Hanukkah

 

Hanukkah er hátíð sem Gyðingar halda hátíðlega í átta daga frá 25. kíslevmánaðar hvert ár og lendir hún mjög oft á svipuðum tíma og jólin þannig að margir telja bara að þetta séu hin gyðinglegu jól en það er nú ekki svo.

Hanukka þýðir vígsla eða helgun.

Í íslensku Biblíunni hefur Hannukkah verið þýtt sem vígsluhátíðin
(þ.e. musterisvígsluhátíðin) en þessi hátíð er líka kölluð ljósahátíðin.

Á vígsluhátíðinni er minnst hreinsunar og endurreisnar musterisins á 2. öld f.Kr. Sagan segir að kraftaverk hafi átt sér stað við endurvígsluna. Þegar musterið hafði verið hreinsað, hafi ekki fundist nægileg ólífuolía til að tendra ljós á hinni stóru sjö arma ljósastiku sem var í musterinu. Það hafi aðeins verið til olía til eins dags en þá hafi gerst kraftaverk. Olían dugði í átta daga, jafn marga daga og það tók að útvega meiri olíu.

Á hverju kvöldi hátíðarinnar er kveikt á einu kerti, þar til öll átta kertin á átta arma ljósastikunni hafa verið kveikt. Á þessum ljósastikum er einn viðbótararmur sem kallast shamash (þjónninn) og er ljósið frá honum notað til að tendra hina armana.

Hanukkah er ein af hátíðunum sem Yehshua hélt, eða var a.m.k. staddur nærri musterinu þegar hátíðin stóð yfir og þótt Púrímhátíðin og Hanukkahátíðin séu ekki svokallaðar hátíðir Drottins eru þetta þó virkilega spádómlegar hátíðir sem við höfum fulla ástæðu til að fagna og halda líka vegna þess að þegar við höfum tekið á móti Yeshua sem Messíasi erum við ágrædd á vínviðinn og eigum hlutdeild í rótarsafanum eins og kemur svo skýrt fram í Rómverjabréfinu.

Þetta er líka hluti af okkar trúarsögu, eins og annað í ritningunum. Þar sem Hanukkah er ekki ein af löghátíðum Drottins er í raun ekki mikið um hana að finna í ritningunum en við skulum skoða Hanukkah hátíðina út frá því sem við getum lesið um hana í Makkabeabókunum.

Makkabeabækurnar tilheyra Apógrýfum bókum Biblíunnar. Þær eru góð söguleg heimild en teljast ekki til Heilagrar ritningar. Makkabeabækur draga nafn sitt af frelsishetju Gyðinga, Júdasi Makkabeusi, og bræðrum hans, Makkabeunum. Fyrsta Makkabeabók er sagnrit sem fjallar um mikið örlaga- og mótunarskeið í sögu Gyðinga á tímabilinu frá 175–134 f.Kr., þ.e. tímann frá því að Antíokkus IV Epífanes komst til valda og þar til Símon æðsti prestur og konungur Gyðinga, bróðir Júdasar Makkabeusar, féll frá. Þá höfðu Hasmonear, konungsætt Makkabea, tryggt sér völdin og Gyðingum sjálfstæði. Á þessu tímabili urðu Gyðingar fyrir miklum ofsóknum.

Í Makkabeabókunum er lýst aðdraganda að ofsóknum Antíokkusar og andspyrnu Gyðinga gegn tilraunum hans til að innleiða gríska siði og dýrkun framandi guða.

Það má segja að saga Hanukkah hátíðarinnar hafi byrjað í Daníelsbók nokkur hundruð árum áður en atburðurinn gerðist. Daníel talaði um viðurstyggð eyðingarinnar, vanhelgun helgidómsins og afnám hinnar daglegu fórnar.
(Dan. 9.27, 11.31, 12.11)

Gyðingar þekktu vel ritningarnar og þessi spádómlega mynd Daníels féll að þessum þrengingartímum sem þeir gengu í gegnum og lýst er í Makkabeabókunum.

Makkabeabækur draga nafn sitt af frelsishetju Gyðinga, Júdasi Makkabeusi, og bræðrum hans, Makkabeunum. Fyrsta Makkabeabók er sagnrit sem fjallar um mikið örlaga- og mótunarskeið í sögu Gyðinga á tímabilinu frá 175–134 f.Kr., þ.e. tímann frá því að Antíokkus IV Epífanes komst til valda og þar til Símon æðsti prestur og konungur Gyðinga, bróðir Júdasar Makkabeusar, féll frá. Þá höfðu Hasmonear, konungsætt Makkabea, tryggt sér völdin og Gyðingum sjálfstæði. Á þessu tímabili urðu Gyðingar fyrir miklum ofsóknum.

Í Makkabeabókunum er lýst aðdraganda að ofsóknum Antíokkusar og andspyrnu Gyðinga gegn tilraunum hans til að innleiða gríska siði og dýrkun framandi guða. Fórnin var afnumin, musterið var vanhelgað á hræðilegan hátt, svíni var fórnað á altarinu, musterið var helgað Seifi, menn máttu ekki halda hvíldardaginn heilagan, blátt bann var lagt við lögmáli Guðs, það voru miklar þrengingar og menn létu lífið fyrir trú sína.

Fyrsta Makkabeabók 1.41
41Konungur (Antíokkíus Epífanes konungur í Sýrlandi) sendi bréf um allt ríki sitt um að allir þegnar hans skyldu verða ein þjóð. 42Bauð hann sérhverjum að snúa baki við siðum sínum. Allar þjóðir lutu boði konungs 43og ýmsum í Ísrael geðjaðist guðsdýrkun hans vel. Færðu þeir hjáguðum fórnir og vanhelguðu hvíldardaginn.

Þarna sjáum við að sumir létu sér þetta vel líka og voru bara sáttir við þetta.

44Konungur sendi boðbera til Jerúsalem og borga Júdeu með bréf um að framandi siðum skyldi fylgt. 45Brennifórnir, sláturfórnir og dreypifórnir skyldu aflagðar í helgidóminum og afhelga átti hvíldardaga og hátíðir, 46saurga musterið og svívirða prestana. 47Reisa skyldi ölturu, helgistaði og hof fyrir goðin og fórna svínum og öðrum óhreinum dýrum. 48Drengi mátti ekki framar umskera en sál þeirra saurga með alls kyns flekkun og vanhelgun 49svo að lögmálið gleymdist og öllum fyrirmælum þess yrði umsnúið.

Óvinurinn er enn að reyna að gera þetta í dag. Rangsnúa öllu svo að við gleymum boðum Drottins og fylgjum hégóma heimsins.

 50Dauðarefsing lá við að óhlýðnast boðum konungs. 51Þessi og áþekk fyrirmæli sendi konungur um allt ríki sitt. Setti hann eftirlitsmenn til að gæta þess að allir fylgdu þeim og tilskipun um fórnir sendi hann sérhverri borg í Júdeu. 52Margir af þjóðinni urðu handgengnir konungsmönnum, allir sem gerðust fráhverfir lögmálinu (sneru baki við YHWH). Létu þeir margt illt af sér leiða í landinu 53og hröktu Ísraelsmenn í felur hvar sem þeir gátu leitað hælis.

Fyrsta Makkabeabók 1.54-62
Fimmtánda dag kíslevmánaðar árið eitt hundrað fjörutíu og fimm lét konungurinn reisa viðurstyggð eyðingarinnar á fórnaraltarinu og reisa ölturu víðs vegar í borgum Júdeu. Fyrir dyrum húsa og á götum úti var reykelsi brennt. Þær lögmálsbækur sem fundust voru rifnar og brenndar. Fyndist sáttmálsbók í fórum einhvers var hann dauðasekur að boði konungs og einnig sá sem hafði mætur á lögmálinu. Mánuðum saman sættu Ísraelsmenn, sem fundust í borgunum, grimmilegu aðkasti. Tuttugasta og fimmta dag mánaðarins færðu þeir fórnir á altarinu sem reist var ofan á fórnaraltarinu. Að fyrirmælum konungs voru konur, sem létu umskera syni sína, teknar af lífi. Voru ungbörnin hengd um háls þeirra. Einnig voru heimamenn þeirra og þeir sem önnuðust umskurnina deyddir. En margir í Ísrael voru staðfastir og staðráðnir í að eta ekkert óhreint.

Margir voru líka staðfastir og staðráðnir í að breyta ekki út af boðum Drottins.

Í Annari Makkabeabók 6.1-12 segir:
1Skömmu eftir þetta sendi konungur öldung frá Aþenu til að þvinga Gyðinga til að snúa baki við lögmáli feðranna og láta af að lifa eftir lögmáli Guðs. 2Honum bar einnig að vanhelga musterið í Jerúsalem og vígja það hinum ólympíska Seifi, sem og musterið á Garísím Gesta-Seifi, en margt útlendinga bjó þar.

Stytta af Seifi var sett upp í musterinu og átti nú að tilbiðja hann.
 
3Þessi yfirþyrmandi illska var þungbær og þjakandi á allan hátt. 4Heiðingjarnir lögðu musterið undir svallveislu, döðruðu þar við drósir og lögðust með dækjum innan vébanda og báru þangað margt sem óhæfa var að hafa á þeim stað. 5Þeir þöktu altarið með viðurstyggilegum fórnum sem lögmálið bannar með öllu. 6Hvíldardaginn var ekki unnt að halda heilagan eða hátíðir feðranna. Jafnvel var ókleift að játa sig Gyðing. 7Mánaðarlega, á fæðingardegi konungs, var fólkið neytt af mikilli hörku til að taka þátt í blótum þar sem mönnum var gert að neyta innyfla fórnardýra...

...9Þeir sem vildu ekki taka upp gríska siði skyldu drepnir.
Það var degi ljósara að hörmungartímar fóru í hönd. 10Tvær konur voru teknar höndum fyrir að
hafa látið umskera syni sína. Þær voru reknar fyrir allra augum um borgina þvera með smábörnin hengd við brjóst sín og loks hrundið fram af borgarmúrunum. 11Við Filippus var ljóstrað upp um nokkra aðra Gyðinga sem höfðu komið saman á laun í hellum þar í grenndinni til að halda hvíldardaginn hátíðlegan. Þeir voru allir brenndir til bana því að þeir höfðu ekki fengið sig til að verja sig vegna dýrðar og helgi dagsins.12Ég hvet alla sem lesa þessa bók til að láta ekki hugfallast af þessum hörmungum heldur hugsa sem svo að prófraunirnar séu ekki til að tortíma þjóð okkar heldur til að aga hana.

Við getum tekið þessi orð til okkar. Prófraunirnar eru ekki til að tortíma þjóð okkar, heldur til að aga hana. Við þurfum að standa staðföst á trú okkar þótt á móti blási og megum ekki láta heiminn eða kringumstæður hagga okkur frá Orði Drottins.

Yeshua talaði líka um viðurstyggð eyðingarinnar og ægilegar þrengingar þannig að spádómur Daníels getur haft margþætta merkingu. Við eigum líka eftir að sjá þrengingar sem aldrei fyrr og þá megum við ekki láta hugfallast.

Það voru síðan Makkabear, Júdas Makkabeus og bræður hans sem að lokum gerðu uppreisn, þremur árum síðar, og náðu musterinu aftur. Í 4. kafla Fyrri Makkabeabókar sjáum við svo hvernig þeir hreinsuðu og endurhelguðu musterið:

Tóku þeir síðan óhöggna steina eins og lögmálið segir til um og hlóðu nýtt altari sem var eins og hið fyrra. Helgidóminn endurbættu þeir að utan sem innan og vígðu forgarðana. Þeir gerðu ný helgiáhöld og báru ljósastikuna, reykelsisaltarið og borðið inn í musterið. Þeir brenndu síðan reykelsi á reykelsisaltarinu og tendruðu lampana á ljósastikunni svo að birti í musterinu. Þeir lögðu brauð á borðið og hengdu fortjaldið upp. Þá var öllu lokið sem gera þurfti.
 

Þarna var ekkert talað um skort á olíu eða kraftaverk þess að olían dugði í átta daga. Þegar nýtt altari er sett upp, þarf að færa ákveðnar fórnir í átta daga til að helga það. Þessi endurhelgun musterisins tók þess vegna átta daga og þessa vígslu héldu menn hátíðlega í átta daga með miklum fögnuði og ákváðu að gera þetta að árlegri hátíð.

Stóra kraftaverkið var það að þeir trúðu orðum Daníels um að Drottinn Yahweh myndi bjarga þeim sem og hann gerði. Hanukkah er hátíð sem fagnar því að Guð vill leysa okkur undan heiðnum áhrifum og tilbeiðslu heiðinna guða.

Hvernig sjáum við Yeshua í þessari hátíð?

Á páskahátíðinni var hann lýtalaust lamb Guðs.

Á hátíð ósýrðu brauðanna var hann brauð lífsins.

Á hátíð frumgróðans var hann frumgróði allra manna.

Á viknahátíðinni var anda hans úthellt yfir líf okkar.

Þannig uppfyllti hann allar vorhátíðirnar nákvæmlega og fullkomlega.

Á síðasta degi laufskálahátíðarinnar var ákveðin athöfn sem prestarnir framkvæmdu með vatni og þann dag, segir í 7. kafla Jóahannesar, stóð Yeshua frammi fyrir fólkinu og kallaði: ...Ef nokkurn þyrstir, þá komi hann til mín og drekki. Sá sem trúir á mig, frá hjarta hans munu renna lækir lifandi vatns, eins og ritningin segir. (Jóh 7.37-38)

Í næstu köflum sjáum svo við tímabilið fram að Hanukkah eða ljósahátíðinni.

 Í 8. kafla segir hann: Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins. (Jóh. 8.12)

Og í 9. kafla segir hann: Meðan ég er í heiminum, er ég ljós heimsins.

 Í 10. kafla segir svo: Nú var vígsluhátíðin í Jerúsalem og kominn vetur. Jesús gekk um í súlnagöngum Salómons í helgidóminum. (Jóh 10.22-23)

Hanukkiah ljósastikan, getur táknað þá átta daga sem tók að hreinsa altarið með eldi og þjóninn Yeshua sem einn getur hreinsað okkur til anda, sálar og líkama.

Þannig getum við fagnað því að hann vill enn leysa okkur undan hjáguðadýrkun og við þurfum að leyfa honum að hreinsa musteri okkar með eldi sínum. Eins og það tók átta daga að hreinsa altarið í musterinu, verðum við að gefa Drottni tíma til að vinna með okkur, ekki gefast upp ef það gengur ekki í fyrstu tilraun.

Eins og með Gyðingana í frásögn Makkabeabókanna, þá megum við ekki láta heiminn beygja okkur til hjáguðadýrkunar, heldur vinna að því að sortera út úr trúarlífi okkar það sem hefur pottþétt komið inn í gegnum heiðni og verið heimfært upp á kristindóm en á sér enga staðfestingu í Orði Guðs.

Hanukkah er mynd upp á það hvernig Drottinn Guð, Yahweh Elóhím leysir okkur undan skurðgoðadýrkun og hjáguðadýrkun ef við treystum á hann, horfum til hans og látum ekki aðra þvinga okkur til annarlegrar guðadýrkunar.

Gleðjumst og eigum góðar stundir. Gerum okkur virkilega dagamun í átta daga, en reynum að gera það án þeirra heiðnu áhrifa sem hafa laumast inn í allt. Þegar Yeshua bað fyrir lærisveinum sínum, sagði hann: Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur. Jóh. 17.17

Helgum musteri okkar, líf okkar og heimili í sannleika Orðsins.

Shalom, Sigrún

 

 

Copyright - www.torah.is

torah@internet.is