4. kafli

Hebreskur Yeshua eða grískur Jesús?

Var Yeshua karaíti?

Þegar ég sat og talaði við kristna vin minn sem hélt Torah, fór ég að átta mig á því að boðskapur Yeshua bar vott af því að vera frá karaíta. Hann talaði gegn mannasetningum rabbína og benti fólki aftur til Torah, sem er helsti boðskapur karaíta-gyðingdómsins. Þegar vinur minn hélt áfram að lesa fyrir mig úr 15. kafla Matteusarguðspjalls virtust grunsemdir mínar varðandi Yeshua staðfestast. Eftir að hafa gagnrýnt faríseana fyrir að gera Torah að engu með mannasetningum sínum, vitnaði Yeshua í Jesaja 29.13:

-7- Hræsnarar, sannspár var Jesaja um yður, er hann segir: -8- Lýður þessi heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér. -9- Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar. (Matt. 15.7-9)

Setningin „er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar“ er umorðun á Jesaja 29.13. Jesaja talar um mitzvat anashim melumada „manna boðorð, lærð utan bókar,“23 sem eru mannasetningar sem hafa orðið að venju með því að gera þær aftur og aftur.

23 Aðrir þýða Jesaja 29.13 sem „kennd af skynjun manna“ (KJV); „kennd af boðum manna“(NKJV);  „boðorð manna sem lærast smátt og smátt (JPS, RSV); „lærð hefð (NASB); “ „reglur kenndar af mönnum“ (NIV).

Þegar ég las um að Yeshua hefði gagnrýnt mannasetningar rabbínanna og byggt orð sín á Jesaja 29.13, var ég bæði hrifinn og hissa. Á miðöldum hafði Jesaja 29.13 orðið heróp karaíta gegn rabbínískum breytingum og þessi setning birtist óteljandi sinnum í ritum karaíta frá miðöldum.24

24 Til dæmis ritaði 9. aldar karaítinn Daniel al-Kumisi í bréfi sínu til hinna dreifðu (Epistle to the Dispersion - Nemoy ed. bls. 88): „Hverfið frá lærðum mannasetningum sem eru ekki í Torah; meðtakið ekki neitt frá neinum nema það eitt sem er ritað í Torah Drottins.“ Biblíulega setningin „lærðar mannasetningar“ mitzvat anashim melumada birtist tólf sinnum í þessu tólf blaðsíðna bréfi Kumisi.

En hér var Yeshua að segja það sama, en hundruðum ára fyrr. Mér virtist sem hann væri fyrstu aldar karaíti.

 

Hverjir eru Karaítar?

Ég spurði vin minn hvað honum fyndist um þetta. Í fyrstu var hann nokkuð móðgaður yfir þessu. Hann vissi að ég var karaíti en hélt að karaítismi væri „sértrúarflokkur“ sem hefði verið fundinn upp á miðöldum. Hvernig gæti Yeshua þá verið karaíti? Vinur minn hafði jafnvel lesið sögur rabbína um Anan Ben David, sem rabbínar sögðu hafa stofnað karaítismann vegna þess að rabbínarnir höfðu hafnað honum. Ég gat ekki annað en hlegið þegar ég heyrði þetta. Rabbínarnir segja þessa sögu um alla óvini sína. Samkvæmt Talmúd stofnaði Yeshua kristindóminn vegna þess að kennarinn hans, rabbíni Joshua ben Perahjah hafnaði honum.25

25 Sagan um Yeshua í Talmúd birtist í eftirfarandi kafla:

Hvað um R. Joshua b. Perahjah?... Einn daginn var hann (R. Joshua) að fara með Shema, þegar Jesús kom fram fyrir hann. Hann ætlaði að taka á móti honum og gaf honum bendingu um það en hann (Jesús) hélt að hann væri að reka hann frá sér, fór, setti upp múrstein og tilbað hann. „Iðrastu,“ sagði hann (R. Joshua) við hann. Hann svaraði: „Þetta hef ég lært af þér: Þeim sem syndgar og verður til þess að aðrir syndga er ekki veitt leið til iðrunar.“ Og Meistari hefur sagt: „Nasareinn Jesús stundaði galdra og afvegaleiddi Ísrael.“ (Hið babýloníska Talmúd, Sanhedrin 107b (óritskoðuð útgáfa) [Soncino þýðingin])

Samkvæmt annarri rabbínískri goðsögn stofnaði Múhameð íslam vegna þess að honum var hafnað af Gyðingunum í Mekka. Ég útskýrði þetta fyrir vini mínum og hann viðurkenndi að það virtist ekki vera mjög trúlegt að einhver myndi kenna fólki að hlýða Torah, bara til að hefna sín á rabbínunum. Vinur minn vildi vita meira. Hver var þessi Anan náungi? Ég útskýrði að Anan hefði ekki einu sinni verið karaíti. Í raun fyrirlitu rabbínar hans tíma Anan, því þótt hann hafnaði valdi rabbína, hélt hann sig samt við órökréttar aðferðir rabbínanna við túlkanir. Þess vegna höfnuðu karaítar fylgjendum hans og kölluðu þá „ananíta.“26

 

26 Sjá Kirkisani, bls. 103, 146-147. Viðhorf karaíta gagnvart Anan má draga saman í þeirri staðreynd að hans eigin fylgjendur kölluðu hann rosh hamaskilim „Höfuð hinna upplýstu“ á meðan karaítar kölluðu hann í háðung rosh haksilim „Höfuð fávitanna“ (Kirkisani bls. 94-95).

Nú vissi vinur minn ekki sitt rjúkandi ráð. Ef karaítar voru ekki fundnir upp af Anan, hvaðan komu þeir þá? Ég minnti hann á það sem ég hafði útskýrt áður varðandi Talmúd sem var skrifað 500 e.Kr. í Babýlon. Þegar Talmúd hafði verið skrifað niður var það ekki lengur leyndardómur nokkurra rabbína. Þar af leiðandi tók talmúdisminn að dreifast um hinn gyðinglega heim. Þegar fleiri og fleiri Gyðingar tóku að skilgreina sig sem talmúd-sinna, mótmæltu aðrir Gyðingar og sögðu að þeirra forfeður hefðu ekkert vitað um munnlega lögmálið en aðeins hlýtt hebresku ritningunum (=„Gamla testamentinu“). 27

27 Anan var nokkurs konar Martin Luther King síns tíma. Skömmu eftir að Talmúd tók að dreifast til nýrra staða, þar sem það hafði ekki verið þekkt áður, gekk íslamska veldið fram í því að leiða sem flesta Gyðinga undir íslamska stjórn. Þar sem talmúdisminn mætti aukinni mótsöðu, hófu rabbínarnir að nota íslamska sverðið til að þvinga nýrri kenningu sinni á aðra. Á mörgum svæðum leiddi þetta til mikilla ofsókna og ofbeldis. Hið mikla afrek Anans var að hann notaði (eins og Martin Luther King) ekki ofbeldisfulla mótstöðu til að sannfæra yfirvöld múslima um að leyfa þeim sem ekki voru fylgjandi Talmúd að halda áfram að iðka sína gömlu hlýðni við Torah.

Á þessum tímum voru hebresku ritningarnar kallaðar „Kara“. 28

28 Nafnið Kara fyrir hebresku ritningarnar hefur lifað í hebresku nútímans sem Mikra. Algengara er að talað sé um „Tanach“ sem er upphafsstafaheiti sem hefur aðeins verið í notkun síðustu 500 ár.

Þeir Gyðingar sem kröfðust tryggð við hebresku ritningarnar urðu þekktir sem „karaítar“. 29

29 Sjá Ben Yehudah, 12. bindi, bls. 6138-6139 nt.3.

Ég útskýrði fyrir vini mínum að fyrr á tímum hefði öllum Ísraelsmönnum verið ætlað að fylgja Ritningunni þannig að það var engin þörf fyrir einkenningu ákveðinna hópa sem karaíta eða „ritningarsinna.“ Allir voru ritningarsinnar, að minnsta kosti allir þeir sem gátu hamið sig nógu lengi til að beygja sig ekki fyrir Baal eða færa ´Ashtoret (Ístar) fórnir. Í þessum skilningi var Móse karaíti, þ.e. ritningarsinni, frá þeirri stundu sem Torah var gefið. Það átti einnig við um Jesaja og Jeremía og alla spámenn Ísraels. Þeir voru allir karaítar vegna þess að þeir trúðu allir sannleiksgildi hebresku ritninganna og höfnuðu mannasetningum og fölskum opinberunum (5. Mósebók 4.2; Jesaja 29.13; Jeremía 16.19). Eftir að ég útskýrði þetta, tók vinur minn að skilja hvað ég átti við þegar ég sagði að Yeshua hljómaði eins og fyrstu aldar karaíti. Eins og Jesaja og Jeremía, kenndi Yeshua fólki að snúa aftur til Torah og sagði því á sama tíma að snúa frá mannasetningum. Þessi hlið kennslu hans var sem boðskapur karaíta, jafnel þótt enginn notaði þetta orð ennþá á þeim tíma.

            Vinur minn spurði mig hvort ég gæti látið mér detta í hug annað dæmi í sögunni um hreyfingu sem hefði verið til löngu áður en henni væri gefið nafn. Eðlilega kom mér til hugar „Misnagdim,“ hin ríkjandi hreyfing í rabbínískum gyðingdómi á 18. öld í Litháen og þar sem mínir eigin ættfeður höfðu verið leiðtogar. Á þeim tímum skiptust rabbínarnir í tvær fylkingar, Hasidim („réttlátir“) sem fylgdu því nýja formi rabbínisma sem Ba´al Shem-Tov leiddi fram eða Misnagdim („andstæðingar“) sem stóðu gegn nýjum háttum Hasidim. Hasidim veittu einum rabbína óskorað vald og kölluðu hann „Rebbe“ og eyddu mestum tíma sínum í svokallaða dulspeki (mystical pursuits).30

30 Best þekkta dæmið um Hasidim má ef til vill sjá hjá Lubavitch sem fylgja Schneerson rabbína.

Aftur á móti veitti Misnagdim mismunandi vald til mismunandi rabbína, eftir því hvar þekking þeirra lá í Talmúd og eyddu þeir mestum tíma sínum í að rannsaka Talmúd og aðra lagalega texta. Hvaða rabbíni sem var gat náð hárri stöðu meðal Misnagdim miðað við fræðilegan árangur hans á meðan „Rebbe“ Hasidic fylkingarinnar þurfti annað hvort að framkvæma kraftaverk eða erfa stöðuna frá föður sínum. Enn þann dag í dag státa Gyðingar af litháenskum uppruna sig af því að vera Misnagdim („andstæðingar“) sem verji hinn upprunalega rabbíníska gyðingdóm. Að þessu leyti lýstu Misnagdim því yfir að Akiva rabbíni hafi verið Misnaged (eintala af Misnagdim) jafnvel þótt hann hafi verið uppi 1600 árum áður en Misnagdim hreyfingin fékk nafn sitt. En það leikur enginn vafi á því að Misnagdim menn hafa rétt fyrir sér! Akiva rabbíni - sem var uppi 1600 árum fyrir Ba´al Shem-Tov - var ekki Hasid; hann hafði enga trú á rabbínískum leiðtogum sem gerðu kraftaverk (mundu kraftaverk Eliezer rabbína!). Á því leikur enginn vafi að Misnagdim („andstæðingar“) varðveita fyrra form rabbínisma sem var til öldum áður en þeir fengu nafnið Misnagdim, á meðan Hasidim („réttlátir“) voru þeir sem bjuggu til algjörlega nýja trúarkenningu.

 

ð
Áfram í 5. kafla...

ï
Til baka í 3. kafla...

 

 

Copyright - www.torah.is

torah@internet.is