaginn og halda fast við minn sáttmála, þá mun ég leiða til míns heilaga fjalls og gleðja þá í bænahúsi mínu. Brennifórnir þeirra og sláturfórnir skulu vera mér þóknanlegar á altari mínu. Því að hús mitt skal nefnast bænahús fyrir allar þjóðir. Hinn alvaldi YHWH segir: Þegar ég safna saman hinum burtreknu af Ísrael, mun ég og safna mörgum auk þeirra!“ Yeshayahu 56.1-8.

          Það að varðveita réttinn og gjöra það, sem rétt er vísar sérstaklega til Torah. Heiðingjunum er sagt að „ganga á hönd“ og „halda fast við“ sáttmálann. Þetta gefur þá hugmynd að einhver sé að reyna að taka það frá þeim – sem er nákvæmlega það sem er að gerast í dag. Þegar heiðingjarnir snúa aftur til sannleikans og halda fast við sáttmálann segja kristnir þeim að þeir séu að setja sig „undir lögmálið“ og sumir „gyðingar“ segja þeim að þeir geti ekki hlýtt Torah. Spjótin standa á þeim úr öllum áttum og það er þess vegna sem spámaðurinn færir þeim þessi uppörvandi orð. Sama hvað gerist, láttu engan fá þig til að halda eða trúa því að „YHWH hafi skilið þig frá lýð sínum!“

          Ef þú hefur gengið inn í hinn endurnýjaða sáttmála í gegnum Yahushua – veginn, sannleikann, lífið og ljósið – hefurðu gengið inn í gegnum lifandi Torah og þú tilheyrir Ísraelsríki. Hann gefur þér nafn sem er betra en synir eða dætur og þú átt stað í húsi hans. Torah eru reglur húss hans.

 

Náð

          Enginn er fullkominn og því getur enginn orðið hólpinn án náðar YHWH. Vandinn hefst þegar fólk fer að líta á náðina sem eitthvað nýtt og aðskilið frá Torah. Það trúir því að þetta tvennt sé andstætt og að náðin hafi einhvern veginn unnið baráttuna og komið í stað Torah.

          Ísrael frelsaðist ekki fyrir hlýðni við Torah. Það var talið réttlæti þeirra að hlýða Torah (Devarim 6.25) en þeir voru aldrei réttlættir af verkum sínum.

          Það er í gegnum velvilja hins Almáttuga sem okkur býðst gjöf eilífs lífs. Þessi óverðskuldaði velvilji er vegna þess sem YHWH gerði – það var ekkert sem við gátum gert til að verðskulda það.

          Það er ekkert sem hlýðni við Torah getur gert til að öðlast þá gjöf. Við þörfnumst sömu trúar og Avraham sýndi. Við þurfum að trúa fyrirheitum YHWH – fyrirheitunum sem hann gaf í gegnum sáttmála sinn – og við þurfum að sýna trú okkar í gjörðum okkar. Eins og líkaminn er dauður án anda, eins er og trúin dauð án verka.“ Ya´akov 2.16.

          Náð og Torah vinna saman í fullkomnum samhljómi. Torah sýnir okkur að við þörfnumst velvilja og þegar við öðlumst gjöfina sem er fúslega gefin ættum við eðlilega að ganga veg Torah til tjáningar á kærleika okkar og þakklæti.

          Því miður hefur náðin verið álitin eitthvað sem stendur algjörlega andspænis Torah og það eru alvarleg mistök. Án Torah sem grunns, hefur náðin orðið mörgum sem leyfi til að syndga. Torah veitti rammann sem mannkyninu var ætlað að lifa innan. Orðið garður á hebresku er gan sem vísar til staðar sem er afgirtur. Þegar maðurinn lifði í aldingarðinum, lifði hann innan marka Torah.

          Eftir syndafallið í garðinum og brottrekstur Adams og Evu, þurfum við öll velvild til endurreisnar til rétts samfélags við skapara okkar og náðin er því upphafið af leið okkar til endurreisnar.

          Torah sýnir okkur hvernig við göngum og erum blessuð í gegnum velvild Elóhíms, en marfit missa af þeim blessunum vegna þess að þeir ganga utan varnargerðis garðsins – utan Torah – utan sáttmálans.

 

Blessanir og bölvanir

          Að stórum hluta lýsa ritningarnar þrá YHWH að finna fólk sem vill vera hlýðið hans forsendum og að þeir sem eru í hans húsi virði og hlýði reglum hans. Þeir sem bera nafn hans eru undir leiðbeiningum hans, rétt eins og börn hlýða foreldrum sínum.

          Ritningarnar eru fylltar fyrirheitum um blessanir sem fylgja hlýðni þótt þær segi aldrei að hlýðni leiði til hjálpræðis og Ísraelsmenn urðu aldrei hólpnir fyrir hlýðni við Torah.

          Hlýðni var alltaf tengd fyrirheitum blessana, ekki hjálpræði, þótt hjálpræði sé tengt Torah á þann hátt að sá sem öðlast hjálpræði ætti líka að vera hlýðinn við Torah. Hvernig geturðu sannarlega sýnt trú þegar þú neitar að hlýða leiðbeiningum þess sem frelsaði þig?

          Trú okkar verður að koma frá trú á Elóhím og fyrirheitin sem hann hefur gefið okkur í Orði sínu. Þessi fyrirheit finnast í Torah og spámönnunum. YHWH lofar mörgum blessunum ef við hlýðum og því er hlýðni okkar æfing í trú sem leiðir til þessara blessana.

          Kristnir vilja gjarnan tala um, heyra um, lesa um og krefjast blessananna sem finnast í ritningunum, en átta sig ekki á því að það eru oft skilmálar fyrir því að öðlast blessun. Það sama á við um það að hljóta bölvun.

          „Sjá, ég legg fyrir yður í dag blessun og bölvun: blessunina, ef þér hlýðið skipunum YHWH Elóhíms yðar, sem ég býð yður í dag, en bölvunina, ef þér hlýðið ekki skipunum YHWH Elóhíms yðar og víkið af þeim vegi, sem ég býð yður í dag, til þess að elta aðra guði, sem þér eigi hafið þekkt.“ Devarim 11.26-28.

          Bölvanirnar eru líka útlistaðar í Devarim 28.15-68:

„En ef þú hlýðir ekki raustu YHWH Elóhíms þíns, svo að þú varðveitir og haldir allar skipanir hans og lög, er ég legg fyrir þig í dag, þá munu fram við þig koma og á þér hrína allar þessar bölvanir...“ (15. vers).

„Allar þessar bölvanir munu koma fram á þér, elta þig og á þér hrína, uns þú ert gjöreyddur, af því að þú hlýddir ekki raustu YHWH Elóhíms þíns, að varðveita (shamar) skipanir hans og lög, þau er hann fyrir þig lagði, og þær skulu fylgja þér og niðjum þínum ævinlega sem tákn og undur. Fyrir því að þú þjónaðir ekki YHWH Elóhím þínum með gleði og fúsu geði, af því að þú hafðir allsnægtir...“ (45.-47. vers).

          Margir vilja mótmæla þessu og segja að YHWH hafi verið að tala til Ísrael, ekki kirkjunnar. Þetta er að sjálfsögðu rétt, því það var engin „kirkja“ og það var enginn kristindómur þegar þessi orð voru töluð.

          Í dag er það þannig að ef einstaklingur velur að trúa á Yahushua, hinn hebreska Messías, og fylgja Elóhím Ísraels, er hann ættleiddur inn í þetta frátekna samfélag eða „ágræddur lýður.“

          Hann verður hluti af sáttmálanum sem felur í sér blessanirnar og bölvanirnar.

  

Kristindómur og Torah

          Með svolitlum lestri og bæn gæti hvaða kristni einstaklingur sem er byrjað að fylgja Torah á skömmum tíma. Ég sting upp á því að lesa yfir 15. kafla Postulasögunnar og fylgja leiðbeiningunum þar – byrja á því nauðsynlegasta og lesa svo Torah (Mósebækurnar) í gegn. Byrjaðu að lesa og rannsaka Torah og ganga í sannleika eins og hann á við um kringumstæður þínar.

          „Þér skuluð gæta þess að halda öll þau boðorð, sem ég legg fyrir yður. Þú skalt engu auka við þau né heldur draga nokkuð undan.“ Devarim 12.32.

          Yahushua talaði alltaf fyrir því að hlýða Torah en skammaði trúarleiðtogana fyrir að bæta við Torah og fyrir að vera hræsnarar. Taktu þó eftir því að viðbótin er ekki eina syndin, það er líka synd að draga undan. Trúarleiðtogar á tímum Yahushua syndguðu með því að auka við Torah, hin nútímalega kristna „kirkja“ syndgar með því að draga unda Torah og með því að kenna að það hafi verið afmáð eða eigi ekki lengur við.

          Sumt kristið fólk kallar einstakling lögmálstrúar ef hann reynir að hlýða Torah á meðan það lifir sjálft lífi lögleysis og reynir svo að leggja á aðra eitthvað sem er ekki stutt af Torah en áttar sig ekki á því að það er þeirra eigin lögmálstrú. Það er svona hræsni sem Shaul var að vísa til þegar hann sagði: Allir hlutir eru hreinum hreinir, en flekkuðum og vantrúuðum er ekkert hreint, heldur er bæði hugur þeirra flekkaður og samviska. Þeir segjast þekkja Elóhím, en afneita honum með verkum sínum. Þeir eru viðbjóðslegir og óhlýðnir, óhæfir til hvers góðs verks. Títusarbréfið 1.15-16.

          Flest kristið fólk viðurkennir að það þurfi að hlýða boðorðunum tíu og kristnir hópar hafa háð margar baráttur fyrir dómstólum í Bandaríkjunum til að halda boðorðunum tíu í skólum og dómshúsum. Mér finnst kaldhæðnislegt hversu ákaft þeir vilja berjast fyrir boðorðunum tíu í ramma uppi á vegg og hversu fljótir þeir eru að hunsa fjórða boðorðið sem fjallar um hvíldardaginn.

          Kristindómurinn er alltaf að reyna að aðskilja sig frá því sem hann telur „gyðinglegt.“ Í stað þess að hlýða bara Torah, reynir fólk alltaf að finna ástæður fyrir því að þurfa ekki að hlýða Torah sem YHWH gaf.

          Hugsaðu þér hvernig okkar himneski faðir hlýtur að sjá þetta. Það getur verið mjög erfitt fyrir foreldra þegar barnið hlýðir ekki skýrum fyrirmælum, en það er líka mjög ánægjulegt þegar barnið gerir það sem þú segir því og hlýðir af fúsum vilja og með gleði. Hjartarót Torah er það að við hlýðum – ekki vegna umbunar – heldur út frá kærleika.

          Hjarta okkar ákvarðar hvaða augum við lítum Torah, hvort við sjáum það sem leiðbeiningar sem hjálpa okkur eða sem lögmál sem hneppir okkur í þrældóm. Hlýðinn sonur er sá sem tekur fúslega „leiðbeiningum“ frá föður sínum. Hann skilur að það er honum til góðs og reynir því að læra, hlýða og hafa gagn af leiðbeiningunum. Óhlýðni sonurinn tekur „lögmál“ föður sína og sér það sem byrði – eitthvað sem hann sé neyddur til að hlýða. Hann gerir allt sem hann getur til að finna leiðir til að hlýða ekki og viðhorf hjarta hans leiðir oft til uppreisnar.

 

Lögleysi

          Ef við hlýðum ekki Torah, erum við í synd. Yahanan segir þetta greinilega: Hver sem synd drýgir fremur og brot á Torah. Syndin er lögmálsbrot [lögleysi].“ 1 Yahanan (1. Jóhannesarbréf) 3.4.

          „Og á því vitum vér, að vér þekkjum hann, ef vér höldum boðorð hans. Sá sem segir: Ég þekki hann, og heldur ekki boðorð hans, er lygari og sannleikurinn er ekki í honum. En hver sem varðveitir orð hans, í honum er sannarlega kærleikur til Elóhíms orðinn fullkominn. Af því þekkjum vér, að vér erum í honum. Þeim sem segist vera stöðugur í honum, honum ber sjálfum að breyta eins og hann breytti. Þér elskaðir, það er ekki nýtt boðorð, sem ég rita yður, heldur gamalt boðorð, sem þér hafið haft frá upphafi. Hið gamla boðorð er orðið, sem þér heyrðuð.“ 1 Yahanan 2.3-7.

          Torah og náð eru ekki andstæður, heldur bandamenn í eilífri áætlun YHWH.

  

Trúargangan

          Þegar við skiljum framgang náðar og Torah og þegar við höfum öðlast gjöf fyrirgefningar er mikilvægt að við byrjum að ganga með skapara okkar. Lífið er okkar ganga – þar æfum við göngu okkar á hans vegi. Það er trúargangan sem allir trúaðir menn þurfa að ganga.

          Sem betur fer þurfum við ekki að ganga í myrkri, því okkur hefur verið gefið ljós. Orð hans er lampi fóta okkar og lýsir okkur veginn. (Sálm. 119.105). Torah er vegurinn sem öll börn YHWH þurfa að ganga.

          Ástæðan fyrir því að þetta er kallað „ganga“ er sú að oft krefst það hreyfingar. Þessi trúarganga krefst meira en trúar – hún krefst gjörða. Ef þú virkilega átt trú muntu bæði trúa því sem hann segir og gera það sem hann segir.

          Við hlýðum – ekki til að öðlast hjálpræði því hjálpræðið er gjöf. Við hlýðum vegna þess að við höfum sjálfviljug gefist Messíasi á hönd. Þeir sem fylgja Messíasi hafa samþykkt að verða lærisveinar hans og þá er hlýðni vænst. Markmiðið er að gera það sem hann segir okkur að gera, ekki það sem við ákveðum að við ættum að gera.

          Shaul (Páll) sagði: „Hvað eigum vér þá að segja? Eigum vér að halda áfram í syndinni til þess að náðin aukist? Fjarri fer því. Vér sem dóum syndinni, hvernig ættum vér framar að lifa í henni?“ Róm. 6.1-2. Hann er að segja okkur að við ættum ekki að halda áfram að syndga vegna náðarinnar og ef við eigum ekki að halda áfram að syndga, hlýtur það að þýða að við eigum að lifa í samræmi við leiðbeiningar YHWH sem finnast í Torah.

          Þegar Yahushua sagði við lærisveina sína: „Fylgið mér,“ var hann að bjóða þeim inn á veg lífsins. Hann kallar okkur líka og segir: „Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ Mattityahu 11.29-30. Hann er lifandi Torah og í honum finnum við sanna hvíld og líf, en til þess að sjá þessi fyrirheit rætast í lífi okkar – verðum við að ganga.

  

Í lokin

          Malakí spámaður vísar til tíma í framtíðinni og þar er okkur bent á að minnast Torah. „Því sjá, dagurinn kemur, brennandi sem ofn, og allir hrokafullir og allir þeir er guðleysi fremja, munu þá vera sem hálmleggir, og dagurinn sem kemur mun kveikja í þeim segir YHWH allsherjar svo að hvorki verði eftir af þeim rót né kvistur. En yfir yður, sem óttist nafn mitt, mun réttlætissólin upp renna með græðslu undir vængjum sínum, og þér munuð út koma og leika yður eins og kálfar, sem út er hleypt úr stíu, og þér munuð sundur troða hina óguðlegu, því að þeir munu verða aska undir iljum yðar, á þeim degi er ég hefst handa segir YHWH allsherjar. Munið eftir Torah Móse þjóns míns, þess er ég á Hóreb fól setninga og ákvæði fyrir allan Ísrael. Sjá, ég sendi yður Elía spámann, áður en hinn mikli og ógurlegi dagur YHWH kemur. Hann mun sætta feður við sonu og sonu við feður, til þess að ég komi ekki og ljósti landið banni.“ Malakí 4.1-6

          Það er ekkert boðorð í messíönsku ritningunum sem býður heiðnum mönnum sem tekið hafa trú að hlýða ekki Torah.

          Messíönsku ritningarnar geta ekki breytt Tanak (G.T.) á nokkurn hátt vegna þess að það er Tanak sem staðfestir og styður þessar ritningar.

          Nú ætti eftirfarandi ritningarstaður að vera skýr: „Enda þótt Torah væri gefið í gegnum Mosheh, komu náðin og sannleikurinn í gegnum Yahushua Messías (Jesú Krist).“

 Yahanan (Jóh.) 1.17. Á meðan náðin gefur okkur tækifæri til að eiga líf, sýnir sannleikur Torah okkur hvernig við eigum að lifa því lífi. Þetta er kjarni þjónustu Messíasar – bæði náð og Torah eru andlegir hlutir sem leiða til lífs. Náð YHWH setur okkur inn á veg lífsins og Torah er leiðin sem liggur til lífs. .

          „Sælir eru þeir, sem þvo skikkjur sínar [fylgja boðorðum hans]. Þeir fá aðgang að lífsins tré og mega ganga um hliðin inn í borgina.“ Opinberunarbókin 22.14.

 

 

Birt með leyfi höfundar
Íslensk þýðing: Sigrún Einarsdóttir

 

Law and Grace

Bókin eftir Todd D. Bennett þar sem hann fjallar um
hið heita umræðuefni „lögmál og náð.“
Samantektin hér að ofan er aðeins örlítið brot
úr þessari frábæru bók.
 Hér er hægt að panta bókina: http://www.shemayisrael.net/books.html

 

 

 

 

     
 


Sigrún Einarsdóttir & Ragnar B. Björnsson © 2008
www.torah.is / torah@internet.is