Hanukkah
(stutt ágrip)

 

Hanukkah er hátíð sem Gyðingar halda hátíðlega í átta daga frá 25. kíslevmánaðar hvert ár og lendir hún mjög oft á svipuðum tíma og jólin þannig að margir telja því að þetta séu hin gyðinglegu jól en það er ekki svo.

Hanukka þýðir vígsla eða helgun og í íslensku Biblíunni hefur Hannukkah verið þýtt sem vígsluhátíðin (þ.e. musterisvígsluhátíðin) en þessi hátíð er líka kölluð ljósahátíðin. Á vígsluhátíðinni er minnst hreinsunar og endurreisnar musterisins á 2. öld f.Kr. Sagan segir að kraftaverk hafi átt sér stað við endurvígsluna. Þegar musterið hafði verið hreinsað, hafi ekki fundist nægileg ólífuolía til að tendra ljós á hinni stóru sjö arma ljósastiku sem var í musterinu. Það hafi aðeins verið til olía til eins dags en þá hafi gerst kraftaverk, olían dugði í átta daga, jafn marga daga og það tók að útvega meiri olíu en í raun er þó ekki minnst á það einu orði í Makkabeabókunum.

Á hverju kvöldi hátíðarinnar er kveikt á einu kerti, þar til öll átta kertin á átta arma ljósastikunni hafa verið kveikt. Á þessum ljósastikum er einn viðbótararmur sem kallast shamash (þjónninn) og er ljósið frá honum notað til að tendra hina armana.

Hanukkah er ein af hátíðunum sem Yeshua hélt, eða var a.m.k. staddur nærri musterinu þegar hátíðin stóð yfir og þótt Púrímhátíðin og Hanukkahátíðin séu ekki svokallaðar hátíðir Drottins eru þetta þó virkilega spádómlegar hátíðir sem við höfum fulla ástæðu til að fagna og halda líka vegna þess að þegar við höfum tekið á móti Yeshua sem Messíasi erum við ágrædd á vínviðinn og eigum hlutdeild í rótarsafanum eins og kemur svo skýrt fram í Rómverjabréfinu. Þetta er líka hluti af okkar trúarsögu, eins og annað í ritningunum.

Þar sem Hanukkah er ekki ein af löghátíðum Drottins er í raun ekki mikið um hana að finna í ritningunum en við getum lesið um hana í Makkabeabókunum sem tilheyra Apógrýfum bókum Biblíunnar.

Makkabeabækur draga nafn sitt af frelsishetju Gyðinga, Júdasi Makkabeusi, og bræðrum hans, Makkabeunum. Fyrsta Makkabeabók er sagnrit sem fjallar um mikið örlaga- og mótunarskeið í sögu Gyðinga á tímabilinu frá 175–134 f.Kr., þ.e. tímann frá því að Antíokkus IV Epífanes komst til valda og þar til Símon æðsti prestur og konungur Gyðinga, bróðir Júdasar Makkabeusar, féll frá. Þá höfðu Hasmonear, konungsætt Makkabea, tryggt sér völdin og Gyðingum sjálfstæði. Á þessu tímabili urðu Gyðingar fyrir miklum ofsóknum.

Í Makkabeabókunum er lýst aðdraganda að ofsóknum Antíokkusar og andspyrnu Gyðinga gegn tilraunum hans til að innleiða gríska siði og dýrkun framandi guða. Fórnin var afnumin, musterið var vanhelgað á hræðilegan hátt, svíni var fórnað á altarinu, musterið var helgað Seifi, menn máttu ekki halda hvíldardaginn heilagan, blátt bann var lagt við lögmáli Guðs, það voru miklar þrengingar og menn létu lífið fyrir trú sína.

Það voru síðan Makkabear, Júdas Makkabeus og bræður hans sem að lokum gerðu uppreisn, þremur árum síðar, og náðu musterinu aftur. Í 4. kafla Fyrri Makkabeabókar sjáum við svo hvernig þeir hreinsuðu og endurhelguðu musterið:

„Tóku þeir síðan óhöggna steina eins og lögmálið segir til um og hlóðu nýtt altari sem var eins og hið fyrra. Helgidóminn endurbættu þeir að utan sem innan og vígðu forgarðana. Þeir gerðu ný helgiáhöld og báru ljósastikuna, reykelsisaltarið og borðið inn í musterið. Þeir brenndu síðan reykelsi á reykelsisaltarinu og tendruðu lampana á ljósastikunni svo að birti í musterinu. Þeir lögðu brauð á borðið og hengdu fortjaldið upp. Þá var öllu lokið sem gera þurfti.“

Þegar nýtt altari er sett upp, þarf að færa ákveðnar fórnir í átta daga til að helga það. Þessi endurhelgun musterisins tók þess vegna átta daga og vígsluna héldu menn hátíðlega í átta daga með miklum fögnuði og ákváðu að gera þetta að árlegri hátíð.

Stóra kraftaverkið var það að þeir trúðu orðum Daníels um að Drottinn Yahweh myndi bjarga þeim sem og hann gerði. Hanukkah er hátíð sem fagnar því að Guð vill leysa okkur undan heiðnum áhrifum og tilbeiðslu heiðinna guða.

Í 8. kafla Jóhannesarguðspjalls segir Yeshua (Jesús): „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.“ (Jóh. 8.12)

Hanukkah er mynd upp á það hvernig Drottinn Guð, Yahweh Elóhím leysir okkur undan skurðgoðadýrkun og hjáguðadýrkun ef við treystum á hann, horfum til hans og látum ekki aðra þvinga okkur til annarlegrar guðadýrkunar.

Hanukkiah ljósastikan, getur táknað þá átta daga sem tók að hreinsa altarið með eldi og þjóninn Yeshua sem einn getur hreinsað okkur til anda, sálar og líkama. Þannig getum við fagnað því að hann vill enn leysa okkur undan hjáguðadýrkun og við þurfum að leyfa honum að hreinsa musteri okkar með eldi sínum.

Gleðjumst og eigum góðar stundir með fjölskyldu og vinum. Gerum okkur virkilega dagamun í átta daga, en reynum að gera það án þeirra heiðnu áhrifa sem hafa laumast inn í allt. Helgum musteri okkar, líf okkar og heimili í sannleika Orðsins.

Shalom,
Sigrún Einarsdóttir

 

Úrdráttur úr fræðslu sem Sigrún Einarsdóttir var með hjá Shalom Ísrael félaginu 15. nóvember 2008

 

 

Copyright - www.torah.is

torah@internet.is