Inngangur að Fyrstu Makkabeabók

 

Fyrsta Makkabeabók

Makkabeabækur draga nafn sitt af frelsishetju Gyðinga, Júdasi Makkabeusi, og bræðrum hans, Makkabeunum. Fyrsta Makkabeabók er sagnrit sem fjallar um mikið örlaga- og mótunarskeið í sögu Gyðinga á tímabilinu frá 175–134 f.Kr., þ.e. tímann frá því að Antíokkus IV Epífanes komst til valda og þar til Símon æðsti prestur og konungur Gyðinga, bróðir Júdasar Makkabeusar, féll frá. Þá höfðu Hasmonear, konungsætt Makkabea, tryggt sér völdin og Gyðingum sjálfstæði. Á þessu tímabili urðu Gyðingar fyrir miklum ofsóknum.

Skipting ritsins

1.1–2.70 Trúarbragðaofsóknir og uppreisn Mattatíasar
3.1–9.22 Júdas Makkabeus leiðtogi
9.23–12.53 Jónatan leiðtogi
13.1–16.24 Símon leiðtogi

  

Fyrsta Makkabeabók 1

Alexander mikli

1Alexander Filippusson frá Makedóníu vann sigur á Daríusi, konungi Persa og Meda, eftir að hann fór frá landi Kitta. Settist hann að völdum í stað Daríusar en hafði áður ríkt yfir Grikklandi. 2Hann átti í sífelldum styrjöldum, tók hvert virkið af öðru og lagði konunga að velli víða um lönd. 3Hann sótti fram allt að ystu endimörkum jarðar og rændi fjölmargar þjóðir. Enginn á jörðu mátti sín neins fyrir honum og gerðist hann hrokafullur og drambsamur í hjarta. 4Hann safnaði óvígum her og drottnaði yfir löndum, þjóðum og furstum sem urðu skattskyldir honum.
5Þá varð hann sjúkur og fann að dauðinn nálgaðist. 6Kallaði hann til sín tignustu þjóna sína, sem alist höfðu upp með honum frá unga aldri, og skipti ríki sínu milli þeirra í lifanda lífi. 7Er Alexander dó hafði hann ríkt í tólf ár.
8Þjónar hans tóku við völdum hver á sínum stað. 9Að Alexander látnum létu þeir allir krýna sig. Hið sama gerðu svo niðjar þeirra sem tóku við af þeim. Var svo um langt árabil og komu þeir miklu illu til leiðar á jörðinni.

Antíokkus Epífanes og trúníðingar meðal Gyðinga

10Afsprengi þeirra var hrakmennið Antíokkus Epífanes, sonur Antíokkusar konungs. Hafði hann verið gísl í Róm og kom til ríkis á eitt hundrað þrítugasta og sjöunda ári gríska konungdómsins.
11Um þessar mundir tóku nokkrir Ísraelsmenn að snúa baki við lögmálinu og afvegaleiddu marga. Þeir sögðu: „Við skulum gera sáttmála við heiðingjana sem búa umhverfis okkur því að margt hefur gengið okkur öndvert síðan við sögðum skilið við þá.“ 12Þetta tal féll ýmsum vel í geð 13og urðu sumir landa þeirra svo ákafir að þeir héldu til konungs sem gaf þeim leyfi til að taka upp heiðna lifnaðarhætti. 14Byggðu þeir íþróttaleikvang í Jerúsalem að heiðinni fyrirmynd, 15létu gera sér forhúð og gerðust fráhverfir sáttmálanum heilaga. Þeir lögðu lag sitt við heiðingja og létu kaupa sig til illra verka.

Herför Antíokkusar til Egyptalands

16Þegar Antíokkus var orðinn fastur í sessi afréð hann að ná völdum í Egyptalandi og drottna yfir báðum ríkjunum. 17Hann hélt gegn Egyptum með mikinn her, stríðsvagna og fíla og stóran flota. 18Hann lagði til orrustu við Ptólemeus, konung Egypta, sem bar lægri hlut fyrir honum, var hrakinn á flótta og féllu margir sárir. 19Lið Antíokkusar tók víggirtar borgir Egypta og mikið herfang í landi þeirra.

Antíokkus ofsækir Gyðinga

20Þegar Antíokkus hafði unnið sigur á Egyptum hélt hann árið eitt hundrað fjörutíu og þrjú með mikinn herafla til Ísraels og Jerúsalem. 21Í ofurdrambi sínu gekk hann inn í helgidóminn og tók gullaltarið og ljósastikuna og allt sem henni heyrði, 22skoðunarbrauðaborðið, dreypifórnarbollana, skálarnar, gullreykelsiskerin og fortjaldið. Krönsunum og allri gullskreytingunni á forhlið musterisins lét hann fletta af. 23Hann tók silfur og gull og verðmæt áhöld og allt sem hann fann af fjársjóðunum sem í musterinu voru fólgnir. 24Þetta allt tók hann og hafði með sér heim í land sitt. Hann olli blóðbaði og var afar digurbarkalegur í tali.
25 Þá varð harmur mikill hvarvetna í Ísrael.
26 Leiðtogar og öldungar hófu upp kveinstafi,
meyjar og sveinar misstu móðinn,
blómi kvenna bliknaði.
27 Sérhver brúðgumi hóf harmsöng,
hver brúður grét í dyngju sinni.
28 Landið skalf vegna þeirra er það byggðu,
öll Jakobs ætt hjúpaðist smán.

Jerúsalem hertekin

29Tveimur árum síðar sendi konungur embættismann til að innheimta skatt í borgum Júda. Hann kom til Jerúsalem með mikinn her. 30Hann friðmæltist við fólkið með fagurgala en svik bjuggu undir. Er hann hafði vakið traust þess réðst hann óvænt á borgina og gjörsigraði hana og féllu margir Ísraelsmenn. 31Hann rændi borgina, lagði eld að henni og reif niður bæði húsin og múrana umhverfis hana. 32Konur og börn voru hneppt í þrældóm og búsmali tekinn herfangi. 33Konungsmenn reistu mikla og sterka múra umhverfis Davíðsborg, bjuggu þá sterkum turnum og komu sér upp virki á þann hátt. 34Það mönnuðu þeir heiðnum syndurum og lögmálsbrjótum sem bjuggu tryggilega um sig. 35Virkið bjuggu þeir vopnum og vistum og komu ránsfengnum frá Jerúsalem þar fyrir. Varð mikil ógnun að vígi þessu:
36 Það varð staður til árása á helgidóminn,
stöðugur ógnvaldur Ísraels.
37 Saklausu blóði var úthellt umhverfis musterið,
helgidóminn saurguðu þeir einnig.
38 Vegna þessara manna flýðu íbúar Jerúsalem
svo að borgin varð bústaður framandi manna.
Hún varð ókunn niðjum sínum,
yfirgefin af eigin börnum.
39 Helgidómur hennar eyddist og varð sem auðn,
hátíðir hennar urðu sorgardagar,
hvíldardagarnir háðung
og heiður hennar vansæmd.
40 Vanvirða hennar varð slík sem tign hennar var fyrr,
vegsemd hennar snerist í sorg.

Eitt ríki, ein þjóð, ein trú

41Konungur sendi bréf um allt ríki sitt um að allir þegnar hans skyldu verða ein þjóð. 42Bauð hann sérhverjum að snúa baki við siðum sínum. Allar þjóðir lutu boði konungs 43og ýmsum í Ísrael geðjaðist guðsdýrkun hans vel. Færðu þeir hjáguðum fórnir og vanhelguðu hvíldardaginn.
44Konungur sendi boðbera til Jerúsalem og borga Júdeu með bréf um að framandi siðum skyldi fylgt. 45Brennifórnir, sláturfórnir og dreypifórnir skyldu aflagðar í helgidóminum og afhelga átti hvíldardaga og hátíðir, 46saurga musterið og svívirða prestana. 47Reisa skyldi ölturu, helgistaði og hof fyrir goðin og fórna svínum og öðrum óhreinum dýrum. 48Drengi mátti ekki framar umskera en sál þeirra saurga með alls kyns flekkun og vanhelgun 49svo að lögmálið gleymdist og öllum fyrirmælum þess yrði umsnúið. 50Dauðarefsing lá við að óhlýðnast boðum konungs. 51Þessi og áþekk fyrirmæli sendi konungur um allt ríki sitt. Setti hann eftirlitsmenn til að gæta þess að allir fylgdu þeim og tilskipun um fórnir sendi hann sérhverri borg í Júdeu. 52Margir af þjóðinni urðu handgengnir konungsmönnum, allir sem gerðust fráhverfir lögmálinu. Létu þeir margt illt af sér leiða í landinu 53og hröktu Ísraelsmenn í felur hvar sem þeir gátu leitað hælis.

Hjáguðadýrkun í húsi Guðs

54Fimmtánda dag kíslevmánaðar árið eitt hundrað fjörutíu og fimm[1]

Þ.e. 6. desember árið 167 f.Kr.

 lét konungurinn reisa viðurstyggð eyðingarinnar á fórnaraltarinu og reisa ölturu víðs vegar í borgum Júdeu. 55Fyrir dyrum húsa og á götum úti var reykelsi brennt. 56Þær lögmálsbækur sem fundust voru rifnar og brenndar. 57Fyndist sáttmálsbók í fórum einhvers var hann dauðasekur að boði konungs og einnig sá sem hafði mætur á lögmálinu. 58Mánuðum saman sættu Ísraelsmenn, sem fundust í borgunum, grimmilegu aðkasti.
59Tuttugasta og fimmta dag mánaðarins færðu þeir fórnir á altarinu sem reist var ofan á fórnaraltarinu. 60Að fyrirmælum konungs voru konur, sem létu umskera syni sína, teknar af lífi. 61Voru ungbörnin hengd um háls þeirra. Einnig voru heimamenn þeirra og þeir sem önnuðust umskurnina deyddir.
62En margir í Ísrael voru staðfastir og staðráðnir í að eta ekkert óhreint. 63Þeir kusu fremur að deyja en að saurga sig á mat og vanvirða sáttmálann heilaga og létu þeir lífið. 64Máttug reiði þjakaði Ísrael mjög.

1.3 Enginn á jörðu mátti sín neins sbr 1Makk 7.50; 9.57; 11.38,52; 14.4; Dóm 3.11; 5.31; 8.28 – hrokafullur og ... 1Makk 16.13; Esk 28.2,5,17; 2Kro 25.19; 26.16; sbr 5Mós 17.20
1.15 Gera forhúð 1Kor 7.18
1.17 Gegn Egyptum Dan 11.25-28
1.26 Leiðtogar og öldungar kveina Hlj 1.4; 2.10 – meyjar og sveinar missa móðinn Am 8.13; Hlj 1.6,18; 4.7-8
1.30 Friðmælist með fagurgala 1Makk 5.48; 7.10,15,27; 11.2
1.39 Helgidómur eyddist 1Makk 2.12; 4.38; Slm 74.3-7; sbr Hlj 5.18 – hátíðir urðu sorgardagar 1Makk 9.41; Am 8.10; Hlj 5.15; sbr Hlj 1.4
1.54 Viðurstyggð eyðingarinnar Dan 9.27; 11.31; 12.11; Matt 24.15
1.60 Konur sem létu umskera syni sína 2Makk 6.10 –
1.62 Óhrein fæða 2Makk 6.18-19

 

Fyrsta Makkabeabók 2

 

Trúfesti Mattatíasar

1Um þessar mundir flutti Mattatías Jóhannesson Símeonssonar frá Jerúsalem og settist að í Módein. Hann var prestur af ætt Jójaríbs. 2Hann átti fimm syni, Jóhannes að viðurnefni Gaddi, 3Símon, sem kallaður var Tassi, 4Júdas, sem nefndur var Makkabeus, 5Eleasar, sem kallaður var Avaran, og Jónatan sem nefndist Affus. 6Þegar Mattatías sá guðlastið, sem viðgekkst í Júdeu og Jerúsalem, 7sagði hann:
Vei mér! Hví þurfti ég að fæðast,
hví varð ég að sjá þjóð mína kúgaða
og ófarir hinnar helgu borgar?
Fólkið sat hjá er borgin var gefin óvinum á vald
og helgidómurinn lenti í höndum útlendinga.
8 Musteri Jerúsalem er orðið sem ærulaus maður,
9 dýrleg áhöld helgidómsins flutt brott sem herfang.
Börn hennar voru deydd á strætunum,
ungmennin með sverðum óvina.
10 Er nokkur sú þjóð
sem ei fékk hlutdeild í veldi borgarinnar
eða hreppti ekki herfang þegar borgin var rænd?
11 Hún er rúin öllu skarti sínu,
sú sem var frjáls er orðin ambátt.
12 Sjáið musteri vort, fegurð vora og vegsemd.
Því eyddu heiðingjar og vanhelguðu.
13 Hví skyldum vér lifa lengur?
14Mattatías og synir hans rifu klæði sín, klæddust hærusekkjum og voru harmþrungnir.
15Þá komu sendimenn konungs til Módein. Áttu þeir að þvinga menn til fráhvarfs og knýja þá til að færa fórnir. 16Margir Ísraelsmenn komu til fundar við þá. Mattatías og synir hans héldu hópinn. 17Konungsmenn beindu orðum til Mattatíasar og sögðu: „Þú ert virtur og mikils metinn leiðtogi hér í borg og nýtur stuðnings sona og bræðra. 18Stíg þú fyrstur fram til að hlýðnast fyrirmælum konungs svo sem allar þjóðir hafa gert, einnig Júdeumenn og þeir sem eftir urðu í Jerúsalem. Þá munuð þið synir þínir verða vinir konungs og sæmdir gulli og silfri og mörgum gjöfum.“ 19En Mattatías svaraði og brýndi raustina: „Þótt allar þjóðir í ríki konungs hlýði honum og snúi baki við trúarbrögðum feðra sinna og kjósi allar að fara að boðum hans 20mun ég og synir mínir og bræður samt fylgja sáttmála feðra okkar. 21Guð forði okkur frá að gerast fráhverfir lögmálinu og ákvæðum þess. 22Við munum ekki hlýða boðum konungs og ekki víkja til hægri eða vinstri frá guðsdýrkun okkar.“
23Hann hafði varla sleppt orðinu þegar Gyðingur nokkur gekk fram í augsýn allra til að færa fórn á altarinu í Módein samkvæmt fyrirmælum konungs. 24Er Mattatías sá það fylltist hann vandlætingu og tók að skjálfa innra með sér. Brennandi af réttlátri reiði þaut hann til og hjó manninn til bana við altarið. 25Einnig deyddi hann konungsmanninn, sem átti að þvinga aðra til að fórna, og reif altarið niður. 26Þannig varði hann lögmálið af vandlætingu eins og Pínehas hafði breytt við Simrí Salúson.

Skæruhernaður Mattatíasar

27Þá hrópaði Mattatías hárri röddu sem barst um borgina: „Hver sem verja vill lögmálið og halda sáttmálann í heiðri fylgi mér.“ 28Síðan flýði hann og synir hans til fjalla og skildu þeir allar eigur sínar eftir í borginni.
29Margir, sem þráðu réttlæti og rétt, héldu þá út í auðnina og settust þar að 30með konur sínar, börn og búfé því að bölið gekk svo nærri þeim. 31Konungsmenn og hersveitin í Jerúsalem, borg Davíðs, fréttu að menn, sem skeyttu ekki um boð konungs, væru farnir út í hellana í auðninni. 32Fjölmenni mikið var sent eftir þeim og bjóst til bardaga við þá strax og það hafði náð þeim og hugðist leggja til atlögu á hvíldardegi. 33Þeir sögðu við Ísraelsmenn: „Er nú ekki mál að linni? Komið og gerið svo sem konungur hefur boðið og þið munuð halda lífi.“
34Þeir svöruðu: „Við komum ekki út og munum ekki fara að boðum konungs og vanhelga hvíldardaginn.“ 35Þá réðst lið konungs tafarlaust á þá. 36Þeir veittu enga mótspyrnu og vörpuðu hvorki steini né lokuðu hellismunnunum 37en sögðu: „Saklausir göngum við allir í dauðann. Himinn og jörð eru til vitnis um að þið deyðið okkur gegn öllu réttlæti.“ 38Óvinirnir veittu þeim atlögu á hvíldardeginum og felldu þá, konur þeirra og börn og kvikfé, nær þúsund manna.
39Þegar Mattatías og vinir hans fréttu af þessu syrgðu þeir hina föllnu mjög. 40Þeir sögðu hver við annan: „Ef við förum allir að eins og bræður okkar og berjumst ekki við heiðingjana fyrir lífi okkar og réttindum, þá munu þeir brátt afmá okkur af jörðinni.“ 41Sama dag tóku þeir þessa ákvörðun: „Við munum berjast við hvern þann sem veitir okkur aðför á hvíldardegi. Við ætlum ekki að deyja allir á sama hátt og bræður okkar í hellunum.“
42Til liðs við þá gekk sveit Hasídea, vaskar hetjur Ísraelsmanna sem allar vildu hlýða lögmálinu staðfastlega. 43Allir aðrir sem hraktir höfðu verið á flótta undan kúgurunum slógust í hópinn og styrktu hann. 44Þannig myndaðist hersveit sem gat beint reiði gegn syndurunum og heift sinni að þeim sem svívirtu lögmálið. En þeir sem sluppu flýðu til heiðingjanna til að bjarga lífinu.
45Mattatías og vinir hans fóru víða um landið og rifu niður ölturu 46og umskáru með valdi alla óumskorna drengi sem þeir fundu innan landamæra Ísraels. 47Þeir ofsóttu hina drambsömu og varð vel ágengt. 48Þeir vörðu lögmálið fyrir árás heiðingja og konunga og gáfu syndaranum ekkert færi á sér.

Mattatías deyr

49Þegar Mattatías fann dauðann nálgast sagði hann við syni sína: „Nú ríkir dramb og óhæfa, ógnaröld og ofsareiði. 50Berjist því, börnin mín, af heilagri vandlætingu fyrir lögmálið og leggið lífið í sölurnar fyrir sáttmála feðranna. 51Minnist dáða þeirra sem feðurnir drýgðu á sinni tíð svo að þið hljótið mikla frægð og orðstír sem aldrei deyr. 52Reyndist Abraham ekki trúr þegar hann var reyndur og var það ekki reiknað honum til réttlætis? 53Jósef hlýddi boðorðinu þegar að honum svarf og varð ráðsherra í Egyptalandi. 54Pínehas, forfaðir okkar, barðist af brennandi vandlætingu og hlaut því sáttmála um eilífan prestdóm. 55Jósúa gerði allt svo sem boðið var og varð dómari í Ísrael. 56Kaleb bar sannleikanum vitni frammi fyrir söfnuðinum og hlaut land til eignar. 57Vegna miskunnsemi sinnar hlaut Davíð hásæti konungs í eilífu ríki. 58Elía barðist af vandlætingu fyrir lögmálinu og var því hafinn upp til himins. 59Ananías, Asarja og Mísael treystu Guði og björguðust úr logunum. 60Vegna hjartahreinleika síns var Daníel hrifinn úr gini ljónanna. 61Þannig má sjá í sögu genginna kynslóða að hver sá sem vonar á Drottin mun ekki yfirbugaður. 62Óttist því ekki hótanir syndugs manns. Vegsemd hans verður skarn og maðkafæða. 63Í dag hreykir hann sér hátt en á morgun er hann gleymdur. Hann er orðinn að mold á ný og ráðabrugg hans að engu. 64Börnin mín. Sækið hugmóð og styrk í lögmálið. Það mun veita ykkur vegsemd. 65Ég veit að Símon bróðir ykkar er ráðsnjall maður. Farið ætíð að ráðum hans. Hann skal verða ykkur sem faðir. 66Júdas Makkabeus hefur verið þróttug kempa frá ungum aldri. Hann skal stýra her ykkar og heyja stríð við heiðingjana. 67Safnið að ykkur öllum sem trúir eru lögmálinu og komið fram hefndum fyrir þjóð ykkar. 68Veitið heiðingjunum makleg málagjöld og haldið fast við fyrirmæli lögmálsins.“
69Síðan blessaði hann syni sína og safnaðist til feðra sinna. 70Mattatías lést árið eitt hundrað fjörutíu og sex og var lagður í gröf feðra sinna í Módein. Allur Ísrael harmaði hann mjög.

2.9 Dýrleg áhöld helgidómsins 2Kon 24.13; Hlj 1.10 – börn deydd Hlj 2.21-22
2.11 Orðin ambátt Hlj 1.1,3
2.12 Musterið vanvirt og eytt 1Makk 1.39+
2.26 Lögmálið að vandlætingu v. 27,50,58; sbr Slm 69.10; 119.139 – vandlæting Pínehas 4Mós 25.6-13; Sír 45.23
2.28 Flúði til fjalla sbr 2Makk 5.27
2.32 Til atlögu á hvíldardegi 1Makk 9.43; 2Makk 6.11; 15.1
2.52 Trú Abrahams 1Mós 15.6; Sír 44.20
2.53 Jósef ráðsherra í Egyptalandi 1Mós 41.37-43
2.54 Pínehas forfaðir 4Mós 25.13; Sír 45.24
2.56 Kaleb hlaut land til eignar 4Mós 14.24; Sír 46.9
2.57 Miskunnsemi Davíðs 2Sam 6.12-22; Sír 47.8
2.58 Elía barðist af vandlætingu 1Kon 19.10; sbr 1Makk 2.26+ ; hafinn upp til himins 2Kon 2.11; Sír 48.9
2.59 Ananías, Asarja og Mísael Dan 3
2.60 Daníel hrifinn úr gini ljónsins Dan 6
2.62-63 Syndugur maður og hrun hans Slm 1.4-5; 37.35-36; Job 20.6-7

 

Fyrsta Makkabeabók 3

 

Fyrstu sigrar Júdasar

1Júdas sonur Mattatíasar, sem kallaður var Makkabeus, kom nú í stað föður síns. 2Bræður hans veittu honum fulltingi og allir fylgismenn föður hans, og reifir héldu þeir áfram baráttunni fyrir Ísrael.
3 Hann jók hróður þjóðar sinnar stórum,
var sem risi er hann bjó sig brynju
og gyrti sig hertygjum.
Í orrustum varði sverð hans herinn.
4 Hann líktist ljóni í dáðum sínum,
ungljóni sem öskrar eftir bráð.
5 Guðlausa leitaði hann uppi og ofsótti þá
og hegndi þeim með eldi sem þjökuðu þjóð hans.
6 Guðleysingjarnir urðu að gjalti af ótta við hann,
enginn lögmálsbrjótur vissi sitt rjúkandi ráð.
Handleiðsla hans reyndist frelsinu heilladrjúg.
7 Mörgum konungi gerði hann lífið leitt
en gladdi Jakob með dáðum sínum.
Blessuð skal minning hans að eilífu.
8 Hann fór um borgir Júdeu,
hrakti guðlausa þaðan,
reiðinni beindi hann frá Ísrael.
9 Orðstír hans barst til endimarka jarðar
og hann safnaði þeim sem glötun ein beið.
10Appollóníus safnaði miklum her heiðingja og Samverja til að herja á Ísrael. 11Þegar Júdas varð þess var fór hann gegn honum. Sigraði hann Appollóníus og felldi hann. Margir féllu sárir en hinir flýðu. 12Er þeir rændu valinn tók Júdas sverð Appollóníusar og bar það jafnan síðan í orrustum.
13Seron, foringi sýrlenska hersins, frétti að Júdas hefði safnað um sig skara trúrra manna sem væru albúnir til að berjast 14og sagði: „Ég ræðst á Júdas og menn hans sem óhlýðnast boðum konungs. Af því verð ég nafnkunnur og víðfrægur í ríkinu.“ 15Síðan tók hann sig upp og hélt af stað til að hegna Ísraelsmönnum. Til stuðnings sér hafði hann mikinn her guðleysingja.
16Er Seron nálgaðist gilið upp til Bet Hóron kom Júdas á móti honum og var liðfár. 17Þegar menn hans sáu herinn, sem að þeim stefndi, sögðu þeir við Júdas: „Hvernig eigum við svona fáir að berjast við þvílíkt ofurefli? Að auki erum við örmagna enda höfum við einskis neytt í dag.“ 18Því svaraði Júdas: „Hæglega geta fáir borið marga ofurliði. Himninum veitist jafn auðvelt að frelsa með fáum og mörgum. 19Sigur í stríði ræðst ekki af liðstyrk heldur mætti frá himni. 20Þeir koma gegn okkur með hroka og lögmálsbrotum til að afmá okkur, konur okkar og börn og ræna eigum okkar. 21Við berjumst hins vegar fyrir lífi og arfhelgum réttindum. 22Himinninn mun sjálfur eyða þeim fyrir augum okkar. Óttist þá ekki.“
23Að orðinu slepptu réðst Júdas óvænt á óvinina og biðu Seron og her hans algjöran ósigur fyrir honum. 24Eltu hann og menn hans Seron ofan einstigið við Bet Hóron og ofan á sléttlendið. Féllu nær átta hundruð af liði Serons en hinir flýðu til lands Filistea.
25Þá tók að gæta ótta við Júdas og bræður hans og skelfing greip heiðingjana umhverfis. 26Barst orðstír hans jafnvel til konungs og allar þjóðir sögðu frá dáðum hans.

Antíokkus skipar Lýsías landstjóra

27Þegar Antíokkus konungur frétti af þessum atburðum varð hann hamslaus af bræði. Gerði hann út sendiboða til að safna öllu herliði í ríki sínu. Varð það gífurlegur her. 28Hann opnaði fjárhirslu sína og galt hernum ársmála fyrir fram og bauð honum að vera viðbúinn hverju sem væri. 29En hann sá að stórum gekk á silfrið í sjóði. Skattheimtan hafði líka dregist mjög saman í ríkinu vegna þeirra óeirða og tjóns sem hann hafði bakað landinu er hann nam úr gildi helgan rétt sem virtur hafði verið frá ómunatíð. 30Þá óttaðist hann að fara kynni líkt og stundum áður að hann hefði ekki nóg til eyðslu og gjafa. Þeim hafði hann dreift af enn meira örlæti en fyrirrennarar hans. 31Vissi hann ekki hvað til bragðs skyldi taka en ákvað að halda til Persíu til að krefjast skatta í skattlöndunum og ná saman miklu fé.
32Skildi hann Lýsías, sem var vel metinn maður af konungsættum, eftir og fól honum stjórn ríkisins milli fljótsins Efrat og Egyptalands. 33Einnig fól konungur honum Antíokkus son sinn til fósturs þar til hann kæmi aftur. 34Hann afhenti Lýsíasi helming hersins og fílana og gaf honum fyrirmæli um allt sem hann hafði í hyggju, einkum varðandi íbúa Júdeu og Jerúsalem. 35Hann bauð Lýsíasi að senda her til að brjóta Ísraelsmenn á bak aftur og eyða herliði Ísraelsmanna og þeim sem enn bjuggu í Jerúsalem og afmá allt sem á þá minnti í borginni. 36Enn fremur átti hann að láta útlendinga setjast að í öllum byggðum landsins og skipta landinu upp á milli þeirra.
37Hinn helminginn af her sínum tók konungur með sér og hélt á brott frá höfuðborg sinni, Antíokkíu. Var það árið eitt hundrað fjörutíu og sjö. Hélt hann yfir Efratfljót og lagði leið sína um upplöndin.

Nýir sigrar Júdasar

38Lýsías valdi Ptólemeus Dórýmenesson, Níkanor og Gorgías, dugmikla menn úr hópi vina konungs, 39og sendi þá af stað með fjörutíu þúsund fótgönguliða og sjö þúsund riddara. Áttu þeir að gera innrás í Júdeu og gera hana að auðn eins og konungur hafði mælt fyrir um. 40Foringjarnir héldu af stað með allt lið sitt og er þeir komu á sléttuna við Emmaus slógu þeir upp herbúðum. 41Þegar kaupmennirnir þar í grennd fréttu af þeim komu þeir í herbúðirnar. Höfðu þeir meðferðis gnótt gulls og silfurs og fótfjötra því að þeir hugðust kaupa ísraelska herfanga. Hernum jókst svo liðstyrkur frá Sýrlandi og Filisteu.
42Júdas og bræður hans sáu að ástandið varð stöðugt ískyggilegra því að herinn hafði komið sér fyrir í landi þeirra. Einnig fréttu þeir af fyrirmælum konungs um að uppræta þjóðina og eyða henni. 43Þeir sögðu hver við annan: „Við skulum rísa gegn eyðingu þjóðar okkar og berjast fyrir hana og helgidóminn.“ 44Allir bjuggu þeir sig síðan til bardaga og sameinuðust í bæn og ákalli um náð og miskunn.
45 Jerúsalem var sem óbyggð auðn,
ekkert barna hennar fór þar um.
Helgidómurinn var fótum troðinn,
útlendingar héldu virkinu
svo að það varð heiðingjum hæli.
Gleði var horfin Jakobi,
flauta og harpa þögnuð.
46Júdas og menn hans söfnuðust saman og héldu til Mispa, gegnt Jerúsalem, en Mispa hafði fyrr á tímum verið bænastaður Ísraelsmanna. 47Daginn þann föstuðu þeir, klæddust hærusekk, jusu ösku yfir höfuð sér og rifu klæði sín. 48Síðan luku þeir lögmálsbókinni upp til að finna það sem heiðingjarnir leita eftir hjá skurðgoðamyndum sínum. 49Þeir báru einnig skrúða prestanna fram, frumgróðann og tíundirnar og sóttu nasírea sem fullnað höfðu helgunardaga sína. 50Síðan hrópuðu þeir hárri röddu til himins: „Hvað eigum við að gera við þetta og hvert á að fara með þetta? 51Helgidómur þinn er fótum troðinn og svívirtur orðinn og prestar þínir hryggir og niðurlægðir. 52Og nú hafa heiðingjarnir sameinast gegn okkur til að uppræta okkur. Þú veist hvað þeir hafa í hyggju með okkur. 53Hvernig eigum við að standa í gegn þeim ef þú hjálpar okkur ekki?“ 54Síðan þeyttu þeir lúðra og hrópuðu hástöfum.
55Eftir þetta skipaði Júdas fyrirliða fyrir lið sitt. Stýrðu sumir þúsund, aðrir fimm hundruð, hundrað, fimmtíu eða tíu manna deildum. 56En eins og lögmálið kveður á um sendi hann þá heim til sín sem voru að reisa sér hús, höfðu fastnað sér konu eða plantað víngarð eða kenndu hræðslu.
57Þá yfirgaf herinn búðir sínar og kom sér fyrir að nýju fyrir sunnan Emmaus. 58Þar sagði Júdas: „Brynjið ykkur og hleypið kappi í kinn. Búist til að berjast í bítið á morgun við þessa heiðingja sem sameinast hafa móti okkur til að afmá okkur og helgidóm okkar. 59Betra mun okkur að falla í orrustu en að horfa upp á ógæfu þjóðar okkar og helgidómsins. 60En hver sem vilji himinsins er, það lætur hann verða.“

3.1 Júdas Makkabeus 1Makk 2.4
3.5 Hegndi með eldi þá sem þjökuðu 1Makk 5.5,44; 2Makk 8.33
3.18 Borið marga ofurliði 2Makk 8.19-20; 1Sam 14.6; sbr Dóm 7.2-8
3.22 Óttist þá ekki 1Makk 4.8; 2Makk 8.16; 5Mós 1.29; 3.22; 7.21; 31.6; Jós 1.9
3.24 Ofan einstigið við Bet Hóron Jós 10.10
3.37 Leið um upplöndin 1Makk 6.1; sbr 2Makk 9.23,25
3.38 Ptólemeus Dórýmenesson 2Makk 4.45 – Gorgías 2Makk 10.14
3.39 Fjörutíu þúsund 1Kro 19.18; sbr 2Makk 8.9
3.49 Nasírea 4Mós 6.1-21
3.55 Fyrirliða fyrir lið sitt 2Mós 18.21
3.56 Ákveðnir hermenn sendir heim 5Mós 20.5-9; Dóm 7.3

 

Fyrsta Makkabeabók 4

 

Orrustan við Emmaus

1Um nóttina fór Gorgías úr herbúðum sínum og hafði með sér fimm þúsund manns og eitt þúsund úrvalsriddara. 2Ætlaði hann að ráðast að óvörum á herbúðir Gyðinga og sigra þá. Menn úr virkinu sögðu honum til vegar. 3Júdas varð þessa áskynja og tók sig upp með úrvalslið sitt til að sigra þann her konungsins sem var í Emmaus 4meðan hluti hans var fjarri herbúðunum. 5Þegar Gorgías kom í herbúðir Júdasar um nóttina greip hann í tómt. Tók hann að leita manna Júdasar í fjöllunum því að hann taldi að þeir hefðu flúið undan sér þangað.
6Þegar dagaði birtist Júdas á sléttunni með þrjú þúsund manns. Ekki voru þeir svo búnir skjöldum og sverðum sem þeir vildu. 7Þeir sáu að her heiðingjanna var voldugur og vel vopnum búinn sem og riddaraliðið umhverfis hann, allt þjálfaðir bardagamenn. 8Þá sagði Júdas við menn sína: „Óttist ekki fjölda þeirra og hræðist ekki árás þeirra. 9Minnist þess hvernig feður okkar björguðust í Rauðahafinu þegar her faraós elti þá. 10Nú skulum við hrópa til himins að hann verði okkur náðugur og minnist sáttmálans við feður okkar. Mun hann þá eyða þessum her fyrir augum okkar í dag. 11Af því munu allir heiðingjar komast að raun um að sá er til sem frelsar og bjargar Ísrael.“
12Er óvinirnir sáu þá stefna gegn sér 13héldu þeir út úr herbúðunum til að berjast. Þá þeyttu menn Júdasar herlúðra 14og herjunum laust saman. Voru heiðingjarnir gjörsigraðir og flýðu út á sléttuna. 15Féllu þeir sem síðastir fóru allir fyrir sverði. Ísraelsmenn ráku flóttann til Geser og út á sléttur Ídúmeu, Asdód og Jabne og felldu um þrjár þúsundir óvinanna.
16Þegar Júdas og her hans sneru aftur frá eftirförinni 17sagði Júdas við fólkið: „Látið herfangið ekki freista ykkar um of því að enn eigum við orrustu fyrir höndum. 18Gorgías og her hans eru ekki langt undan í fjöllunum. Nú verðið þið að veita óvinum okkar mótspyrnu og berjast við þá. Síðan getið þið tekið af herfanginu án þess að óttast neitt.“
19Varla hafði Júdas sleppt orðinu þegar sást til flokks óvinanna hjá fjallinu. 20Við flokknum blasti að herinn var sigraður og að herbúðirnar höfðu verið lagðar eldi enda bar reykurinn því ljósan vott sem orðið var. 21Við þessa sýn urðu þeir mjög óttaslegnir og þegar þar við bættist að her Júdasar birtist fylktur til bardaga á sléttunni 22flýðu þeir allir til lands Filistea. 23Þá sneri Júdas aftur til að ræna herbúðirnar. Tók hann þar mikið gull og silfur, blá og rauð purpuraklæði og margt gersema. 24Sneru hann og liðsmenn hans síðan heim og sungu sálma og himninum lof eins og maklegt er því að miskunn hans varir að eilífu. 25Þennan dag hlaut Ísrael dásamlega frelsun.

Júdas sigrar Lýsías við Bet Súr

26Þeir útlendinganna sem af komust fóru til Lýsíasar og greindu honum frá öllu því sem gerst hafði. 27Brá honum mjög við tíðindin, sem honum féllu þungt, og það að ekki hafði farið svo fyrir Ísrael sem hann vildi og honum mistekist að framkvæma fyrirmæli konungs.
28Árið eftir kvaddi Lýsías til sextíu þúsund úrvalshermenn og fimm þúsund riddara til að leggja Ísrael að velli. 29Héldu þeir inn í Ídúmeu og slógu upp herbúðum við Bet Súr en Júdas hélt gegn þeim með tíu þúsund manns. 30Þegar hann sá hve voldugur herinn var baðst hann fyrir með þessum orðum: „Lofaður sért þú, frelsari Ísraels, sem gerðir árás risans að engu með hendi þjóns þíns, Davíðs, og gafst her Filistea á vald Jónatan, syni Sáls, og skjaldsveini hans. 31Gef þú nú her þennan lýð þínum, Ísrael, á vald svo að liðstyrkur óvinanna og riddarar þeirra verði til skammar. 32Lát þá missa móðinn, lama ofdirfsku þeirra svo að skjálfandi bíði þeir ósigur. 33Felldu þá með sverði þeirra sem unna þér svo að allir, sem þekkja nafn þitt, megi syngja þér lofsöng.“ 34Laust herjunum nú saman og féllu um fimm þúsund af herliði Lýsíasar fyrir árás Ísraelsmanna.
35Þegar Lýsías sá að flótti var brostinn í lið hans en liðsmönnum Júdasar jókst kjarkur og hve staðráðnir þeir voru í að lifa og deyja með sæmd hélt hann til baka til Antíokkíu. Réð hann síðan málaliða til að geta snúið aftur til Júdeu með enn öflugri her.

Hreinsun musterisins

36En Júdas og bræður hans sögðu: „Óvinir okkar eru sigraðir. Við skulum halda upp til Jerúsalem og hreinsa helgidóminn og vígja hann að nýju.“
37Allur herinn safnaðist saman og gekk upp á Síonfjall. 38Þar fundu þeir helgidóminn yfirgefinn og fórnaraltarið saurgað og hliðin brennd. Kjarr var vaxið upp í forgörðunum svo að þeir voru líkastir skóglendi eða fjalllendi og hliðarherbergi prestanna höfðu verið rifin. 39Menn Júdasar rifu klæði sín, kveinuðu harmi lostnir, jusu sig ösku 40og féllu til jarðar fram á ásjónur sínar. Síðan þeyttu þeir merkilúðrana og hrópuðu til himins.
41Þá bauð Júdas nokkrum manna sinna að herja á liðið í virkinu meðan hann hreinsaði helgidóminn. 42Hann valdi presta sem eigi höfðu látið flekkast og unnu lögmálinu. 43Hreinsuðu þeir helgidóminn og fluttu saurguðu steinana á óhreinan stað. 44Þeir ráðguðust um hvað gert skyldi við brennifórnaraltarið sem svívirt var. 45Hugkvæmdist þeim það heillaráð að rífa það svo að það minnti ekki framar á þá smán að heiðingjar höfðu saurgað það.
Þeir rifu því fórnaraltarið niður 46og komu steinunum fyrir á hentugum stað á musterisfjallinu þar til spámaður kæmi sem gæti svarað því hvað gert skyldi við þá. 47Tóku þeir síðan óhöggna steina eins og lögmálið segir til um og hlóðu nýtt altari sem var eins og hið fyrra. 48Helgidóminn endurbættu þeir að utan sem innan og vígðu forgarðana. 49Þeir gerðu ný helgiáhöld og báru ljósastikuna, reykelsisaltarið og borðið inn í musterið. 50Þeir brenndu síðan reykelsi á reykelsisaltarinu og tendruðu lampana á ljósastikunni svo að birti í musterinu. 51Þeir lögðu brauð á borðið og hengdu fortjaldið upp.
Þá var öllu lokið sem gera þurfti.
52Þeir fóru árla á fætur. Var það tuttugasta og fimmta dag níunda mánaðar, þ.e. kíslevmánaðar, árið eitt hundrað fjörutíu og átta.
[1]

Þ.e. um miðjan desember 164 f.Kr.

  53Báru prestarnir fram fórn samkvæmt lögmálinu á nýja brennifórnaraltarið sem þeir höfðu reist. 54Á sama tíma árs og á sama degi og heiðingjarnir svívirtu helgidóminn var hann endurvígður með söng og leik á hörpu, gígjur og bumbur. 55Og fólkið allt féll fram á ásjónu sína og tilbað og lofaði himininn sem hafði veitt því sigursæld.
56Vígslu fórnaraltarisins héldu menn hátíðlega í átta daga, báru brennifórnir fram fagnandi huga og færðu heillafórn og þakkarfórn. 57Þeir prýddu framhlið musterisins með gullsveigum og skjöldum, endurnýjuðu hliðin og hliðarherbergi prestanna og settu hurðir fyrir. 58Gífurlegur fögnuður ríkti meðal fólksins yfir að smánin, sem heiðingjarnir ollu, var afmáð.
59Ákvað Júdas og bræður hans og allur söfnuður Ísraels að árlega skyldi endurvígslu fórnaraltarisins minnst með hátíð og fögnuði og gleði í átta daga frá tuttugasta og fimmta degi kíslevmánaðar. 60Um þessar mundir reistu þeir háa múra með sterkum turnum umhverfis Síonfjall til að koma í veg fyrir að heiðingjarnir kæmu á ný og saurguðu svæðið eins og áður. 61Þar setti Júdas lið til varnar staðnum og víggirti einnig Bet Súr svo að þjóðin hefði þar virki gegnt Ídúmeu.

4.8 Óttist ekki 1Makk 3.22+
4.9 Björguðust í Rauða hafinu 2Mós 14
4.11 Allir heiðingjar komist að raun um Esk 36.36; 37.28; 38.23; 39.21
4.24 Eins og maklegt er ... 2Kro 20.21; Slm 118.1,29
4.30 Sigrar Davíðs 1Sam 17.23-54 – her Filistea á vald Jónatans 1Sam 14.1-23
4.36 Hreinsun og vígsla 2Makk 1.9,18; 2.16
4.38 Helgidómurinn yfirgefin 1Makk 1.39+ - hliðin brennd 2Makk 1.8
4.46 Spámaður kæmi 1Makk 14.41; Hlj 2.9; Slm 74.9; sbr 1Makk 9.27; Slm 77.9; Esk 7.26
4.47 Óhöggnir steinar 2Mós 20.25; 5Mós 27.6
4.49 Ljósastikuna 2Mós 25.31-39 – reykelsisaltarið 2Mós 30.1-10 – borðið 2Mós 25.23-30

 

 

 

   Fyrsta Makkabeabók 5

 

Bardagar við grannþjóðirnar

1Þegar íbúar nágrannaþjóðanna fréttu að fórnaraltarið hefði verið reist og helgidóminum komið í sitt fyrra horf urðu þeir afar reiðir. 2Afréðu þeir að afmá þá af Jakobs ætt sem bjuggu meðal þeirra og tóku að eyða þeim og myrða þá.
3Þá réðst Júdas á niðja Esaú í Akrabatenehéruðum Ídúmeu en þeir höfðu umkringt Ísrael. Veitti hann þeim miklar búsifjar, braut þá á bak aftur og tók mikið herfang.
4Síðan gerði Júdas upp sakir við niðja Bajans. Þeir höfðu bakað Ísraelsmönnum stöðug vandkvæði og hrellingar með því að ráðast að þeim á vegum úti. 5Hann settist um þá og lokaði þá inni í turnum sínum, helgaði þá banni, kveikti í turnum þeirra og fórust allir sem í þeim voru í logunum. 6Þá snerist hann gegn Ammónítum og komst að raun um að þeir höfðu miklum her og fjölmenni á að skipa sem Tímóteus stjórnaði. 7Júdas átti margar orrustur við Ammóníta en þeir fóru halloka fyrir honum og hafði hann sigur. 8Hann vann einnig Jaser og bæina sem lutu þeirri borg og sneri að svo búnu aftur til Júdeu.
9En heiðingjarnir í Gíleað sameinuðust um að afmá Ísraelsmenn sem bjuggu í landi þeirra. Flýðu Ísraelsmenn í Datemavirkið 10og sendu Júdasi og bræðrum hans svohljóðandi bréf:
„Heiðingjarnir hér í kring hafa sameinast um að eyða okkur. 11Þeir hafa búist til að koma hingað og taka virkið sem við flýðum til. Tímóteus fer fyrir her þeirra. 12Komdu og bjargaðu okkur undan þeim. Margir okkar eru fallnir. 13Allir bræður okkar, sem bjuggu á Tóbsvæðinu, voru drepnir, konur þeirra og börn hneppt í þrældóm og eigum þeirra rænt. Féllu þar um þúsund manns.“
14Meðan enn var verið að lesa bréfið komu aðrir sendiboðar frá Galíleu. Þeir höfðu rifið klæði sín og fluttu þessi boð:
15„Menn frá Ptólemais, Týrus og Sídon og lið heiðingja úr allri Galíleu hafa safnast gegn okkur og ætla þeir að gera út af við okkur.“ 16Þegar Júdas og fólkið heyrði þessar fregnir var efnt til fjölmenns fundar til að ráðgast um hvað hægt væri að gera fyrir nauðstadda bræður vegna árása heiðingja. 17Júdas sagði við Símon bróður sinn: „Veldu þér menn og farðu til Galíleu til að bjarga bræðrum þínum þar. Við Jónatan bróðir minn munum halda til Gíleaðs.“ 18Skildi hann Jósef Sakaríasson og Asarja eftir í Júdeu til að stjórna lýðnum og verja landið með því sem eftir var af hernum. 19„Veitið fólki þessu forystu,“ bauð Júdas þeim, „en leggið ekki til orrustu við heiðingjana fyrr en við komum aftur.“ 20Símon fékk þrjú þúsund manns til að fara með til Galíleu og Júdas átta þúsund gegn Gíleaðmönnum.
21Símon hélt til Galíleu og háði marga bardaga við heiðingjana. Þeir biðu ósigur fyrir honum 22og veitti hann þeim eftirför alla leið að borgarhliðum Ptólemais. Um þrjár þúsundir heiðingja féllu og tók Símon eigur þeirra að herfangi. 23Tók hann síðan landa sína í Galíleu og Arbatta ásamt konum þeirra og börnum og eigum með sér til Júdeu við mikinn fögnuð.
24En Júdas Makkabeus og Jónatan bróðir hans fóru yfir Jórdan og héldu þrjár dagleiðir inn í auðnina. 25Þar hittu þeir Nabatea sem tóku þeim vel og skýrðu þeim frá öllu sem hent hafði Ísraelsmenn í Gíleað. 26Kváðu þeir fjölda Ísraelsmanna vera innikróaða í Bosra og Bósor, Alema, Kasfór, Makeð og Karnaím. Eru það stórar og víggirtar borgir. 27Aðra sögðu þeir einnig innilukta í öðrum borgum Gíleaðs og að í ráði væri að gera árás á virkin og taka þau næsta dag og fella alla þessa menn á einum degi.
28Júdas sneri þegar við ásamt hernum og hélt eyðimerkurveginn til Bosra. Hann vann borgina, hjó alla karlmenn niður og tók allar eigur þeirra að herfangi. Síðan brenndi hann borgina. 29Um nóttina tók hann sig upp þaðan og hélt til virkisins. 30Þegar birti af degi sáu menn Júdasar ótölulegan aragrúa manna sem báru stiga og umsátursvélar að virkinu til að ráðast til uppgöngu og vinna það. 31Var Júdasi ljóst að orrustan var þegar hafin enda náði hávaðinn frá virkinu, lúðrablásturinn og öskrin til himins. 32Hann sagði við liðsmenn sína: „Berjist í dag fyrir bræður okkar.“ 33Hann réðst aftan að óvinunum með þrjár herfylkingar sem þeyttu lúðra og hrópuðu bænarorð. 34Þegar her Tímóteusar varð þess vísari að hér var Makkabeus á ferð flýði hann fyrir honum. Vann Júdas mikinn sigur á liði hans og felldi nær átta þúsund af óvinunum þann dag. 35Síðan sneri Júdas til Alema, gerði árás og vann borgina. Deyddi hann alla karlmenn í borginni, tók allt herfang og brenndi borgina. 36Þaðan fór hann og vann Kasfór, Makeð, Bósor og aðrar borgir í Gíleað.
37Eftir þessa atburði safnaði Tímóteus saman öðrum her og sló upp herbúðum gegnt Rafón handan árinnar. 38Júdas sendi menn til að njósna um herbúðir hans. Þeir færðu honum þessa fregn: „Allir heiðingjarnir umhverfis okkur hafa safnast að Tímóteusi. Er það gífurlegur herafli. 39Þá nýtur hann einnig stuðnings arabískra málaliða. Hefur liðið komið sér fyrir handan árinnar og er tilbúið til að halda gegn þér og leggja til orrustu.“
Fór Júdas þá á móti þeim. 40En er Júdas og her hans nálguðust ána sagði Tímóteus við foringja sína: „Ef Júdas verður fyrri til og kemur yfir til okkar, þá munum við ekki geta staðið í gegn honum og mun hann bera okkur ofurliði. 41En áræði hann það ekki og komi hernum fyrir handan árinnar, þá höldum við yfir um og sigrum hann.“
42Þegar svo Júdas kom að vatnsfallinu lét hann herkvaðningarforingjana koma sér fyrir á bakkanum og sagði: „Leyfið engum manni að halda hér kyrru fyrir. Allir verða að taka þátt í árásinni.“ 43Hélt hann síðan fyrstur manna yfir ána og allt liðið fylgdi honum. Biðu heiðingjarnir lægri hlut fyrir honum, fleygðu frá sér vopnum sínum og flýðu til hofsins í Karnaím. 44Ísraelsmenn unnu borgina, kveiktu í hofinu og brenndu alla sem í því voru. Þannig féll Karnaím og öll mótspyrna gegn Júdasi var brotin á bak aftur.
45Því næst safnaði Júdas saman öllum Ísraelsmönnum sem bjuggu í Gíleað, háum sem lágum, konum þeirra og börnum og eigum, til að leiða allan þennan mikla skara til Júdeu. 46Komu þeir til Efron. Var það stór borg og traustlega víggirt og lá leið þeirra um hana. Urðu þeir að komast um hana miðja því að ógjörningur var að fara fram hjá borginni öðrum hvorum megin.
47Borgarbúar lokuðu borginni fyrir þeim með því að hlaða grjóti í hliðin. 48Júdas kom friðsamlegum boðum til þeirra svo hljóðandi: „Leyfið okkur að fara um land ykkar til að komast til lands okkar. Ykkur verður ekkert mein gert. Við ætlum aðeins að fara fótgangandi í gegn.“ En borgarbúar vildu ekki opna fyrir honum. 49Þá lét Júdas þau boð berast um herinn að sérhver skyldi búast til árásar þar sem hann var staddur. 50Hermennirnir komu sér fyrir og gerðu árásir á borgina allan daginn og um nóttina uns borgin gekk í greipar þeim. 51Hjó Júdas alla karlmenn í borginni niður, reif hana til grunna og tók allt fémætt herfangi. Gekk hann síðan gegnum borgina ofan á líkum fallinna.
52Júdas og menn hans fóru yfir Jórdan og yfir á stóru sléttuna gegnt Bet Sean. 53Alla leiðina smalaði Júdas saman þeim sem drógust aftur úr og taldi kjark í lýðinn allt þar til komið var til Júdeu. 54Þá fóru Júdas og menn hans upp á Síonfjall með miklum fögnuði og gleði og færðu brennifórn af því að þeim hafði auðnast að snúa heim í friði og enginn þeirra hafði fallið.
55Um þær mundir er Júdas var með Jónatan í Gíleað og Símon bróðir hans í Galíleu gegnt Ptólemais 56fréttu herforingjarnir Jósef Sakaríasson og Asarja um dáðir þeirra og orrusturnar sem þeir háðu. 57Þeir sögðu: „Við skulum einnig afla okkur frægðar með því að ráðast á heiðingjana hér í kring.“ 58Þeir létu boð út ganga til hersveita sinna og héldu síðan gegn Jabne. 59En Gorgías og menn hans komu út úr borginni til að ráðast á þá. 60Jósef og Asarja voru hraktir á flótta og eltir að landamærum Júdeu. Þann dag féllu nær tvær þúsundir af liði Ísraelsmanna. 61Þjóðin beið þennan mikla ósigur af því að þessir tveir hlýddu Júdasi ekki og ætluðu að drýgja hetjudáð. 62Þeir voru ekki heldur ættingjar mannanna sem falið var á hendur að frelsa Ísrael.
63En kappinn Júdas og bræður hans hlutu mikla vegsemd af öllum í Ísrael og meðal allra heiðingja sem heyrðu frá þeim sagt. 64Flykktust menn að þeim til að hylla þá.
65Júdas hélt einnig með bræðrum sínum til að herja á niðja Esaú sem bjuggu í suðri. Vann hann Hebron og bæina sem lutu þeirri borg. Hann reif virkisveggina og kveikti í turnunum umhverfis borgina. 66Síðan tók hann sig upp og hélt til Filisteu og fór í gegnum Marísa. 67Þann dag féllu prestar í bardaga. Ætluðu þeir að sýna karlmennsku og lögðu án allrar fyrirhyggju út í bardaga. 68Júdas sneri hins vegar af leið sinni og til Asdód í Filisteu. Reif hann ölturu og brenndi skurðgoð þeirra og sneri aftur til Júdeu þegar hann hafði rænt borgirnar öllu herfangi.

5.40 Ef hann verður fyrri til ... sbr 1Makk 16.6; 1Sam 14.9-10
5.48 Fara um land 4Mós 20.17; 21.22
5.51 Hjó alla karlmenn niður 1Makk 5.28; Jós 6.21
5.61 Hlýddu Júdasi ekki sbr 5.18-19

 

Fyrsta Makkabeabók 6

 

Antíokkus Epífanes veikist og deyr

1Á ferð sinni um upplöndin frétti Antíokkus konungur af borg í Persíu, Elýmaís að nafni. Var hún orðlögð fyrir auð af gulli og silfri. 2Hofið þar var vellauðugt. Hafði Alexander konungur Filippusson frá Makedóníu, sem fyrstur ríkti yfir Grikkjum, skilið þar eftir gullna skildi, brynjur og vopn. 3Antíokkus hélt þangað og ætlaði að taka borgina og ræna hana. Það mistókst honum því að borgarbúar komust að ásetningi hans. 4Veittu þeir honum vopnaða mótspyrnu og flýði hann þungur í huga og ætlaði aftur til Babýlonar.
5Í Persíu bar sendiboði Antíokkusi þau boð að herir hans, sem héldu inn í Júdeu, hefðu beðið ósigur. 6Hefði Lýsías farið fyrstur þangað með öflugan her sem andstæðingarnir hrundu. Við það hefðu Gyðingar eflst mjög að vopnum, öðrum hergögnum og hvers kyns búnaði sem þeir tóku af hersveitunum sem þeir brytjuðu niður. 7Síðan hefðu þeir rifið niður viðurstyggðina sem konungur reisti á fórnaraltarinu í Jerúsalem og hlaðið háa múra kringum helgidóminn, eins og áður voru þar, og einnig umhverfis borg hans Bet Súr.
8Þegar konungur heyrði þessi tíðindi tók hann að skjálfa af geðshræringu. Lagðist hann í rúmið, yfirkominn af harmi yfir að hafa mistekist það sem hann ætlaði sér. 9Lá hann dögum saman því að hugarvíl sótti sífellt að nýju á hann og bjóst hann við dauða sínum. 10Kallaði hann alla vini sína til sín og sagði við þá: „Mér er varnað svefns og hjarta mitt er lamað af áhyggjum. 11Ég sagði við sjálfan mig: Hvers konar neyð og ógæfa er yfir mig komin? Ég var þó góður og elskaður valdhafi. 12En nú leita á hugann ódæðin sem ég drýgði í Jerúsalem þegar ég tók öll silfur- og gullkerin þaðan og sendi lið til að afmá íbúa Júdeu að tilefnislausu. 13Nú skil ég að það er vegna þessa sem ógæfan er yfir mig komin og að ég dey sorgbitinn mjög í framandi landi.“ 14Síðan kallaði hann á Filippus, einn vina sinna, og setti hann yfir allt ríki sitt. 15Fékk hann honum kórónu sína, skikkju og fingurgull. Átti hann að fóstra Antíokkus son hans og ala hann upp til að taka við konungdómi. 16Þarna dó Antíokkus konungur árið eitt hundrað fjörutíu og níu.
17Þegar Lýsías frétti lát konungs setti hann Antíokkus son hans jafnskjótt til valda í hans stað en Lýsías hafði fóstrað hann frá æsku. Gaf hann honum nafnið Evpator.

Umsátur um virkið í Jerúsalem

18Setuliðið í virkinu lokaði leiðum fyrir Ísraelsmönnum kringum helgidóminn. Leitaðist það stöðugt við að vinna þeim mein og styrkja heiðingjana. 19Afréð Júdas að afmá liðið og kallaði alla þjóðina saman til að hefja umsátur. 20Söfnuðust allir til umsáturs, smíðuðu skotpalla og umsátursvélar og settust um virkið. Var það árið eitt hundrað og fimmtíu.[1]

Þ.e. 163 eða 162 f.Kr.

  21En nokkrir hinna umsetnu sluppu út og gerðust sumir guðlausir Ísraelsmenn liðsmenn þeirra. 22Fóru þeir til konungs og sögðu: „Hve lengi hyggst þú draga að koma á rétti og hefna bræðra okkar? 23Við þjónuðum föður þínum af fúsu geði, fórum að fyrirmælum hans og hlýddum boðum hans. 24Þess vegna hafa landar okkar, sem sitja um virkið, snúið við okkur baki. Og ekki nóg með það. Þeir drepa hvern þann af okkur sem þeir ná og ræna eigum okkar. 25Og ekki beita þeir okkur eina ofbeldi heldur landið allt. 26Á þessari stundu sitja þeir um virkið í Jerúsalem til að taka það og hafa víggirt bæði helgidóminn og Bet Súr. 27Ef þú tekur ekki fram fyrir hendurnar á þeim, og það strax, þá munu þeir gera það sem meira er þessu og þú munt ekkert fá við þá ráðið.“

Herför Antíokkusar V til Júdeu

28Konungur reiddist er hann heyrði þetta. Kallaði hann saman alla þá vini sína sem voru foringjar í her hans og riddaraliði. 29Frá öðrum konungsríkjum og frá eyjunum í hafinu fékk hann málaher til liðs. 30Varð herafli hans eitt hundrað þúsund fótgönguliðar, tuttugu þúsund riddarar og þrjátíu og tveir fílar þjálfaðir til bardaga. 31Hélt herinn um Ídúmeu, settist um Bet Súr og herjaði á borgina dögum saman. Þeir smíðuðu umsátursvélar en hinir umsetnu gerðu útrás, kveiktu í þeim og vörðust hetjulega.
32Þá yfirgaf Júdas virkið í Jerúsalem, fór með her sinn til Bet Sakaría og kom honum fyrir gegnt herbúðum konungs. 33Snemma næsta morgun lét konungur her sinn taka sig upp og hélt með hann gunnreifan áleiðis til Bet Sakaría. Þar fylkti liðið sér til bardaga og þeytti herlúðra. 34Fílunum var sýndur lögur úr þrúgum og mórberjum til að gera þá bardagatryllta. 35Dýrunum var síðan skipt niður á fylkingarnar. Fylgdu hverjum fíl eitt þúsund menn búnir hringabrynjum og með koparhjálma á höfði og auk þess var fimm hundruð úrvalsriddurum skipað með hverju dýri. 36Þeir héldu sig þétt að dýri sínu fyrir bardagann. Gengi það fram gerðu þeir hið sama og viku ekki frá því. 37Hver fíll var brynvarinn og bar sterkan tréturn sem festur var með gjörðum á dýrið. Í hverjum turni voru fjórir hermenn sem þaðan börðust auk Indverjans sem stýrði. 38Hinir riddararnir voru settir beggja vegna við báða fylkingararma hersins og gátu ógnað óvinum í skjóli við fylkingarnar.
39Er sólin lýsti á gull- og eirslegna skildi vörpuðu þeir ljóma á fjöllin svo að þau skinu sem brennandi blys. 40Nokkur hluti konungshersins kom sér fyrir á háfjallinu og annar á sléttunni. Síðan sóttu þeir fram fast og skipulega. 41Sérhver, sem heyrði hróp þessa fjölda og traðk skarans og glamrið í vopnunum, hlaut að skjálfa, svo yfirtaks mikill sem þessi herafli var.
42Júdas lagði til atlögu með her sinn og felldi sex hundruð manns úr her konungs. 43Eleasar Avaran tók eftir að eitt dýranna bar af öllum öðrum og hafði konunglega brynju. Virtist honum sem þar færi konungurinn. 44Hann fórnaði lífi sínu til að bjarga þjóð sinni og geta sér eilífan orðstír. 45Hljóp hann djarflega að dýrinu inn í fylkinguna miðja, brytjaði óvini niður til hægri og vinstri svo að þeir hrukku til beggja handa. 46Hann smaug undir fílinn og lagði hann banasári í kviðinn. Féll fíllinn dauður ofan á Eleasar og beið hann þar bana.
47En er Ísraelsmönnum varð ljós liðstyrkur konungs og baráttuvilji hersins urðu þeir að hörfa undan.

Konungur hertekur Síonfjall

48Hermenn konungs héldu til Jerúsalem til að berjast við Jerúsalembúa. Reisti konungur herbúðir gegnt Júdeu og Síonfjalli. 49Hann samdi frið við íbúa Bet Súr. Fóru þeir úr borginni en þar var orðið fulllítið um vistir til að standast langt umsátur enda var hvíldarár. 50Hertók konungur Bet Súr og skildi þar eftir setulið til að gæta staðarins.
51Síðan settist hann um helgidóminn. Stóð umsátrið lengi. Reisti hann þar skotpalla og umsátursvélar, eldvörpur, grjótvörpur, örvaþeyta og valslöngvur. 52Hinir umsetnu smíðuðu einnig vígvélar gegn umsátursvélum óvinanna og stríðið dróst á langinn. 53Lítið var orðið um matvæli í búri musterisins þar sem þetta var sjöunda árið og þeir sem bjargað var frá heiðingjunum og komust til Júdeu höfðu lokið því sem eftir var af fyrningum. 54Svarf hungur svo mjög að mönnum að þeir tvístruðust hver til síns heima og voru einungis fáir eftir í helgidóminum.

Tilboð um frið og trúfrelsi

55Nú barst Lýsíasi til eyrna að Filippus, sem Antíokkus konungur hafði í lifanda lífi falið að ala son sinn Antíokkus upp til að taka við konungdómi, 56væri kominn aftur frá Persíu og Medíu með herlið það sem konungur hélt með austur. Hefði hann í hyggju að taka völdin. 57Ákvað Lýsías að létta þegar umsátrinu og hraða sér brott. Sagði hann við konung, liðsforingjana og menn sína: „Með hverjum degi sverfur meir að okkur og vistir eru á þrotum. Svo er virkið sem við sitjum um vel varið. Enn fremur er brýnt að huga að málefnum ríkisins. 58Ættum við því ekki að rétta mönnum þessum sáttarhönd og semja frið við þá og þjóð þeirra alla? 59Við skulum heimila þeim að fara eftir lögmálsreglum sínum eins og áður. Því að það var sakir þess að við felldum þær úr gildi sem þeir reiddust og aðhöfðust allt þetta.“
60Konungi og liðsforingjunum leist vel á þetta. Sendi konungur hinum umsetnu tilboð um frið og var því tekið. 61Konungurinn og liðsforingjarnir unnu þeim eiða að skilmálunum og samkvæmt þeim komu hinir umsetnu út úr virkinu. 62Gekk konungur síðan á Síonfjall. En þegar hann sá hve musterið var vel víggirt rauf hann eiðinn og lét rífa virkisvegginn umhverfis musterið. 63Hélt hann síðan á brott án frekari tafa og sneri aftur til Antíokkíu. Þar komst hann að raun um að Filippus hafði borgina á sínu valdi. Gerði hann skyndiárás á Filippus og vann borgina.

6.1 Upplöndin 1Makk 3.37+
6.7 Viðurstyggðin á altarinu Sír 1.54+
6.20 Umsátur um virki 1Makk 11.20; 12.36; 13.49

 

Fyrsta Makkabeabók 7

 

Demetríus I tekur við konungdómi

1Árið eitt hundrað fimmtíu og eitt fór Demetríus Selevkusson frá Róm og sté á land með nokkrum lagsmanna sinna í borg einni við hafið. Þar tók hann sér konungstign. 2Þegar hann svo var á leiðinni til konungshallar feðra sinna tóku liðssveitir hans þá Antíokkus og Lýsías höndum til að fara með þá til Demetríusar. 3Þegar honum var skýrt frá þessu sagði hann: „Ég kæri mig ekki um að sjá þá.“ 4Þá tóku hermennirnir þá af lífi en Demetríus settist í hásæti ríkis síns.
5Til hans komu allir lögmálslausir og guðlausir Ísraelsmenn. Fyrir þeim fór Alkímus sem stefndi að því að verða æðsti prestur. 6Þeir kærðu þjóð sína fyrir konunginum og sögðu: „Júdas og bræður hans hafa drepið alla vini þína og hrakið okkur úr landi okkar. 7Sendu nú einhvern sem þú treystir til að fara og sjá allt það tjón sem Júdas hefur bakað okkur og landi konungs. Lát þú hann refsa Júdasi og öllum sem veita honum lið.“

Bakkídes og Alkímus herja á Júdeu

8Konungur tilnefndi Bakkídes, sem var einn af vinum hans, mikils metinn maður í ríkinu og trúr konungi og landstjóri handan fljótsins. 9Sendi hann þennan mann ásamt hinum guðlausa Alkímusi, sem hann veitti æðstaprestsembættið, og gaf honum fyrirmæli um að refsa Ísraelsmönnum. 10Fóru þeir af stað og komu með mikinn her til Júdeu. Bakkídes sendi boðbera til Júdasar og bræðra hans með friðmæli en svik bjuggu undir. 11Þeim þóttu orð hans lítt traustvekjandi enda sáu þeir að Bakkídes var kominn með mikinn her.
12Hópur fræðimanna sameinaðist um að fara til Alkímusar og Bakkídesar og leita réttlátra skilmála. 13Voru Hasídear fyrstir Ísraelsmanna til að friðmælast við þá. 14Sögðu þeir sem svo: „Með hernum er kominn prestur af Arons ætt. Ekki mun hann vinna okkur mein.“ 15Alkímus lét líka friðarvilja í ljós við þá og lagði eið að: „Ekki munum við reyna að gera ykkur eða vinum ykkar illt,“ sagði hann.
16Þeir treystu honum en hann tók sextíu þeirra höndum og drap þá á einum og sama degi eins og segir í ritningunni:
17„Þeir úthelltu blóði þinna heilögu og dreifðu þeim umhverfis Jerúsalem og enginn var til að jarða þá.“
18Öll þjóðin óttaðist þá og varð gripin skelfingu. „Þeir vanvirða sannleika og réttlæti,“ var sagt, „því að þeir rufu bæði samninginn og eiðinn sem þeir sóru.“
19Bakkídes fór síðan frá Jerúsalem og setti herbúðir við Bet Said. Hann sendi menn til að handtaka marga af liðhlaupunum sem gengið höfðu honum á hönd og auk þess fjölda annarra landa þeirra. Slátraði hann þeim öllum og varpaði ofan í brunninn mikla. 20Bakkídes fól Alkímusi stjórn landsins, skildi eftir herlið honum til varnar og sneri aftur til konungsins.
21En Alkímus varð að berjast fyrir æðstaprestsembættinu. 22Að honum söfnuðust allir þeir sem hrellt höfðu þjóð sína. Brutu þeir Júdeu undir sig og urðu hin mesta plága í Ísrael.
23Júdas sá að öll sú ógæfa sem Alkímus og menn hans bökuðu Ísraelsmönnum tók þeirri fram sem heiðingjarnir höfðu valdið. 24Hélt hann af stað og fór víða um byggðir Júdeu. Kom hann fram hefndum á liðhlaupum og gerði þeim ókleift að fara frjálsir ferða sinna á landsbyggðinni. 25En þegar það rann upp fyrir Alkímusi að lið Júdasar efldist varð honum ljóst að hann gæti ekki staðist þá. Sneri hann aftur til konungs og bar menn Júdasar þungum sökum.

Níkanor í Jerúsalem

26Konungur sendi þá Níkanor, einn dáðasta herforingja sinn og hatramman fjandmann Ísraels, og fól honum að afmá þjóðina.
27Níkanor kom til Jerúsalem með mikið lið og sendi boð til Júdasar og bræðra hans og bauð frið þvert um hug sér. 28„Milli mín og ykkar skal enginn ófriður vera,“ sagði hann. „Þess vegna skal ég koma fáliðaður til fundar við ykkur svo að við getum ræðst við friðsamlega og augliti til auglitis.“ 29Kom hann til Júdasar og skiptust þeir vinsamlega á kveðjum en óvinirnir biðu tilbúnir að grípa Júdas. 30Júdas komst að því að Níkanor var kominn með sviksamlegum ásetningi. Varð hann óttasleginn og fékkst ekki framar til að hitta hann. 31Níkanor varð þá ljóst að komist hafði upp um ráðagerð hans og fór til að mæta Júdasi í bardaga við Kafar Salama. 32Féllu um fimm hundruð manns af liði Níkanors en hinir flýðu til borgar Davíðs.
33Eftir þessa atburði fór Níkanor upp á Síonfjall. Komu nokkrir af prestunum til móts við hann út úr helgidóminum og nokkrir öldunganna. Ætluðu þeir að heilsa Níkanor vinsamlega og sýna honum brennifórnina sem færð var konungi til heilla. 34En hann gerði gys að þeim, hæddi þá og saurgaði, talaði drambsamlega 35og sór í bræði: „Ef Júdas og her hans verður ekki seldur mér í hendur nú þegar, þá mun ég brenna þetta hús þegar ég kem aftur heill á húfi.“ Fór hann síðan hamslaus af bræði.
36Prestarnir gengu inn, tóku sér stöðu frammi fyrir fórnaraltarinu og musterinu og sögðu grátandi: 37„Þú útvaldir hús þetta til að bera nafn þitt og vera hús bæna og ákalls fyrir lýð þinn. 38Refsa þú manni þessum og her hans. Lát þá falla fyrir sverði. Minnstu guðlasts þeirra og gefðu þeim engin grið.“

Ósigur Níkanors

39En Níkanor fór frá Jerúsalem og setti herbúðir í Bet Horon þar sem sýrlenskur her kom til liðs við hann. 40Júdas setti herbúðir í Asada ásamt þrjú þúsund manna liði. Og Júdas bað þessarar bænar: 41„Einu sinni, þegar konungsmenn guðlöstuðu, fór engill þinn og deyddi hundrað áttatíu og fimm þúsund í her þeirra. 42Eyð þú her þessum á sama hátt í árás okkar í dag. Lát þá sem af komast skilja að það var óhæfa af Níkanor að smána helgidóm þinn með orðum og refsa honum eins og hann á skilið.“
43Herjunum laust saman þrettánda dag adarmánaðar og beið her Níkanors ósigur. Sjálfur féll hann fyrstur í orrustunni. 44Þegar liðsmenn hans sáu að Níkanor var fallinn fleygðu þeir vopnum sínum og flýðu. 45Menn Júdasar eltu þá eina dagleið frá Asada alla leið að Geser og þeyttu herlúðra á eftirförinni. 46Menn þustu þá út úr öllum þorpum Júdeu þar umhverfis og umkringdu flóttaliðið og hröktu það aftur í fangið á þeim sem veittu eftirför. Féll liðið allt fyrir sverði og enginn komst af.
47Ísraelsmenn tóku vopn og vistir óvinanna. Þeir hjuggu höfuðið af Níkanor og hægri höndina sem hann hafði lyft í ofurdrambi og fóru með hvort tveggja og hengdu upp fyrir utan Jerúsalem. 48Þjóðin gladdist stórum og hélt daginn hátíðlegan með miklum fögnuði. 49Var ákveðið að halda þennan dag hátíðlegan árlega þrettánda dag adarmánaðar.
50Ríkti nú friður í Júdeu skamma hríð.

7.10 Friðmælgi 1Makk 1.30+
7.17 Blóði hinna heilögu dreift Slm 79.2-3
7.19 Varpaði ofan í brunninn Jer 41.7
7.27 Bauð frið 1Makk 1.30+
7.33 Fórn færð konungi til heilla Esr 6.10
7.37 Drottinn útvelur hús 5Mós 12.5,11 – bera nafn Drottins og til ákalls 1Kon 8.43; sbr 1Kon 8.29 – hús bæna Jes 56.7; Matt 21.13
7.41 Engill Drottins deyðir óvinina 2Kon 19.35
7.47 Höfuð óvinanna hengt upp 2Makk 15.35; Júdt 14.1; sbr 1Sam 31.10

 

Fyrsta Makkabeabók 8

 

Sáttmáli við Rómverja

1Orðstír Rómverja barst Júdasi til eyrna. Var mikill herstyrkur þeirra rómaður og af því látið hve góðgjarnir þeir væru öllum bandamönnum sínum, þeir veittu sérhverjum nauðleitarmanni vináttu sína 2og að þeir hefðu mjög sterkan her. Var Júdasi skýrt frá styrjöldum þeirra og hetjudáðum í viðureigninni við Galla, sem þeir sigruðu og gerðu skattskylda sér, 3og frá öllum dáðum þeirra á Spáni, en þar náðu þeir silfur- og gullnámunum á sitt vald. 4Þótt land það væri æði fjarri heimkynnum Rómverja tókst þeim með ráðsnilld og þolgæði að leggja það allt undir sig. Þeir höfðu borið hærri hlut er konungar frá fjærstu heimshornum gerðu atlögu að þeim, gjörsigrað þá og bakað þeim mikið tjón. Þá sem af komust létu þeir gjalda sér árlegan skatt. 5Bæði Filippus og Persevs, konung Kitta, og alla aðra er lagt höfðu til atlögu við þá sigruðu þeir í orrustu og lögðu undir sig. 6Rómverjar höfðu jafnvel sigrað Antíokkus mikla Asíukonung sem hóf stríð gegn þeim með eitt hundrað og tuttugu fíla, riddaralið og vagna og gífurlegan her. 7Honum náðu þeir lifandi og skuldbundu bæði hann og eftirmenn hans á hásæti að gjalda sér mikinn skatt, afhenda sér gísla og láta af hendi við sig 8Indland, Medíu og Lýdíu og sum önnur auðugustu lönd sín. Þegar Antíokkus hafði selt þeim löndin í hendur gáfu Rómverjar Evmenesi konungi þau.
9Júdasi var einnig sagt frá því þegar Grikkir ákváðu að tortíma þeim. 10Rómverjar komust að þessu og sendu einn einasta hershöfðingja gegn þeim. Barðist hann við þá og féllu margir af Grikkjum sárir til ólífis. Voru bæði konur þeirra og börn tekin herfangi og eigum þeirra rænt og land þeirra lögðu Rómverjar undir sig. Rifu þeir virki landsins og gerðu íbúana þræla sína eins og þeir eru fram á þennan dag.
11Önnur þau ríki og eyjar sem einhvern tíma risu gegn Rómverjum léku þeir hart og gerðu ánauðug sér. 12En þeir reyndust traustir vinir vina sinna og þeirra sem leituðu aðstoðar þeirra. Þeir undirokuðu konunga nær og fjær og allir sem heyrðu þeirra getið fengu beyg af þeim. 13Ef Rómverjar vildu hjálpa einhverjum til ríkis þá settist sá að völdum. En þeir gátu líka steypt hverjum sem var. Þeir voru stórveldi.
14Þrátt fyrir þetta hafði enginn Rómverji látið krýna sig né heldur skrýðst purpura til að hreykja sér. 15En þeir höfðu komið sér upp þrjú hundruð og tuttugu manna ráði sem kom saman dag hvern til að ráðgast um almannahag og góða skipan mála þjóðarinnar. 16Á hverju ári fólu þeir einum manni stjórn ráðsins og landsins alls. Hlýða allir þessum eina því að hvorki gætir hjá þeim öfundar né metings.

Samningur við Róm

17Þá valdi Júdas Evpólemeus Jóhannesson Akkossonar og Jason Eleasarsson og sendi þá til Rómar til að gera við Rómverja samning um vináttu og stuðning 18til að létta okinu af þjóðinni enda sáu þeir að ríki Grikkja var að hneppa Ísrael í þrældóm. 19Þeir héldu til Rómar, en það er afar löng leið, gengu fyrir ráðið og ávörpuðu það: 20„Júdas, sem nefndur er Makkabeus, og bræður hans og alþjóð Gyðinga sendi okkur til ykkar til að gera við ykkur samning um bandalag og frið og til að fá okkur skráða bandamenn ykkar og vini.“
21Ráðið tók þessari málaleitan vel. 22Fer hér á eftir afrit af skjali því sem Rómverjar sendu til Jerúsalem til varðveislu til að staðfesta frið og bandalag. Var það skráð á eirtöflur.
23„Vel vegni Rómverjum og þjóð Gyðinga til sjós og lands um aldur og ævi. Sverð og óvinir séu þeim fjarri.
24En beri ófrið fyrr að höndum Rómar eða einhvers bandamanns Rómverja einhvers staðar í ríki þeirra, 25þá skal þjóð Gyðinga veita afdráttarlausan stuðning eftir því sem aðstæður krefja. 26Þeim sem halda í hernað skulu ekki fengnar vistir, vopn, fjármunir eða skip samkvæmt ákvörðun Rómar. Gyðingar skulu halda skilmálana án endurgjalds. 27Hið sama skal gilda ef ófrið ber fyrr að höndum þjóðar Gyðinga. Þá munu Rómverjar veita þeim afdráttarlausan stuðning eftir því sem aðstæður krefja. 28Þá hefur verið afráðið í Róm að óvinum Gyðinga skuli ekki fengnar vistir, vopn, fjármunir eða skip. Skilmálar þessir skulu haldnir svikalaust.
29Samkvæmt ofangreindum skilmálum hafa Rómverjar gert samning við Gyðingaþjóð. 30Ef samningsaðilar koma sér síðar saman um að bæta hér einhverju við eða nema eitthvað á brott skal það heimilt. Hvað svo sem við verður aukið eða brott numið skal gilda. 31Um rangindin sem Demetríus konungur beitir Gyðinga höfum við sent honum eftirfarandi bréf: Hví hefur þú þjakað vini okkar og bandamenn okkar Gyðinga svo mjög? 32Ef þeir bera sig oftar upp undan þér þá munum við reka réttar þeirra og herja á þig á sjó og landi.“

8.17 Evpólemeus 2Makk 4.11
8.22 Eirtöflur 1Makk 14.18,26,48

 

Fyrsta Makkabeabók 9

 

Júdas Makkabeus fellur

1Þegar Demetríus frétti að Níkanor væri fallinn í stríðinu ásamt liði sínu sendi hann Bakkídes og Alkímus öðru sinni til Júdeu og með þeim hægri fylkingararm hersins. 2Héldu þeir veginn til Gilgal, settust um Massalót í Arbela, unnu borgina og tóku fjölda manns af lífi. 3Í fyrsta mánuði ársins eitt hundrað fimmtíu og tvö slógu þeir síðan upp herbúðum við Jerúsalem. 4Þaðan tóku þeir sig upp og héldu til Beret með tuttugu þúsund fótgönguliða og tvö þúsund riddara. 5Júdas hafði sett upp herbúðir í Elasa og hafði þrjú þúsund manna einvalaliði á að skipa. 6En er menn hans sáu hve óvinaliðið var geysifjölmennt urðu þeir óttaslegnir og margir þeirra komu sér burt úr herbúðunum svo að eftir urðu aðeins átta hundruð manns.
7Þegar Júdas varð þess var að her hans var brott hlaupinn og ekki hjá bardaga komist missti hann móðinn því að enginn tími var til að safna liði. 8Vonsvikinn sagði hann við þá sem eftir voru: „Komum og förum gegn óvinum okkar. Hver veit nema við getum staðist þá í orrustu!“ 9Þeir reyndu að fá hann ofan af þessu og sögðu: „Það er með öllu ófært. Reynum heldur að bjarga lífinu. Síðar skulum við og bræður okkar snúa aftur og berjast við óvinina. Við erum allt of fáir.“ 10En Júdas svaraði: „Aldrei skal það verða að ég flýi undan þeim. Ef stund okkar er komin þá skulum við deyja hughraustir fyrir bræður okkar og ekki láta eftir flekk á mannorði okkar.“
11Óvinaherinn kom nú út úr herbúðunum og tók sér stöðu gegnt liði Júdasar. Riddurum óvinanna var skipt í tvær fylkingar og undan liðinu fóru menn með steinslöngvur og bogmenn. Í broddi fylkingar voru allir hraustustu hermennirnir. 12Bakkídes hélt sig í hægri fylkingararminum.
Með lúðraþyt sóttu fylkingar óvinanna fram úr tveimur áttum. Menn Júdasar þeyttu einnig lúðra sína. 13Jörðin skalf af hávaða þegar herjunum laust saman og stóð orrustan frá morgni til kvölds. 14Júdas tók eftir því að Bakkídes og kjarni hers hans var í hægra fylkingararmi. Söfnuðust þá allir til hans sem hugaðir voru 15og sigruðu Júdas og menn hans hægri fylkinguna og ráku flótta þeirra er hana skipuðu allt að Asotusfjalli. 16Þegar þeir sem voru í vinstri fylkingararmi sáu að hægri armurinn laut í lægra haldi sneru þeir við og héldu á hæla Júdasi og mönnum hans og réðust að þeim aftan frá. 17Harðnaði þá bardaginn og féllu margir sárir úr báðum liðum. 18Einnig féll Júdas og flýðu þá hinir.
19Jónatan og Símon tóku Júdas bróður sinn og jörðuðu hann í gröf feðra hans í Módein. 20Þeir grétu hann og allur Ísrael harmaði hann mjög, kveinaði og syrgði dögum saman og sagði:
21 Hvernig má hetjan vera fallin,
frelsari Ísraels?
22Það sem ósagt er um Júdas, stríð hans og hetjudáðir og stórfengleik er óskráð látið. Þar er af slíkum firnum að taka.

Jónatan tekur við af Júdasi

23Þegar Júdas var fallinn frá áræddu lögmálsbrjótar að sýna sig hvarvetna í byggðum Ísraels og öll handbendi ranglætisins að láta til sín taka. 24Um sömu mundir varð mikil hungursneyð og snerist þjóðin til fylgis við þá. 25Bakkídes valdi guðlausa menn og gerði þá að ráðamönnum í landinu. 26Þeir leituðu vini Júdasar uppi og færðu Bakkídesi þá og hann hegndi þeim og auðmýkti þá. 27Varð þvílík þrenging í Ísrael að ekki hafði önnur slík verið síðan spámaður birtist síðast hjá Ísraelsmönnum.
28Þá söfnuðust allir vinir Júdasar saman og sögðu við Jónatan: 29„Frá því Júdas bróðir þinn lést finnst enginn hans líki til að berjast gegn óvinunum og Bakkídesi og þeim löndum okkar sem sýna fjandskap. 30Þess vegna höfum við í dag kjörið þig foringja okkar í hans stað og leiðtoga í stríði okkar.“ 31Þann dag tók Jónatan forystu og kom í stað Júdasar bróður síns.

Orrustur Jónatans

32Bakkídes varð þessa vís og leitaði færis að deyða Jónatan. 33Að þessu komust Jónatan og Símon bróðir hans og allir liðsmenn þeirra. Flýðu þeir út í auðnina við Tekóa og settu herbúðir við Asfarvatnsbólin. 34Bakkídes frétti þetta á hvíldardegi og hélt með lið sitt yfir ána Jórdan.
35Jónatan hafði sent Jóhannes bróður sinn, sem var foringi þeirra sem ekki báru vopn, til vina sinna, Nabatea, til að biðja þá um að geyma farangur þeirra sem var mikill. 36En Jambrítar komu frá Medeba, gripu Jóhannes og allt sem hann var með og héldu burt með feng sinn.
37Nokkru eftir þessa atburði bárust Jónatan og Símoni bróður hans þau tíðindi að mikið brúðkaup stæði fyrir dyrum hjá Jambrítum. Færu þeir frá Nadabat með brúðina, sem var dóttir eins fremsta höfðingjans í Kanaan, og væri fylgdarliðið fjölmennt. 38Þeir höfðu ekki gleymt morði Jóhannesar bróður síns og fóru og földu sig í leyni við fjallið. 39Þegar þeir lituðust um komu þeir auga á háværan hóp manna sem hafði mikinn farangur meðferðis. Til móts við hann komu brúðguminn, vinir hans og bræður með bumbur, hljóðfæri og mikinn vopnabúnað. 40Jónatan og menn hans réðust á þá úr launsátrinu, vógu að þeim og féllu margir sárir. Þeir sem af komust flýðu til fjalls. Tóku þeir Jónatan allan farangur þeirra herfangi. 41Brúðkaupið breyttist í sorg og hljóðfæraleikurinn í harmakvein. 42En Jónatan og Símon höfðu grimmilega hefnt morðsins á bróður sínum, sneru aftur og héldu út á mýrarnar við Jórdan.

Orrustan við Jórdan

43Bakkídes frétti um þetta og kom á hvíldardegi með mikinn her að bökkum Jórdanar. 44Þá sagði Jónatan við menn sína: „Nú verðum við að berjast fyrir lífi okkar en aldrei hefur þunglegar horft. 45Við megum búast við árás bæði á bak og brjóst. Jórdan er á aðra hlið og á hina mýrar og kjarr. Því er hvergi undanfæri. 46Hrópið til himins á hjálp svo að við björgumst úr höndum óvina okkar.“
47Þegar orrustan hófst komst Jónatan í höggfæri við Bakkídes en hann hörfaði undan honum aftur fyrir lið sitt. 48Þá vörpuðu Jónatan og menn hans sér út í Jórdan og syntu yfir um. Óvinirnir komu ekki yfir fljótið á eftir þeim. 49Af liði Bakkídesar féllu um þúsund manns þann daginn.
50Bakkídes hélt aftur til Jerúsalem og lét reisa öflug virki í Júdeu: virki við Jeríkó, Emmaus, Bet Hóron, Betel, Tamnat, Faraton og Tefón. Voru þau búin háum múrum, hliðum og slagbröndum. 51Þar var komið fyrir setuliðum til að fjandskapast við Ísrael. 52Enn fremur víggirti hann borgirnar Bet Súr og Geser, kom fyrir herliði og vistum í þeim og styrkti virkið í Jerúsalem. 53Syni fremstu manna landsins tók hann í gíslingu og hneppti þá í varðhald í virkinu í Jerúsalem.
54Í öðrum mánuði árið eitt hundrað fimmtíu og þrjú
[1]

Þ.e. apríl/maí 159 f.Kr.

 fyrirskipaði Alkímus að rífa niður múrinn kringum innri forgarð musterisins. Var það verk spámanna sem hann vildi eyðileggja. En um leið og byrjað var að rífa 55fékk Alkímus slag sem batt enda á athafnir hans. Hann lamaðist, missti málið og gat upp frá því hvorki tjáð sig né ráðstafað eigum sínum. 56Áður en langt um leið dó Alkímus sárlega kvalinn.
57Þegar Bakkídes komst að því að Alkímus var látinn fór hann aftur til konungs. Naut Júdea þá friðar í tvö ár.

Bakkídes bíður ósigur og semur frið

58Allir hinir guðlausu tóku að ráða ráðum sínum. Sögðu þeir: „Jónatan og menn hans sitja nú í náðum og eru grandalausir. Sækjum nú Bakkídes svo að hann geti tekið þá alla á einni nóttu.“ 59Fóru þeir síðan og ráðguðust við Bakkídes. 60Hann lagði af stað með mikinn her. Sendi hann einnig bréf á laun til allra bandamanna sinna í Júdeu um að þeir ættu að taka Jónatan og menn hans höndum. En það tókst ekki því að uppvíst varð um ráðagerð þeirra. 61Menn Jónatans náðu um fimmtíu af þeim mönnum sem í landinu höfðu verið hvatamenn þessa ódæðis og tóku þá af lífi. 62Jónatan og menn hans og Símon fóru síðan til Bet Basi í auðninni. Endurreistu þeir það sem rifið hafði verið niður í bænum og víggirtu hann.
63Bakkídes komst að þessu. Safnaði hann öllu liði sínu og kom boðum til manna sinna í Júdeu. 64Kom hann síðan og settist um Bet Basi, herjaði á borgina dögum saman og kom upp umsátursvélum. 65En Jónatan skildi Símon bróður sinn eftir í borginni og fór sjálfur út í sveitina með fáeina menn. 66Hann felldi Ódómera og bræður hans og Fasínoríta í tjaldbúðum þeirra. Þegar Jónatan tók að vegna betur með liði sínu 67gerðu Símon og menn hans útrás úr borginni og lögðu eld í umsátursvélarnar. 68Þeir réðust á Bakkídes sem beið fullkominn ósigur fyrir þeim. Gengu þeir mjög hart að honum svo að ráðagerð hans og herför fór út um þúfur. 69Bakkídes varð ofsareiður guðleysingjunum sem höfðu ráðlagt honum að fara inn í landið, drap marga þeirra og afréð að halda aftur til síns heima.
70Er Jónatan frétti þetta sendi hann fulltrúa til Bakkídesar til að semja frið við hann og fá stríðsfanga afhenta.
71Bakkídes tók því vel og fór að tilmælum Jónatans. Hann lagði eið að því að hann mundi aldrei leitast við að gera honum neitt til miska svo lengi sem hann lifði. 72Afhenti Bakkídes Jónatan þá stríðsfanga sem hann hafði áður tekið í Júdeu. Fór hann síðan aftur til lands síns og sté aldrei framar fæti á landsvæði Gyðinga. 73Þannig linnti ófriði í Ísrael. Jónatan settist að í Mikmas, gerðist dómari þjóðarinnar og upprætti hina guðlausu úr Ísrael.

9.19 Jörðuðu í Módein 1Makk 2.70; 13.25
9.21 Hvernig má hetjan vera fallin? 2Sam 1.27
9.22 Það sem ósagt er um Júdas ... 1Makk 16.23; sbr 1Kon 11.41; 14.29; 15.31 o.s.frv. – af slíkum firnum að taka sbr Jóh 21.25
9.27 Ekki önnur eins þrenging síðan spámaður ... sbr 1Makk 4.46+
9.41 Hljóðfæraleikurinn breyttist í kvein Am 8.10
9.43 Hvíldardagur 1Makk 2.32+
9.57 Landið naut friðar 1Makk 1.3+
9.73 Linnti ófriði Jer 47.6; sbr 1Makk 9.57 – gerðist dóamri Dóm 3.10; 4.4 – upprætti hina guðlausu sbr 5Mós 13.6; 19.19; 21.22; 1Kor 5.13

 

Fyrsta Makkabeabók 10

 

Jónatan styrkir stöðu sína

1Árið eitt hundrað og sextíu[1]

Þ.e. 153 eða 152 f.Kr.

 kom Alexander, sonur Antíokkusar Epífanesar, og vann Ptólemais. Tóku íbúarnir honum vel og varð hann konungur þar. 2Demetríus konungur frétti þetta, safnaði gríðarmiklum her og hélt til bardaga gegn honum.
3Demetríus sendi Jónatan vinsamlegt bréf og skjallaði hann stórum. 4Enda hugsaði hann með sér: „Við verðum að hraða okkur til að semja frið við Jónatan og menn hans áður en hann gerir samning við Alexander gegn okkur. 5Hann mun líka minnast alls hins illa sem við leiddum yfir hann, bræður hans og þjóð.“ 6Gerði hann Jónatan að bandamanni sínum, veitti honum heimild til að safna liði og koma sér upp vopnabúri og kvaðst mundu afhenda honum gíslana sem voru í virkinu.
7Jónatan hélt til Jerúsalem og las bréfið í áheyrn alls lýðsins og setuliðsins í virkinu. 8Liðsmenn þess urðu skelfingu lostnir þegar þeir heyrðu að konungur hefði gefið honum heimild til að safna liði. 9Afhenti setuliðið í virkinu Jónatan gíslana en hann skilaði þeim til foreldra sinna.
10Jónatan settist að í Jerúsalem og tók að endurbæta borgina og byggja hana upp. 11Hann skipaði þeim sem unnu að því að reisa borgarmúrana og varnarmúrana umhverfis Síonfjall að hlaða þá úr tilhöggnu grjóti svo að þeir yrðu sterkari. Var það gert.
12Þá flýðu útlendingarnir sem voru í virkjunum sem Bakkídes hafði reist. 13Yfirgaf hver og einn varðstöð sína og hélt til síns eigin lands. 14Þó héldu sig í Bet Súr nokkrir þeirra sem höfðu gerst fráhverfir lögmálinu og boðorðunum. Var það griðastaður þeirra.

Alexander veitir Jónatan æðstaprestsembættið

15Alexander konungur frétti um fyrirheitin sem Demetríus hafði gefið Jónatan. Og er honum var sagt frá orrustum og hetjudáðum sem Jónatan og bræður hans höfðu drýgt og frá öllu því sem þeir höfðu mátt þola 16sagði hann: „Munum við nokkurn tíma finna jafningja þessa manns? Við skulum gera hann að vini okkar og bandamanni.“ 17Skrifaði hann og sendi Jónatan svohljóðandi bréf:
18„Alexander konungur sendir bróður sínum Jónatan kveðju. 19Vér höfum frétt að þú sért hinn mesti kappi og þess verður að vera vinur vor. 20Vér höfum því í dag skipað þig æðsta prest þjóðar þinnar og veitt þér að kallast vinur konungs. Ætlum vér þér að annast málefni vor og varðveita vináttu vora.“ Einnig sendi hann Jónatan purpuraskikkju og gullkórónu.
21Á laufskálahátíðinni í sjöunda mánuði árið eitt hundrað og sextíu
[2]

Þ.e. 152 f.Kr.

 skrýddist Jónatan hinum helga skrúða. Hann dró að sér lið og safnaði miklum hergögnum.

Jónatan styður Alexander Balas

22Demetríus frétti af þessum atburðum, varð dapur og sagði: 23„Hví létum við það henda að Alexander yrði fyrri okkur til að ávinna sér vináttu Gyðinga og stuðning? 24Ég ætla einnig að skrifa þeim og heita þeim vegtyllum og gjöfum svo að þeir veiti mér fulltingi.“ 25Hann sendi þeim svohljóðandi bréf:
„Demetríus konungur sendir þjóð Gyðinga kveðju. 26Það hefur glatt oss mjög að heyra að þið hafið haldið samninga við oss og reynst vináttu vorri trúir og ekki gengið til liðs við óvini vora. 27Haldið áfram að vera oss trúir. Vér munum launa ykkur vel fyrir það sem þið gerið í vora þágu, 28leysa ykkur undan ýmsum kvöðum og gefa ykkur gjafir að auki.
29Hér með leysi ég ykkur og alla Gyðinga undan nefskatti, salttolli og kórónugjaldi. 30Jafnframt leysi ég ykkur hér með og héðan í frá undan því að þurfa að greiða mér þriðjung af kornuppskerunni og helming af afrakstri ávaxtatrjánna. Mun ég eigi krefjast þessa framar í Júdeu né í þeim þrem héruðum Samaríu og Galíleu sem frá og með þessum degi og um allar aldir skulu lögð undir Júdeu. 31Jerúsalem lýsi ég heilaga borg og skal hún og landsvæði hennar vera skattfrjáls og laus við tíundir og tolla. 32Enn fremur afsala ég mér yfirráðum yfir virkinu í Jerúsalem og afhendi æðsta prestinum þau. Leyfist honum að setja hverja þá menn sem hann kýs til þess að verja virkið. 33Hverjum þeim Gyðingi sem hertekinn var í Júdeu gef ég frelsi án endurgjalds hvar sem þeir eru í ríki mínu. Engum er heimilt að leggja á þá gjöld né heimta skatt af búfé þeirra.
34Allar hátíðir, hvíldardaga, tunglkomudaga og aðra helgidaga og þrjá daga fyrir og eftir hverja hátíð skulu allir Gyðingar í ríki mínu vera lausir við gjaldkröfur og ekki skylt að greiða skuldir. 35Skal engum heimilt að krefja þá um skuldir eða eitthvað annað á þeim dögum.
36Þá skal skrá allt að þrjátíu þúsundum Gyðinga í her konungsins. Skal þeim greiddur sami máli og öðrum hermönnum konungs ber. 37Skulu sumir skipaðir setuliðar í stærstu virkjum konungs og öðrum falið að rækja trúnaðarstörf í þágu ríkisins. Yfirmenn þeirra og foringjar skulu vera úr þeirra hópi og vera trúir lögum þeirra eins og konungur hefur þegar fyrirskipað í Júdeu.
38Héruðin þrjú sem heyrðu Samaríu en lögð hafa verið undir Júdeu skulu tengd Júdeu svo náið að þar ríki ein stjórn og skulu þau engu öðru yfirvaldi lúta en æðsta prestinum. 39Ptólemais og landið sem henni heyrir færi ég helgidóminum í Jerúsalem að gjöf til að standa straum af nauðsynlegum útgjöldum helgidómsins. 40Enn fremur læt ég renna til hins sama fimmtán þúsund sikla silfurs af konungstekjum á ári hverju. Skal féð goldið á hentugum stöðum. 41Allar inneignir sem ráðamenn hafa ekki staðið skil á eins og vér gerðum á fyrri árum skulu héðan í frá renna til vinnu við musterið. 42Auk þessa gef ég eftir þá fimm þúsund sikla silfurs sem árlega hefur verið krafist af tekjum helgidómsins. Ber prestunum sem gegna helgiþjónustunni tilkall til þessa fjár. 43Hver sem flýr í helgidóminn í Jerúsalem eða inn á svæðið umhverfis vegna skulda við konungdæmið eða af einhverri annarri ástæðu skal grið hafa og allt sem hann á í ríki mínu. 44Af konungstekjum skal greiddur sá kostnaður sem til fellur vegna byggingar og endurbóta á helgidóminum. 45Enn fremur skal af konungstekjum greiða kostnað við að reisa múra og víggirðingar umhverfis Jerúsalem og einnig byggingu virkismúra í Júdeu.“

Demetríus I fellur

46Þegar Jónatan og lýðurinn heyrði þessi boð Demetríusar treystu þeir þeim hvorki né þáðu þau. Mönnum voru heldur ekki úr minni liðin hin miklu illvirki sem konungur hafði drýgt í Ísrael né hve mjög hann hafði þjakað þá. 47Þeir héldu sig frekar að Alexander, sem hafði verið fyrri til að bjóða þeim frið, og þeir urðu bandamenn hans til frambúðar.
48Alexander konungur safnaði miklu liði og bjóst til hernaðar við Demetríus. 49Laust herjum konunga saman. Her Demetríusar var stökkt á flótta. Alexander rak flóttann og yfirbugaði herinn. 50Var barist af grimmd fram undir sólarlag og féll Demetríus þann dag.

Alexander Balas kvænist dóttur Egyptalandskonungs

51Alexander sendi fulltrúa til Ptólemeusar, konungs Egypta, með svohljóðandi boð: 52„Ég er kominn aftur til ríkis míns og sestur í hásæti feðra minna. Ég hef tekið völdin í mínar hendur, sigrað Demetríus og lagt land vort undir mig. 53Ég háði orrustu við hann og beið hann og her hans ósigur fyrir oss svo að vér settumst í hásæti ríkis hans. 54Látum oss nú gera með oss vináttusamning. Gef mér dóttur þína að eiginkonu. Þá mægist ég þér og mun gefa þér og henni gjafir sem sæma tign þinni.“
55Ptólemeus konungur svaraði: „Það var heilladagur þegar þú snerir aftur til lands feðra þinna og settist í hásæti ríkis þeirra. 56Ég mun gera eins og þú baðst í bréfinu. En kom þú til móts við mig til Ptólemais svo að við getum hist og mun ég mægjast við þig eins og þú mæltist til.“
57Ptólemeus fór ásamt Kleópötru dóttur sinni frá Egyptalandi og komu þau til Ptólemais árið eitt hundrað sextíu og tvö.
[3]

Þ.e. 150 f.Kr.

  58Alexander konungur kom þar til móts við hann og gaf Ptólemeus honum Kleópötru dóttur sína og gerði brúðkaup hennar í Ptólemais með mikilli viðhöfn eins og gerist með konungum.
59Alexander konungur sendi Jónatan bréf og bauð honum til Ptólemais til fundar við sig. 60Jónatan fór með viðhöfn til Ptólemais og hitti konungana báða. Hann gaf þeim silfur og gull og vinum þeirra einnig margar gjafir og ávann sér velvild þeirra. 61En gegn honum sameinuðust skaðræðismenn frá Ísrael sem höfðu gerst fráhverfir lögmálinu. Rægðu þeir hann við Alexander konung en hann virti þá að vettugi. 62Bauð konungur að færa Jónatan úr klæðum hans og skrýða hann purpuraskikkju og var það gert. 63Lét konungur hann setjast sér við hlið og sagði við embættismenn sína: „Gangið með honum inn í borgina miðja og kunngjörið að enginn skuli ásaka hann um neitt og enginn valda honum nokkrum vandkvæðum í neinu.“ 64Þegar þessum andstæðingum Jónatans varð ljóst hvílík vegsemd honum var sýnd, heyrðu það sem kunngjört var og sáu hann búinn purpura flýðu þeir allir.
65Konungur heiðraði Jónatan á margan hátt, lét skrá hann meðal fremstu vina sinna og útnefndi hann hershöfðingja og landstjóra. 66Og Jónatan sneri aftur til Jerúsalem heill á húfi og fagnandi.

Jónatan sigrar Appollóníus

67Árið eitt hundrað sextíu og fimm[4]

Þ.e. 147 f.Kr.

 kom Demetríus Demetríusson frá Krít til lands feðra sinna. 68Þegar Alexander konungur frétti það varð honum mjög þungt í sinni og sneri aftur til Antíokkíu. 69Demetríus fól Appollóníusi, landstjóra á Norður-Sýrlandi, herstjórnina. Hann dró að sér mikinn her og setti herbúðir sínar hjá Jabne. Þaðan sendi hann Jónatan æðsta presti svohljóðandi bréf:
70„Þú ert eini maðurinn sem rís gegn oss. Ég er orðinn að athlægi og smánaður vegna þín. Hvers vegna býður þú oss birginn þarna uppi í fjöllunum? 71Hafir þú trú á liðstyrk þínum þá skaltu koma ofan á sléttlendið til vor en þar getum við reynt með oss. Allur herinn úr borgunum stendur með mér. 72Þú skalt spyrjast fyrir um hver ég sé og hverjir það séu sem veita oss fulltingi. Þér mun verða sagt að þú munir alls ekki standast oss snúning. Tvívegis voru feður þínir reknir á flótta í sínu eigin landi. 73Þú munt ekki heldur fá staðist riddaralið vort og þvílíkan her sem vér höfum hér á sléttunni, þar sem hvorki finnst steinn né vala eða nokkur staður til að flýja til.“
74Þegar Jónatan heyrði orð Appollóníusar varð honum heitt í hamsi. Kallaði hann tíu þúsund manns í herinn og hélt frá Jerúsalem og kom Símon bróðir hans til móts við hann með liðstyrk. 75Hann reisti herbúðir við Joppe en íbúarnir vörnuðu honum inngöngu enda hafði Appollóníus setulið í borginni. Þegar þeir síðan gerðu árás á borgina 76urðu borgarbúar óttaslegnir, opnuðu borgina og Jónatan náði Joppe á sitt vald.
77Þetta frétti Appollóníus og fylkti hann þrjú þúsund riddurum og miklu fótgönguliði. Hélt hann í áttina að Asdód, líkt og hann ætti þar leið um, en hélt í sömu svipan út á sléttlendið því að hann hafði fjölda riddara og reiddi sig á þá. 78Jónatan veitti honum eftirför til Asdód og laust herjunum saman. 79En Appollóníus hafði skilið þúsund riddara eftir í leyni að baki Gyðingunum. 80Þegar það rann upp fyrir Jónatan að þeir voru að baki honum var her hans þegar umkringdur óvinum sem létu örvahríð dynja á liðinu frá morgni til kvölds. 81Að fyrirmælum Jónatans hopaði liðið hvergi og tóku hestar óvinanna að lýjast. 82Þá leiddi Símon lið sitt fram og réðst á fylkingu fótgönguliðsins en riddaraliðið var nú örmagna. Yfirbugaði hann það og hrakti á flótta 83en riddaraliðið dreifðist um sléttuna. Þeir sem flýðu héldu til Asdód og leituðu griða í hofi goðs síns, Dagóns. 84En Jónatan brenndi Asdód og borgirnar umhverfis og rændi þær herfangi. Einnig brenndi hann hof Dagóns og alla sem þar höfðu leitað griða. 85Þeir sem féllu fyrir sverði, auk hinna sem brenndir voru til bana, voru nær átta þúsund manns.
86Þaðan hélt Jónatan og reisti herbúðir við Askalon. Borgarbúar komu út úr borginni og tóku á móti honum með mikilli viðhöfn. 87Síðan sneru Jónatan og menn hans aftur til Jerúsalem með mikið herfang.
88Þegar Alexander konungur spurði þessi tíðindi veitti hann Jónatan enn meiri sæmd. 89Sendi hann honum gullsylgju eins og siður er að gefa ættmennum konunga. Að auki gaf hann Jónatan Ekron til eignar og allt land sem henni heyrði.

10.6 Gíslar í virkinu v.9; 9.53
10.12 Virkjunum sem Bakkídes hafi reist 1Makk 9.50-52
10.44 Konungstekjum v. 45; Esr 6.4
10.72 Tvívegis reknir á flótta 1Makk 5.55-62; 9.1-22; sbr 1Sam 4.2-10; 31.1-13

 

Fyrsta Makkabeabók 11

 

Konungur Egypta svíkur Alexander

1Konungur Egyptalands safnaði að sér miklum flota og slíkum aragrúa herliðs að það var sem sandur á sjávarströnd. Ætlaði hann að ná ríki Alexanders undir sig með brögðum og auka því við ríki sitt. 2Hélt hann til Sýrlands með friðmælum. Íbúar borganna luku þeim upp fyrir honum og tóku honum vel enda hafði Alexander konungur mælt svo fyrir þar sem hér var tengdafaðir hans á ferð. 3En Ptólemeus skildi setulið eftir í hverri borg sem hann kom við í.
4Þegar hann hafði náð til Asdód voru honum sýndar brunarústir Dagónhofsins og hvernig herinn hafði eytt Asdód og bæjunum umhverfis. Honum voru sýnd líkin sem lágu á dreif. Einnig var líkamsleifum þeirra sem brenndir voru inni í stríðinu staflað upp við veginn sem konungur fór um. 5Til að sverta Jónatan var konungi skýrt frá því sem hann hafði gert en konungur þagði við.
6Jónatan fór með viðhöfn til Joppe til fundar við konung. Þeir skiptust á kveðjum og tóku síðan á sig náðir. 7Jónatan fylgdi konungi síðan allt að fljóti því sem kallast Elevterus en hvarf síðan aftur til Jerúsalem.
8Ptólemeus konungur náði yfirráðum í borgunum við ströndina allt að Selevkíu við hafið og bruggaði Alexander illt. 9Hann sendi fulltrúa til Demetríusar konungs með þessi boð: „Kom þú. Við skulum gera með okkur sáttmála. Ég skal gefa þér dóttur mína sem Alexander á og þú skalt verða konungur í ríki föður þíns. 10Mig iðrar þess að hafa gefið Alexander hana því að hann hefur setið um líf mitt.“
11Með þeim hætti sverti hann Alexander vegna þess að hann girntist ríki hans. 12Tók hann dóttur sína frá honum og gaf hana Demetríusi og varð ekki aðeins fráhverfur Alexander heldur varð fjandskapur millum þeirra á allra vitorði.
13Ptólemeus hélt síðan innreið sína í Antíokkíu og tók sér kórónu Asíu. Bar hann nú tvær kórónur, Egyptalands og Asíu.

Alexander Balas felldur

14Alexander konungur var í Kilíkíu um þessar mundir vegna þess að íbúar þar höfðu risið gegn honum. 15Þegar honum bárust fregnir af þessum atburðum fór hann með her sinn gegn Ptólemeusi. Hann hélt með mikinn herstyrk móti Alexander og hafði sigur. 16Flýði Alexander til Arabíu og leitaði þar hælis en Ptólemeus var sigri hrósandi. 17En Arabinn Sabdíel hjó höfuðið af Alexander og sendi það til Ptólemeusar.
18Þrem dögum síðar dó Ptólemeus sjálfur. Drápu þá íbúar víggirtu borganna setuliðin þar. 19Varð Demetríus þá konungur árið eitt hundrað sextíu og sjö.
[1]

Þ.e. 147 f.Kr.

 

Jónatan vinnur hylli Demetríusar II

20Um þetta leyti safnaði Jónatan Gyðingum til að ráðast á virkið í Jerúsalem og ná því á sitt vald. Reistu þeir margar umsátursvélar við það. 21En nokkrir guðlausir menn, sem hötuðu þjóð sína, fóru til konungs og sögðu honum að Jónatan sæti um virkið. 22Varð Demetríus reiður við og jafnskjótt og honum bárust þessi tíðindi bjó hann sig til farar og hélt til Ptólemais. Skrifaði hann Jónatan, bauð honum að létta umsátrinu og koma sem skjótast til Ptólemais til fundar við sig og viðræðna. 23Þegar Jónatan heyrði þetta skipaði hann að umsátrinu skyldi haldið áfram. Hann kaus sér fylgdarlið úr hópi öldunga Ísraels og prestanna og gaf sig hættunni á vald. 24Tók hann með sér silfur, gull og klæði og fjölda annarra gjafa, kom til konungs í Ptólemais og ávann sér velvild hans. 25En nokkrir guðlausir landar hans níddu hann við konung. 26Þó kom konungur fram við Jónatan eins og fyrirrennarar hans höfðu gert og auðsýndi honum virðingu í augsýn allra vina sinna. 27Hann staðfesti æðstaprestdóm Jónatans og öll hans fyrri metorð önnur og ákvað að hann skyldi fylla hóp fremstu vina sinna.
28Jónatan bað konung um að lýsa Júdeu, héruðin þrjú og Samaríu skattfrjáls. Hét hann konungi þrjú hundruð talentum í staðinn. 29Konungur féllst á þetta. Gaf hann Jónatan skriflega staðfestingu á því sem er á þessa leið:
30„Demetríus konungur sendir bróður sínum Jónatan og Gyðingaþjóðinni kveðju. 31Afrit af bréfi því sem vér rituðum Lastenesi frænda vorum um mál ykkar sendum vér ykkur hér með til kynningar: 32Demetríus konungur sendir Lastenesi föður sínum kveðju. 33Vér höfum afráðið að launa þjóð Gyðinga fyrir velvild í vorn garð en hún hefur reynst vinur vor og staðið við allar skuldbindingar við oss. 34Vér staðfestum hér með yfirráð Gyðinga á landsvæði Júdeu og héruðunum þremur, Aferema, Lyddu og Ramataím, sem hafa verið lögð undir Júdeu frá Samaríu ásamt öllu sem þeim fylgir. Öllum sem færa fórnir í Jerúsalem skal gefinn eftir skattur af korni og ávöxtum sem konungur gerði áður kröfu til árlega. 35Sama skal gilda um allar tekjur aðrar sem vér eigum framvegis rétt á af tíundum og tollum sem oss ber, einnig salttoll og kórónuskatt. Allt þetta skal þeim eftirgefið. 36Ekkert þessara ákvæða má afturkalla og skulu þau gilda frá og með deginum í dag og um alla framtíð. 37Nú ber ykkur að sjá um að taka afrit af bréfi þessu og fá Jónatan það. Skal því komið fyrir á áberandi stað á fjallinu helga.“

Jónatan hjálpar Demetríusi II

38Demetríus konungur sá að kyrrð var komin á í landi hans og engin andspyrna var gegn honum. Hann lét þá allan herafla sinn frá sér fara og hélt hver til síns heima að frátöldu útlenda herliðinu sem hann hafði dregið að sér frá eyjum heiðingjanna. Það setti alla hermennina sem verið höfðu í þjónustu fyrirrennara hans upp á móti honum.
39Einn þeirra sem verið höfðu í þjónustu Alexanders var Trýfon. Hann sá að allar hersveitirnar gerðu kurr gegn Demetríusi. Fór hann þá til Arabans Jamlíku sem fóstraði Antíokkus, barnungan son Alexanders. 40Hann lagði hart að honum að fá drenginn afhentan til að hann yrði konungur í stað föður síns. Greindi hann Jamlíku frá öllum ráðstöfunum Demetríusar og fjandskap hersveitanna í hans garð. Dvaldist Trýfon þar langa hríð.
41Jónatan sendi boð til Demetríusar konungs og bað hann að reka setuliðið úr virkinu í Jerúsalem og öðrum virkjum því að þau ólu stöðugt á ófriði við Ísraelsmenn. 42Demetríus sendi Jónatan svohljóðandi svar: „Ekki skal ég gera þetta eitt fyrir þig og þjóð þína heldur skal ég einnig auðsýna þér og þjóð þinni hina mestu sæmd fái ég tækifæri til. 43En vel gerðir þú ef þú sendir mér hermenn til liðveislu því að allar hersveitir mínar hafa brugðist mér.“
44Jónatan sendi þrjú þúsund vaska hermenn til konungs í Antíokkíu. Varð Demetríus feginn komu þeirra. 45En nær eitt hundrað og tuttugu þúsundir borgarbúa söfnuðust í miðborginni og ætluðu að taka konung af lífi. 46Konungur flýði inn í höllina en borgarbúar náðu aðalgötum borgarinnar á sitt vald og hófu áhlaup. 47Konungur kallaði á Gyðingana til hjálpar og þyrptust þeir allir til hans. Dreifðu þeir sér síðan um borgina og felldu þann daginn um eitt hundrað þúsund manns. 48Þeir kveiktu einnig í borginni, tóku mikið herfang þá um daginn og björguðu konungi. 49Þegar íbúarnir sáu að Gyðingar höfðu náð yfirtökum og gátu farið sínu fram í borginni féllst þeim hugur, þeir hrópuðu til konungs og báðu: 50„Sæstu við okkur og láttu Gyðingana hætta að herja á okkur og borgina.“ 51Þeir vörpuðu frá sér vopnum sínum og friður var saminn.
Gyðingar uxu stórum í áliti hjá konungi. Jókst hróður þeirra mjög og orðstír þeirra barst um ríki konungs. Sneru þeir aftur til Jerúsalem og höfðu með sér mikið herfang. 52Demetríus settist í hásæti ríkis síns og var allt með kyrrum kjörum í landi hans. 53En hann sveik öll sín loforð og gerðist fráhverfur Jónatan. Endurgalt hann honum í engu þá velvild sem Jónatan hafði auðsýnt honum heldur þrengdi mjög að honum.

Jónatan styður Antíokkus VI

54Nokkru síðar kom Trýfon aftur með snáðann Antíokkus. Tók Antíokkus við konungdómi og var krýndur. 55Söfnuðust um hann allar hersveitirnar sem Demetríus hafði hrakið frá sér. Þær réðust á Demetríus sem beið ósigur og flýði. 56Trýfon tók fílana og náði Antíokkíu á sitt vald.
57Antíokkus ungi skrifaði Jónatan sem hér segir: „Ég staðfesti æðstaprestdóm þinn og yfirráð yfir héruðunum fjórum og að þú sért einn af vinum konungs.“ 58Hann sendi Jónatan borðbúnað úr gulli og heimilaði honum að drekka úr gullbikar, klæðast purpura og bera gullsylgju. 59Símon, bróður Jónatans, gerði Antíokkus að hershöfðingja á svæðinu frá Týrusarstiga að landamærum Egyptalands.
60Jónatan tók sig upp og fór um landið handan fljóts og borgirnar þar og allar hersveitir Sýrlands söfnuðust að honum til að veita honum lið. Þegar hann kom til Askalon tóku íbúarnir á móti honum með viðhöfn. 61Þaðan fór Jónatan til Gasa en borgarbúar meinuðu honum aðgang að borginni. Settist hann um Gasa, brenndi borgirnar umhverfis hana og rændi þær. 62Leituðu borgarbúar þá eftir friði við Jónatan og varð hann við óskum þeirra. En hann tók syni fremstu manna borgarinnar í gíslingu og sendi þá til Jerúsalem. Hann fór síðan um landið alla leið til Damaskus. 63Þá barst honum til eyrna að hershöfðingjar Demetríusar væru komnir til Kades í Galíleu með mikinn her til að stemma stigu við fyrirætlunum hans. 64Fór Jónatan á móti þeim en skildi Símon bróður sinn eftir í Júdeu. 65Símon setti upp herbúðir gegnt Bet Súr, umkringdi borgina og herjaði á hana langa hríð. 66Borgarbúar leituðu eftir friði við hann sem Jónatan féllst á en hrakti þá úr borginni, tók sjálfur völdin og kom þar fyrir setuliði.
67Jónatan og her hans sló upp herbúðum við Genesaretvatnið og hélt árla morguns út á Asórsléttuna. 68Kom þá meginherstyrkur útlendinganna gegn honum út á sléttuna og réðst að honum en nokkrum hluta hersins höfðu útlendingarnir komið fyrir í fjöllunum að baki liði Jónatans. 69Þegar það lið kom fram úr leyni sínu og réðst á þá 70flýðu allir menn Jónatans. Enginn þeirra varð um kyrrt nema herforingjarnir Mattatías Absalonsson og Júdas Kalfeisson. 71Þá reif Jónatan klæði sín, jós mold yfir höfuð sér og baðst fyrir. 72Síðan lagði hann til orrustu við óvinina og rak þá á flótta. 73Þegar flóttamennirnir úr liði hans sáu þetta komu þeir aftur til hans og tóku þátt í eftirförinni að herbúðum óvinanna við Kades. Þar reistu þeir sjálfir herbúðir. 74Daginn þann féllu um þrjú þúsund manns af liði útlendinganna. Jónatan sneri síðan aftur til Jerúsalem.

11.2 Friðmæli 1Makk 1.30+
11.20 Ráðast á virkið 1Makk 6.20+
11.27 Staðfesti æðstaprestdóm sbr 1Makk 10.20
11.38 Kyrrð í landinu 1Makk 1.3+
11.41 Reka setuliðið úr virkinu sbr 1Makk 6.20+
11.70 Abasalon 1Makk 13.11; 2Makk 11.17

 

Fyrsta Makkabeabók 12

 

Bandalag við Rómverja og Spartverja

1Jónatan sá nú að aðstæður höfðu þróast honum í vil. Valdi hann menn til farar til Rómar til að staðfesta og endurnýja vináttusamning við Rómverja. 2Sömuleiðis sendi hann bréf sama efnis til Spörtu og annarra þjóða. 3Sendimennirnir komu til Rómar, gengu fyrir ráðið og ávörpuðu það: „Jónatan æðsti prestur og Gyðingaþjóðin senda okkur til að endurnýja fyrri samning okkar um vináttu og bandalag.“ 4Rómverjar fengu þeim bréf sem áminnti yfirvöld hvers staðar um að greiða götu þeirra heim til Gyðingalands.
5Hér fer á eftir afrit af bréfi Jónatans til Spartverja. 6„Jónatan æðsti prestur, öldungaráð þjóðarinnar, prestarnir og öll Gyðingaþjóð sendir bræðrum sínum, Spartverjum, kveðju. 7Fyrir löngu sendi Aríus, þáverandi konungur ykkar, Óníasi æðsta presti bréf um að þið séuð bræður okkar eins og meðfylgjandi afrit þess sýnir. 8Ónías tók sendiboðanum með kostum og kynjum og einnig bréfunum sem kváðu á um bandalag og vináttu. 9Vissulega þörfnumst við slíks ekki því að við höfum hjástoð hinna helgu bóka sem við eigum. 10Samt sendum við ykkur þetta bréf til endurnýjunar bræðralags og vináttu við ykkur svo að við verðum ykkur eigi framandi en langt er um liðið síðan okkur barst sending ykkar. 11Aldrei látum við undir höfuð leggjast að minnast ykkar hvert sinn er við færum fórn og í bænum okkar, jafnt á hátíðum sem við önnur tækifæri, eins og bæði er skylt og rétt að minnast bræðra sinna. 12Við fögnum yfir frægð ykkar. 13Ýmsir örðugleikar hafa steðjað að okkur úr öllum áttum, og margt stríðið, og konungarnir í grannríkjunum hafa herjað á okkur. 14Ekki vildum við þó ómaka ykkur né aðra bandamenn okkar og vini í þessum styrjöldum 15því að við höfum hjálp á himni sem veitir okkur fulltingi og hefur frelsað okkur frá óvinum okkar og komið þeim á kné.
16Nú höfum við kjörið Númeníus Antíokkusson og Antípater Jasonarson til farar til Rómverja til að endurnýja fyrri vináttu og bandalag við þá. 17Við höfum einnig falið þeim að fara til ykkar og bera ykkur kveðju okkar og afhenda ykkur þetta bréf um endurnýjun á bræðralagi okkar. 18Vel gerið þið ef þið sendið okkur svar við þessu.“
19Afrit af bréfinu sem Ónías fékk er svohljóðandi: 20„Aríus, konungur Spartverja, sendir Óníasi æðsta presti kveðju. 21Í riti einu um Spartverja og Gyðinga er frá því greint að þeir séu bræður enda hvorir tveggja af ætt Abrahams. 22Þar sem vér höfum komist að þessu gerðuð þið vel að skrifa oss um hagi ykkar. 23Vér munum svo svara bréfi ykkar. Búsmali ykkar og eigur eru vorar og allt vort er ykkar og gefum vér fyrirmæli um að þetta verði kunngjört ykkur.“

Herferðir Jónatans og Símonar

24Jónatan frétti að hershöfðingjar Demetríusar væru komnir aftur með enn meiri herafla en áður til að ráðast á hann. 25Vildi hann ekki gefa þeim tóm til að komast inn í land sitt og fór því frá Jerúsalem og bjó sig til atlögu gegn þeim í Hamathéraði. 26Hann sendi njósnara í herbúðir þeirra og komu þeir aftur með þær njósnir að óvinurinn væri að búa sig undir árás á þá um nóttina. 27Við sólsetur skipaði Jónatan mönnum sínum að vaka og vera undir vopnum og albúnir til bardaga alla nóttina. Setti hann einnig varðmenn umhverfis herbúðirnar.
28Andstæðingar Jónatans fréttu að hann og menn hans væru búnir til bardaga. Olli það þeim ótta og skelfingu. Kveiktu þeir bál í herbúðunum og héldu á brott. 29Jónatan og menn hans urðu einskis vísari fyrr en í morgunsárið sakir eldbjarmans sem þeir sáu. 30Þeir veittu óvinunum eftirför en náðu þeim ekki þar sem þeir komust yfir Elevterusfljót. 31Jónatan sneri þá gegn Aröbum, sem kallast Sabadear, sigraði þá og rændi herfangi. 32Tók hann sig upp þaðan, hélt til Damaskus og fór um landið allt.
33Símon fór einnig herför um landið til Askalon og til víggirtu borganna þar í grennd. Sneri hann síðan til Joppe og tók hana herskildi 34enda hafði hann fregnað að ætlunin væri að afhenda mönnum Demetríusar virkið. Hann setti setulið þar til að gæta virkisins.
35Þegar Jónatan kom heim kallaði hann öldunga lýðsins saman og ákvað í samráði við þá að reisa virki í Júdeu. 36Einnig var afráðið að hækka múra Jerúsalem og hlaða háan múr milli virkisins og borgarinnar til að skilja það frá borginni svo að virkið einangraðist og setuliðið gæti hvorki selt neitt né keypt.
37Menn dreif að til byggingarstarfa, en nokkur hluti múrsins við árfarveginn að austanverðu var hruninn, og einnig gerði hann við hið svokallaða Kafenata. 38Símon byggði einnig upp bæinn Hadíd í Sefela, víggirti hann og bjó hann hliðum með slagbröndum.

Trýfon tekur Jónatan til fanga

39Trýfon sat um líf Antíokkusar konungs því að sjálfur vildi hann ná völdum í Asíu og verða krýndur konungur. 40Var hann ekki ugglaus um að Jónatan mundi standa í vegi fyrir fyrirætlunum þeirra og halda með her gegn sér. Trýfon leitaði því ráða til að ná Jónatan og ryðja honum úr vegi og hélt til Bet Sean. 41Jónatan fór í móti honum með fjörutíu þúsund úrvals bardagamenn og kom til Bet Sean. 42Þegar Trýfon sá að Jónatan kom svo liðsterkur þorði hann ekki að leggja til atlögu gegn honum. 43Þess í stað tók hann veglega á móti Jónatan, kynnti hann fyrir öllum vinum sínum og gaf honum gjafir. Bauð hann vinum sínum og herliði að hlýða Jónatan eins og sjálfum sér.
44Við Jónatan sagði hann: „Hví hefur þú lagt erfiði á allt þetta lið úr því að enginn ófriður er okkar í milli? 45Sendu það til síns heima og veldu þér fáeina að fylgisveinum. Komdu síðan með mér til Ptólemais. Þá skal ég afhenda þér borgina og að auki hinar víggirtu borgirnar og hersveitirnar sem eftir eru og alla embættismenn. Síðan mun ég fara og halda heimleiðis enda hingað kominn þessara erinda.“
46Jónatan lagði trúnað á orð hans og gerði svo sem hann sagði. Hann lét liðið fara, og hélt það til Júdeu, 47en hafði þrjú þúsund manns hjá sér. Tvö þúsund þeirra skildi hann eftir í Galíleu en þúsund fóru með honum.
48Þegar Jónatan kom inn í Ptólemais lokuðu borgarbúar hliðunum, gripu hann og hjuggu niður alla sem með honum voru. 49Trýfon sendi síðan herlið og riddara til Galíleu og út á sléttuna miklu til að gera út af við menn Jónatans. 50Þegar mönnum Jónatans varð ljóst að hann hafði verið gripinn og farist með mönnum sínum, stöppuðu þeir stálinu hver í annan og sóttu fram fylktu liði, albúnir til orrustu. 51Hinum, sem þá ofsóttu, skildist þá að þeir mundu berjast fyrir lífi sínu og sneru aftur. 52Menn Jónatans komust því allir heilir á húfi til Júdeu og hörmuðu Jónatan og liðsmenn hans. Einnig voru þeir óttaslegnir mjög og allur Ísrael var harmi lostinn.
53Allar þjóðirnar umhverfis gripu tækifærið og reyndu að tortíma Ísraelsmönnum og sögðu sem svo: „Þeir hafa hvorki fyrirliða né neinn sem hjálpar. Við skulum ráðast á þá og afmá minningu þeirra meðal manna.“

12.1 Bandalag við Rómverja sbr 1Makk 8.17-32
12.6 Bræðrum sínum v. 21; 2Makk 5.9; sbr 1Makk 14.40
12.16 Númeníus og Antípater 1Makk 14.22; 15.15 – Jason 1Makk 8.17
12.21 Bræður v.6+
12.36 Hækka múra 1Makk 10.11; sbr 6.62 – virkið einagraðist 1Makk 6.20+

 

Fyrsta Makkabeabók 13

 

Símon gerist leiðtogi Gyðinga

1Símon frétti að Trýfon hafði safnað miklu liði til farar gegn Júdeu til að leggja landið í auðn. 2Þar sem hann sá einnig að þjóðin var hrædd og óttaslegin fór hann upp til Jerúsalem og stefndi lýðnum saman. 3Hann mælti hughreystingarorð og sagði: „Þið vitið sjálfir um allt sem ég, bræður mínir og öll mín föðurætt hefur gert í þágu lögmálsins og helgidómsins. Þið vitið um stríðin og þrengingarnar sem við höfum þolað. 4Sökum þessa létu allir bræður mínir lífið fyrir Ísrael og er ég sá eini sem eftir er. 5En fjarri sé mér að reyna að sleppa við lífsháska hvenær svo sem þrengir að. Ekki er mér vandara um en bræðrum mínum. 6Ég skal hefna þjóðar minnar, helgidóms, kvenna ykkar og barna, engu síður en þeir, en allir heiðingjarnir hata okkur og hafa sameinast um að útrýma okkur.“
7Við ræðu þessa svall þjóðinni móður að nýju 8og fólkið svaraði hástöfum: „Þú ert foringi okkar í stað Júdasar og Jónatans bróður þíns. 9Þú skalt heyja orrustur okkar en við munum breyta í öllu eins og þú býður!“
10Þá safnaði Símon öllum vopnfærum mönnum og hraðaði sér að ljúka við múra Jerúsalem svo að borgin var rammlega varin á allar hliðar. 11Hann sendi Jónatan Absalonsson einnig til Joppe með mikið herlið. Rak Jónatan íbúana úr borginni og settist þar sjálfur að.

Jónatan líflátinn

12Trýfon fór frá Ptólemais með mikinn her til að ráðast inn í Júdeu. Hafði hann Jónatan með sér í böndum. 13Símon kom her sínum fyrir við Hadíd í útjaðri sléttunnar. 14Þegar Trýfon varð þess vísari að Símon væri tekinn við af bróður sínum og væri í þann veginn að leggja til orrustu við sig sendi hann fulltrúa til hans með þessi boð: 15„Við höfum Jónatan bróður þinn í haldi vegna fjár sem hann skuldar konungssjóði fyrir embætti sem hann hefur haft á hendi. 16Við skulum láta hann lausan ef þú sendir eitt hundrað talentur silfurs og tvo syni hans að gíslum svo að Jónatan rísi ekki gegn okkur þegar honum verður sleppt.“
17Símoni var ljóst að hugur fylgdi ekki máli en lét samt sækja féð og sveinana til að vekja ekki úlfúð í sinn garð með þjóðinni 18sem kynni að segja: „Því var Jónatan deyddur að Símon sendi hvorki féð né drengina.“ 19Hann sendi drengina og talenturnar hundrað en Trýfon gekk á heit sín og lét Jónatan ekki lausan.
20Eftir þetta kom Trýfon til að ráðast inn í landið og leggja það í auðn. Tók hann á sig krók og fór veginn til Adóra en Símon og her hans kom honum í opna skjöldu hvert sem hann fór.
21Setuliðið í virkinu í Jerúsalem sendi fulltrúa til Trýfons til að fá hann til að koma sem skjótast til sín yfir auðnina og færa sér vistir. 22Trýfon bjó allt riddaralið sitt til farar en um nóttina kyngdi niður snjó svo að þeir komust hvergi sökum ófærðar. Hélt hann þess í stað til Gíleaðs. 23Í nánd við Baskama lét hann taka Jónatan af lífi og var hann grafinn þar. 24Sneri Trýfon síðan aftur og fór til heimalands síns.

Minnismerkið í Módein

25Símon sendi menn til að sækja bein Jónatans bróður síns og lagði þau til hvíldar í Módein, borg feðra hans. 26Allur Ísrael söng harmljóð mikil eftir hann og syrgði hann langa hríð.
27Yfir legstað föður síns og bræðra reisti Símon háan bauta sem sást víða að. Var slípaður steinn bæði bak og fyrir á minnismerkinu. 28Lét hann og reisa sjö pýramída hvern gegnt öðrum til minningar um föður sinn, móður og fjóra bræður. 29Þá kom hann upp umbúnaði umhverfis pýramídana. Voru þar miklar súlur og á þeim lágmyndir af vopnabúnaði til ævarandi minningar um sigursæld þeirra. Til hliðar við myndirnar af vopnabúnaðinum voru myndir af skipum, öllum sæfarendum til augnayndis. 30Legstað þennan lét hann reisa í Módein og stendur hann enn í dag.

Símon leiðir Júdeu til sigurs

31Trýfon beitti hinn unga konung, Antíokkus, svikum og lét deyða hann. 32Tók hann við völdum og var krýndur konungur Asíu og olli miklu böli í landinu.
33En Símon byggði upp virki Júdeu og kom háum turnum fyrir á rammbyggðum múrum með hliðum sem voru búin slagbröndum og lét koma fyrir vistum í virkjunum. 34Símon valdi síðan nokkra menn til að ganga á fund Demetríusar konungs og leita eftirgjafar á álögum á landið því að aðgerðir Trýfons voru rán ein. 35Demetríus konungur svaraði honum með svohljóðandi bréfi:
36„Demetríus konungur sendir Símoni, æðsta presti og vini konunga, öldungaráðinu og Gyðingaþjóð kveðju. 37Gullsveiginn og pálmakvistinn, sem þið senduð, höfum vér fengið og erum tilbúnir til að semja endanlegan frið við ykkur og gefa embættismönnum vorum skrifleg fyrirmæli um skattaívilnanir ykkur til handa. 38Allt sem vér sömdum um áður skal vera í gildi og virkin sem þið reistuð skulu ykkar eign. 39Enn fremur veitum vér ykkur uppgjöf allra yfirsjóna og saka til þessa dags. Þið þurfið ekki hér eftir að inna af hendi greiðslu á neinu sem krafist hefur verið í Jerúsalem og sömuleiðis skal það sem þið skuldið af kórónuskattinum fellt niður. 40Ef einhverjir ykkar eru til þess hæfir að skrá sig í lífvörð vorn þá skulu þeir skrásettir og megi friður ríkja millum vor.“
41Árið eitt hundrað og sjötíu
[1]

Þ.e. 142 f.Kr.

 var oki heiðingja létt af Ísrael. 42Tóku Ísraelsmenn þá að rita í bréf og samninga: „Á fyrsta ári Símonar, hins mikla æðsta prests, hershöfðingja og foringja Ísraels.“

Símon tekur Geser og virkið í Jerúsalem

43Um þessar mundir settist Símon um Geser og umkringdi her hans borgina. Hann lét smíða áhlaupsturn, sem ekið var að borginni, ráðast að einum virkisturnanna og var hann tekinn. 44Stukku þeir sem í áhlaupsturninum voru inn í borgina og varð þar mikið öngþveiti. 45Borgarbúar, konur þeirra og börn klifu upp á borgarmúrana, rifu klæði sín og hrópuðu hástöfum til Símonar bænir um grið. 46„Breyt þú ekki við okkur eins og við eigum skilið fyrir illskuna,“ hrópuðu þeir, „heldur eins og miskunnsemi þín býður!“ 47Símon varð við óskum þeirra og hætti að herja á borgina. En hann rak íbúana úr bænum og hreinsaði hús þau sem skurðgoðamyndir fundust í. Hélt hann síðan inn í borgina með sálmasöng og lofgjörð. 48Allt sem óhreint var hrakti hann úr borginni og byggði hana mönnum sem trúir voru lögmálinu. Hann víggirti Geser og byggði sér þar bústað.
49Setuliði virkisins í Jerúsalem var með öllu varnað þess að komast út á land til að kaupa og selja. Svarf sultur að og létust nokkrir af setuliðinu úr hungri. 50Liðið ákallaði Símon um grið og varð hann við því, rak liðið úr virkinu og hreinsaði það af saurgun. 51Símon hélt inn í virkið tuttugasta og þriðja daginn í öðrum mánuði árið eitt hundrað sjötíu og eitt við fagnandi þakkargjörð. Menn báru pálmagreinar og leikið var á hörpur, bumbur og gígjur undir sálmasöng og lofsöngvum, enda var mikill óvinur hrakinn frá Ísrael. 52Símon skipaði svo fyrir að þessa dags skyldi árlega minnst með fögnuði. Hann styrkti víggirðingarnar á musterisfjallinu við virkið og settist þar að með fjölskyldu sinni. 53Þar sem hann sá að Jóhannes sonur hans hafði náð fullum þroska gerði Símon hann foringja alls hersins. Bjó Jóhannes í Geser.

13.4 Sá eini sem eftir er 1Kon 19.10,14; Róm 11.3
13.8 Þú ert foringi vor sbr 1Makk 9.30
13.25 Gröfin í Módein 1Makk 2.70; 9.19 – borg feðra hans 1Makk 2.1
13.38 Allt sem vér sömdum 1Makk 11.29-37; sbr 15.5
13.39 Engin greiðsla í Jerúsalem 1Makk 10.31
13.49 Með öllu varnað 1Makk 12.36; sbr 6.20+
13.51 Leikið og sungið 1Kro 15.16,28; 2Kro 5.13

 

Fyrsta Makkabeabók 14

 

Parþar taka Demetríus II til fanga

1Árið eitt hundrað sjötíu og tvö[1]

Þ.e. 140 f.Kr.

 safnaði Demetríus konungur liði sínu og hélt til Medíu til að afla sér liðstyrks til hernaðar gegn Trýfoni. 2En þegar Arsakes, konungur Persa og Medíu, hafði spurnir af því að Demetríus væri kominn í land sitt sendi Arsakes einn hershöfðingja sinna til að ná honum lifandi á sitt vald. 3Hershöfðinginn fór þegar og sigraði her Demetríusar, tók hann höndum og fór með hann til Arsakesar sem setti hann í fangelsi.

Lofgjörð um Símon

4Í landinu varð friður um daga Símonar.
Hann vann að heill þjóðar sinnar.
Vald hans og tign var henni til gleði
svo lengi sem hann lifði.
5 Auk allra annarra dáða vann hann Joppe
sem varð hafnarborg og opnaði leið til eyja hafsins.
6 Hann færði út landamæri þjóðar sinnar
og styrkti völd sín í landi.
7 Hann leiddi fjöld herfanga heim,
náði völdum í Geser og Bet Súr
og virkinu í Jerúsalem.
Þaðan hrakti hann allt óhreint,
enginn reis gegn honum.
8 Menn gátu ræktað land sitt í friði,
jörðin gaf af sér
og tré merkurinnar báru ávexti.
9 Öldungar sátu á strætum úti,
skeggræddu hagfelldar tíðir,
en æskumenn klæddust veglegum herskrúða.
10 Símon birgði borgirnar upp,
bjó þær máttugum vopnum til varnar
svo að orðstír hans barst til endimarka jarðar.
11 Hann kom á friði í landi
og mikill fögnuður ríkti í Ísrael.
12 Sérhver sat undir vínvið sínum eða fíkjutré
og stóð ekki beygur af neinum.
13 Enginn réðst lengur að þeim í landinu,
á þeim dögum var vald konunga brotið á bak aftur.
14 Hann var stoð bágstöddum meðal þjóðar sinnar.
Ritningarnar rannsakaði Símon
og afmáði alla sem níddu lögmálið og voru illir.
15 Hann jók vegsemd helgidómsins
og fjölgaði helgum áhöldum hans.

Bandalag við Rómverja og Spartverja endurnýjað

16Tíðindin um dauða Jónatans bárust til Rómar og Spörtu og vöktu þau mikla hryggð. 17Þegar Rómverjar heyrðu að Símon bróðir hans væri tekinn við æðstaprestsembættinu og hefði borgir og land á valdi sínu 18rituðu þeir honum bréf á eirtöflur til að endurnýja þá vináttu og bandalag sem þeir áður gerðu við Júdas og Jónatan, bræður hans. 19Var bréf þeirra lesið upp fyrir söfnuðinn í Jerúsalem. 20Hér fer á eftir afrit af bréfinu sem Spartverjar sendu:
„Leiðtogar Spartverja og borgarbúar senda Símoni æðsta presti kveðju, sem og öldungum, prestum og allri Gyðingaþjóð sem er bræður okkar. 21Sendimenn þeir sem þið senduð til þjóðar okkar hafa greint okkur frá vegsemd ykkar og heiðri og gladdi heimsókn þeirra okkur. 22Erindi þeirra höfum við skráð í þjóðarsamþykktirnar sem hér segir:
Númeníus Antíokkusson og Antípater Jasonarson, fulltrúar Gyðinga, eru komnir til okkar til að endurnýja vináttu við okkur. 23Ákvað þjóðin að taka veglega á móti þeim, skrá orð þeirra og koma afriti fyrir í ríkisskjalasafni svo að Spartverjar eigi þau til minja.
Afrit af skjalinu er hér með sent Símoni æðsta presti.“
24Síðan sendi Símon Númeníus til Rómar með stóran gullskjöld sem vó eitt þúsund mínur til að staðfesta bandalagið við þá.

Þjóðin launar Símoni

25Þegar þetta barst landslýð til eyrna sagði hver við annan: „Hvernig eigum við að sýna Símoni og sonum hans þakklæti okkar? 26Hann og bræður hans og fjölskylda föður hans hafa sýnt staðfestu og hrundið óvinum Ísraels af höndum og tryggt þjóðinni frelsi.“ Var áletrun gerð á eirskjöld sem komið var fyrir á súlum á Síonfjalli. 27Hér fylgir afrit af því sem þar var skráð:
„Átjánda dag elúlmánaðar árið eitt hundrað sjötíu og tvö,
[2]

Þ.e. miður september 140 f.Kr.

 það er þriðja stjórnarár Símonar æðsta prests og saramels, 28var okkur kunngjört eftirfarandi á mikilli samkomu presta, þjóðar og leiðtoga landsins:
29Oft hefur landið verið hrjáð af styrjöldum en Símon Mattatíasson af ætt Jójaríbs og bræður hans hafa stefnt lífi sínu í hættu með því að veita andstæðingum þjóðar sinnar mótspyrnu til að tryggja að helgidómur hennar og lögmál fengi haldist. Þeir hafa aukið hróður þjóðar sinnar stórum. 30Jónatan sameinaði þjóð þeirra og varð æðsti prestur hennar. Þegar hann safnaðist til feðra sinna 31ætluðu óvinir þjóðarinnar að ráðast inn í landið til að eyða því og spilla helgidóminum. 32Þá gekk Símon fram fyrir skjöldu og barðist fyrir þjóð sína. Hann varði miklu af eigum sínum til að búa hermenn þjóðar sinnar vopnum og gjalda þeim mála. 33Víggirti hann borgir Júdeu, einkum Bet Súr við landamæri Júdeu þar sem vopnabúr óvina var áður. Þar kom hann fyrir setuliði Gyðinga. 34Einnig víggirti hann Joppe við hafið og Geser sem liggur að byggðum Asdód. Í þeim borgum bjuggu fyrr meir óvinir en Símon byggði þær Gyðingum og sá þeim fyrir öllu sem þeir þurftu til viðurværis. 35Þegar þjóðin sá trúfesti Símonar og það sem hann vildi vinna henni til vegsemdar gerði þjóðin hann að leiðtoga sínum og æðsta presti í þakkar skyni fyrir allt sem hann hafði unnið henni vel og fyrir að hafa ætíð sýnt henni réttlæti og trúfesti. Í öllu hafði hann leitast við að hefja þjóð sína til vegs.
36Á dögum hans og undir stjórn hans auðnaðist að hrekja heiðingjana úr landi, einnig þá sem héldu til í Davíðsborg í Jerúsalem. Þeir höfðu gert sér virki og gerðu iðulega úthlaup þaðan, saurguðu allt umhverfi helgidómsins og spilltu hreinleik hans mjög. 37Kom Símon Gyðingum fyrir í virkinu, víggirti það til verndar landi og borg og hækkaði múra Jerúsalem. 38Sökum þessa staðfesti Demetríus konungur æðstaprestdóm Símonar, 39gerði hann að vini konungs og veitti honum mikla vegsemd. 40Enda hafði hann líka frétt að Rómverjar veittu sendimönnum Símonar veglegar móttökur og lýstu Gyðinga vini sína, bræður og bandamenn.
41Af þessum ástæðum hafa Gyðingar og prestarnir ákveðið að Símon skuli vera leiðtogi og æðsti prestur til frambúðar, allt þar til sannur spámaður kemur fram. 42Skal hann og vera hershöfðingi þeirra og ala önn fyrir helgidóminum og skal hann og hafa vald til að setja menn yfir störf í almannaþágu, landið, vopnin og virkin. 43Hann skal bera ábyrgð á helgidóminum og allir skulu hlýða honum. Allir samningar í landinu skulu miðaðir við stjórnartíð hans. Hann skal bera purpurakyrtil og gullmen. 44Engum af landslýð, hvorki lærðum né leikum, er heimilt að fella neitt þessara ákvæða úr gildi eða mæla móti neinu sem Símon hefur sagt. Hvorki er neinum heimilt að stefna fólki saman nokkurs staðar í landinu án hans leyfis né að klæðast purpura eða bera gullsylgju. 45Sérhverjum skal hegnt sem brýtur gegn einhverju þessara ákvæða eða fellir eitthvert þeirra úr gildi. 46Allur landslýður hefur samþykkt að veita Símoni þau réttindi sem að ofan greinir. 47Símon hefur fallist á ákvörðun þessa og að gegna embætti æðsta prests, hershöfðingja og þjóðhöfðingja Gyðinga og prestanna og stýra öllum málum þeirra.
48Ákveðið var að þessi ákvæði skyldu rituð á eirspjöld og þau hengd upp á áberandi stað á musterissvæðinu. 49Afrit skal leggja í fjárhirsluna, Símoni og sonum hans til eignar.“

14.4 Í landinu var friður 1Makk 1.3+
14.5 Vann Joppe 1Makk 13.33; 14.34
14.7 Leiddi herfanga sbr 1Makk 3.9 – náði völdum í Geser og virkinu 1Makk 13.43-48,49-53; 14.34,36-37 – og Bet Súr 1Makk 11.65-66; 14.33
14.8 Jörðin gaf af sér 3Mós 26.4-5
14.9 Öldungar á strætum Sak 8.4
14.12 Undir vínvið eða fíkjutré 1Kon 5.5; Mík 4.4; Sak 3.10
14.13 Vald konunga brotið aftur 2Sam 22.28; Slm 18.28; Sír 10.14; Lúk 1.52
14.18 Eirtöflur 1Makk 8.22+
14.22 Númeníus og Antípater 1Makk 12.16+
14.26 Eirtöflur 1Makk 8.22+
14.40 Bræður sbr 1Makk 12.6+
14.41 Þar til sannur spámaður kemur fram 1Makk 4.46+
14.48 Eirtöflur 1Makk 8.22+

 

Fyrsta Makkabeabók 15

 

Antíokkus VII falast eftir stuðningi Símonar

1Antíokkus, sonur Demetríusar konungs, sendi bréf frá eyjunum í hafinu til Símonar, æðsta prests og þjóðhöfðingja Gyðinga, og þjóðarinnar allrar. 2Var bréfið á þessa leið:
„Antíokkus konungur sendir Símoni, æðsta presti og þjóðhöfðingja, og þjóð Gyðinga kveðjur. 3Nokkrir svikarar hafa sölsað undir sig völdin í ríki feðra vorra. Þar sem ég ætla mér að endurheimta völdin og koma skipan mála í sama horf og var hef ég dregið að mér mikinn herafla og látið smíða herskip. 4Ætla ég að stíga á land og hafa hendur í hári þeirra sem spillt hafa landi voru og eyðilagt margar borgir í ríki mínu. 5Hér með staðfesti ég þær skattaívilnanir sem fyrirrennarar mínir í hásæti hafa veitt þér og staðfesti að allt stendur óbreytt um aðrar ívilnanir þér veittar. 6Ég heimila þér að slá eigin mynt til að nota sem gjaldmiðil í landi þínu 7og lýsi Jerúsalem og helgidóminn skattfrjálsan. Öllum þeim vopnum, sem þú hefur látið gera, og virkjum, sem þú reistir og ræður yfir, mátt þú halda. 8Allt sem þú skuldar konungi og allt sem konungdæmið kann að krefja þig síðar um skal þér upp gefið frá og með þessum degi og til frambúðar. 9Er vér svo höfum náð völdum í ríki voru á ný skulum vér sæma þig og þjóð þína og helgidóm slíkri vegsemd að tign ykkar mun verða augljós um alla jörðina.“

Trýfoni velt úr sessi

10Árið eitt hundrað sjötíu og fjögur sté Antíokkus á land í landi feðra sinna. Gengu allar hersveitir honum á hönd svo að Trýfon varð fáliðaður. 11Antíokkus veitti honum eftirför og flýði hann til Dór sem er við ströndina. 12Sá hann líka að hann var heillum horfinn þar sem hersveitirnar höfðu yfirgefið hann. 13Antíokkus setti herbúðir við Dór. Hann hafði eitt hundrað og tuttugu þúsundir hermanna og átta þúsund riddara. 14Hann umkringdi borgina og skip gerðu árás sjávarmegin svo að þrengt var að henni frá sjó og landi og því var alls engum fært að komast inn eða út úr borginni.

Rómverjar lýsa yfir stuðningi við Gyðinga

15Númeníus og fylgdarmenn hans komu frá Róm með svohljóðandi bréf til hinna ýmsu konunga og landa:
16„Lúsíus, ræðismaður Rómverja, sendir Ptólemeusi konungi kveðju. 17Fulltrúar Gyðinga, vina okkar og bandamanna, vitjuðu okkar til að endurnýja forna vináttu og bandalag. Var þeim falið það af Símoni æðsta presti og þjóð Gyðinga. 18Þeir færðu okkur gullskjöld, þúsund mína virði. 19Við afréðum því að skrifa hinum ýmsu konungum og löndum og hvetja til þess að leitast verði við að Gyðingum sé ekki unnið tjón, hvorki á þá ráðist, borgir þeirra og land né þeim veitt vígsgengi sem á þá herja. 20Ákváðum við að þiggja skjöldinn af þeim. 21Hafi einhverjir afbrotamenn frá landi þeirra leitað hælis í landi ykkar hvetjum við ykkur til að framselja þá Símoni æðsta presti svo að hann geti refsað þeim samkvæmt lögmáli Gyðinga.“
22Hið sama skrifaði Lúsíus Demetríusi konungi og Attalusi, Aríarates og Arsakes 23og Sampsame og Spörtu og til hinna ýmsu landa: Delos, Myndus, Sýkíon, Karíu, Samos, Pamfylíu, Lýkíu, Halíkarnassus, Ródos, Faselis, Kos, Síde, Aradus, Gortýna, Knídus, Kýpur og Kýrene. 24Afrit af bréfunum var sent Símoni æðsta presti.

Antíokkus VII snýr baki við Símoni

25Antíokkus konungur settist öðru sinni um Dór. Sótti her hans sífellt fastar að borginni. Lét Antíokkus smíða umsátursvélar og lokaði öllum aðkomu- og útgönguleiðum fyrir Trýfoni. 26Símon sendi Antíokkusi tvö þúsund úrvalshermenn til hjálpar í stríðinu, silfur, gull og gnótt vopna. 27Þetta vildi Antíokkus ekki þiggja heldur brá öllu sem hann hafði samið um áður við Símon og varð fjandsamlegur honum. 28Sendi hann Atenóbíus, einn vina sinna, til að semja við Símon og skila þessu til hans:
„Þið hafið hertekið Joppe og Geser og virkið í Jerúsalem sem eru borgir í ríki voru. 29Þið hafið lagt héruð þeirra í auðn, bakað landinu mikinn skaða og sölsað undir ykkur margan staðinn í ríki voru. 30Skilið þegar aftur borgum þeim sem þið tókuð og gjaldið skatta af héruðunum sem þið lögðuð undir ykkur utan landamæra Júdeu. 31Að öðrum kosti skuluð þið greiða fimm hundruð talentur silfurs fyrir tjónið sem þið olluð og aðrar fimm hundruð í stað skattsins af borgunum. Ella komum vér og förum með her á hendur ykkur.“
32Þegar Atenóbíus, vinur konungs, kom til Jerúsalem og sá vegsemd Símonar, stórfenglegan glæsileik hirðar hans, borðbúnað af gulli og silfri og fjölmennt þjónaliðið varð hann agndofa. Þegar hann síðan flutti Símoni boð konungs 33svaraði hann:
„Við höfum hvorki tekið land, sem öðrum tilheyrir, né slegið eign okkar á neitt sem annarra er. Við tókum einungis arf feðra okkar sem óvinir okkar höfðu áður sölsað undir sig með rangindum.
34Nú, þegar færi er til, ætlum við að halda arfi feðra okkar. 35Hvað Joppe og Geser áhrærir, sem þú gerir kröfu til, þá hafa íbúar þeirra borga valdið þjóð okkar og landi stórtjóni. Fyrir þær skulum við þó greiða eitt hundrað talentur.“
Atenóbíus svaraði honum engu orði 36heldur sneri sárreiður aftur til konungs og greindi honum frá því sem Símon hafði sagt. Hann lýsti vegsemd Símonar fyrir honum og öllu sem borið hafði fyrir augu hans og fylltist konungur heift.

Herför Kendebeusar

37Trýfoni tókst að komast á skip og flýja til Ortosíu. 38Konungur setti þá Kendebeus yfir herinn við strandlengjuna og fékk honum bæði fótgöngulið og riddara. 39Gaf konungur honum fyrirmæli um að koma her sínum fyrir við landamæri Júdeu, víggirða Kedron, styrkja hlið borgarinnar og herja á þjóðina. Sjálfur veitti konungur Trýfoni eftirför. 40Þegar Kendebeus kom til Jabne tók hann strax að hrella þjóðina. Fór hann árásarferðir inn í Júdeu og tók fanga og myrti. 41Hann víggirti Kedron og kom þar fyrir riddurum og öðru liði svo að þeir gætu haldið þaðan til árása með fram vegum Júdeu eins og konungur hafði boðið.

15.5 Allt stendur óbreytt sbr 1Makk 13.38
15.8 Frelsi Jerúsalem og allt upp gefið 1Makk 10.28-32; 11.35
15.15 Númínus 1Makk 12.16+

 

Fyrsta Makkabeabók 16

 

Jóhannes Símonarson sigrar Kendebeus

1Jóhannes hélt upp frá Geser til Símonar föður síns til að segja honum frá aðgerðum Kendebeusar. 2Símon kallaði þá til sín elstu syni sína tvo, þá Júdas og Jóhannes, og sagði við þá:
„Við bræður mínir og fjölskylda föður míns höfum háð styrjaldir við óvini Ísraels frá æsku og allt til þessa dags. Við bárum tíðum gæfu til að bjarga Ísrael. 3Nú er ég hniginn að aldri en þið orðnir fulltíða fyrir Guðs náð. Komið nú í minn stað og bróður míns, farið og berjist fyrir þjóð okkar og megi hjálpin af himni vera með ykkur.“
4Síðan valdi hann tuttugu þúsund hermenn meðal landa sinna og auk þess riddara. Þeir héldu gegn Kendebeusi og höfðu náttstað í Módein. 5Árla morguns tóku þeir sig upp og héldu út á sléttuna. Þar kom í móti þeim mikill her fótgönguliða og riddara en árfarvegur skildi herina að. 6Jóhannes og lið hans komu sér fyrir gegnt óvinunum. Þegar hann sá lið sitt hika við að halda yfir ána fór hann fyrstur og er menn hans sáu það fylgdu þeir fordæmi hans. 7Jóhannes skipti liði sínu í sveitir og kom riddurum fyrir meðal fótgönguliðanna. Riddaralið andstæðinganna var afar mikið. 8Þegar þeir þeyttu herlúðrana hrökklaðist Kendebeus og her hans á flótta og féllu margir manna hans helsárir. Þeir sem af komust flýðu í virkið. 9Júdas, bróðir Jóhannesar, hlaut sár en Jóhannes rak flóttann alla leið til Kedron sem Kendebeus hafði víggirt. 10Nokkrir flýðu í turnana á Asdódökrum en Jóhannes brenndi borgina. Féllu um tvö þúsund manns af óvinunum en Jóhannes sneri heill á húfi aftur til Júdeu.

Símon myrtur og tveir sona hans

11Ptólemeus Abúbsson hafði verið settur yfir herinn á völlum Jeríkó. Hann var auðugur mjög að gulli og silfri 12enda tengdasonur æðsta prestsins. 13Það steig honum til höfuðs og vildi hann leggja landið undir sig. Bruggaði hann svik við Símon og syni hans og ætlaði að ryðja þeim úr vegi.
14Símon fór gjarnan um borgir landsins til að gæta að hvers þær þyrftu með. Kom hann ofan til Jeríkó með Mattatíasi og Júdasi sonum sínum árið eitt hundrað sjötíu og sjö
[1]

Þ.e. miður september 140 f.Kr.

 í ellefta mánuði. Er það mánuðurinn sabbat. 15Sonur Abúbs tók á móti þeim í litlum kastala sem hann hafði reist og nefndi Dok. Hann hugsaði flátt, sló upp mikilli veislu fyrir gestina en kom mönnum fyrir á laun í húsinu. 16Þegar Símon og synir hans gerðust ölvaðir fóru Ptólemeus og menn hans út og sóttu vopn sín. Réðust þeir síðan á Símon í veislusalnum, drápu hann, syni hans báða og nokkra þjóna hans. 17Þannig endurgalt Ptólemeus gott með illu og drýgði hið mesta ódæði.
18Hann ritaði síðan konungi bréf og greindi honum frá þessu og bað hann að senda sér herlið til hjálpar og afhenda sér landið og borgirnar. 19Nokkra manna sinna sendi hann til Geser til að ryðja Jóhannesi úr vegi og skrifaði hersveitaforingjum að koma til sín og þiggja silfur, gull og gjafir. 20Enn aðra sendi hann til að hertaka Jerúsalem og musterisfjallið.
21En einhver hraðaði sér á undan til Geser til að tilkynna Jóhannesi að faðir hans og bræður væru vegnir og að sendimenn væru á leiðinni til að deyða hann. 22Þegar Jóhannes heyrði tíðindin komst hann í mikla geðshræringu og er mennirnir komu til að lífláta hann lét hann taka þá og deyða enda vissi hann að þeir sátu um líf hans.
23Það sem ósagt er af Jóhannesi frá því hann varð æðsti prestur á eftir föður sínum, styrjöldum hans og drýgðum hetjudáðum og af múrunum sem hann reisti og öllu öðru sem hann kom í verk má finna skráð í annál æðstaprestdóms hans.

16.5 Árla morguns Jós 3.1; 6.12; 8.10; sbr 1Sam 15.12; 29.10
16.6 Fór fyrstur yfir sbr 1Makk 5.40
16.23 Það sem ósagt er af Jóhannesi ... 1Makk 9.22+

 

Makkabeabækurnar eru fengnar
af vefnum www.biblian.is

 

 

Copyright - www.torah.is

torah@internet.is